Lögberg - 03.12.1942, Qupperneq 2
LÖGBERG. FIMTUDAGINN 3. DESEMBER, 1942
Þing Sameinuðu lútersku kirkjunnar
(U.L.C.A.) í Louisville
F erðahugleiðingar
Oft hefi eg funaið til þess að því meira, sem eg sé af
víðáttum þessa mikla meginlands, þeim mun sterkari verða
þau tengsl, er binda hug og hjarta við átthaga minnar
amerísku þjóðar og alt, er telst til trygðar og mats á verð-
mætum hennar og sögu. Eg hefi borið gæfu til þess að fá
að sjá um helming af ríkjum Bandafylkjanna og um leið
að verða fyrir miklu af þeirri fjölbreytni, er stórfengleik'
heillar heimsálfu hefir til að bera. Um leið rennur upp
fyrir manni að þetta mikla land hefir verið leiksvið marg-
breyttra sögulegra æfintýra, sem mynda einn mest heillandi
þáttinn í sögu mannanna fram á þennan dag. Hvert nýtt
svæði er ber fyrir augu rifjar upp viðbótarþátt þess mikla
hlutverks að skapa hér nýtt þjóðlíf fyrir athafnir og áræði
hinna ólíkustu kynstofna. Þegar maður ferðast marga
daga og nætur á óslitinni ferð með hröðum farartækjum
án þess að nokkur takmörk blasi við, eins og altítt er, verð-
ur tilfinningin fyrir því yfirgnæfandi að hér er alt að
finna og það í stórum stíl. Sléttur og skógar, fjöll og fyrn-
indi, hrikaleg fegurð og hugþæg angurværð, ógnandi auðnir
og aragrúi borga, fljót og vötn, fossar og jöklar, heitai
lindir og hávær gos, mannvirki og mentastofnanir — að
nefna aðeins fátt eitt. Verður þetta eins og tákn þjóðlífsins
mikilfenglega, sem innibindur um leið æðstu möguleika og
alvarlegustu hættur, en hefir þó sem heild gefið undir fót-
inn ýmsum björtustu vonum og mest töfrandi hugsjónum
mannlífsins. Mér finst að eitthvað mjög skorti á næmleik
hjá börnum þjóðarinnar ef viðhorfið alt í náttúrunni, þjóð-
lífi og sögu, örfar ekki neitt blóðrásina eða brýnir hugann
til metnaðar, framsóknar og trygðar við það fegursta og
bezta er land og þjóð táknar. Slíkt víðfeðmi heillar án
þess að maður þurfi að vera blindur fyrir því að ekki er alt
að óskum, þó hátt sé undir himin möguleika og hugsjóna.
Kirkjan í samlíðinni
Eitthvað af þessu var í huga mínum er eg enn á ný
lagði upp í langferð frá Kyrrahafsströndinni austur, í þetta
sinn til Luiisville í Kentucky ríki, laust fyrir miðjan októ-
ber, til að sækja þing hinnar miklu Sameinuðu lútersku
kirkju (U.L.C.A.). Miklu af ferðinni er eg orðinn þaulvanur,
en í þetta sinn var nýtt takmark í ríki, sem eg aldrei áðui
hafði heimsótt. Og ríkið var sjálft Kentucky, fæðingar-
staður Lincolns, að flestra áliti hins göfugasta og mesta
manns, sem Ameríka hefir alið. Þetta örfaði eftirvæntingu
og gerði ferðina að meira æfintýri en annars hefði verið.
