Lögberg - 19.11.1953, Page 6

Lögberg - 19.11.1953, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN, 19. NÓVEMBER, 1953 „Hlakkarðu ekki ósköp til að eignast lítinn, mjúkan og falleg- an kropp til að klæða í þetta, Þóra mín? Manstu hvað þér þótti engilbarnið mitt fallegt í fyrra? Ef þú sæir hann núna. Hann er að byrja að staula milli rúmanna, svo óttalega gleiðgengur. Það segja allir, að hann sé það fallegasta brn, sem þeir hafi séð. En hann Sigurður, hlakkar hann ekki til og óskar, að það verði drengur? Það segir mamma, að feðurnir vilji alltaf, að eldri krakkarnir verði.“ Þóra sagði, að hann minntist aldrei á það einu orði. „Minnist hann aldrei á barnið? Er hann svona undarlegur? Herra trúr. En hann Jón, hann gat alltaf verið að tala um,.hvenær litli drengurinn færi að koma. Hann hlakkaði svo mikið til að sjá barnið og taldi víst, að það yrði drengur. Hann er svo góður við drenginn; þú getur bara ekki trúað því. Hann er líka svo ein- kennilegur, hann er farinn að segja pabbi og mamma og margt fleira, sem enginn skilur nema Borghildur. Hún býr til eitthvað mál úr öllu, sem hann segir. Það er nú stundum hlegið að henni. Þú skalt nú bara láta sækja mömmu, þegar þú veikist. Sigga segir, að það gangi öllum konum mikið betur að fæða, sem hún er hjá, heldur en Jóhanna ljósmóðir, þó hún sé lærð. Það þakkar hún einhverjum steinum. Þú getur ekki trúað sérvizkunni í henni Siggu, hún er óskapleg. Ég skal nú fljótlega koma og sjá litlu manneskjuna, þegar hún kemur í veröldina.“ Svona hélt hún áfram, meðan hver spjörin eftir aðra var fullsaumuð. Seint um kvöldið komu tvær vinnukonur til að sækja Önnu. Þóra þakkaði henni innilega fyrir komuna. Þetta hafði verið sannkallaður hátíðisdagur í Hvammi. Þóra hugsaði oft um það næstu daga, hvað Anna hefði átt gott, að maður hennar skyldi taka þátt í móðurgleði hennar. Það var þó mikill munur eða Sigurður, sem aldrei minntist einu orði á barnið. Einu sinni tók hún öll ltlu fötin, fór með þau til hans og sýndi honum þau, brosleit, og spurði hvort hann hlakkaði ekki til að sjá litla barnið þeirra, þegar það yrði búið að klæða það í svona falleg föt. Hann horfði á fötin hálf ólundarlega, en snerti þau ekki. „Mér finnst það nú ekki svo skemmtilegt, þegar þau eru að fæðast, að það taki því að hlakka til,“ svaraði hann fálega. „Ég hélt, að enginn maður væri svo undarlegur, að honum þætti ekki vænt um að eignast barn, sem á annað borð getur séð sæmilega fyrir því,“ sagði hún vonsvikin. Hvar fann hún annað en steina, þar sem hún hafði vonazt eftir brauði? Hann rámaði eitthvað í, að hann hefði sært hana með til- finningaleysi sínu og kulda, og bætti við í hlýrri róm: „Þetta eru ósköp falleg föt hjá þér, góða mín. Ég býst við, að mér þyki vænt um það, þegar það fer að stækka. Þau eru ofboðsleg fyrst.“ „Kannske það fæðist ekki lifandi," sagði hún raunalega. „Það væri líklega það bezta, fyrst þú getur ekki hugsað til þess með minnstu hlýju.“ „Það er engin hætta á því, að það fæðist ekki lifandi, og ég veit, að mér þykir vænt um það, einkanlega ef það verður drengur. En ég kvíði fyrir þessum ósköpum, sem þú átt í vændum, þegar það fæðist.“ „Ekki dettur mér í hug að kvíða því,“ svaraði hún ánægðari. „Svo verðurðu ekki eins falleg í vextinum aftur,“ sagði hann og horfði á hana hálf glettnislega. „Það er orðið ofboðslegt að sjá þig.