Lögberg - 17.08.1944, Page 2

Lögberg - 17.08.1944, Page 2
2 LÖGBERG, FIMTUDAGINN 17. ÁGÚST, 1944 MARGIR MENN þurfa að bíða eftir viðurkenningu. Aðrir hljóta hana svo sem að sjálfsögðu. Hópi hinna síðari tilheyrði þessi valinkunni læknir og mannvin- ur. Það virtist ávalt svo ljóst mál hyílíka yfirburði hann hafði til að bera, að um það gæti ekki verið nema ein skoðun að hann stæði í fremstu röð afburðamanna. Hann virtist 'æra kjörsonur gæfunnar í lífi sínu. Þegar í æsku bar hann mjög af öðrum. Hann var gæddur frábæru minni og gleymdi helst engu, sem hann nam. Þessu var samfara víðtæk hnýsni í sífelt fleira, svo snemma varð hann svo fróður að slíkt þótti einsdæmi. Foreldrar hans fundu til þess snemma að þeim var trúað fyrir miklu að sjá til þess að þessi frábæri sonur fengi að njóta sín. Þá var ekki af miklum efnum að taka, en þau voru staðráðin í því að gera sitt ítrasta til að ryðja honum braut. Þann ásetning þeirra mun séra Friðrik Bergmann hafa stutt mjög öflugt, eins og honum var títt um unga efnismenn í sókn sinni. Og ekki var af skornum skamti hið andlega veganesti er hann fékk úr heimagarði. Þessi gæfusonur var gæddur ágætustu einkennum frábærra foreldra, heilbrigðum stór- hug, vönduðu upplagi, trygð við kristilega lífsskoðun og hugsjónir og þeim dýrmæta arfi íslenzkrar sveitamenningar að hafna sérréttindum nbkkura stétta eða flokka að gína yfir tækifærum lífsins. Þar er frækorn þeirrar hugsjónar að hvert ungmenni ætti að njóta mentunar eftir hæfileikum að veita viðtöku og engu öðru. Barnaskólarnir í nýlendulífinu á uppeldisárum Brandar voru ekki fjölbreyttir. Einn kennari með húsfyllir af börnum og unglingum á öllu reki, reyndi að ná útyfir það að veita öllum einhverja ásjá. Á Gardar skólanum, sem hér var um að ræða, voru oft 75 til 80 börn. En jafnvel ofþjakaðir kennarar hlutu að átta sig á því að hér var mjög óvenju- legur unglingur. Hungrið eftir þekkingu bætti upp það sem á vantaði í kenslukröftum og útbúnaði skólans. Afrek hins unga sveins urðu á allra vörum. Frá öllu er hann hafði lesið gat hann svo greinilega og áheyrilega skýrt, svo aldrei skorti áheyrendur. Reikningsgáfu hafði hann alveg sérstaka eins og líka kom fram í áframhaldsnámi hans. Hinn vakandi hugur færði sér alt í nyt. Lestrarfélagið Gangleri var komið á stofn í byggðinni og átti allálitlegt safn af íslenzkum bókum. Næst er mér að ætla að fátt hafi þar sloppið ólesið af þessum efrrilega unglingi. Það þroskar líka ætíð ólíkt meira, sem maður kýs að lesa, en hitt, sem maður er látinn lesa. Snemma tók hann einnig sjálfur að leggja sig eftir bókakosti og rita á ensku máli. Studdi þetta alt hvað annað. Svo bar hann gæfu til að njóta frábærrar heimakenslu hjá séra Friðrik Bergmann. Á þeim árum voru miðskólar (High Schools) mjög óvíða, og ástæður litlar til að nota þá fáu er til voru. Varð þá séra Friðrik ýmsum að liði með því að halda við hinum íslenzka sið að prestur kendi ungmennum undir skóla. Hjá yfirburða kennara og fræðimanni eins og hér var um að ræða hafði þessi kensla mikið til síns ágætis fram yfir venjulegt miðskólanám. Reyndist Brandi þetta haldgott eins og fleirum þegar tii áframhaldsnáms kom. Stóð hann þá alls ekki höllum fæti andspænis þeim er meiri skólavistar höfðu notið. Það var hressandi blær yfir lífinu í Dakota bygðunum á frumbýlingsárunum. Menn höfðu trú á lífinu og fram- tíðinni, voru hugfangnir af bygð sinni og kjörlandi og horfðu djörfum augum mót tækifærum lífsins Þetta var heilnæmt andrúmsloft fyrir framsækinn æskumann. í því var þroski og mentun að eiga hlutdeild í þessum