Það var heillandi umgjörð fyrir nýjan þátt kirkjusögunnar,
sem framundan var. Eins og aukin kynning við land og
þjóð hefir örfandi áhrif á þá, sem ekki eru dauðir úr öllum
æðum, eins ætti það að vera að fá aukna sjón á lífi og
I starfi kirkjunnar. Eg er enganveginn blindur fyrir því, að
kirkjan er ekki fullkomin, en þrátt fyrir állar auðnir og
öræfi í lífi hennar er mér gleði að geta sagt að því meira
sem eg kynnist og fæ heildarsjón á lífi hennar, því meir
örfar það hjá mér lotningu fyrir hugsjónum hennar o^
samhygð með viðleitni hennar að efla Guðs ríki á þessari
jörð. Það er auðveld dægradvöl úr athafnalitlum sessi að
fella þunga og skilningssnauða dóma yfir kirkjunni og
ófullkomleikum hennar, en hitt er þarfara að koma auga á
hvernig forsjónin notar þessa stofnun til að hefja og hrinda
áleiðis því, sem mannkynið má sízt án vera. Þegar heim-
urinn er allur í brotum og hver höndin upp á móti annari,
er boðskapur kirkjunnar um einn Guð og föður allra manna
og bræðralag það er Kristur stofnsetti og ekki er bundið
við þjóðerni eða hörundslit svo að segja hið eina, sem lýsir
til betra dags þegar ógnunum er lokið. Jafnvel upp ú:
ófriðinum stendur greinilegur vottur þess að þessi boð-
skapur er ekki fráskilinn veruleikanum, heldur hefir náð
föstum tökum bæði hjá áhrifamönnum og lítilmótlegum hjá
öllum þjóðum. Það er samtengingarafl, sem enginn ófriður
fær að fullu rofið. Undir því að varðveita það og efla er
öll framtíðarheill komin. Eg gerði mér von um að eins
og eg var að kanna nýja stigu landafræðislega til aukins
mats á landi mínu og þjóð, eins mundi hin kirkjulega
stefna, sem eg var að sækja, að einhverju leyti gefa mér
nýja sjón á akri kirkjunnar og hlutverki til að hefja það
er fyrir vakir. Eg varð ekki fyrir vonbrigðum hvað þetta
snertir.
U.L.C.A.
Sameinaða lúterska kirkjan (U.L.C.A.) er tuttugu og
fjögra ára gömul. Hún myndaðist þannig að þrjár lútersk-
ar deildir sameinuðust. Það var einingarstefna, sem þar
réði. Hreyfingin í einingarátt er eitthvert heilbrigðasta
einkenni samtíðarinnar í kristilegu tilliti. Oft áður og
fram á þennan dag hefir borið á þeirri hugsun að eindrægni
kæmist á eftir þeirri leið að ein deild kristninnar gleypti
aðra eða að minsta kosti yfirbugaði hana. Þetta hefir ekki
gefist vel. Venjulega hefir það fjarlægt menn í stað þess
að draga saman. Nú er sú viðleitni fremur að lærast að
leiða hugina saman með því að kynnast og meta það, sem
menn eiga sameiginlegt, í stað þess að einblína á það, sem
aðskilur. Þetta gefst mikið betur. Viturlegast reynist
að snúa sér fyrst að því að greiða fyrir samkomulagi með
þeim, sem næstir eru hver öðrum. Þannig verði ákveðnust
spor tekin til sannrar einingar. Eftir þeirri leið varð Sam-
einaða lúterska kirkjan til og í þeim anda hefir hún áfram
verið samdráttarafl í kristilegu tilliti. Kirkjufélag vort
bar gæfu til þess að hverfa frá einangrunarstefnu og
tengjast samvinnu við þessa heild. Með því sneri það baki
við þeirri stefnu að það sé heilbrigðast að vera fráskilinn
öðrum kristnum mönnum vegna ímyndaðra eða verulegra
yfirburða er maður sjálfur hafi til að bera og halda sig
utan við straum samtíðar kristninnar. “Að þeir allir mættu
vera eitt” er hugsjónin.
Þingmenn vorir og dvalarsiaðir
Fjórir erindrekar frá kirkjufélagi voru sóttu þingið í
Louisville, tveir leikmenn og tveir prestar. Grettir konsúll
Jóhannsson frá Winnipeg og G. J. Oleson lögregludómari
frá Glenboro skipuðu leikmannasessinn, en séra Egill H.
Fáfnis og eg vorum málsvarar kennimannastéttarinnar.
