Lögberg - 04.02.1937, Qupperneq 2
9
LÖGBERG, FIMTUDAGINN 4. FEBRÚAR 1937
Matthías Jochumsson
Eftir JÓNAS JÓNSSON
(Framh.)
XI.
Pað leiðir af því, sem hér er
sagt á undan, að það var til-
gangslaust fyrir Matthías að ætla
að bæta kvæði sín eða þýðingar
með endurskoðun og iangri
vinnu. Eins og að líkindum læt-
ur, voru slíkar tilraunir meir'en
gagnsJausar. Breytingin varð
afturför. Ljóst dæmi um þetta
er í þýðingu hans á I'riðþjófs-
sögu. í hinni upprunalegii þýð-
ingu segir hann um hina sorg-
mæddu konungsdóttur:
Ingibjörg í líaldurshaga
beiskan grætur alla daga.
Getur þig ei ginnt til viga
grátin mær með augun blá?
Hér er hrífandi skáldskapur,
sem öll þjóðin nam og dáði. En
seinna finst skáldinu ástæða til
að breyta niðurlagsorðum þriðju
línu og segja: Getur þig ei ginnt
að morði o. s. frv. Ekkert stór-
skáld sem hefði haft gáfu til að
vinna að kvæðum sínum með
seigri elju, myndi hafa gert slíka
breytingu. En þegar Matthias
endurbætti ljóð sín eða þýðingar,
þau sem hann hafði gert í hrifn-
ingu, þá var afturförin ótvíræð
og óhjákvæmileg.
Eftirmæli séra Matthíasar segja
alla sögu hans. Þau eru ekki
aðeins mörg, heldur afarmörg og
þau eru geislilega misjöfn að
gæðum. Þau eru dýrmætar perl-
ur eins og eftirmælin um móður
hans, konu hans, Börnin i
Hvammkoti, Hallgrim Pétursson
og marga fleiri, bæði vini og
vandamenn. Annar sérstakur
þáttur í erfiljóðagerð hans eru
kvæði eins og dánarljóðin um
Pétur Hafstein amtmann og
Kristján kammerráð á Skarði.
Matthías gerði slík kvæði eins og
Egill Skallagrímsson, Höfuð-
lausn. Það eru hetjukvæði, sem
eru ópersónuleg í eðli sínu.
Hjarta skáldsins skelfur ekki af
angist og tilfinningu eins og þeg-
ar hann yrkir um hin umkomu-
Iausu og honum óþektu ferming-
arbörn frá Hvammkoti.—í beztu
eftirmædum sinum er Matthías
léttur og ástúðlegur eins og vor-
blær, en í kvæðum um höfðingja
þessa heims eins og amtmann og
kammerráð, tekur hann á sig
brynju fornskáldanna. Hann
tekur hætti þeirra og orðskrúð,
líkingar þeirra og ræðuform.
Mörg af þessum kvæðum eru und-
ursamlega vel gerð. Þungi
mælsku og orðgnóttar lamar les-
andann, eins og nálægð við tröll-
aukinn foss. Samt hitnar engum
um hjartarætur við að lesa þvílík
kvæði, en það er hægt að dást að
fínleik þess skálds sem hefir ort
þau.
Langflest af eftirmælum séra
Matthíasar eru hversdagsleg, vel
rímuð, fallegt mál, orðgnótt o. s.
frv. Þau kvæði eru gerð í hinni
jarðnesku tilveru skáldsins. Þau
eru gerð til að hugga syrgjandi
ástvini. Vitanlega bregður líka
fyrir leiftrum í slíkum kvæðum.
Þau koma oft inn á landamæri
sálma hans og trúarljóða og fá
við það aukið bókmentasögulegt
gildi, að því leyti sem þau skýra
trúarlíf skáldsins. Mér kemur í
hug eftirmæli um unga og glæsi-
lega konu, sem dó á Akureyri
skömmu fyrir andlát skáldsins og
tveim árum eftir að hann hafði
mist tvær dætur sinar úr drep-
sóttinni miklu 1918. Kvæðið
byrjar þannig:
Ertu dáin, unga silkilín?
Eru sloknuð fögru Ijósin þin?
Vfast sollnu sárin,
sorgar vakna tárin.
