Lögberg - 06.05.1954, Page 6

Lögberg - 06.05.1954, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 6. MAI 1954 Svo var það einn morgun, að Sigga gamla þurfti eitthvað út í fjós, að Anna bað hana að lofa sér að verða samferða. Siggi var búinn að segja henni frá kálfi, sem var nýkominn í fjósið, afbrigða fallegum. Og hann hafði ekki sagt of mikið. Þetta var svoddan indælis kálfur, silkimjúkur og mjallhvítur í framan. Sigga þreif stóran hrísvönd og sópaði stéttina í óða önn. „Hann hefur víst algerlega gleymt að sópa í morgun, karlrolan", tauaði hún. Það var Finni, sem átti að hirða fjósið. Þá datt Önnu í hug, að ekki væri ómögulegt, að Sigga gæti sagt henni þessa margþráðu sögu. „Geturðu ekki sagt mér söguna hans Finna? Hvernig stendur á, að enginn skuli hafa sagt honum, hvað hún mamma hans hét?“ Sigga gretti sig, áður en hún svaraði. „Hún hefur nú víst ekki verið hátt sett í heiminum, vesaling- urinn, umkomulaus vinnukind 'hérna á Nautaflötum“. „Veizt þú þá, hvað hún hét?“ „Já, ójá, hún hét Sigurveig. Ég heyrði oft minnzt á hana“. „En hvernig stendur á, að sagan hans Finna er orðin gras- gróin?‘, „Hverslags spurningar eru nú þetta? Ég er nú ekki svo skyn- söm að geta svarað svonalöguðu“, sagði Sigga önug. „Hann sagði það sjálfur, að hún væri orðin grasgróin“. * „Nú, svaleiðis. Nú skil ég. Hann hefur meint, að hún væri gleymd. Þú hefur verið að biðja hann að segja þér hana. Alltaf þessi sögusótt nótt og nýtan dag“. „Segðu mér hana, Sigga mín, af því þú kannt hana. Ég skal þá alltaf vera góð við þig“. „Þú ert sjaldan öðruvísi, anginn litli. En sagan sú er hvorki falleg eða merkileg. Hann fæddist hér á Nautaflötum, og móðir hans var hér vinnukona, eins og ég sagði þér — unglings bjálfi. Bóndasonurinn, sem hét þá Jón Jakobsson, alveg eins og núna, hljóp í einum spretti eftir baðstofugólfinu, þegar hann þurfti að ganga út og inn; var svona hræddur við hljóðin í barninu. Hann bað móður sína að koma því burtu af heimilinu, en vesalings móðirin bað þess grátandi að fá að hafa það hjá sér, og það varð svo, að hann varð kyrr og hefur aldrei flutt sig frá Nautaflöt- um síðan“. „Því var hann að gráta?“ spurði Anna. „Það gera öll börn. Þau gráta, af því þau kvíða í^rir að lifa í heiminum, blessaðir sakleysingjarnir. En þegar drengurinn var skírður, var maður vestan af landi nefndur faðir að honum. Sá hafði komið með áríðandi bréf til hreppstjórans og gist í þrjár nætur vegna ótíðar. En þær gátu nú skrafað vinnukonurnar hérna þá eins og núna, svona sín á milli, og þær sögðu, að slíkt gæti ekki staðizt. Já, þú skilur það ekki, barnið gott — látum svo vera. Svo ólst hann upp hér á heimilinu — en þegar hann missti móður sína, varð hann svona undarlegur. Hann hafði, trúi ég, alltaf verið að ganga í kringum kirkjuna, meðan hún stóð uppi og verið að tala við hana. Og þegar búið var að jarða hana, fór hann að tala við hundana og kýrnar um hana, og svo hefur hann vanizt á þetta „trjámannsraus" eða eintal, sem kallað er. Hann var ekki álitinn með fullu viti á tímabili“. „En var þá ekki pabbi hans hjá honum?“ skaut Anna inn í hálfkjökrandi. „Pabbi hans sá hann aldrei. Ég held það geti skeð, að hann hafi aldrei vitað það einu sinni, að faðerninu var klínt á hann. Finnur vesalingurinn var alinn hér upp á náðarbrauði, og það skiptu sér víst fáir af honum, fyrr en Jakob komst á legg. Hann var alltaf góður við hann og bað móður sína að gefa honum sama mat og sér“. „Var honum gefinn annar matur, eins og hundunum?“ „Það er varla von að þú skiljir þetta. Það var ekki siður að láta alla sitja við sama borð, eins og hún fóstra þín gerir. Nei, ónei. Það var farið með tökubörnin allt öðru vísi en börn húsbændanna, og þeim var skammtaður allt annar matur, og vinnufólkinu líka“. „Var þá enginn góður við Finna? Því missa svona mörg börn mömmu og pabba?