Okkur bar að garði mismunandi, en í Chicago hafði eg hitt
konsúlinn við íslenzka guðsþjónustu, er eg flutti og hann
var svo vænn að sækja. En allir hittumst við ekki saman
fyr en í Louisville. Urðum við þar í nánu nágrenni, þeir
þrír Canadamennirnir í Seelbach gistihöllinni en eg í Henry
Watterson Hotel. Vegna óvissu fram á síðustu stund um
að geta farið, hafði eg ekki getað trygt mér húsnæði fyrir-
fram eins og hygnum ferðamönnum hæfir og þeir samherj-
ar mínir höíðu gert, heldur varð að treysta á .gæfuna eftir
að á staðinn var komið. Gafst það vonum betur. Nafnið
Watterson dróg athygli mína sem nafn hins þjóðkunna
blaðamanns er stofnaði hið víðkunna dagblað Courier-
Journal í Lóuisville. Er það enn í fremstu röð hinna beztu
blaða í landinu. Er gistihöllin ekki til vansa nafninu,
því það er hinn ákjósanlegasti verustaður. Þingsalurinn
var í Brown Hotel skamt frá, sem var aðal aðsetur þing-
gesta.
Iceland
Ýmsir fundir voru haldnir áður en þingið sjálft hófst.
Fyrst og fremst hélt Luiheran Broiherhood U.L.C.A. stefnu
sína dagana á undan. Meðal smærri funda má telja mót
forseta kirkjufélaganna í U.L.C.A. Áttu þeir ráðstefnu með
starfsfyrirliðum Board of American Missions. Kom eg því
til Louisville á þriðjudag 13. okt., eða degi áður en þingið
hófst. Fyjrsta kvöldið lá ekkert ákveðið fyrir mér, og gintist
eg því til að sækja hreyfimynda leikhús. Var myndin
Icc-land með Sonja Heinie í aðalhlutverki þar á.boðstólum.
Eg var búinn að sjá ummæli um myndina í blöðum og að
Reykvíkingar væru ekki hrifnir af henni, en sjón er ávalt
sögu ríkari. Það er ekki á hverjum degi að maður sér
blasa við sér á hverju torgi flanna auglýsingar með “Ice-
land” að titli. Myndin er forsmán. Þar er ekki minsti
vottur af sönnum veruleika hvað snertir íslenzka staðhætti
eða líf í sambandi við dvöl setuliðs Bandaríkjanna í land-
inu. Veruleika blæ á þó eflaust skautakonan fræga að
setja á þetta “pródúkt,” því hvers mundu menn fremur
vænta á íslandi en íss. Því er treyst að amerísk alþýða
ekki glöggvi sig á því að ef á skauta skal fara í Reykjavík
verður það að jafnaði að vera eins og hér á Kvrrahafs-
ströndinni, á ísj sem er frystur með nútíðar tækjum véla
menningarinnar, en ekki af veðráttunni. Þó væri myndin
tiltölulega saklaus ef ekki væri öðru misboðið en þessum
staðháttum náttúrunnar. Þegar til mannlífsins kemur, fer
fyrst að slá út í svo um munar. íselndingar, sem sýndir
eru, koma allir fram sem hálfvitar. Aðal áhugamál þeirra
virðist að gifta dætur sínar — helzt hermönnum. Þar má
heldur ekki um skeika að eldri dóttirin giftist á undan
þeirri yngri. Engin hjólliðugheit á skautum, sem Sonja
Heinie getur sýnt, nægir til þess að bæta upp þessa van-
kanta. Ef þessi mynd ætti að vera mælikvarði þess alment
hvaða sannveruleik hreyfimyndirnar flytja, fá þær slaka
einkun sem uppfræðslutæki. Þessi auglýsingaöld er ekki
ætíð vönd að því hvernig auglýst er. ísland er í lítilli
skuld fyrir slíkan bjarnargreiða.
Kirkja studd af auglýsingum
í þeirri stærstu af tíu lúterskum kirkjum í Louisville
átti þingheimur að koma saman til guðsþjónustu í byrjun
þings. Hljómar það kunnuglega að kirkjan nefnist Fyrsta
lúterska kirkja. Er B. C. Lindsay þar prestur. Nefnist
stræti það Broadway er hún er á, og er það mikið kirkju
nágrenni. Auðar lóðir eru beggja megin kirkjunnar, sem
því miður eru ekki hennar eign. Þar hafa því auglýsinga-
félög komist að með stærðar “billboards” á báða bóga með
venjulegu auglýsingaskrumi. í fljótu bragði gæti manni
komið til hugar að nálægð kirkjunnar hefði haft einhver .