“ „Ég hef nú aldrei verið neitt sérlega nett,“ sagði hún og braut fötin vandlega saman, ólíkt glaðlegri á svipinn. SÁ ER VINUR, SEM REYNIST 1 RAUN Svo var það eina nótt snemma í nóvember, að Þóra vaknaði við einhvern undarlegan lasleika. Sjálfsagt var nú komið að þess- um kvalatíma, sem hún hálf-kveið fyrir, þó hún vildi ekki játa það fyrir manni sínum. Hún kveikti ljós og klæddi sig, ranglaði fram í bæ og ætlaði að vita, hvort það liði ekki frá aftur. Þegar hún kom inn, var Magga farin að tína utan á sig spjarirnar. Sigurður leit upp hálf-sofandi og spurði, hverslags ljósagangur þetta væri. „Þér er líklega ráðlegast að fara að opna augun og ná í yfir- setukonuna. Mér sýnist það á henni Þóru,“ skrækti í Möggu gömlu. Þá var hann glaðvaknaður um leið og farinn að klæða sig. ,JÞað er gott, að það er stutt fram að Nautaflötum," sagði Magga. „Fram að Nautaflötum?" át hann eftir. „Hvað kemur það þessu við? Þér dettur kannske í hug, að ég fari að sækja ólærða yfirsetukonu til að vera hjá henni, fyrst ekki er lengra en það er ofan á Ósinn. Hestana er ég nú búinn að hýsa í viku, svo ekki stendur á þeim.“ Nú sýndi það sig bezt, hvað hann bar mikla umhyggju fyrir konu sinni, enda hafði hann verið hlýlegur við hana í seinni tíð. Eftir stutta stund var hann riðinn úr hlaði. En inni í baðstofunni var allt á einhverju iði. Allir klæddu sig, þó enginn hefði eigin- lega neitt að gera. Magga gamla setti stóran pott fullan af vatni yfir hlóðirnar og lagði vel að eldinum. „Ætlarðu nú að fara að þvo þvott?“ spurði María, þegar hún kom fram í eldhúsið. „Nei, auðvitað var þetta laugarvatnið," sagði Magga. Þá hló María dátt. „Þú ætlar ekki að láta standa á því og ætlar líka að hafa það nógu mikið. En ég get nú hugsað mér, að það þurfi ekki á því að halda í dag; það hefði verið nær að setja upp ketilinn. Mér þótti Siggi vera fljótur að hafa sig af stað eftir ljósmóðurinni.“ „Já, ójá. Það hefði nú verið heldur styttra frameftir ,og Lísibet hefur nú tekið á móti flestum börnum hér í dalnum og alltaf gefizt vel hjá henni, þeirri blessaðri gæfukonu. En hann sagði nú bara, að sér dytti ekki í hug að láta ólærða manneskju sitja yfir konu sinni. Satt að segja hélt ég, að hann hefði nú ekki þessar artir til, en lengi má manninn þekkja. Og þær náttúrlega kunna nú meira þessar lærðu dömur.“ „Ætli það hafi verið af eintómri umhyggjusemi," sagði María. „Er ekki einhver fýla í honum við þessa nágranna sína? Mér hefur hálfpartinn heyrzt það. Hann er ekki búinn að gleyma nágranna- ylnum þarna utan af Ströndinni. Alltaf gat hann verið í þrætum og rifrildi við strákana á Töngum. Þeir flugust á í illu, hvenær sem þeir höfðu tíma til, og sendu hver öðrum skammartóninn. Alltaf hélt hann, að þeir væru stelandi. Ef að á vantaði úr kvíun- um, átti það á Töngum að hafa slátrað henni. Við jöguðumst nokkrum sinnum út af því. Ég gæti hugsað, að hann væri eitthvað líkur sjálfum sér í því sem öðru.“ „Drottinn minn dýri. að vantaði nú ekki annað en að honum dytti í hug, að það færi að stela frá sér, Nautafllsfólk," skrækti í Möggu. „Nei. Það getur nú verið eitthvað annað,“ greip María fram í. „Það er einhver fáþykkja á milli. Ég veit ekkert út af hverju, nema að það sé af því, að Lísibet var óánægð yfir því að Þóra dreif sig í þetta hjónaband, án þess að spyrja hana ráða. Hún er nú vön að ráða hérna í dalnum, bæði giftingum og fleiru; svo það var von, að henni mislíkaði við Þóru, sem alltaf hefur sótt ráð til hennar, síðan hún var barn. Og ég ætla nú að bæta því við, þó að þér sé málið skylt, að ég býst við, að Þóra sé búin að iðrast fljót- færninnar, og það oftar en einu sinni. Þetta var nú ekki kapp, að komast í þetta hjónaband, þvílíkt flan.