“ „Það er nú eitthvað, sem ég get ekki svarað. Það er himna- faðirinn, sem ræður því“, sagði Sigga og blés mæðulega, um leið og hún lét stóra hrísvöndinn á sinn stað. „Svona, nú er ég búin að þrífa almennilega fyrir hann, karlskepnuna“. „Var enginn góður við Finna, þegar hann var búinn að missa mömmu sína?“ hafði hún spurt í annað sinn. „Ég býst við, að hann hafi ekki átt slæmt, tetrið a tarna. Hún var góð kona, hún Ingibjörg heitin, og það var hann líka, hann Jón heitinn. Hann kenndi honum þó að lesa og skrifa; það voru færri tökubörnin, sem fengu að læra það. En sjálfsagt hefur hann ekki verið settur á kné sér og kjassaður eins og þú, Anna mín!“ Sigga strauk kýrnar dágóða stund, en Anna stóð hugsandi og horfði á hana. Loks spurði hún: „Hvað er það að vera alin upp á náðarbrauði?“ „Nú, nú! Kemur ein spurningin enn. Það er kallað, þegar börnin eru alin upp, án þess að gefið sé með þeim af sveitinni eða éinhverjum vandamönnum þeirra, eins og til dæmis hann Siggi hérna. Það er skylda þeirra barna að vinna lengi kauplaust hjá fósturforeldrunum, þegar þau eru komin yfir fermingu, og það gerði Finnur líka svikalaust, því hann fékk eiginlega ekkert kaup, fyrr en hún Lísibet kom hingað, og eftir það datt heldur engum í hug að álíta hann ekki með fullu viti. Ég veit ekki, hvað hún hefði sagt við þann hinn sama, sem hefði látið það út úr sér“. „Aumingja, blessuð mamma mín, svona er hún góð við alla“, sagði Anna, en svo bætti hún við brosleit, því nú hafði henni dottið dálítið í hug, sem gerði hana ósegjanlega ánægða: „Ég skal segja þér nokkuð, Sigga. Ég ætla að gefa honum Finna eitthvað af peningunum mínum“. „Hvaða svo sem peninga skyldir þú svo sem eiga?“ sagði Sigga önug. „Heldurðu að allt, sem pabbi átti, hafi ekki verið selt fyrir mikla pfeninga, borðin og stólarnir og allt, sem var í búðinni, og svo margt fleira? Náttúrlega hafa komið miklir peningar fyrir það, sem pabbi geymir víst handa mér, þangað til ég er orðin stór“. Þá hafði þessi harðbrjósta kona rutt úr sér helberum sann- leikanum, án þess að finna til minnstu samúðar með allsleysi önnu litlu. „Ég get nú sagt þér það, Anna litla, að hann faðir þinn var svo skuldugur, þegar hann féll frá, að það var ekkert afgangs handa þér, ekki einu sinni orgelið. Jakob keypti það fyrir sína peninga. En ég býst við, að þú þurfir ekki að kvíða fyrir fátæktinni. Þau líta sjálfsagt eitthvað til með þér, fósturforeldrarnir þínir, fyrst þú komst hingað á annað borð, vesalingur“. „Er þetta satt?“ spurði A-nna vonsvikin. „Já það er satt. Víst er það satt. En samt á ég það við þig, að þú segir ekki henni Lísibetu þetta; hún yrði víst ekki ánægð við mig fyrir lausmælgina“. Anna hafði verið svo mikið barn, að hún skildi það ekki til fulls, hvort það var hennar eigið sakleysi eða sagan hans Finna, sem kom henni til að gráta í laumi allan daginn. Hún þorði ekki að tala við neinn um raunir sínar nema Jón, og hann var frammi í Seli og kom ekki heim fyrr en um kvöldið. „Því ertu svona raunaleg á svipinn, Anna mín?“ var hans fyrsta spurning, þegar hann kom inn til hennar, þar sem hún grúfði sig yfir bók og þóttist vera að lesa í henni. Þá gat hún ekki stillt sig lengur, en fór að kjökra. „Ég veit, að ég er alin upp á náðarbrauði, eins og Siggi og Finni. Ég hélt, að ég ætti peninga, sem pabbi geymdi, og ég ætlaði að kaupa mér saumavél og kommóðu og margt fleira, þegar ég væri orðin stór. En svo var mér sagt í dag, að þeir væru engir til“. „Er þetta náðarbrauð fjarska bragðvont?