áhrif, því fyrirsögnin til vinstri blasir við: “Pure as an
angel,” en neðan undir verður maður þess var að þessi
himneska samlíking á við “Swan Floating Soap.” Til hægri
er líka eitthvert hugnæmi í þeirri yfirlýsing að “Merit is
rewarded,” en við nánari athugun kemur í ljós að dygðin,
sem verið er að hefja, tilheyrir “Honey Crust Bread.” O
tempora! O mores! mundi gamli Cicero hafa sagt, ef annað
eins hefði orðið á vegi hans. Mann dreymir um að ein-
hverntíma verði menn leystir frá hinu óbærilega auglýs-
ingafargani, sem( hneykslar augu og eyru og allan heil-
brigðan smekk um Ameríku alla. En í bili munu ekki önn-
ur ráð en að bíta á jaxlin — og afbera bölið sem bezt
maður má.
Guðsþjónusla og upphaf þings
Þingsetningarguðsþjónustan fór fram með miklum
hátíðlegleikum í ofangreeindri kirkju að kvöldi miðviku-
dagsins 14. okt. Kirkjan er vegleg, en nú reyndi á hve vel
hún rúmaði með talsvert á sjötta hundrað erindreka auk
annara gesta og heimafólks. Prestar, sem þjónuðu fyrir
altari eða tóku annan þátt, voru hátíðlega skrýddir sam-
kvæmt all-hákirkjulegum tíðareglum, sem fullnægt mundi
hafa smekk gamla íslenzka fólksins er fanst prestarnir í
Ameríku fremur snautlegir í kirkju. Algért frelsi er vitan-
lega hvað slík atriði snertir, en meiri viðhöfn í skrúða
tíðkast nú alment í amerískum kirkjum en áður fyrri. í
því sambandi nægir sú athugasemd að um smekk ber ekki
að deila. Allir samþykkja að fyrst og fremst eigi tilbeiðsl-
an að vera í anda og sannleika. Tíðaþjónustan og söngur
allur í bezta lagi. Forseti Dr. F. H. Knubel flutti kröftuga
prédikun er hann nefndi “Hidden Things” út af Matt 13:33.
Svo fór fram mjög áhrifamikil altarisganga er allur þing-
heimur gekk að Drottins borði. Við þessa athöfn var notað-
ur sameiginlegur bikar, í Omaha einstaklingsbikarar. Sýndi
það mismunandi venjur innan kirkjunnar. öll offur við
samkomur þingsins gengu í þarfir “Lutheran World
Action,” sem eru samtök alls þorra lútersku kirkjunnar í
Ameríku að kóma að liði trúbræðrum, trúboðum og starfi
þeirra ásamt öðrum í erfiðleikum og neyð vegna styrjaldar-
innar. Er það sönn kærleiksþjónusta, sem tala ætti til
allra er eiga kristið hjartalag. Á næsta ári er gert ráð fyrir
að safna einnri miljón dollara hér í Ameríku til þessara
þarfa. — Næsta morgun fór fram formleg þingsetning í
fundarsal þeim í Brown Hotel þar sem allir starfsfundir
þingsins voru haldnir. Guðræknisathöfn hófst á hverjum
morgni kl. 8.45, en fundarstörf byrjuðu skömmu eftir kl. 9.
Var haldið áfram til hádegis. Svo voru einnig starfsfundir
frá kl. 2—5 e. h. Tvisvar voru kvöldin einnig notuð til
starfs. Annars voru þau helguð sérstökum samkomum.
i
Hvaða alhygli vakli þingið?
