Heimskringla - 30.09.1925, Blaðsíða 6
>SIÐA
HEIMSKRINGLA
WINNIPEG, 30. SEPT., 1925.
“TVÍ FARINN”.
Skáldsaga
f Eftir H. de Vere Stacpoole.
Þýdd af J- Vigfússyni.
13. KAPÍTULI.
Teresa.
“Lafði Rochester! — Eg bið yður að lesa
þetta með athygli, og byggja yður enga fasta
skoðun né afstöðu, fyr en þér hafið skilið og
íhugað öll meginatriði. Þetta skjal er ekki neitt
algengt bréf, það er fremur skýring yfir þau
feikn af heimsku og óhepni, sem hin alvísa for-
sjón, af sínum eigin óskiljanlegu ástæðum, hefii:
látið mig — Victor Jones frá Philadelphia —
leiða í ljós.”
Þegar hádegisverðartími kom, var hann bú-
inn að skrifa tuttugu blafesíður, og ekki kominn
lengra en að ameríska vínsöluklefanum á Savoy
hótelinu.
Hann neytti kjötréttar og sneri svo aftur til
bréfanna, tók þau upp og las og reif þau svo í
sundur, öll saman.
Þetta dugði ekki. Hún gæti aldrei skilið
þetta.
Han byrjaði aftur, og í þetta skifti byrjaði
hann í ameríska vínveitingaklefanum. Um te-
drykkjutímann var hann kominn að blaðagrein-
unum um dauða Rochesters.
Eftir að hafa drukkið teið, fékk hann sér
þægilegt sæti til þess að geta íhugað bréfsinni-
haldið.
Hann varð undrandi. Það sem honum hafði
viljað til, gat aðeins hann sjálfur tekið fyrir
hreinan sannleika, af því hann varð fyrir þessu;
en á pappírnum leit það út fyrir að vera skrök
saga, sem hún gæti aldrei trúað. Hann reif
blöðin sundur og kastaði þeim í ofninn. Svo
settist hann í hægindastólinn og fór að hugsa
um djöfulinn.
Það var eitthvað djöfullegt við alla þessa
sögu, ag það, hvernig alt tengdist saman til að
hindra möguleika til flótta.
Dagverðartíminn var kominn, og að dag-
verðarmáltíðinni lokinni, sat hann aftur og skrif
aði, en þá alveg vonlaus. Alt í einu heyrði hann
hörkulega rödd í ganginum.
Dyrnar opnuðust og Venetia Birdbrook kom
inn. Hún hafði nýjan hatt, sem var enn stærri
en hinn fyrri, og svipur hennar var tryllingsleg-
ur.
Hún gekk að borðinu og lagði sólhlífina á
það.
“Hún er farin,” sagði Venetia.
“Hver?”
“Teresa. Hún er farin með Maniloff.”
Jones sat kyr.
Þá hvæsti hún.
“Og þú ætlar ekki að gera neitt? Þú ætlar
að sitja rólegur og láta skömmina lenda á okkur
öllum? Hún er farin, heyrir þú það, hún er
farin til Parísar! Þerna hennar sagði mér það.
Ef til vill er hún á leiðinni til stöðvarinnar. Ertu
heyrnarlaus, eða aðeins heimskur? Þú verður
að fara á eftir henni!”
Hann stóð upp.
“Fara á eftir henni og fá hana með þér til
baka; það er ennþá dálítil von — tækifæri. Eg
skal koma með þér. Það fer lest kl. 9 frá Vic-
toria, þú getur aðeins náð henni.”
“Eg hefi enga peninga,” svaraði Jones og
þreifaði í vösum sínum, “aðeins þrjú eða fjögur
pund.”
“Eg hefi peninga, og vagninn bíður okkar,”
sagði hún. “Ertu hræddur? Þú átt ekki við
að þér standi þetta á sama?”
“Við skulum fara,” svaraði Jones.
Hann fór út í ganginn, greip hatt og frakka,
og að mínútu liðinni sat hann í heitum og þröng-
um vagni, og fékk öðruhvoru olnbogaskot frá
Venetiu.
Hann var afarreiður.
Útlitið fyrir að ferðast með þessari stúlku til
að elta annars manns konu, var í rauninni afar
hræðilegt, en þetta útlit eingöngu gat ekki gert
Jones mjög reiðann. Venetia átti heiðurinn fyr-
ir það.
Hún sagði ekki meira; en samt sem áður
fylti hún hann með sprengiefni. Einn neista
núna!