anda og taka þátt í því bygðarlífi er hann ól. Brandur var bæði alinn á þessum anda og einn sá er lagði honum mest lið. Hjá honum fór það mjög saman að afla sjálfum sér mentunar og að láta öðrum í té af þeim auði er hann komst yfir. Milli þess sem hann sjálfur var við nám eftir að hann tók að sækja Gustavus Adolphus College í St. Peter, Minnesota, kendi hann af og til á barnaskóla í heimabygð sinni um nokkur ár. Fór þá oft þannig að hann kom einum eða tveimur mánuðum of seint í mentaskólann að haustinu, vegna þess að hann sjálfur var að sinna kenslu, þetta varð þó ekki til að draga úr glæsilegum mentaferli, því svo mikill var áhuginn og eljan að hann var ætíð í broddi fylkingar við námið þrátt fyrir þessa erfiðu aðstöðu. En kennara- starfið var miklu meira en bjargræði til framfærslu fyrir hann sjálfan. Hann lagði með því ríkan skerf til menningar- lífs bygðar sinnar og efldi hennar glæsilegustu einkenni. Það var þrekvirki út af fyrir sig að halda reglu og koma á einhverju skipulagi á kenslu fyrir alt að átta tugum barna og unglinga, en þess minnast margir að mjög mikið meira varð úr þessu hlutverki í höndum Brandar. Hann hafði ein- kennilega gott lag á því að ná til allra og leggja þeim til dýrmæt áhrif og haldgóða kenslu. Algeng aðferð hans að fara vel með tímann var í því fólgin að hlýða yfir tveimur bekkjum samhliða, láta t. d. yngri börn lesa meðan eldri börn leystu af hendi hlutverk í reikningi á veggtöflunni. Mér er það vel minnistætt að þrátt fyrir þessa tvískiftingu fór fátt framhjá kennaranum. Með hlýleik og festu, samfara stillingu og ró, skapaði yfirburða persóna hans hinn rétta anda í skólahaldið. Eldri vinur var að leiðbeina yngri vinum. Viðleitnin var sífelt að efla sjálfstæði og metnað. Hver einn styrktur í því að standa á eigin fótum við námið. Að byggja á öðrum yrði að skerða sjálfan sig. Eg minnist þess hvílíka þolinmæði hann sýndi í því að leyfa nemendum að þrauka við reiknisdæmi er þeim reyndust erfið, og hvílíkur sigur það varð þeim ef úrlausnin fékst á endanum. Velþóknun kennarans jók endurgjaldið. Þannig færðist metnaður í auk- ana. Ekki fáir nemendur frá þessum árum minnast kenslunn- ar og kennarans með stöku þakklæti. Þrátt fyrir það mikla starf, sem á honum hvíldi að kenna öllum þessum fjölda skyldunámsgreinar barnaskól- ans, lét Brandur ekki þar við sitja, heldur bætti því á sig að veita nokkrum piltum tilsögn í miðskóla námsgremum til undirbúnings undir mentaskóla. Þar nutu sín enn þá betur hans frábæru kennarahæfileikar. Hann hafði föst tök bæði á efninu, sem kent var, og nemendunum. Hann kunni að opna dyr eftirvæntingarinnar fyrir þeim er hann kendi og gefa þeim þá fullvissu að því lengra sem farið væri á leið þekkingarinnar, því meir heillandi yrði hlutverkið. Hann var fyrstur þeirra er uppólust í Garðarbygð að sækja menta- skólanám og líka fyrstur þeirra er þá leið gengu til að verða kennari í heimbygð sinni. Áhrif hans og glæsilegt dæmi áttu ekki lítinn þátt í því hve margir sóttu þar fram á eftir. Það var gæfa bygðarinnar hve mjög hún dáði þennan ágæta son. Hann endurgalt það með frábærri trygð við æsku-umhverfið. Þar átti líf hans rætur og þar komst hann á það stryk er leiddi hann til frábærs sigurs í atkvæða- miklu lífsstarfi. Um það leyti sem Brandur var við nám á Gustavus Adolphus College var hann þar samtíða nokkrum öðrum íslendingum. Þeir voru sambekkingar hans Thomas H. John- son og séra Rúnólfur Marteinsson. Séra Björn B. Jónsson sótti þangað einnig um hríð. Það er ljóst að tilviljun hefir ekki ráðið því að þessir og aðrir efnilegir