“ • „Það hefur nú kannske orðið að ganga hjá Sigga eins og ann- að, sem hann ætlar sér að koma í framkvæmd, enda var það nú hyggilegra af honum að láta hana ekki kynnast skapsmununum áður,“ sagði María. „Hvað skyldum við hugsa, að standa svona og masa, en láta hana vera eina inni,“ fjasaði Magga. „Það þarf að fara að leggja í vélina, svo það hlýni inni.“ „Blessuð vertu róleg. Ég dreif hana ofan í rúm aftur. Þetta er engin alvara í þessu, held ég,“ sagði María. Ljósmóðirin beið allan daginn, lengst af sofandi. Þóra hresstist aftur og var á ferli. „Þér er óhætt að taka ofan pottinn, Magga mín,“ sagði María. „Þetta ætlar ekkert að ganga í dag, eins og ég sagði þér.“ Um kvöldið kom maður utan af Strönd að sækja yfirsetu- konuna. „Sigurður aftók, að hún færi, en Þóra sagði, að þetta hefði bara verið vitleysa úr sér, það hlyti að vera óhætt, að hún færi. Ljósmóðirin sagðist ekki mega neita, fyrst Þóra væri ekki veik. Sigurður var sárreiður. „Alltaf þurfa þau að vera að hrúga niður krökkunum, þessi hjá þarna á Hlíðarenda,“ sagði hann, þegar yfirsetukonan reið úr hlaði. , „Auðvitað gera þau það, meðan þau geta,“ sagði María glettin. „Svo þegar þau hætta, tekur þú við, svo ljósmóðirin hafi þá eitt- hvað að gera.“ „Þú ert asni, eins og þú hefur alltaf verið,“ sagði hann og gekk í burtu. „Ég vona, að ég fái þá að sofa í nótt,“ sagði Jóli, þegar hann var að losa af sér skóna um kvöldið. „Já, já, nú sofa allir rólegir,“ vældi María. En klukkan þrjú um nóttina voru allir glaðvaknaðir í baðstofunni. Þóra var orðin alvarlega veik. „Þú verður að fara fram eftir, Siggi,“ sagði María, „þú sérð það, að þú verður ekki' kominn utan frá Hlíðarenda fyrr en í fyrramálið. Það verður allt of seint.“ En það var nú ekki til að tala um; fram eftir skyldi hann aldrei fara. „Ég skal sýna þér það, að ég verð kominn nógu snemma," sagði hann og sat fastur við sinn keip. „Bölvaður þrákálfur geturðu verið,“ sagði María gröm. Þóra lagði ekkert til málanna. Magga lagði að eldinum og setti upp vatnspottinn í annað sinn. Jói sat alklæddur rétt við hlóðirnar, hrollkaldur og geisp- andi, og óskaði með sjálfum sér, að það væri kominn dagur, svo hann gæti komizt út. Honum ofbauð að heyra þessi hljóð, sem Þóra gaf frá sér öðru hvoru. „Hvað verður þetta lengi, Magga?“ spurði hann. „Drottinn minn dýri, hvað svo sem skyldi ég vita það,“ sagði hún hálf kjökrandi og blés í eldinn. María var aftur á móti þó nokkuð kjarkgóð. Magga kallaði á hana fram einu sinni, þegar Þóra blundaði. „Ég var hérna með kaffisopa, ef þú hefðir lyst á því. Heldurðu nú að þau fari ekki bráðum að koma?“ spurði hún kvíðafull. „Hann er ekki einu sinni kominn út eftir,“ svaraði María. „Ég segi þér það alveg satt, að það þýðir ekkert annað en senda fram eftir. Þau verða aldrei komin í tæka tíð, þessar þá mann- eskjur, sem aldrei komast neitt áfram á hestuni.“ „En kannske þetta líði frá eins og í gær,“ sagði Magga „Nei, nei, nú þarftu að hafa heitt vatnið.“ „Drottinn minn sæll og góður, að heyra hvað blessuð mann- eskjan tekur út,“ kjökraði Magga. „Hvað er þetta, manneskja. Hefurðu aldrei heyrt barn fæðast? Þetta er nú ekki nema byrjunin,“ sagði María og glotti. „Guð varðveiti mig. Betra hefði henni verið að fara ekki að álpast út í þetta hjónaband. Hann er sæll hann Björn auminginn, að vera horfinn frá þessu öllu. Ég vildi, að ég væri komin við hliðina á honum í garðinum. Að minnsta kosti fer ég eitthvað úr bænum, ef þessi ósköp standa lengi yfir.“ „Lifðu við vonina, að þú komist í garðinn eins og aðrir,“ sagði María ósköp róleg. „En ég sé etigin ráð önnur en senda eftir ein- hverri hjálp, fyrst þú ert þessi vesalingur að geta ekkert hjálpað. Þau koma með morgninum, ekki fyrri, og það verður um seinan.