“ spurði hann dálítið glettinn. „Ónei. Það er kallað svo, þegar enginn gefur með manni. Það segir Sigga“. „Það var svo sem auðvitaö, að það hefði verið hún, sem ekki gat þagað. En vertu nú ekki að væla yfir þessu. Ég gaf þér mömmu og pabba með mér. Þess vegna áttu allt með mér, eins og þú værir systir mín, og getur keypt þér, hvað sem þú vilt, og eins verður hugsað um Sigga. En Finni hefur ekki verið alinn upp á neinu náðarbrauði. Það hefur bara verið farið skammarlega með hann. Hann hefur verið beittur svívirðilegum rangindum, sem ég skal segja þér frá, þegar þú ert orðin svo gömul, að þú skiljir það. Láttu svo á þig húfu og vettlinga; komdu út í hesthús og sjáðu hrossin, sem við komum með framan af Selsmýrum. Þú átt þau eins og ég, mundu það, og hættu að sýta“. Svo vöðlaði hann húfu á höfuðið á henni, svo klaufalega, að hún fór að hlæja. Svona var hann alltaf góður og hughreystandi fyrr og síðar. Anna hrökk upp eins og af draumi. Hvers vegna var þessi gamla, grasgróna saga að ryðja sér fram í huga hennar? Var hún ekki nógu oft búin að gráta yfir einstæðingsskap Finna og sjálfrar sín. Hún hafði gengið eins og villt manneskja annan krókinn upp en hinn niður og mjakast lítið áfram, meðan öll þessi ósköp höfðu velzt um í huga hennar. Síðan voru liðin tólf ár, og margt hafði breytzt á þeim árum annað en Finnur gamli. Hann gekk ekkert hægar nú en þá og talaði alltaf við sjálfan sig og hundana. Jón var búinn að segja henni söguna hans fyrir löngu, fylla í eyðurnar, sem Sigga hafði haft í hana, vegna þess hve hún var ung og skilningssljó. Nú vissi hún, hvers vegna enginn hafði sagt honum, hvað móðir hans hét. Það var af því, að hún var fátæk og lítilsvirt, alveg eins og myndirnar af for- eldrum hennar voru of lítilmótlegar til þess að hanga við hliðina á myndunum af ríkishjónunf. Hefði maður hennar verið fátækur, hefði engum dottið í hug að hafa á móti því, að myndirnar hefðu verið hengdar upp, en þá hefðu þau kannske ekki haft efni á að stækka myndir af foreldrum sínum, eða nein stofa verið til á heimilinu. Það var þó óneitanlega gaman að vera ríkur og geta veitt sér, hvað sem mann langaði til og láta alla sveitina líta upp til sín. En skemmtilegast hefði þó verið að eiga dálitlar eignir til að leggja í búið. Hófaskellir rétt hjá henni komu henni til að líta upp. Jón kom skeiðríðandi niður mýrarnar og stefndi til hennar. „Ó, þarna var hann kominn. Skyldi hann hafa þekkt hana?“ Hún stanzaði og beið hans. „Hvernig stendur á, að þú ert hér ein á ferð, góða mín?“ spurði hann undrandi og reyndi að stilla hest sinn. „O, það er af því ég var að fylgja Þóru“, sagði hún brosandi. Hann hallaði sér í hnakknum og rétti henni höndina. „Reyndu að stíga á fótinn á mér. Svo reiði ég þig heim“. Hún horfði á gráan gufustrókinn úr nösum hestsins, hrædd og hikandi. „Heldurðu, að Fálki verði stilltur?“ „Svona, komdu bara. Vertu ekki hrædd“. Hún kom hikandi og hrædd og rétti honum höndina. Hann tók hana á bak eins og krakka og setti hana fyrir framan sig. Hún kyssti hann hlæjandi hvað eftir annað, án þess að gefa því nokkurn gaum, að hann hafði smakkað vín. „Ertu svona kát, góða? Ég sem hélt, að þú yrðir reið við mig fyrir óhlýðnina. Þú getur ekki ímyndáð þér, hvað það var gaman að dansa eftir allar inniseturnar og kuldann, en bezt er þó að vera kominn heim og fá góðar viðtökur“. „Ég fer með þér á næsta ball. Ég sé þetta er ekkert annað en sérvizka að láta svona“, sagði hún. „Þá verður ennþá skemmtilegra. Það var einmitt það, sem vantaði, að þú varst ekki með“. „Ég skal segja þér það, að ég mjólkaði með Borghildi bæði í gærkvöld og núna. Þess vegna geng ég ógreidd milli bæjanna“, hélt hún áfram. „Þú ert