Morgunblaðið - 31.12.1994, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ
LAUGARDAGUR 31. DESEMBER 1994 B 23
ingu, sem unnið hefur verið að árum
saman í þeim tilgangi að ná betri
nýtingu fjárfestinga allt árið og
minnka álagið á náttúru landsins.
Gjaldeyristekjur þjóðarinnar af er-
lendum gestum verða á milli 16 og
17 milljarðar eða allt að 4 milljörð-
um meira en var fyrir 2 árum, sem
er yfir 30% aukning. Samkvæmt
upplýsingum, sem nú liggja fyrir
frá Hagstofunni um gistinætur
ferðamanna á landinu fyrstu 8
mánuðina, hefur gistinóttum bæði
innlendra og erlendra ferðamanna
fjölgað verulega. Ástæður þessara
auknu umsvifa í ferðaþjónustu hér
á landi á undanförnum árum eru
auðvitað margar og of langt mál
að rekja þær allar hér. Það er að
skila sér árangur af starfi einstakl-
inga og fyrirtækja, sem hafa unnið
af miklum dugnaði að uppbygg-
ingu, markaðssétningu og móttöku
ferðamanna.
Þá var á árinu auk hefðbundinna
verkefna ráðist í tvö ný kynningar-
verkefni að frumkvæði samgöngu-
ráðherra; 100 milljóna króna aug-
lýsingaátak á erlendum mörkuðum,
þar sem ríkið lagði fram 40 milljón-
ir, Framleiðnisjóður landbúnaðarins
10 milljónir og Flugleiðir 50 milljón-
ir. Og innlent átak undir heitinu
„ísland sækjum það heim“, sem var
fjármagnað af hálfu ýmissa hags-
munaaðila, þeirra stærstir voru 01-
íufélagið hf. og Mjólkursamsalan.
Enn vantar nákvæmar upplýsingar
um gistinætur Islendinga til að sjá
hve mikil aukning hefur orðið í
ferðalögum þeirra, en um aukningu
er að ræða.
Faglegur undirbúningur
fjárfestinga
Á þeim tölum, sem hér hafa ver-
ið nefndar sést að vægi atvinnu-
greinarinnar í þjóðarbúskapnum er
stöðugt að aukast. Þessar tölur
segja aftur á móti ekkert um af-
komu greinarinnar.
Ég hef áður á þessu ári látið í
ljós áhyggjur vegna afkomu í
nokkrum þáttum atvinnugreinar-
innar þrátt fyrir aukna heildarveltu.
Enn skal hér varað við ógrunduðum
íjárfestingum, sem á stundum virð-
ast byggðar á allt of mikill bjart-
sýni, þar sem ekki er tekið tillit til
reynslu, né byggt á niðurstöðum
kannana eða rannsókna. Fagleg
vinnubrögð við undirbúning fjár-
festinga þarf að táka upp í vaxandi
mæli til að koma í veg fyrir óarð-
bærar fjárfestingar og ekki síður
til að fjárfest sé í þeim þáttum, sem
líklegastir eru til að skila arðsemi,
ekki eingöngu fyrir viðkomandi
fjárfesta heldur atvinnugreinina
alla og þjóðarbúið í heild.
Ferðaþjónusta er ekki einyrkjaat-
vinnugrein. Allar fjárfestingar og
aðgerðir hafa áhrif á fjöldann. Fjár-
festing sem dregur ferðafólk til ein-
hvers staðar hefur áhrif á afkomu
flutningsaðila, eldsneytissala, versl-
un á staðnum, aðsókn að afþreyingu
t.d. sundlaug á svæðinu, auk gist-
ingar o.fl., o.fl.
Þessu samspili, hve einstakir
þættir eru háðir öðrum í ferðaþjón-
ustu, má aldrei gleyma. Því er
svæðasamvinna, samvinna innan
hvers landshluta, mikilvæg í upp-
byggingu, markaðssetningu og
móttöku. Það verður að eiga sér
stað heilstæð vöruþróun innan
hvers svæðis.
Áframhaldandi stöðugleiki
mikilvægur
Ferðaþjónustuaðilar höfðu veru-
legar áhyggjur í upphafi árs af
áhrifum, álagningar virðisauka-
skatts á gistingu. Það varð niður-
staða margra eigenda gististaða að
ekki væru fyrir hendi markaðslegar
forsendur til að hækka hér gistiverð
til samræmis við álagningu virðis-
aukaskatts. Því hefur í reynd þessi
álagning virðisaukaskatts almennt
ekki komið fram í verðlagi og ekki
reynt á heildaráhrif hennar. Það er
of snemmt að sjá hver áhrifin verða
á afkomu einstakra gististaða, en
ljóst er að þessi ákvörðun, sem
leiddi til þess að verðlag í ferðaþjón-
ustu hækkaði almennt ekki heldur
lækkaði frekar gerði okkur sam-
keppnishæfari og á sinn þátt í aukn-
um umsvifum atvinnugreinarinnar
á árinu.