Kveð mér huggun, harpan gamla
mín.
Horfin, farin, ung og ástúðleg?
Einnig gengin sama dimma veg.
Fórstu að finna mínar,
félagssystur þínar,
hjartarósir þær, sem þrái eg?
Upphafið á þessu kvæði er
slétt og vel ort. Það er prestur-
inn og skáldið saman. Unga,
dána stúlkan, er dóttir vinar hans
og ölluin harmdauði. En strengir
gömlu hörpunnar fá enn dýpri
tóna, er minningin uin hans eig-
in sorg kemur inn í Ijóðið. Það
eru hans eigin hjartarósir, sem
hann þráir endurfund við. Menn
breytast lítið þó að þúsund ár
líði. Egill Skallagrímsson og
Matthías Jochumsson finna til á
saina hátt við líkbörur barna
sinna.
XII.
íslendingar hafa átt tvö mikil
trúahskáld og ekki nema tvö.
Það eru þeir Hallgrímur Péturs-
son og Matthías Jochumsson. Hér
skal engin samanburður gerður á
þeim tveim miklu skáldum, en
aðeins bent á þá undarlegu stað-
reynd, að sá þeirra, sem stendur
nær nútíma mönnum, og ort og
þýtt hefir fleiri snildar kirkju-
ljóð en nokkur annar Islending-
ur, skuli með vissum hætti hafa
verið gerður útlægur úr sálina-
safni þjóðar sinnar. Það eru
hliðstæð örlög við Jón Sigurðs-
son, sem ekki var boðið á frelsis-
hátíð landsins 1874.
Einn af hinum miklu kostum
við útgáfu þá, sem hér er vikið
að, er að þar fær þjóðin í fyrsta
sinn sálma Matthíasar Jochums-
sonar í einni heild, bæði frum-
samda og þýdda. Það er yfirlit
yfir trúarlíf hans eins og það
birtist í sálmunum. Trúarlíf
hans var vakandi. Á hann sóttu
oft trúarlegur kvíði og efasemdir,
sem bezt er lýst í sálminum: Guð,
minn guð eg hrópa. Hann las og
braut til mergjar speki mikilla
vitringa og duldar rúnir. En
niðurstaðan varð ætíð hin sama.
Hann kom heim að knjám móð-
ur sinnar. Enginn hafði kent
honum eins og hún. Ef til vill
stækkaði hann guðshugmynd
bernskuáranna, þannig, að guð
varð kraftur, sem fylti alheiminn.
Mannssálin hvarf við andlátið inn
í guðdóminn, eins og lítill lækur
hverfur brotalaust í úthafið.
Eins og öll mikil skáld og vitrir
menn hafði Matthias takmark-
lausa aðdáun á Kristi. f augum
skáldsins var hann bæði guðs
sonur og inannsins sonur, án
þess að hann fyndi í því nokkurt
ósamræmi. Allar efasemdir Matt-
híasar enduðu eins og í lofsöngn-
um, sem íslendingar hafa gert að
þjóðsöng sínum, með því að
mannssálin bað, eins og lítill
lækur, að mega hverfa í úthafið
mikla. Eg held að Matthías hafi
aldrei lokið við trúarlegt kvæði
öðruvísi en sem örlítið eilífðar
smáblóm, sem tilbiður guð og
deyr.
Viðhorf þvílíks manns til
eilífðarmálanna sézt svo að segja
í öllum sálmum hans. Eg tek
hér upphaf á einum þekktasta
sálminuin:
“Ó, þá náð að eiga Jesúm
einkavin i hverri þraut!
Ó, þá heill að halla mega
höfði sínu’ í drottins skaut!
ó, það slys því hnossi’ að hafna,
hvílíkt fár á þinni braut,
ef þú blindur vilt ei varpa
von og sorg í drottins skaut.”
Þegar Matthías þýðir, þá yrkir
hann Ijóðin að nýju og gefur
þeiin brot af sinni sál. I þessu
ljóði kemur Matthías allur fram,
trúarþörf hans, aðdáun hans á
inannsins syni, og fullvissa hans
um endanlegan samruna manns-
sálarinnar við alheimsmáttinn.
Dauðinn er ekki ægilegur í
augum trúarskáldsins. Hann
spyr:
“Hvað er Hel—?