bara að verða dugleg kona, heyri ég er. En hvað það er gaman“. ' „í kvöld erum við boðin í skírnarveizlu til Þóru. Ég ætla að halda á barninu, alveg eins og mamma gerði. Þóra bað mig þess. Nú er hún orðin ríkari en við“. En heima á hesthússhlaðinu beið Finnur gamli og talaði við hundana. „Það veitir sjálfsagt ekki af að gefa þeim gráa vel, þegar hann kemur. Því þótt maður og kona séu eitt, þá býst ég þó við, að það sé þyngra á honum en vant er. Einhvers staðar mátti víst finna dæmi upp á það í íslendingasögunum, að þeir reiddu þær fyrir framan sig. Þetta er svo sem ekki nýtilkomið. Aldrei sást nú samt svona til hans Jakobs, þess prúða og góða manns, enda var hún fullt svo rífleg á velli og hann , blessuð húsmóðirin, svo það hefði fallið svo mikið ver saman. Hann lét nú líka heldur minna en hann sonur hans. Það var nú trú eldra fólksins, að svona lagað yrði ekki endingargott. En honum er búið að þykja lengi vænt um hana, þessa stúlku. Hún er líka falleg og ekki ólík henni Helgu fögru. Sagan segir, að hún hafi haft mikið hár, en lítið lán“. Svo rölti gamli maðurinn heim til bæjar með hundana sína á hælunum, stuttstígur og hjárænulegur, alveg eins og fyrir tólf árum, þegar Sigga gamla sagði söguna hans af litlu munaðarlausu stúlkunni, sem langaði svo mikið til að heyra sögur, einkanlega ef þær voru orðnar grasgrónar. Fálki skeiðaði heim túnið hnarreistur og fráneygður, þótt byrðin væri þyngri en vant var. Anna hallaði sér að manni sínum sæl og brosandi og horfði dreymnum augum kringum sig. „Sjáðu, góði minn, hvað dalurinn okkar er yndislegur. Það er eins og svellin séu úr rauðglóandi gulli. Hvað lífið væri yndislegt, ef engar sorgir væru til“. III. TÆPAR LEIÐIR HJÓNIN Á JARÐBRÚ Bóndinn á Jarðbrú hét Páll Þórður. Jörðin sú var framarlega í dalnum vestanverðum. Páll hafði alltaf, frá því fyrst hann flutti í dalinn, verið álitinn svartur sauður í hinni hvítu hjörð dalbúa, og þess vegna litinn hornauga af flestum. Hann var lítilmenni í sjón og reynd, mjúkur í máli, en óhreinlyndur. Hann hafði þann sið, að hafa yfir ritningargreinar, sem honum fundust eiga bezt við umtalsefnið, þegar hann ræddi við nágranna sína, og eignaði þær jafnan Páli postula. En þeir, sem biblíufróðir voru, sögðu að hann eignaði nafna sínum meira en hann ætti. Og svo festist það við hann að vera kallaður „postuli". Kona hans hét Ketilríður. Ekki var hún álitinn neinn kven- kostur að öðru leyti en því, að hún hafði karlmannsþrek til allrar vinnu. En samt var almennt álitið, að hún hefði tekið niður fyrir sig með giftingunni, því að Páll var bæði latur og þreklítill. Þau höfðu búið í nokkur ár á jarðbrú og alltaf legið á þeim sterkur grunur um sauðaþjófnað. Ef einhvern vantaði af heimtum, var vanalega Páli ætlað að hafa náð því. Enginn var þó eins og þeir Hólsfeðgar, nágrannar þeirra. Þá vantaði oft skepnur, sem höfðu gengið í heimahögum allt sumarið. „Þetta hefur lent í hyskinu á jarðbrú“, var vana viðkvæðið hjá Sigurði gamla. En stundum kom þó fyrir, að það kom fram annars staðar, sem álitið var að hefði lent hjá Páli. Þá lægði tortryggnina um stundar sakir. Meðan Jakob hreppstjóri lifði, reyndi hann að bæla niður þennan orðróm. Margt gat nú orðið af skepnunum annað en að þeim væri stolið, og ólíklegt, að eitt heimili gæti torgað öllu því kjöti. Hann gat ekki til þess hugsað, að þjófnaðarorð bærist út úr dalnum hans. Slíkt hafði aldrei heyrzt áður. En hann reyndi það, sem hann gat, til að losa jörðina úr ábúð Páls. En Ketilríður hafði komið því svo fyrir, að hann hafði lífstíðar ábúð. Það var því ekki gott viðgerðar. Sigurður gamli á Hóli reyndi að fá kotið keypt, og ætlaði þannig, eins og hann