Þau komust til stöðvarinnar, án þess að
hann spryngi. Venetia keypti farseðla, og Jones
varð ósjálfrátt að minnast bernsku sinnar, þegar
móðir hans tók hann með sér í ferðalag; en það
kom hopum ekki í betra skap gagnvart nútíman-
um.
Hann leit á klukkuna; ennþá voru tuttugu
mínútur þangað til lestin átti að fara. Að tutt-
ugu mínútum liðnum átti hann að ferðast með
Venetiu Birdbrook, til að elta annars manns
konu. Og þau höfðu einu sinni engan farangur.
“Hvað eigum við að gera?” spurði hann, þeg-
ar Venetia kom með farseðlana. “Eg hefi eng-
an fatnað með mér af neinu tæi, ekki einu sinni
tannbursta. Við fáum ekki að setjast að í
hóteli.”
“Við þurfum hvergi að setjast að,” svaraði
Venetia. “Ef við getum bjargað Teresu, þá för- j
um við beina leið heim aftur; en neiti hún að
I
fara með okkur, þa ættir þú helzt ekki að koma
heim aftur. Við skulum aðeins finna okkur
pláss.”
Þau héldu áfram.
“Getir þú ékki fengið hana til að koma með
þér aftur, þá ættir þú helzt að láta engan heima
sjá þig aftur. Allir vita, hvernig þú hefir hagað
þér gagnvart henni.”
“Ó, þegiðu! Eg hefi nóg að hugsa um,” sagði
hann í mjög gremjulegum róm.
“Það ættir þú að hafa.”
“Svo eg ætti að hafa það! En þú sjálf? Hún
sagði sitt af hverju um þig í gærkvöldi.”
“Hvað sagði hún?”
“Ó, skeyttu ekkert um það.”
Hún nam staðar og hann líka.
“Mig langar mjög mikið til að heyra það. Eg
krefst þess að fá að vita hvað hún sagði.”
“Ó, aöeins að þú píndir lífið úr henni. Eg
befði verið slæmur við hana, en þú værir marg-
falt verri.”
Venetia rumdi og sté eitt skref áfram, en nam
staðar, fölnaði og mælti:
“Þarna eru þau!”
Jones leit þangað sem hún benti.
Gegnum mannþyrpinguna kom blæjuklædd
kona og skeggjaður maður með regnhlíf undir
hendinni. Á eftir þeim gekk þjónn með böggla
og töskur.
Hann þekti hana undireins, þrátt fyrir blæj-
una.
Venetia leit á hann.
“Ekki neitt ofbeldi,” mælti hún.
Þetta var neistinn, sem kveikti í sprengiefn-
inu.
Hann hljóp til skeggjaða mannsins og greip
í handlegg hans. Sá skeggjaði ýtti honum frá
sér. Hann var gildur og kraftalegur maður;
klæddur sem hetja, hefði hann getað leikið hlut-
verk sitt ágætlega — þetta var sú líkamsbygg-
ing, sem kvenfólkið dáist að, sökum krafta og
karlmensku. Hann hafði smávindil milli rauðu,
þykku varanna. ^
Jones var ekki jafn kraftalegur né karlmann-
legur að útliti, en hann hafði æft sig hjá Joe
Hennesy, líka þektur sem Tke Snidebaum í Gar-
den Street, Philadelphia, og hann var jafn bar-
dagafús og greifingi.
Hann reiddi hnefann, hljóp á sig, en gat svo
gefið honum þungt vinstri handar högg á hægri
síðuna, undir upplyftan handlegg og regnhlíf, og
gaf honum svo með eldingarhraða annað högg
undir vinstri kjálkann.
Maðurinn með regnhlífina settist, eins og
stól hefði verið kipt frá honum, og hrópaði eftir
hjálp, stóð upp aftur og var að nýju sleginn um
koll.
Þarna lá hann á bakinu með útrétta hand'
leggi, og lét sem hann væri dauðasærður.
Viðburður þessi skeði á hálfri mínútu.
Jones leit í kringum sig. Venetia og Teresa
voru á flótta, barði maðurinn lá kyr og tautaði
“koníak-” í eyrað á sendisveini, sem knéféll við
hlið hans, og lögregluþjónn kom og nam staðar
fyrir framan Jones.
“Eg er Rochester lávarður,” sagði Jones hálf
hátt. “Þessi piltur þarna hefir fengið það, sem
hann verðskuldaði. Skeytið ekki um, hvað hann
liefir gert, en spyrjið, hvort hann vilji kæra mig.”
Lögregluþjónninn sneri sér að skeggjaða
manninum, sem nú studdist við olnboga.