öllum líkn sem lifa vel.—
Engill, sem til ljóssins leiðir,
Ijósmóðir, sem hvilu reiðir,
sólarbros er birta él,
heitir Hel.”
Þrjú erindi úr öðrum sálmi:
“Englar hæstir, andar stærstif,
allir lofi drottins nafn,—
Alt sem andar, alt sem lifir
uppi, niðri, himnum yfir,
dýrki, lofi Drottins nafn.
Himinn fagur, hver einn dagur,
hver ein nótt með stjörnusafn,
stormar, þrumur, hvað sem
hra>ðir,
hvað sem vekur, örvar, glæðir,
lofi Herrans, heilagt nafn.
Fjallið háa, fjólan sináa,
fold og mar með lífsins safn;
svalir jöklar, svartir rindar,
sólu krýndir regintindar
lofi Drottins dýrðarnafn.”
Á þúsund árum hafa íslending-
ar eignast tvö, og ekki nema tvö
trúarskáld. Það getur ef til vill
verið huggun fyrir þá, sem fram
að þessu hafa álitið heppilegt að
haldas miklu af áhrifamestu trú-
arljóðum Matthiasar í nokkurri
fjarlægð við þjóðkirkjuna, að
hann eigi tímann fyrir sér. Það
muni að líkindum líða nokkrar
aldir þar til að hið þriðja mikla
trúarskáld fæðist á íslandi.
XIII.
Til að þýða úr erlendu máli,
svo að það fái lífsmátt og lífs-
gildi, þarf mikið skáld. Mestu
skáldin eru líka þeir, sem þýða
bezt. Þess vegna eru Jónas Hall-
grímsson og Matthías Jochums-
son mestir ljóðaþýðendur allra
sinna landa. Jónas dó meðan
hann var tiltölulega ungur mað-
ur, en Matthías varð fjörgamall
og starfaði að ljóðaþýðingum í
marga áratugi, með áhuga og
hraðvirkni, sem má heita dæma-
laus. Þýðingarstarfsemi hans er
ómetanleg 'fyrir íplenzkar bók-
mentir og íslenzkt mentalíf, bæði
sem fyrirmynd seinni kynslóðum
og beinlínis til að flytja heim
mörg hin mestu skáldverk ger-
manskra og engilsaxneskra þjóða
og inn í heimili hvers íslendings,
sem kann að meta slíka fegurð.
Matthías var sífelt á kynning-
arferðum til annara landa, bæði
með hinum tíðu siglingum, en þó
ekki síður með stöðugum lestri
erlendra skáldrita og bókmenta-
fræða. Hann varð á þann hátt,
þrátt fyrir einangrun sína í dreif-
býli sveitanna eða litlum kaup-
stað, stöðugt í náinni kynningu
við hin mestu skáld og rithöf-
unda þeirra þjóða, sem mest hafa
skarað fram úr í bókmentum.
Hann stóð þess vegna á háum
sjónarhól í sinu ríki. Hann hafði
yflirsýn um þau andlegu verð-
mæti, sem næst stóðu þjóð hans.
Og hann varði mjög miklu af
skáldskap sínum til friðsamra og
göfugmannlegra víkingaferða til
að sækja andans dýrgripi til ann-
ara þjóða og gera þá að óaftur-
kræfri eign íslendinga.
Gáfur Matthíasar ýoru alveg
sérstaklega vel fallnar til þess-
arar bókmentaiðju. Þegar hann
las snildarljóð á öðru máli, var
harpa hans auðhreyfð. Hann varð
hrifinn og hjarta hans fyltist
fögiiuði. Yfir hann kom eldmóð-
ur, eins og sigursælan herkonung,
sem horfir yfir vígvöll, þar sem
honum er leikur einn að sigra.
Einstakar þjóðaþýðingar virðist
hann hafa gert svo að segja í einu
áhlaupi. Þá varð honum alt til
hjálpar: Hin mikla hrifning,
myndauðgi og líkingaauðurinn,
mælskan og orðkyngin. Mjög oft
finst fslendingum að Matthías
hafi gert sum hin mestu snildar-
verk erlendra stórskálda jafn-
fögur og þau eru á frummálinu
og þó um leið algerlega íslenzk.