Almennt bætt rekstrarumhverfi
í íslenskum atvinnurekstri hefur
auðvitað skilað sér til fyrirtækja í
ferðaþjónustu. Það mun koma í ljós
á næstu vikum hver afkoman verð-
ur og hve vel fyrirtækin eru í stakk
búin til að takast á við aukna sam-
keppni, þar sem verð fer lækkandi
á alþjóðamarkaði. Stöðugleiki kem-
ur þessari atvinnugrein betur en
flestum öðrum.
Semja þarf um verð og selja ferð-
ir og gistingu allt að 3-4 árum fram
í tímann. A þetta hefur atvinnu-
greinin oft bent, þegar skyndilega
hafa verið teknar ákvarðanir um
hækkun flugvallargjalds, vopnaleit-
argjalds, vegaskatts og annarra
skatta á ferðaþjónustu með mjög
stuttum fyrirvara, svo ekki sé talað
um nýja skatta eins og virðisauka-
skatt á gistingu.
Það er von þeirra, sem starfa í
ferðaþjónustu, að sá stöðugleiki,
sem hér hefur verið undanfarið
verði tryggður til frambúðar. Hann
gerir allar áætlanir og vinnubrögð
markvissari. Ferðaþjónusta er lík-
lega mesta samkeppnisatvinnu-
grein heims.
Stöðugleiki og sambærilegt
rekstrarumhverfi og samkeppnis-
þjóðirnar bjóða ferðaþjónustuaðil-
um er forsenda þess að við getum
verið samkeppnishæf og keppt á
þessum alheimsmarkaði.
Nauðsynlegt samstarf
og samvinna
Hér að framan ræddi ég um
mikilvægi samstarfs og samvinnu
í ferðaþjónustu. Það er mín skoðun
að þau samstarfsverkefni, sem ráð-
ist hefur verið í síðastliðinn áratug,
eigi mikinn þátt í þeirri gífurlegu
aukningu umsvifa sem orðið hefur
á þessu tímabili. Stærstu samstarfs-
verkefnin eru: Landkynningar- og
upplýsingaskrifstofa í Þýskalandi
1985, Upplýsingamiðstöð ferða-
mála 1987, skrifstofa i Japan 1991
og Ráðstefnuskrifstofa íslands
1992. Auk þessara samvinnuverk-
efna hefur verið ráðist í ýmis
smærri.
Á árinu 1994 var varið til fram-
angreindra verkefna og annarra
sameiginlegra verkefna í markaðs-
og upplýsingamálum um 80 milljón-
um króna, sem skiptist nokkuð jafnt
milli ríkisins annars vegar og hags-
munaaðila, fyrirtækja og sveitarfé-
laga hins vegar.
Ég hef ástæðu til að ætla að
áhugi og vilji sé til að stofna til
fleiri slíkra samstarfsverkefna at-
vinnugreininni til hagsbóta. Þar
geri ég ráð fyrir samstarfsverkefni
á sviði rannsókna og kannana,
hvoit sem slíkt samstarf leiði til
þess að hér verði sett á stofn Rann-
sóknarstofnun ferðaþjónustu eða
annars konar samstarf um þennan
mikilvæga grunnþátt. Hér er mikið
verk óunnið og atvinnugreininni líf-
snauðsyn að ná saman um verkefn-
ið.
Einnig vil ég nefna nauðsynlegt
samstarfsverkefni um gæðamál at-
vinnugreinarinnar í sem víðustum
skilningi. Tryggja verður að sú
vara, sem boðin er á innlendum og
erlendum mörkuðum, sé gegnheil
og í samræmi við verð og vænting-
ar ferðamannsins. Einnig þarf að
vinna sameiginlega að menntunar-
málum atvinnugreinarinnar.
Þá geri ég ráð fyrir að sölumál
atvinnugreinarinnar á erlendum
mörkuðum muni í vaxandi mæli
færast í hendur okkar Islendinga
sjálfra. Mörg fleiri verkefni bíða
okkar á næstu árum til að tryggja
samkeppnishæfni íslenskrar ferða-
þjónustu. Tryggja að við náum okk-
ar hlut af þeim mikla vexti sem
verður í þessari stærstu atvinnu-
grein heims á næstu árum.