“Óskið þér að kæra þenna herra?” spurði
lögregluþjónninn. \
“Nochivo,” tautaði sá barði; "nei — nel —
brennivín!”
“Eg hélt það,” mælti Jones.
Svo gekk hann með lögregluþjóninum að
riyrunum.
“Heimili mitt er Carlton House Terrace,”
sagði hann. “Þegar þessi piltur er staðinn upp,
þá getið þér flutt honum kveðju mína og sagt,
að hann geti komið þangað og fengið sömu með-
ferð aftur. Hérna er eitt pund handa yður.”
“Eg þakka, yðar hágöfgi,” mælti þessi vörð-
ur friðarins. “Þér afgreidduð hann laglega. —
Hann ásækir yður ekki oftar.”
“Eg 'held hann geri það ekki,” svaraði Jones.
Hann var mjög glaður; ólundin var fokin á
burt. Hann hafði að minsta kosti gefið for-
lögunum góðan snoppung. Hann hefði getað
sungið hátt, svo kátur var hann. Og þegar
hann kom frá stöðinni, kom Venetia á móti hon-
um — hálfringluð. i
“Teresa situr í vagninum! Já, nú hefir þú
gert þetta! Hvernig gaztu fengið þig til að gera
annað eins og þetta? Ertu alveg brjálaður. Á
sjálfri stöðinni, fyrir augum hvers og eins, veltir
þú hneykslinu yfir okkur — yfir mig!”
“Ó. þegiðu!” mælti Jones.
I
Hann sá vagninn, hljóp þangað og opnaði!
dyrnar. Snöktandi hrúga í einu horninu rétti
fram hendurnar, eins og til þess að ýta honum
burt.
“Ó, ó!” stundi hrúgan.
Jones tók aðra hendina, laut niður og kysti,
hana. Svo sneri hann sér að Venetiu, sem kom
á eftir honum.
“Stígðu inn,” mælti hann.
Hún sté inn og hann á eftir. Venetia stakk
liöfðinu út um gluggann.
“Heim!” kallaði hún til ökumannsins.
Fyrstu mínúturnar sagði Jönes ekkert. Svo
byrjaði hann á löngu eintali í myrkrinu.
“Þetta er einskis vert,”. sagði hann. “Þið
verðið báðar að gleyma því. Þegar þið á morgun
fáið að heyra það, sem eg hefi að segja, þá' mun-
iö þið ekki skeyta um slíka smámuni sem þessa.
Þarna voru aðeins ókunnir menn, enginn, sem
þurfti að taka tillit til. Eg gaf lögregluþjónin-
um eitt pund. En heyrið þið nú. Eg verð að fá
alla fjölskylduna til að mæta á fundi á morgun
fyrir hádegið. Það er ekki viðvíkjandi þessum
viðburði, heldur öðru, sem snertir mig. Eg hefi
setið og skrifað í allan dag, en það dugði ekki.
Eg hefi nokkuð að segja, sem er þannig vaxið,
að þið hafið aldrei heyrt neitt jafnundarlegt
fyr.”
Snöktandi hrúgan í hornuna vaknaði nú alt
alt í einu til fullrar meðvitundar.
“Mig langaði ekki til þess! Mig langaði ekki
hið minsta til þess! Ó, hefðir þú ekki verið þann-
^ ig við mig í gærkvöldi, eins og þú varst, þá hefði
mér aldrei dottið í hug að gera það. Aldrei —
aldrei — aldrei!”
“Eg veit það,” svaraði hann. “En það er
ekki mér að kenna, að eg varð að yfirgefa þig.
Eg var neyddur til að fara; þú skalt fá að vita
það alt á morgun. Þegar þú færð að heyra alt,
, þá munt þú aldrei oftar tala eitt orð til mín, og
þó veit guð, að eg er alveg saklaus.”
Nú heyrðist rödd Venetiu.
“Þetta er nýtt. Forsjónin veit, að við höfum
liðið margar vanvirðingar þín vegna. Hvað á
nú að koma? Hvers vegna vilt þú geyma það til
morguns? Hvaða nýung er það, sem þú hefir
gert?”
Áður en Jones gat svarað, hætti hin lundblíða
kona að snökta og sneri sér að Venetiu.
“Hvað sem hann hefir gert, þá ert þú systir
hans, og hefir enga heimild til að ásaka hann.”
“Ásaka hann!” sagði hin reiðigjarna Venetia.
“Já, ásaka hann! Þú segir það ekki, en þú
hugsar það. Eg held þú myndir verða glöð á
viðbjóðslegan hátt, ef hann hefði gert eitthvað,
sem væri tilfinnanlega hræðilegt.”