Þýðingar Matthíasar eru mjög
oft heilsteyptari en hans eigin
kvæði. Þess er áður getið, að
hann hafði ekki sterka skipulags-
gáfu, og var fyrst og fremst háð-'
ur innblæstri og hrifningu. En
þegar hann þýddi kvæði skálda,
sem höfðu fastari formgáfu, bar
eldur andagiftarinnar hann yfir
alla erfiðleika, og fjölmargar af
þvílikingum þýðingum eru nú í
eigu íslendinga, fullkomnar og
gallalausar eins og fágaðir gim-
steinar.
Þó var Matthías Jochumsson
ekki jafnvígur á allar ljóðateg-
undir. Bezt létu honum hetju-
kvæði og trúarljóð, því að þau
stóðu næst hjarta hans. Aftur á
móti gat hann ekki náð jafnvel
hinum hugljúfa blæ léttra ljóða,
eins og sum önnur skáld. Matt-
hías myndi ekki hafa getað þýtt
“Stóð eg út í tunglsljósi” eða
“Dunar í trjálundi” jafnvel og
Jónas Hallgrímsson og þýðing
Steingríms á Lorelei er miklu
betri og skáldlegri en þýðing
Matthíasar. Af sömu ástæðu hef-
ir Matthíasi mistekist að þýða
þjóðsöng Norðmanna “Ja, vi
elsker,” því að yfir því kvæði er
dularfullur léttleiki, sem átti ekki
hljómgrunn í sál hins íslenzka
hetj uskálds.
En þó að gerðar séu þessar
undantekningar, þá er þýðinga-
heimur Matthíasar stór og víð-
faðma. Hann tekur konungsljóð
Dana, yrkir það um og lyftir því
i hærra veldi. — Á frummálinu
er fyrsta vísan'ófimleg árás á
Svía, jafnframt því að herkon-
ungur Dana er hylltur. En í
höndum Matthíasar verður þetta
ljóð háfleygur og stórfeldur
skáldskapur. Hver á betra kon-
ungsljóð en þetta?
“Við siglu Kristján sjóli stóð
í svælu’ og reyk;
hann barðist hart með hraustri
þjóð,
ei hjálmur við né brynja stóð,
en floti Svía svam og vóð
í svælu og reyk.
Þá gall við óp'á græðis mey:
Við gamla Kristján þreytum ei,
þann leik.”
Þessi lýsing af Alpatindunum
úr “Manfred” eftir Byron, er ekki
lík þýðingu:
“Mont Blanc er fjallanna hilmir
hár,
sem hefir um aldir og ár
setið hamrastól í,
og hans skikkja er ský
og hans skrúðdjásn er skínandi
snjár,
en bjarka krans
það er beltið hans
og bjargskriða í mund hans er,
en í því hún hrynur með hvín-
andi dyn,
hún hættir og gegnir mér.”
Hér fer saman líkingaauður
Byrons og málsnild Matthíasar.
í litlu kvæði eftir Byron, “Fall
Senakeribs,” þarf ekki að taka
nema eina vísu til að sýna mátt
skáldsins við þýðingar. Konung-
urinn hefir mist hér sinn allan
á einni nóttu. Þá kemur lýsing
af valnum, riddarinn og hestur
hans liggja dauðir hlið við hliS:
“Og með háflentar nasir lá hel-
stirður jór,
út af hræköldum vitum rann
náfroðusjór,
líkt og hruninnar brimöldu hrá-
mjöll í vör;
nú var hreystin á brott og hið
stormóða fjör.”
Hér er hver ,likingin annari
gleggri og frumlegri. Helstirður
hestur, hræköld vit, náfroða, sem
alt í einu minnir á hafið, hvítnar
og líkist nýfallinni mjöll, en leys-
ist sundur um leið og þróttur
bylgjunnar tæmist við fjörugrjót-
ið. Enginn íslendingur hefir að
líkindum áður borið sér í munn
þessi tvö orð “hrámjöll” og “stor-
móður,” en þó finst engum þau
ný. Matthías skapar ný orð og
orðasambönd um leið og hann
talar á þann hátt, að þau eru um
leið orðin óaðskiljanlegur hluti
af íslenzku máli. Mér þykir ólík-
legt að nokkur maður gleymi orði
Matthíasar um hið “stormóða
fjör” á stæltum, íslenzkum gæð-
ingi.