“ „Við verðum að tala við Þóru, ef hún er ekki orðin rænulaus,“ sagði Magga. „Heldurðu að hún sé orðin rænulaus strax? Ég er alveg hissa, hvað þú ert tæp í þessu öllu,“ sagði María og hljóp inn í bað- stofuna. Hún hvíslaði að Þóru, þegar hviðan var afstaðin: „Finnst þér ekki sjálfsagt að senda fram eftir og biðja Lísibetu að koma? Ég get ekki verið ein.“ „Heldurðu, að þa ukomi ekki bráðum?“ spurði Þóra. „Nei, nei, góða mín. Þau eru tæplega lögð af stað ennþá utan að.“ „Má ég ekki senda Jóa litla? Ég get ekki verið ein. Magga þorir ekki að koma inn, og svo er heldur ekkert gagn að henni,“ hélt María áfram að biðja. „Ég vildi helzt ekki þurfa þess, enda efast ég um, að hún komi,“ sagði Þóra. „Hver skyldi neita hjálp undir öðrum eins kringumstæðum? Hún er þá önnur en hefur verið sögð.“ Þóra anzaði engu. Það leið langur tími. Jói sat flötum beinum uppi í eldiviðarhlaðanum, þegar María kom fram, heit og rauð, og greip í öxlina á honum. „Þú mátt til að fara fram eftir og biðja Lísibetu að koma. Þú getur skilað því frá mér. Það verður að hafa það, ég verð að taka þá ábyrgð á mig. Og reyndu nú einu sinni að vera fljótur," sagði hún og var mikið niðri fyrir. „Núna í myrkrinu?“ spurði hann hálfringlaður. „Já, þú ert svo kunnugur, að þú getur það vel. Ég vona, að þú hafir samfylgd hina leiðina. Og flýttur þér nú!“ Drengurinn var horfinn samstundis út í náttmyrkrið, án þess að hugsa um alla þá geigvænlegu staði, sem á leið hans voru. Fyrst voru það fjárhúsin. Hann tók á sig stóran krók til að nálgast þau ekki. Svo var skútinn hjá merkjalæknum. Þar hafði einhver karlaumingi orðið til fyrir löngu síðan, en Magga var ekki búin að gleyma því. Hann var víst ekki búinn að yfirgefa skútann ennþá og hafði gaman af því að setja skepnurnar í læk- inn, og krökkunum var hætt við að villast á holtinu. Magga sagði, að hann ætti ævinlega að signa sig, þegar hann færi þar hjá, en því sleppti hann algerlega, nema þegar þoka var. Hann hljóp alltaf í sama sprettinum. Myrkrið varð ekki eins dimmt, þegar hann fór að venjast því. En bæjarleiðin var ofboðslega löng í þetta skipti. Hann var kominn fram hjá skútanum, áður en hann vissi af. Þegar hann kom heim á túnið á Nautaflötum, stanzaði hann og kastaði mæðinni. En hvað bærinn leit undarlega út í myrkrinu. Og þarna voru einhverjar þústur uppi á skemmu- mæninum. Þær færðust til. Svo kom einhver léttur dynur, eins og einhver væri að hlaupa á móti honum. Hvað gat þetta verið? Hann kófsvitnaði og var að hugsa um að snúa við. Þá kvað við tvíraddað gelt og tveir hundar flöðruðu vinalega upp um hann. Honum létti fljótt. Þetta voru þá bara aumingja hundarnir. Hvað hann hafði verið mikill kjáni að muna ekki eftir þeim, og því heimskari að hafa ekki Snata með sér. Hann stóð við dálitla stund og klappaði silkimjúkum hundahausunum og kastaði mæðinni. Þá tók hann líka fyrst eftir því, að hann var orðinn kófsveittur. En ekki dugði að gleyma erindinu. Svo var síðasta skrefið tekið heim að glugganum á hjónahúsinu. Hundarnir fylgdu honum eftir. Ef þeir hefðu alltaf vérið með honum, hefði hann ekki fundið til mýrkfælninnar. Hann barði á eina rúðuna. Rétt á eftir var glugginn opnaður og Jón stakk höfðinu og herðunum út um hann og skimaði eftir gestinum. Jói hafði ekki rænu á að heilsa. „Hvað er þetta. Ert það þú, Jói minn. Hvað ertu að fara í myrkrinu “ spurði hann. Drengurinn var í vandræðum með að stynja upp erindinu. „Hún Þóra er svo veik,“ stamaði hann. „Og María sagði mér að fara fram eftir í myrkrinu.“ „Og hvað átturðu að gera í myrkrinu?