Þá er ekki síður mikilvæg sam-
vinna starfsfólks í ferðaþjónustu.
Hún hefur aukist mikið að undan-
förnu og á árinu voru stofnuð þrenn
samtök starfsfólks í greininni; Sam-
tök ferðamálafulltrúa, Félag ferða-
málafræðinga og Félag háskóla-
menntaðra ferðamálafræðinga.
Öllum þessum samtökum svo og
öðrum í ferðaþjónustu óska ég alls
hins besta og vænti mikils af góðu
samstarfi. Miðað við árangur okkar
undanfarið og almennar horfur í
ferðaþjónustu má gera ráð fyrir að
íslensk ferðaþjónusta verði að búa
sig undir að taka á móti rúmlega
einni milljón erlendra ferðamanna
fram að aldamótum. Það er von
þeirra, sem starfa við atvinnugrein-
ina, að hún muni þá skila um 20%
af heildargjaldeyristekjum þjóðar-
innar.
Enginn árangur er sjálfgefinn og
til að ná þessum markmiðum þarf
aukna samvinnu um mörg mikil-
vægustu málefni ferðaþjónustu.
Samvinnu innan atvinnugreinarinn-
ar svo og samvinnu hennar og
stjórnvalda.
Um leið og við aukum gjaldeyris-
tekjur og veltu, verðum við að
tryggja nauðsynlega arðsemi til að
hægt sé byggja upp og endurnýja
fjárfestingar. Landið sjálft er okkar
auðlind.
Starfsfólk í ferðaþjónustu er sér
mjög vel meðvitað um mikilvægi
þess að ofbjóða ekki auðlindinni og
hefur stuðlað að aukinni dreifingu
„bættri umgengni ferðafólks og
úrbótum á ferðamannastöðum.
Landið verður að fá til baka hluta
þeirra tekna, sem það gefur okkur.
Skapa þarf jákvætt viðhorf
ferðamanna til landsins og jákvætt
viðhorf fólks til ferðaþjónustu.
Ferðaþjónusta verður ekki stunduð
á íslandi til frambúðar nema í sátt
við landið og þjóðina.
Ég þakka öllum innan ferðaþjón-
ustunnar, opinberum aðilum og öðr-
um, sem með miklum dugnaði hafa
enn aukið umsvif og mikilvægi at-
vinnugreinarinnar, einstaklega
ánægjulegt samstarf.
Gleðilegt og gæfuríkt ár.
Magnús Gunnarsson
formaður Vinnuveit-
endasambands íslands
Megum
ekki hrekj-
ast af réttri
leið
VIÐ ÞESSI áramót er sannan-
lega unnt að segja að íslendingar
standi á tímamótum. Framundan
eru átök um stefnumótun, — hvort
miða beri að fjölgun starfa, aukinni
verðmætasköpun og batnandi kjör-
um á grundvelli efnahagsstöðug-
leika, eða launabreytingum, langt
umfram það sem gerist hjá keppi-
nautum okkar erlendis, með gengis-
fellingum, verðbólgu, samdrætti í
framleiðslu og vaxandi atvinnuleysi
sem óhjákvæmilega afleiðingu. Um
þetta kunna að verða átök, því
Vinnuveitendasambandið mun ekki
baráttulaust láta hrekjast af þeirri
leið sem mörkuð hefur verið i sam-
skiptum atvinnurekenda og laun-
þega síðustu árin og er nú sannan-
lega farin að skila marktækum
árangri.
Eftir langvinnt erfiðleikaskeið er
loksins unnt að staðhæfa að sam-
dráttur í efnahagslífmu hafi stöðv-
ast og hægfara vöxtur tekið við.
Árangurinn af sameiginlegri
stefnumótun aðila vinnumarkaðar-
ins og stjórnvalda síðustu 5 árin
er loks áþreifanlegur og birtist ekki
í því einu að ástandið sé skárra en
annars hefði orðið. Markmiðið um
að efla samkeppnishæfni íslenskra
atvinnuvega, treysta forsendur
vinnunnar og skapa vaxtarskilyrði
til að tryggja kjör og velferð, hefur
náðst. Vöxturinn er hafinn en hann
er hægur og veikburða og má ekki
við áföllum.