Ein af hinum fögru þýðingum
Matthíasar er Köllunin eftir
Wergeland. í því kvæði er játn-
ing þeirra beggja. Báðir finna
aö þeir eru skáld og mikil skáld,
en að Ijóð þeirra skiljist af fáum.
Þeir eru borgarar í litlu landi.
Það er mannlegur metnaður
þeirra, sem hafa slíka orku að
vilja neyta vængjanna, fljúga
langt og víða. En báðir eru trú-
arskáld. Þeir sætta sig við hlut-
skiftið, að vera skáld í litlu landi,1
söngsvanir, sem fáir hlýða á.
Þessi þýðing er táknandi fyrir
séra Matthías, að hann velur hana
og að hann þýðir kvæðið með
þvílíkum glæsileik, keinur af því,
að það er líka sagan um hans
innri baráttu og sigur yfir sjálf-
um sér.—Wergeland og Matthías
segja:
“Voldug örn með vænginn
brotinn
veslast upp í kotungsbæ,
frá því hún var forðum skotin,
fjötruð eins og rakkahræ,
ella væri hún óðar þotin —•----
Hennar sál
þó á skárra en skáldsins andi
skorðaður hjá píndri þjóð,
yzt á heimsins eyðislóð
með það mál,
sem í öll sín listaljóð
heldur eins og hund í bandi.
Hann er kirkjuklukka vafin
köldu, blautu duluraski;
hann er rósargreinin grafin
gömlum undir mæliaski.
Sínum væng að vilja lyfta,
vera hár og fleygur andi,
eins og sá sem guðleg gifta
gerir skáld í stóru landi.
Það er eins og ætla að fljúga,
alla heima gegnum smjúga
tjóðraður í tunnubandi.
Og þó skvldu skáldsins orð,
skyldi ljóssins funaflóðið
fjörugra en hjartablóðið
sporlaust lljóta fyrir borð?
Vera eitt í víðum geimi,
vera eitt í drottins heimi'
vígt og dæint að deyja á storð?”
En að lokum segja skáldin:
“Það er nóg
að þú vinum þinum þjónir.
Þó að vanti millíónir
syng með rögg og sálarró.”
f lofkvæði Wergelands um
Harðangur, eru líka skýrðar til-
finningar Matthíasar um islenzka
náttúru:
“Finnist staður foldu á
þar sem óvin óvin mætti
en við bana-frumhlaup hætti
hvor um sig og hofðust á
og í svip á sömu stundu
sáttir réttu vinarmundu,
lostnir við hin Ijúfu grið,
landsins tigna hjarta við.”
Þetta var Harðangur hinn fag-
urblíði. En Matthías hefði vel
trúað hinu sama um sinn kæra
Eyjafjörð eða aðrar fagrar bygð-
ir hér á landi.
Við hlið hetjuljóðanna voru
sálmar kærasta viðfangsefni
Matthíasar. Þrátt fyrir forboð
kirkjunnar, hafa margir þessir
sálmar borist á vængjum anda-
giftarinnar út um alt land og eru
sungnir og dáðir vegna yfirburða
sinna. Frægastur af öllum
sálmaþýðingum hans er sálmur-
inn “Hærra, minn guð til þín,”
eftir ensku skáldkonuna Sara
Adams. Sálmur hennar var
frumortur 1840, en lyftir enn
hugum manna við óteljandi dán-
arathafnir. f meðferð séra Matt-
híasar er alt kvæðið samfelt
snildarverk, ekki sízt siðasta
versið:
“Lyftir mér langt i hæð
lukkunnar hjól,
hátt yfir stund og stað
stjörnur og sól;
hljómi samt harpan min
hærra, minn guð, til þín,
hærra til þín!”
“Ó, þá náð að eiga Jesúm,” er
þýðing á sama hátt og “Stóð eg
úti’ í tunglsljósi.”
“Eigir þú við böl að búa,
bíði freistni, sorg og þraut,
óttast ekki, bænin ber oss
beina leið í Drottins skaut.
Hver á betri hjálp í nauðum?
Hver á slíkan vin á braut,
hjartans vin, sem hjartað þekkir?