“ spurði Jón. „Biðja mömmu að koma?“ „Já, hún sagðist ekki geta verið ein — hún María. Sigurður er að sækja yfirsetukonuna.“ „Nú fer ég að skilja. Honum hefur þótt of stutt hingað fram eftir,“ sagði Jón. Hann tó kí axlirnar á drengnum og dró hann inn um gluggann. „Komdu inn í ylinn, Jói minn.“ Lísibet var búin að kveikja og langt komin að klæða sig. Jói fór að bera sig til að'heilsa fólkinu. „Þú ætlar að drífa þig,“ sagði Jón við móður sína. „Já, auðvitað fer ég. Hvenær hef ég neitað að fara, ef ég hef verið beðin? Ég fer varla að byrja á því núna, þegar Þóra á í hlut. Mig hefur líka verið að dreyma hann Björn heitinn síðastliðnar nætur,“ svaraði Lísibet. Jón fór líka að klæða sig. Hvað skyldi hann svo sem ætla, hugsaði Jói. Sjálfsagt fer hann þó ekki að fara út að Hvammi og hlusta á öll þau ósköp, sem þar ganga á þessa nótt. Jón tók Jakob litla úr rúmi ömmu hans og flutti hann til Önnu, sem hálfsofandi var eitthvað að biðja fyrir Þóru. Svo lagði þrenningin af stað. Jón leiddi þau bæði. „Varstu ekki myrkfælinn, Jói minn “ var það fyrsta sem sagt var, þegar komið var út fyrir túnið. Það var Lísibet, sem spurði. Drengurinn jánkaði. „Var það Þóra, sem bað þig að fara?“ spurði Jón. „Nei, það var María, sem kom fram. Þóra var víst fjarska veik.“ ,/Það hefur svo sem ekki átt að sækja þig, mamma,“ sagði Jón. „Alveg sama,“ var það eina, sem Lísibet svaraði. Svo var ekki talað meira. Þegar heim á hlaðið kom, spurði Jói Jón, hvort hann ætlaði ekki að koma inn. Annað fannst honum ókurteisi. „Ég hef litla.. læknishæfileika, Jói minn. Svo er ég víst ekki velkominn í bæinn,“ svaraði hann, kvaddi og fór. Þóra horfði kvíðandi til dyranna. Ætluðu manneskjurnar al- drei að koma, hugsaði hún. Þjáningar hennar voru orðnar nær þrotlitlar og engin von um hjálp. „Drottinn minn, hvernig ætli þetta fari?“ kveinaði hún ör- vilnuð. Hún gerði sér lyæðilegar hugmyndir. „Hjálpn er að koma,“ hvíslaði María. Hún hafði heyrt Snata boða gestakomuna. Rétt á eftir heyrðist gengið inn göngin. Jói opnaði baðstofuhurðina fyrir gestinn og flýtti sér svo fram göngin aftur. Lísibet bauð góðan daginn, því nú var komið undir morgun. „Komdu blessuð og velkomin í bæinn,“ sagði María og varp öndinni feginsamlega. Þóra tók svo föstu taki um hálsinn á Maríu, að hún óttaðist, að hún óttaðist, að hryggurinn færi í sundur. Svo seig hún ofan á koddann með þungri stunu og lokaði augunum, til að reyna að hylja tárin, sem þrengdu sér fram í þau. Lísibet heils- aði henni jafn hlýlega og vant var, og strauk tárin af kinnum hennar. „Reyndu að vera róleg, góða mín. Þetta er bráðum búið.“ En Þóra táraðist ekki vegna þjáninga sinna, heldur vegna harðleikni forlaganna, sem lét hjálpina koma úr þessari átt. En fyrst þessi stórláta kona var nú búin að brúa þetta kalda straum- fall, sem á milli þeirra hafði runnið nærri heilt ár, með fórnfúsum hjálparhöndum, átti illa við, að hún léti sér standa á sama, eða eins og sér væri engin þægð í komu hennar. Hún fann það líka, að í raun og sannleika kaus hún enga manneskju frekar til að hlynna að sér en einmitt hana. Hún tók hönd hennar milli handa sinna og klappaði henni. „Ósköp varstu góð að koma. Nú kvíði ég engu,“ hvíslaði hún. „Nei, nei, góða mín, engu að kvíða,“ sagði Lísibet og endur- nýjaði sitt mjúka klapp á vanga hennar. Tæpum hálftíma seinna fæddist sonur, sem háorgaði af öllum lífs og sálar kröftum. „Sá þykir mér hafa róm,“ sagði María. „Hann segist ætla að gera mikið í veröldinni, þessi drengur,“ sagði Lísibet 1 gælurómi.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.