íslendingar sóttu nám svo langt að heiman á þessum árum. Það var eftir ráði tveggja fremstu manna í kirkjusögu Vestur-íslendinga, þeirra séra Jóns Bjarnasonar og séra Friðriks Bergmannsi Þeir munu hver fyrir sig og báðir sameiginlega hafa komist að þeirri niðurstöðu að heillra ráð gætu þeir ekki gefið neinum en að sækja nám á þennan lúterska skóla sænskra kirkjubræðra, er þá var næstur íslendingum af þesskonar stofnunum. Tvent mun einkum hafa vakað fyrir. Annað að skólinn var kristilegur skóli, hitt að þar var þjóðrækm við arf og menningu er náskyld var Islendingum. Á það má benda hvernig þetta gafst. Þessir námsmenn og fleiri er þangað sóttu hafa orðið meðal hinna fremstu í hópi ræktar- sömustú kirkjumanna vorra og líka hinir trygglyndustu í garð íslenzkra verðmæta. Þessir kirkjufeður vorir hafa átt merkilega glöggskygni þegar ráða var til þeirra leitað. Það er einmitt nú hafið á ný með mikilli áherzlu að mentunin þurfi að vera náknyttari kristilegum verðmætum, hugsjón- um, áhrifum og siðferði, ef vel á að fara. Undir það taka fjöldi málsmetandi kirkjumanna úr öllum deildum kristninn- ar, kristildga sinnaðir þjóðhöfðingjar og aðrir er láta sig framtíðarheill mannkynsins varða. Námsferill Brandar var allur hinn glæsilegasti. Hann vissi hvað hann .vildi og gekk ákveðið að verki. Snemma mun hugur hans hafa hneigst að læknisfræði og árin leiddu í ljós að sú hugarhneigð var ekki villandi. Eg minnist þess hvílíkar mætur hann hafði á smásögu eftir Ian McLaren (John Watson) er nefnist “Doctor af the Old School”. Þar var hugsjón viðvíkjandi læknisstarfinu, sem greip huga hans. Sú einbeitta hugsun fylgdi með að láta undirbúning- inn undir lífsstarfið vera sem fullkomnastan. Ekki aðeins að ná skólaviðurkenningum og mentastigi, heldur að eiga þann sívakandi hug, sem altaf sækir fram til meiri þroska og þekkingar. Reynslan bar vitni um hvernig þetta gafst. Vorið sem hann útskrifaðist sem læknir (1900) varð fyrsta hlutverk hans að stunda deyjandi móður sína. 1 nokkrar vikur vék hann ekki frá sjúkrabeði hennar, heldur annaðist hana með þeirri ástúð og nákvæmni, sem aldrei þreytist. Mér fanst framtíðarstarf hans ætíð bera blæ af þessari fyrstu kærleiksþjónustu. Sjúklingar hans fengu ætíð að njóta, ekki aðeins þekkingar og tækni yfirburðamans, heldur líka hlýleiks og ástúðar, sem lætur í té með örlæti það sem engin vísindi geta vegið eða metið að fullu. Það var vitnis- burður margra að þeim liði betur um leið og hann var kominn í húsið, áður en til nokkurra læknisráða kæmi. Lífsstarf Dr. Brandsonar er vel kunnugt. Hann settist fyrst að sem læknir á útjaðri heimabygðar sinnar í Edin- burg í Norður Dakota. Þaðan gat hann þjónað æsku um- hverfi sínu. Honum reyndist að “römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til.” Hann átti þar tiltrú fyrir og hún jókst. En fljótt fann hann til þess að sviðið var of lítið til þess að geta öðlast þá víðtæku reynslu er framför og þroski í læknisfræðinni útheimtar. Á því var hugurinn að láta sér ekkert nægja nema það bezta. Þessi hugsun fékk framrás í ferð til Norðurálfunnar til að fullkomna sig við fremstu stofnanir og spítala á Bretlandseyjum og megin- landinu. Eftir árs dvöl kom hann aftur að starfi sínu í Norður Dakota og hélt þar áfram um hríð, en fann nú til þess því meir að án sjúkrahúss og tækni er aðeins eru við hendi í víðtækara umhverfi, fékk hann ekki notið sín né int af hendi það verk er hann þráði. Að áliðnu sumri 1905 fluttist hann til.Winnipeg og starfaði þar ætíð síðan. Sigurför hans í starfi sínu sem læknir er einn glæsi- legasti