Venetia hikstaði, eins og hún ætti erfitt
með andardrátt.
Teresa hafði hitt markið.
Venetia var ekki beinlínis vond manneskja.
Hún var það, sem er næstum eins slæmt — rétt-
lát stúlka, dómari manneskjanna. Að uppgötva
syndir annara, gladdi hana.
Hún náði ekki rödd sinni nógu fljótt. Ný
hugsun hafði dottið Jones í hug.
“Hamingjan góða! Hvað er orðið af farangri
þínum?”
“Eg veit það ekki, og það skiftir mig engu,”
svaraði Teresa.
Vagninn nam staðar.
“Þú verður líklega hjá okkur í nótt,” mælti
Venetia afar kuldalega.
“Eg verð líklega að gera það,” svaraði Ter-
esa.
Jones steig ofan úr vagninum.
“Eg kem klukkan níu í fyrramálið,” sagði
hann. “Eg vil að öll fjölskyldan sé viðstödd.”
Og svo sagði hann við hina ógæfusömu konu
Rochesters:
“Láttu það engin áhrif hafa á þig, sem skeð
hefir í kvöld. Það var alt mér að kenna. Þú
munt hugsa öðruvísi um mig á morgun, þegar þú
hefir heyrt alt.”
Hún stundi og gekk upp stigann. Þegar dyrn-
ar lokuðust á éftir stúlkunum, las hann hús-
númerið. Og á götuhorninu las hann götunafn-
ið; það var Curzon Street. Og svo gekk hann
heim.
Hann hafði að minsta kosti framkvæmt gott.
verk þetta kvöld, hugsaði hann. Fremur en
nokkuru sinni áður, fann hann unaðinn hjá' þess-
ari konu, trygð hennar, eðli hennar til hreinskib
innar ástar.
En sú kona — en þau forlög!
En um leið sá hann lundarfar Rochesters við
nýtt og ógeðslegt Ijós.
Þegar Rochester sendi hann heim í staðinn
fyrir sig, var það eflaust gert til þess að gera
fjölskyldunni hræðilegan grikk. En konu hans?
Annaðhvort hafði hann ekki hugsað' um hana,
eða látið sér standa á sama.
Og slík kona!
“Þessi piltur verðskuldar að vera grafinn upp
og brendur,” sagði Jones við sjálfan sig, þegar
hann opnaði dyrnar. “Eg vona að geta brent
orðróm hans á morgun.”
20. KAPÍTULI.
Fjölskyldufundurinn.
Fimtán mínútur eftir níu morguninn eftir
kom Jones til Curzon Street, og var fylgt upp í
dagstofuna; þar settist hann og beið fjölskyld-
unnar. Hann skemti sér eins vel og hann gat,
við að horfa á stofuna og hlusta á öll hljóð frá
húsinu og frá götunni.
Hann heyrði að einhver hljóp upp stigann
fyrir utan; hann hélt að það væri þjónn, því
hann heyrði hlátur, eins og einhverjir tveir hefðu
mæzt í stiganum og kastast á gamanyrðum, og
hann gat ekki ímyndað sér, að neinn af þessari
hátíðlegu fjölskyldu, myndi hlaupa. svo glaðlega
upp stigann.
Svo opnuðust dyrnar og hertoginn af Melford
kom inn. Hann hélt á blaði undir hendinni og
nuggaði augnaglerið sitt.
Hann kinkaði til Jones.
“Góðin daginn,” sagði hans liágöfgi, rölti að
stól og settist. “Kvenfólkið kemur að fáum
augnablikum liðunm. Mér þótti vænt um að
heyra hjá Collins, að þú hefðir fengið þessa land-
eign aftur.”
“Já, eg hefi fengið hana aftur,” svaraði Jones.
Hann fékk ekki tíma til að segja meira, því
í þessu opnuðust dyrnar og kvenfólkið kom inn,
ekkjugreifainnan á undan.
Venetia lokaði dyrunum og þær settust. —
Jones hafði staðið upp, en settist nú aftur.
Hann dró andann þunglega, eins og maður
gerir áður en hann stingur sér í sjó eða vatn,
og svo byrjaði hann.
“Eg hefi beðið ykkur öll að hlusta á mig f
dag, af því eg vil segja ykkur allan sannleikann.
Eg er ókunnugur og hefi troðið mér inn í fjöl-
skylduna.”
“Ókunnugur! Troðið þér inn! Arthur, hvað
ert þú að segja?” sagði móðir Rochesters.