Bezta blað borgarinnar — Courier-Journel — skýrði
ítarlega og vel frá öllu, sem fram fór á þinginu. Aðalþættii
þess fengu svo útbreiðslu í stórblöðum um land alt. Hið
merka tímarit Chrislian Ceniury hafði sérstakan fréttarit-
ara á þinginu. Dr. Walter W. Van Kirk gaf ágætt yfirlit
yfir starfið í útvarpið tvisvar eða þrisvar fyrir hönd
National Broadcasting Company. Er hann talinn bezti út-
varpsþulur landsins hvað áhrærir kirkjulegar fréttir. Talar
hann ætíð hlýtt í garð lúterskrar kirkju. Þá má nefna að
Henry Wallace vara-forseti Bandaríkjanna heimsótti og á-
varpaði þingið. Vék hann sérstaklega að dýrmæti trú-
boðsins. Wallace er alkunnur kristindómsvinur og kirkju-
legur áhugamaður. Á móti leikmannahreyginar (Laymen’s
Movement) eitt kvöld þingsins, flutti ríkisstjórinn í Tenn-
esee, Prentice Cooper, sem sjálfur er ræktarsamur meðlim-
ur lúterskrar kirkju, heilbrigt og hugðnæmt erindi um
kirkjuna á stríðstímum. Sama kvöldið flutti J. Myron
Shimer aðstoðar dómsmálastjóri Pennsylvania ríkis (Deputy
Attorney Genereal) mjög ákveðna hugvekju um kristilega
ráðsmensku. (Spiritual Implications of Stewardship). Það
er heilbrigt tákn tímanna þegar leiðtogar í veraldlegum
málum finna kvöð hjá sér að bera vitni áhrifum og gildi
kristindómsins með návist sinni og þátttöku í þingum
kirkjunnar. Á þessu þingi voru margir atkvæðamenn af
öllum stéttum — læknar, lögfræðingar, dómarar, fésýslu-
menn, iðnaðarhöldar, bændur og aðrir, sem á þessum
erfiðu annatímum létu af venjulegu starfi á aðra viku, til
að fjalla um og sinna málefnum kirkjunnar. Það virðist
því greinilegt að þetta þing einnar stórdeildar mótmælenda
kirkjunnar — lúterska kirkjan er fjölmennust þeirra í
heimi —- hefir verið talin merkisviðburður bæði af þeim er
tóku þátt í því og alment meðal þeirra er láta sig andleg'
mál skifta. ' Kirkjan á þann hlut að máli í því sem göfug-
ast er og mestu lofar í nútíðarlífi að engnin getur talist að
fylgjast með í menningu samtíðarinnar, sem ekki þekkir
til þess er kirkjan er að fást við og að sinna. Þaðan koma
skýrustu raddir og áhrif er boða nýjan himin og nýja jörð.
Muhlenberg og "Father" Heyer
Þetta þrettánda þing heildarinnar (U.L.C.A.) — en þau
eru haldin annaðhvort ár — var sérstakt í því tilliti að tvö
merkisafmæli í sögu amerískrar kristni, er tilheyra þessu
ári, settu mót sitt og blæ á stefnuna. Tvö hundruð ár eru
liðin síðan að presturinn Henry Melchior Muhlenberg steig
fæti á þetta meginland og gerðist merkasti frumherji lút-
ersku kirkjunnar í Ameríku. Hann og niðjar hans áttu
' ríkan þátt í því að leggja grundvöll hins nýja þjóðlífs og
ákvarða stefnu þess. Sjálfur átti Muhlenberg brennandi
áhuga fyrir að útbreiða kirkjuna og einkunnarorð hans
Ecclesia Planlanda — kirkjan verður að gróðursetjast —
hafa fræg orðið. — Hitt merkisafmælið, sem tilheyrir þessu
ári, minnist þess að fyrir hundrað árum hóf Christian
Frederick Heyer (venjulega nefndur “Father” Heyer) trú-
boðsstarf sitt á Indlandi, en frá honum stafar hið mikla
kristna kirkjufélag á Indlandi er nefnist “The Andhra
Evangelical Lutheran Church.” Telur það nú 195,656
sálir. Einkunnarorð Heyer “I am ready now” — “eg er til-
búinn nú þegar” — lýsa honum vel og voru svar hans við
þörf Indlands og kvöð kirkjunnar. Útbreiðslustarf kirkj-
unnar var á þinginu mjög tengt við' minningu þessara
merku frumherja og hugsjónir þeirra. Á framstafip þing-
salsins yfir altari var veggmynd mikil er sýndi landabréf
heimsins. Á því miðju var hin óviðjafnanlega Kristsmynd
Thorwaldsens “Komið til mín allir —” en á landabréfið,
sem táknaði þörf heimsins, var skráð öðru megin við
myndina THE CHURCH MUST BE PLANTED en hinu
megin I AM READY NOW. Þessi táknmynd hóf þannig
mannlega þörf, kærleiksþel Guðs í Jesú Kristi og lærisveins
fúsleikann að vera boðberar. Á þessum staðreyndum vill
kirkjan byggja starf sitt. Sérstakt erindi um Muhlenberg
flutti Dr. Paul H. Roth frá Northwestern Seminary, en Dr.