ferill, sem nokkur Vestur-Islendingur hefir átt. Þar fór saman frábærar vinsældir meðal alls almennings og óskift viðurkenning stéttabræðra hans og annara er færastir voru að dæma um hæfni hans og þekkingu. Álit hans sem skurðlæknis fór sífelt vaxandi og fékk staðfestingu á hæztu stöðum. Hann hlaut kennarastöðu við læknaskólann í Manitoba sem sjálfsagt mat á yfirburðum hans. Seinna varð hann yfirkennari í skurðdeild sömu stofnunar. Hann naut sín jafnhliða sem frábær læknir og frábær kennari. Með líðandi árum og fram að því síðasta hlaut hann ítrek- aðar fyrsta flokks heiðursviðurkenningar frá ættjörðinni og hér í álfu. Það jók ekki við hæð Dr. Bransonar. Þess þurfti hann ekki. En það var vitnisburður um glöggskygni þeirra og réttdæmi er þannig kunnu að meta hann.» En læknisstaðan var ekki eina áhugamál eða hugðar- efni Dr. Brandson. Hann lét fátt mannlegt vera sér óvið- komandi. Var kjörinn forvígismaður hvers þess máls er hann lét sig varða. Hann hlaut að koma til greina þegar hinna fremstu var leitað. Það var sjálfsagt val að hann kæmi fram, sem einn fulltrúi Canada á ^Alþingishátíð ís- lands 1930. Hann hafði hvortveggja til að bera að hafa staðið hátt í þjóðlífi Canada og líka tekið ágætan þátt í félagssamtökum íálendinga. Hann var þrásinnis forseti á þjóðhátíðum Vestur-Islendinga, og var eðlilega beitt fyrir þegar á miklu reið. Hann var hvortveggja í senn amerískur o g íslenzkur í orðanna fylstu og beztu merkingu. Ekki sízt er ljúft að minnast afskifta hans af kirkju, kristindóms og mannúðarmálum. Þar var hann hin mesta hjálparhella eins og sagan ber vitni. Fyrir suma hefir mentunin þau áhrif að þeir verða afar glöggir á annmarka og galla í lífi kirkjunnar. Það hefir sitt gildi ef rétt er með farið, en það getur ekki komið í stað þess að meta hugsjónir og lífsverðmæti kristninnar. Dr. Brandson náði í æsku föstum tökum á lífskrafti kristinnar trúar, og fullvissan um hið lífræna gildi kristindómsins jókst með mentun og reynslu. Eg veit að hann var ekki blindur fyrir göllum kirkjunnar. Hver getur verið það? En það eru til þau atriði er maður finnur að lífið má ekki án vera þó þau birtist hvergi í alfullkominni mynd. Það er hvergi til lýðstjórn, sem ekki hefir annmarka og á í vök að verjast að halda uppi hugsjónum sínum, en það hnekkir ekki gildi lýðræðisins. Dr. Brandson hylti bæði kristindóm og lýð- ræði, ekki vegna þess að nokkursstaðar sé til það mann- félag er beri fram þessar hugsjónir þannig að hvorki sé á blettur eða hrukka, heldur vegna lífsgildis hvortveggja. Að meta gildið varð að koma fyrst, þá trúði hann að bezt yrði ráðið fram úr ófullkomleikunum. Stefna hans var jákvæð. Hann var umbóta en ekki niðurrifsmaður. Þegar á skólaárum sínum lagði hann mikinn skerf til kristilegra áhrifa í bygð sinni. Það var aldrei vafi á hvar hann stóð. Meðan hann var kennari voru bæði bein og óbein áhrif hans mikil. Hann var boðinn og búinn að verða að liði hvenær sem tækifæri gafst. Mér eru enn í minni erindi er hann flutti til að glæða smekk í þeim efnum og áhuga. Hann var tryggur meðlimur og stuðningsmaður Garðar safnaðar alla þá tíð er hann átti heimili í Dakota. En aðalstarf Dr. Brandson fyrir kirkju og kristni kemur fram í Fyrsta lúterska söfnuði í Winnipeg og í þágu kirkju- félagsins. Þrátt fyrir miklar embættisannir var hann lengi forseti safnaðarins og síðan heiðursforseti. Auk frábærs ör- lætis og óeigingjarnrar starfsemi, lagði hann til það er ekki síður hafði gildi. Forysta hans í þessum málum jók tiltrú. Hve oft málefni kirkjunnar líða við það þegar í blindni