sagði, að losa sig við þennan óþverra; en það gekk ekki heldur. Það leit út fyrir, að ekkert gæti komið Páli burtu. Samt kom að því, fyrirhafnarlaust að heita mátti. Það var kvöld eitt seint í ágúst. Brakandi þurrkur hafði verið allan daginn. Búverkareykinn lagði beint upp í loftið frá hverjum bæ. Vinnukonan á Hóli kom óvenju seint heim. Það hafði verið þurrkað og tekið saman mikið hey á engjunum. Ragnheiður gamla var búin að kvía ærnar og byrjuð að mjólka. „Hún er alveg vitlaus, kerlingarskassið“, sagði Helga við vinnukonuna. „Þú skalt fara upp á kvíarnar. Ég verð að reyna að ná í kýrnar“. Svo lagði þessi þungfæra kona af stað með annan soninn á handleggnum. Hún hljóp á undan með snærisspotta í hendinni, sem hún ætlaði að reka kýrnar með. Þær voru úti hjá Jarðbrú. Ketilríður sendi krakka á móti henni með kýrnar. Hún gat getið þess nærri, að hún ætti erfitt með að bera krakkann alla þessa leið. Strákurinn bauð Sigga litla að smakka það, sem hann væri með í lófanum, það væri góður matur. Hann var til með það. Helgu fannst strákurinn haga sér eitthvað kynlega, og spurði hann hvað hann væri að pukra með. „Það er bara lifrarpylsa. Ég var að gefa Sigga litla að bragða á henni. Hún er ný“, sagði strákurinn, og sýndi henni enda af kepp, sem hann var með í lúkunni. „Þið eruð svei mér stöndug, að eiga nýtt slátur núna, þegar allir éta gallsúrt“, sagði Helga. Tortryggni hennar var vöknuð á augabragði. „Ég bara skauzt bak við mömmu og greip þennan kepp úr troginu um leið og ég fór út. Hún var nýlega búin að taka keppina upp úr pottinum. Hann var svo sjóðandi heitur, að ég hélt hann ætlaði að brenna mig meðan ég var að fara út göngin. Svo lét ég hann í lækinn, og þar kólnaði hann“, sagði hann hreykinn yfir ráðkænsku sinni. „Hafið þið misst eitthvað af ánum?“ spurði hún. „Nei, það var hrútur með stórum hornum, Hausinn af honum er undir heyinu í tóftardyrunum í ærhúsinu. Ég held, að mamma ætli að svíða hann á morgun. Ég reif dálítið hrís í dag til þess, og þá fáum við hornin“. „Og þú hlakkar til að fá hornin til að leika þér að þeim, Steini minn“. „Svona líka stór og falleg“, sagði strákur og hljóp burtu. En Helga kjagaði heimleiðis með vandlætingarsvip á andlitinu og gremju í huganum til þeirra á Jarðbrú. Þessari skepnu höfðu þeir óefað stolið. Enginn smábóndi, sem ekki á nema einn hrút, fer að drepa hann að gamni sínu. Reyndar gat það alltaf hent sig, að skepnur fengju vanka, en ekki hafði Páll minnzt neitt á það þegar hann kom fyrir nokkrum dögum. Um kvöldið sagði hún manni sínum frá því, sem Steini hafði verið að blaðra. „Það er þá líklega ekki fyrsta skepnan, sem þau þurfa að fela hausinn af. Bágt er að geta ekki klekkt á þeim einhvern tíma“, sagði hann hálfsofandi. Klukkan fimm næsta morgun reis Erlendur úr rekkju sinni og klæddi sig, án þess að nokkur yrði þess áskynja. Kona hans var svefnþung, en foreldrar hans bæði heyrnardauf, svo það þurfti ekki að læðast um baðstofuna. Hann hljóp út að fjárhúsum nágranna síns. Fyrir þeim var gamall hengilás. „Eitthvað hefur kauði þar, sem þarf að fela. Ekki er það vanalegt, að hann læsi fjárhúsunum“, tautaði hann og réðst á lásinn með báðum höndum, en spyrnti með öðrum fætinum í dyrastafinn. Kengurinn dróst út úr feysknum stafnum, undan sterklegum átökum hans. Húsið var þreifandi dimmt, allar smugur, sem birta gæti komizt inn um, voru byrgðar. En af birtunni, sem lagði inn um dyrnar, sá hann hvíta gæru, sem breidd var á garða- bandið. Erlendur þreif gæruna og aðgætti hana við birtuna. „Hrútsgæra, ekki ber á öðru. En nægilegt sönnunargagn er hún tæplega. Helzt vildi ég fá hausinn líka“.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.