A. R. Wentz frá Gettysburg Seminary flutti minningarræðu
um Heyer. Erindin voru bæði frábær. Tilfinning var
fyrir því að nútíminn þyrfti á anda og áhrifum þessara
frumherja að halda.
Þjóðminning Muhlenbergs
Hvað Muhlenberg snertir hefir ekki aðeins lúterska
kirkjan heldur einnig Bandaríkjaþjóðin fundið ástæðu til
að minnast þess að tvær aldir eru liðnar síðan hann hóf
starf sitt í Ameríku. Þjóðþing Bandaríkjanna skipaði
fimtán manna nefnd til þess fyrir hönd þjóðarinnar að eiga
þátt í aðal hátíðahöjdum í sambandi við Muhlenberg af-
mælið við Muhlenberg College í Allentown, Pennsylvania
er stóð í rúma viku um mánaðamótin maí og júní á liðnu
vori. Roosevelt forseti var heiðursforseti nefndarinnar, en
báðir þingdeildaforsetarnir Wallace og Rayburn voru
einnig til forystu. Aðrir nefndarmenn voru nafnkunnir
þjóðleiðtogar í ríki og kirkju. Einnig gaf þingið út virðu-
legt minningarrit um Muhlenberg. Tilefnið til þessarar
þátttöku þjóðarinnar í þessum hátíðahöldum er ekki langt
sótt. Hann sjálfur var áhrifamikill frumherji í lífi kirkju
og þjóðar, og synir hans og afkomendur liafa haldið áfram
að gera garðinn frægAn. Einn sonur hans, Frederick
Augustus Muhlenberg var fyrsti forseti í neðri deild Banda-
ríkja þjóðþingsins. Annar, John Peter Gabriel Muhlen-
berg, var einn af herforingj.um og nánustu vinum George
Washingtons. Hann var foringi við Vallev Forge, er svo
mjög þrengdi að á hörmunga vetri. Peter, eins og hann
var venjulega nefndur, var vígður prestur eins og líka
Frederick Augustus. Er víðfræg frásögn um hann, er hann
að lokinni guðsþjónustu hjá söfnuði sínum varpaði af sér
hempunni og stóð albúinn sem herforingi undir. Enn
annar sonur, Gotthilf Henry Ernest Muhlenberg var einnig
kennimaður, en að auki vísindafrömuður á sviði grasafræði
og einn ar fremstu athafnamönnum í mentamálum á fyrstu
árum Bandaríkjanna. Hann var fyrsti forseti Franklin
College (nú Franklin and Marshall). Frá þessum ættstofni
er kominn mesti fjöldi af yfirburðamönnum er mjög hafa
komið við sögu. Þrír hafa átt sæti á þjóðþingi Bandaríkj-
anna. Þjóð og kirkja hafa fulla ástæðu til að minnast ætt-
föðursins, sem svo ríkan þátt átti sjálfur í frumsögu landsins
og hefir lagt þjóðlífinu til einn merkasta ameríska ættstofn-
inn. Það ætti ekki síður að njóta gengis að afla sér orðstýrs
fyrir afkomendur en forfeður,
Þingmál og slörf
Ekkert verulegt yfirlit yfir þingstörfin er hér hægt að
gefa. Skýrslur embættismanna og starfsnefnda mynduðu
stóra bók. Var það mjög til fyrirmyndar hve vel var farið
með tíma á þinginu. Mörgu var að sinna, en engu var
flaustrað í sambandi við áríðandi mál. Stuttar og greini-
legar ræður voru oftast fluttar með og móti ef um ágrein-
ing var að ræða, og svo gengið til atkvæða. Það heyrði
mjög til undantekninga að skvaldursseggir, sem hafa unað
af að hlýða á sjálfa sig, þó enginn njóti uppbyggingar,
kæmust að með langlokur sínar. Eitthvað af þeim virðist
ætíð með í lestinni á mannlegum þingfundum. Fjárhagur
kirkjunnar var í ágætu lagi. En þar sem svo margþætt og