“Eitt augnablik,” svaraði hann. “Fyrst vil
eg segja frá því, hvað eg hefi gert fyrir ykkur
öll, og þá getið þið máske skilið, að eg er heið-
arlegur maður, þó eg sé nú kominn í falska
stöðu. Á fáum dögum hefi eg náð aftur í eina
miljón og átta þúsund pund, og án mín mynduð
þið ekki hafa séð eitt penny af öllum þessum
peningum.”
“Þú hefir hagað þér eins og maður,” mælti
hertoginn af Melford. “Haltu áfram. Við hvað
áttu með því, að þú hafir troðið þér inn?”
“Látið mig segja frá á minn eigin hátt,”
svarg,ði Jones gremjulega. “Hinn framliðni
Rochester lávarður stofnaði sér í hættu með því
að kynnast um of stúlku. Eg kalla hann hinn
framliðna Rochester lávarð, af því að það er
skylda mín að segja frá því, að hann er dáinn.”
Þessi orð höfðu ósegjanleg áhrif á! þessa fjóra
áheyrendur, sem nú sátu eins og steingervingar;
þeir litu aðeins skelkuðum augum hver á annan.
Hertoginn af Melford rauf loksins þögnina.
“Við skulum ekki tala um föður þinn,” sagði
hann; “við vitum að hann er dáinn. Hýað ann-
að hefir þú að segja?”
“Eg talaði ekki um föður minn,” svaraði Jon-
es, sem nú var orðinn bæði ringlaður og reiður.
“Hann var ekki minn faðir. Ef þið viljið aðeins
hlusta á mig, og ekki grípa fram í fyrir mér, þá
skal eg skýra frá öllu gerinilega. Eg tala um
sjálfan mig. Eg segi, að eg er ekki greifinn af
Rochester, því að hann er dáinn.”
Hann sneri sér nú að konu Rochesters: “Mér
þykur leitt að verða að segja yður blátt áfram,
en eg er skyldugur til að gera það. Eg er ekki
maðurinn yðar; eg er amerískur. Eg heiti Vic-
tor Jones og eg kom frá Philadelphia.”
Ekkjugreifainnan féll í öngvit aftur á bak á
stólnum. Venetia og hertoginn af Melford þutu
til hennar. Teresa starði utan við sig á Jones,
stóð upp og fór út. *
Greifaekkjan raknaði aftur við með grát-
ekka; Venetia hjálpaði henni út, og gegnum dyrn
ar heyrði Jones hana kveina:
“Drengurinn minn! Vesalings drengurinn
minn!”
Venetia hafði ekki sagt neitt.
Jones hafði búist við hávaða og rifrildi, með
hörðum orðum og mörgum spurningum. En þau
höfðu ekki spurt um neitt; þau sýndu enga undr
un. Undir þessu eða bak við þetta lá eitthvað,
sem Jones vissi ekki um.
Hertoginn af Melford lokaði dyrunum.
“Móðir þín — eg á við lafði Rochester — er
mjög hjartveik,” sagði hann og hringdi. “Eg
verð að gera boð eftir lækni.”
Jones settist aftur, mjög undrandi yfir ró-
semi hertogans.
“Eg skil ykkur ekki,” sagði hann. “Þið haf-
ið ekki sagt eitt orð, þið leyfið mér ekki að ljúka
við frásögu mína. Skiljið þið mig ekki? Heyrð-
uð þér, ekki hver eg er?”
“Jú, það heyrði eg, og það er það merkileg-
asta, sem eg hefi heyrt ál allri æfi minni. —
James,” sagði hann við, þjóninn, sem kom inn,
“símaðu eftir dr. Cavendish. Hennar náð hefir
fengið aðsvif.”
“Það er búið að síma bæði til dr. Cavendish
og dr. Simms;, herra lávarður.”
“Það er gott,” mælti hertoginn. “Já, þetta
er sannarlega það undárlegasta, sem eg hefi
heyrt.”
Hann tók upp vindlahylkið sitt, bauð Jones
einn og tók annan sjálfur.
Jones leit á han nog varð órólegur í huga.
“Heyrið þér,” sagði hann. “Þið eruð líklega
ekki að gera gys að mér? Þið álítið líklega ekki
að eg sé alveg frávita?”
“Frávita? Nei, alls ekki; það hefir mér ekki
dottið í hug. Því haldið þér það?”
“Af því þið takið þessu öllu með ró.”
“Með ró — hvers vegna ekki? Hvaða gagn
er að því að æpa, góði vinur — ekkert gagn.
Það er siðleysi. Eg tek alt eins og það kemur.”
(Framhald