Höllum oss í Drottins skaut.”
Það mætti nefna marga af hin-
um ástsælustu sálmum: “ó,
blessuð stúnd,” “Ver hjá mér,
herra, dagur óðum dvín,” “Hve
sæl, ó, hve sæl er hver leikandi
lund,” “Fögur er foldin,” “ó,
drottinn, faðir ljóss og lífs,”
“Englar hæstir, andar stærstir,”
“Hátt eg kalla” og fjölda annara,
sem hvert mannsbarn á fslandi
þekkir vel.
XIV.
Matthias Jochumsson' notaði
ekki skáldgáfu sína í baráttu-
skyni. f þessari miklu útgáfu,
sem hér er gerð að umtalsefni,
er að eg held, ekki svo mikið
sem ein einasta vísa, þar sem
vikið er að öðrum mönnum með
hörku eða ásökunum. En til eru
allmörg tilsvör séra Matthíasar,
sem sýna, að hann muni ekki
hafa skort sárbeitta fyndni, ef
hann hefði viljað beita þeirri
gáfu. Hann virðist hafa verið
mildur og mannkær frá æsku-
dögum, en eftir því sem ár færð-
ust yfir hann, varð honum tam-
ara að hlynna að hverju ungviði,
sem hann náði til. Hann þótti
þess vegna þýðingarlítill ritdóm-
ari, því að hann þóttist sjá nokk-
urt efni í hverjum byrjanda. Kom
þar bæði til bjartsýni hans og
mannlund og svo hitt, að eftir að
hann hafði siglt skáldskeið sinni
fram úr snekkjum allra saintíð-
armanna sinna og keppinauta,
var hann eins og æðstiprestur í
ríki bókmenta og skáldskapar í
landinu. Fór þá saman lands-
föðurleg umhyggja við meðfædda
mildi og vonglaða. lífsskoðun.
Einn af hinum mildu ritdómum
hans, sem urðu honum til nokk-
urs ámælis, var dómur hans um
Símon Dalaskáld, þar sem hann
viðurkendi, að nokkur gullkorn
findust í hinum þróttlitla skáld-
skap Jians. Bólu-Hjálmar orti
þá um Matthías eina af sínum
einkennilegustu ádeiluvísum. Að
efni til er vísa þessi svo gróf, að
ef hún hefði verið eftir einhvern
annan mann en Hjálmar, myndi
hún hafa verið gleymd næsta dag.
En svo máttug var snild Hjálm-
ars, að þessi ádeila til Matthíasai
mun aldrei fyrnast. Matthías
svaraði ekki í þetta sinn fremur
en endranær. En þegar Hjálmar
var látinn, orti Matthías erfiljóð
um einyrkjann á Bólu, sem eru
með því lítilfjörlegasta, sem eftir
hann liggur. Skýringin er auð-
sæ. Hjálmar var svo gagnólíkur
Matthíasi um lundarfar og lífs-
skoðanir, að samúðin gat ekki
brúað á milli. Báðir voru stór-
skáld, en skilningslausir hvor á
annars yfirburði.
En þó að Matthías gerði aldrei
nein ádeilukvæði, þá er til eftir
hann eitt kvæði, snjallt og prýði-
lega ort, sem varð honuin til á-
líka sorgar eins og guðhræddum
manni væri að formæla skapara
sinn. —Árið 1888 birti annað
Vesturheimsblaðið íslenzka kvæði
hans “Volaða land.” Birtingin
var gerð í óleyfi skáldsins og varð
honum til skapraunar. í þessu
kvæði er umsnúið allri þeirri feg-
urð, sem hann breiddi í tvo
mannsaldra yfir land sitt og þjóð.
“V’olaða land” var jafn fjarskylt
Matthíasi eins og dauðabænir
Guðrúnar ósvífursdóttur t i 1
handa Kjartani ólafssyni voru
hug hennar og eðli. Kvæðið virð-
ist vera ort í vonleysisstemmingu
siðast í hinum voðalegu harðind-
um eftir 1880. Það er einskonar
áframhald í hærra veldi af hung-
urslýsingu Matthíasar í hafis-
kvæðinu mikla. Hann sá frá
heimili sínu á Akuryeri hin
strjálu og fátæklegu hús á Odd-