er beitt fyrir vafasömum mönnum. Aftur græðir hún mjög þeg- ar forystuna prýða heilsteyptir menn, sem eiga og verðskulda virðingu almennings. Það hallaði ekki á virðingu kirkjunnar þegar Dr. Brandson beitti sér fyrir málum. Of langt yrði upp að telja trúnaðarstörf þau er hann inti af hendi fyrir kirkjufélagið. Það einnig naut örlætis hans og trygðar og málefni þess yfirleitt. En elliheimilið Betel, sem kirkjufélagið stofnaði, mátti heita að hann tæki að sér. Hann kom því á fastan og tryggan fót og annaðist velferð þess sem formaður stjórnarnefndar stofn- unarinnar með frábærri ræktarsemi og elju fram að andláti sínu. Hve vel þetta fyrirtæki hefir heppnast er verðugur minnisvarði þessa ágæta mannvinar, sem veitti svo heila og óskipta trygð þessu þarfa kærleiksverki. Kunnugt er hve dáður hann var af öllum á heimilinu. Gamla fólkið alt skoð- aði hann sem persónulegan vin. Dr. Brandson var mjög heimiliselskur maður. Með sinni ágætu konu, frú Aðalbjörgu, stofnaði hann fyrirmyndar heimili er að rausn og smekk átti fáa sína líka hvar sem leitað væri. Engar ýkjur mundi að telja það fremsta heimili Vestur-íslendinga f þeim efnum. Þess nutu óteljandi vinir þeirra hjóna hér vestra og gestir frá ættjörðinni. Það var nautn að hitta læknirinn í næði heima hjá sér og eiga tal við hann. Hann fylgdist ætíð vel með öllum almennum málum og ræddi þau af áhuga. Hann hafði vaxandi hug á öllu íslenzku eftir því sem árin færðust yfir. Hann þráði ætíð að frétta af gömlum vinum og kunningjum. Hin prýði- lega fjölskylda vermdi hjörtu allra gesta. Þetta höfðingja- heimili mun lengi í minnum haft. Gjarnast mun þeim er þekkja Dr. Brandson vel að minnast hans sem hins trygga vinar, sem aldrei brást. Svo er það um þann er þetta ritar. Eg veit að þeir eru fjöl- margir er undir þetta taka með mér. Dr Brandson var fæddur 1. júní, 1874, að Fremribrekku í Breiðafirði á íslandi. Foreldrar hans voru þau hjónin Jón Brandson frá Hvoli í Dalasýslu og Margrét Guðbrands- dóttir frá Hvítadal. Fjögra ára gamall fluttist hann með þeim til Minnesota, þaðan sex ára til Dakota. Að loknu heimanámi innritaðist hann við Gustavus Adolphus menta- skólann í St. Peter, Minnesota. Þaðan útskrifaðist hann árið 1895. Stundaði læknaskólanám við Manitoba háskólann og útskrifaðist þaðan árið 1900. Var læknir í Norður Dakota þar til 1905, en varði einu ári af þeim tíma til að full- komna sig í grein sinni í Norðurálfunni. Giftist 1905 eftir- lifandi konu sinni Aðalbjörgu Benson. Var upp frá því læknir og læknaskólakennari í Winnipeg. Eignuðust þau fjögur börn: Jón, er dó í æsku; Margréti, gift hérlendum lækni, sem nú er í herþjónustu; Theódóru, giftri Canadisk- um manni nú í herþjónustu; og Thomas, liðsforingi í canadiska hernum. Hann var á skipi, sem var sökt, en von um að hann hafi komist af og sé ef til vill fangi. Systkini átti Dr. Brandson fjögur: Áskel, bónda við Blaine, Wash.; Einar í Seattle; Sigríði giftri Ólafi lækni Björnson, nú látin; og Petrea gift innlendum manni í Nýia Englands ríkjunum. Dr. Brandson dó á heimili sínu 20. júní. K. K. Ó. —Sameiningin. Látið ekki tækifærið ganga úr greipum yðar! Verzlunarrnennlun er ómissandi nú á dögum, og það fólk, sem hennar nýlur, hefir ætíð forgangs- rélt þegar um vel launaðar stöður er að ræða. Það margborgar sig, að finna oss að máli, ef þér hafið í hyggju að ganga á verzlunarskóla; vér höíum nokkur námskeið lil sölu við frægustu og fullkomnustu verzlunarskóla vestan lands. The Columbia Press Limited Toronto og Sargent, Winnipeg

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.