Frá október í fyrra til sama tíma
í ár er talið að a.m.k. 1.500 ný störf
hafi orðið til umfram þau sem lögð-
ust af, en þetta svarar nokkurn
veginn til árlegrar fjölgunar á
vinnumarkaði, Þessi fjölgun starfa
dugði því ekki til að minnka at-
vinnuleysið, en það er þó hætt að
aukast þrátt fyrir mikla fjölgun á
vinnumarkaði. Á næsta ári eru horf-
ur á að vöxtur í atvinnulífinu verði
heldur meiri þannig að nokkuð geti
dregið úr atvinnuleysi. Þetta er þó
háð því, að ekkert tálmi vöxtinn sem
við þykjumst sjá framundan.
Heildarlaunagreiðslur á hvem
vinnandi mann eru taldar hafa auk-
ist um 1,5-2,0%, m.a. vegna meiri
vinnu, hækkandi aflahlutar sjó-
manna og almennra launabreytinga
skv. samningum og vegna einstakl-
ingsbundinna aðstæðna. Á sama
tímabili hefur framfærslukostnaður
verið óbreyttur frá því sem var í
október í íyrra, eða um 15 mánaða
skeið. Kaupmáttur launatekna hef-
ur því aukist á sama tíma og það
þótt ekki hafa orðið almennar
breytingar á kauptöxtum kjara-
samninga.
Reynslan sýnir að takist að halda
launabreytingum innan þeirra
marka, að fyrirtæki geti mætt
auknum kostnaði með umbótum og
hagræðingu, skili það bestri kaup-
máttarþróun. Lág verðbólga agar
fyrirtækin og knýr á um aðgerðir
til að draga úr framleiðslukostnaði
fremur en að hækka verð. Hækki
kostnaður verulega umfram þessi
mörk geta hins vegar allir treyst
því að keppinautarnir hljóti líka að
hækka verð og þá er mótstaðan
gegn verðhækkunum farin. Lítilli
verðbólgu fylgir næmt verðskyn,
hörð samkeppni og öruggari kaup-
máttarþróun. Um þetta ber reynsla
síðustu missera glöggt vitni, svo
miklu varðar að tryggja að verð-
bólga hér á landi verði áfram með
því minnsta sem gerist í okkar
heimshluta.
Aðstæður nú svipar um margt
til þess sem var fyrir 10 árum. Þá
hafði þjóðin þurft að fella neyslu
sína að raunverulegum tekjum eftir
að verðbólga komst yfir 130% vorið
1983. Milli samningsaðila á al-
mennum vinnumarkaði voru hafnar
viðræður sem miðuðu að samning-
um um hóflegar launabreytingar
samhliða viðræðum við stjórnvöld
um lækkun skatta og ríkisútgjalda.
Þessi tilraun var brotin á bak aftur
í löngu verkfalli opinberra starfs-
manna, sem knúðu fram nær 25%
launahækkun. Annað hlaut þá að
fylgja í kjölfarið og voru hliðstæðir
samningar gerðir á öllum vinnu-
markaðinum. Afleiðingin varð 12%
gengisfelling beint í kjölfar samn-
inganna og verðlag hækkaði um
36% næstu 12 mánuðina á eftir.
Allir töpuðu og launafólk þó mestu.
Ýmis samtök opinberra starfs-
manna hafa nú kynnt hliðstæðar
kröfur og óþolinmæði fer vaxandi
í samfélaginu. Með réttu er bent á
að laun séu víða hærri en hér á
landi. Það er þó ekki vegna þess
að hlutur fyrirtækjanna sé stærri,
því afkoma í atvinnurekstri sýnist
vera einna lökust hér á landi af
öllum ríkjum OECD. Eiginfjárstað-
an er þar af leiðandi veik og því
lítil föng til rannsókna, þróunar-
starfa og markaðsstarfa svo og
nýsköpunar. Aðstæður til atvinnu-
rekstrar hafa batnað mikið síðustu
misserin og þess sér víða stað m.a.
í fjölgun starfa. En fyrirtækin verða
að fá svigrúm til að nýta þessi
færi til að sækja fram og skapa
verðmæti. Aðeins þannig er unnt
að bæta kjörin um meira en fáeinna
vikna skeið.
Ef aftur verður horfið á vit fortíð-
ar, með verkföllum og öðrum þving-
unum til að knýja fram hækkun
launa umfram það sem gerist hjá
nálægum þjóðum, er allt uppbygg-
ingarstarf liðinna ára unnið fyrir
gýg. Vonir um blómlegan orkuiðnað
færi fyrir lítið um sjnn, því vinnu-
deilur og þó sérstaklega sveiflur í
starfsskilyrðum og kostnaði er er-
lendum aðilum viðvörun um ótryggt
umhverfi.
Gengi krónunnar ræðst frá ára-
mótum af markaðsaðstæðum, en
ekki ákvörðunum ríkisstjórnar eða
Seðlabanka, þegar öllum verður
fijálst að kaupa og selja gjaldeyri
og flytja hann að og frá landinu
að eigin vild. Komi upp ótti um
verkföll og launahækkanir sem
skerða samkeppnisstöðu fyrirtækj-
anna er við því búið að margir flytji
fé úr landi til að forðast yfirvofandi
verðbólgu. Verði fjárflótti verulegur
getur ekkert stöðvað gengisfellingu
nema ef vera skyldi veruleg hækkun
vaxta. Vaxtahækkun myndi skaða
bæði heimili og fyrirtæki. Óttinn
við átök og verðbólgu lamar fram-
kvæmdaþor, hamlar vexti og ýtir
undir verðbólguvæntingar og spá-
kaupmennsku gegn krónunni.
Þessar aðstæður kalla ^á forystu
samningsaðila á vinnumarkaði, því
engir eiga meira undir því að
tryggja forsendur hagvaxtar, fjölg-
un starfa og batnandi kjör en ein-
mitt umbjóðendur þeirra fyrirtækin
og starfsmenn þeirra. Það er þeirra
hlutverk að móta stefnuna, því þeir
einir geta haft nægan skilning á
því hvað í húfi er, sem eiga atvinnu
sína og afkomu undir því, að fyrir-
tækið sé samkeppnisfært í verði og
gæðum við keppinauta sína, jafnt
á heimamarkaði sem erlendis.
Stefnan í kjara- og efnahagsmálum
hlýtur því að markast af þörfum
og getu samkeppnisgreinanna en
ekki möguleikum hins opinbera til
aukinnar skattheimtu til að standa
straum af hugsanlegum launa-
hækkunum opinberra starfsmanna.
Við sem höfum reynt áhrif stöð-
ugleikans á rekstur og möguleika
fyrirtækjanna til að vinna eftir
áætlunum, sækja fram á nýjum
sviðum og skapa verðmæti og störf,
— við vitum að ný kollsteypa, á við
það sem knúin var fram með verk-
falli opinberra starfsmanna haustið
1984, mun að líkindum rústa allt
það sem byggt hefur verið upp síð-
ustu árin. Við fengjum hærri kaup-
tölur en minni kaupmátt með geng-
isfellingum, verðbólgu, stöðnun og
stórfellt atvinnuleysi í skiptum fyrir
stöðugleika, hægan vöxt og mögu-
leika á stöðugt batnandi kjörum
næstu misseri. Við höfum áður orð-
ið fórnarlömb lýðskrums og blekk-
inga um það, kjörin verði knúin upp
með valdi. Við höfum af því sára
reynslu að þessu er öndvert farið
og við munum ekki átakalaust láta
berast af réttri leið eins og gerðist
fyrir 10 árum. Þau spor hræða
meira en tilhugsunin um tímabund-
in átök við að veija stöðugleika og
forsendur framtíðarhagvaxtar.
Vinnuveitendasambandið hefur í
samstarfi við verkalýðshreyfinguna
lagt mikið undir til að tryggja
árangur stöðugleikans. Við höfum
jafnt bent á váboða og vorboða í
efnahags- og atvinnumálum síðustu
ára, því fyrirtækin og starfsfólk
þeirra vill réttar upplýsingar og
raunsætt mat. á aðstæðum og
möguleikum. Við höfum lýst því
mati okkar að aðstæður nú gefi
færi á hliðstæðri launaþróun og í
nálægum löndum, en það sem um-
fram sé í kaupmáttarþróun verðum
við að sækja í lægri verðbólgu og
aðhald hagræðingu í opinberum
rekstri. í því liggja mögulegar
lækkanir skatta og annarra opin-
berra álaga. Við viljum miða allar
ákvarðanir við það að allt okkar
unga fólk sem kemur á vinnumark-
aðinn næsta áratug geti fengið arð-
bær og áhugaverð störf hér á landi.
Að kaupmáttur launa vaxi a.m.k.
jafn mikið og í öðrum Evrópulönd-
um og að atvinnulífið verði fjöl-
breyttara og traustara en nú er.
Til þess verður að tryggja stöðug-
leika, verðgildi krónunnar og vinnu-
frið til a.m.k. tveggja ára í senn.
Við viljum samstarf við alla sem
hafa sömu markmið um vöxt og
atvinnu og treystum því að sam-
staða megi nást fljótlega á nýju ári
um þessi meginmarkmið og að okk-
ur takist að finna greiðfærustu leið-
irnar að þeim.
Gleðilegt ár.