Lögberg - 01.07.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 01.07.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 1. JÚLI 1954 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF > ............-..—r Hún rétti honum höndina. Hann tók fast og innilega í hana og sagði blíðlega: „Alltaf verður þú bezta vinkonan okkar, Þóra mín. Þú sérð, að hlaðið er þéttskipað hrossum, svo að þú getur setið á einhverju þeirra út eftir. Siggi getur farið með þér“. „Þess gerist ekki þörf. Ég er ekki fótaveik ennþá“, sagði hún og hraðaði sér heimleiðis. Þegar hún kom út að merkjunum hægði hún gönguna. Hún sá, að Sigurður stóð ennþá við orfið niður á engjunum. Þá var öllu óhætt. Einhvern veginn kæmi hún mjöltunum af, þó að áliðið væri. Þegar skapið fór að kyrrast, fann hún til þess, að hún hafði verið óviðkunnanlega orðhvöss og ónærgætin við Önnu vesaling- inn. Hún hafði næstum skipað henni að fara að klæða sig. Vel gat verið, að hún gæti það alls ekki, þó að Borghildur þættist þess fullviss, enda hafði hún farið alla leið út í kirkjugarð. Líklegast var, að sá spádómur ætlaði að rætast, sem önnur hver skrafskjóða sveitarinnar lét til sín heyra, þegar trúlofun þeirra Jóns og Önnu flaug milli bæjanna. Hann var sá, að þetta nýja húsmóðurefni væri komið út af geðveiku fólki í marga liðu, og líklega leiddi hún ógæfu yfir þetta góða heimili. Þá hafði Þóru fundizt það eins og dálítið svalandi, að hugsa til þess, ef svo ætti að fara. En nú hryllti hana við að hugsa til þess, ef þau ósköp ættu að bætast við aðrar sorgir, sem Jón væri búinn að reyna. Hann var orðinn einkenni- lega þreytulegur á svipinn. Það var ekki nema eðlilegt, að hann væri fyrir löngu orðinn uppgefinn á að búa við kjarkleysið og volið í þessari aumingja manneskju. Hann hafði áreiðanlega haft meiri þörf fyrir hlýlegri samræður en ásakanaraus hennar. Hún varð að skreppa fram eftir bráðlega aftur, og reyna þá að vera svolítið stilltari. Þetta hafði komið henni svo á óvart. Hver mundi hafa trúað því fyrir nokkrum árum, að þessi lánsama kona óskaði þess helzt að mega deyja? Morguninn eftir, þegar engjafólkið var komið út á hlað með nestisböggla og fötur, kom húsbóndinn út og sagðist ekki verða með fram eftir í dag. En við Ketilríði þyrfti hann að tala nokkur orð. Ketilríði brá illa við. Hún hafði verið hálf óróleg, síðan hún sá Þóru í Hvammi kvöldið áður. Henni fannst eitthvað liggja í loftinu, sem hún óttaðist. Það var líka óskaplegur pilsagustur af Borghildi, og svipur hennar langt frá því að vera hlýlegur. Hún fylgdist með Jóni inn í skálann. „Er það svo sem eitthvað sérstakt, sem þú þarft að tala við mig?“ spurði hún hikandi. Hún sá, að hann var í óvanalegu skapi. „Það var bara þetta, að þú verður að fara héðan alfarin af heimilinu það fyrsta. Ég efast ekki um, að þú getir fengið vinnu fljótlega, jafn dugleg kona, en hér getur þú ekki verið lengur“. „Hvað svo sem á þetta að þýða?“ sagði hún skjálfrödduð. „Hvað hef ég svo sem gert af mér. Það má þó ekki minna vera en að ég fái að vita það“. „Þú ert búin að telja konunni minni trú um, að álög og hefnd séu þess valdandi, að hún missti barnið, og alls konar hindurvitni og fjarstæðu, sem hún er orðin hugsjúk út af. Þetta eru ástæðurn- ar til þess, að þú verður að fara. Og þær eru víst nægilegar“. „En sú fjarstæða“, sagði Ketilríður. „Hvenær skyldi ég svo sem hafa átt að hafa tíma til þess? Ég segi það nú bara“. „Það veizt þú bezt sjálf. Líklega eitthvert kvöldið, þegar þú varst að vita hvernig henni liði. Þetta hefurðu. haldið að hressti hana bezt. Svo þarf ekki að tala meira um það“. „Ég er ósköp hrædd um, ’að tarna hafi verið lagað eitthvað í meðferðinni. Ég hef áreiðanlega ekki sagt eitt einasta orð við hana, blessunina, sem gæti angrað hana á neinn hátt, enda á hún það ekki skilið sú manneskja, sem ekkert er annað en gæðin við mig. Það hefur einhver annar en hún sagt þér þetta, það er ég han viss um“, sagði hún og var nú farin að ná sér talsvert eftir undrun- ina, sem hafði gripið hana í fyrstu. „Vertu ekki að þessu óþarfa masi“, sagði hann. „Þér dettur þó líklega ekki í hug að segja, að Anna fari með það, sem ekki er satt?“ Hann var farinn, áður en hún gæti svarað. Hún var alveg ráðalaus. Hún hafði ekki getað trúað, að þetta kæmi fyrir. Það var Þóra, sem hlaut að vera potturinn og pannan í þessu öllu saman, það var hún alveg viss um. Ekki nema það þó, að vísa manni í burtu um hásláttinn. Aldrei hafði hún kynnzt öðru eins. Hesturinn var orðinn órólegur og hneggjaði í áttina til engjanna, þangað sem hann var vanur að fara. Ketilríður komst aldrei á bak. Loks sleppti hún honum og gekk alla leið fram eftir. Allt var jafn erfitt fyrir henni þennan morgun. „Nú gýs Katla“, sagði Siggi, þegar hann sá til ferða hennar. En svo varð ekki. Ketilríður kom löðursveitt fram eftir og talaði ekki orð við nokkra manneskju, enda vogaði sér enginn að yrða á hana. Allir sáu, að eitthvað hafði komið fyrir hana, en enginn gat rennt grun í, hvað það var. Hún sat langt frá stúlkun- um, þegar farið var að borða. Siggi talaði um það við Finn, hvort hann héldi, að Katla væri alveg útbrunnin núna. Finnur varð seinn til svars. Loks sagði hann, eftir að hafa virt Ketilríði vandlega fyrir sér, þar sem hún var alein úti í móum: „Líklega hefur hún verið orðin uppgefin á því að hrakyrða skepnuna. Ekki er heldur ómögulegt, að hún sé eitthvað lasin, kvenmannstetrið. Það kennir hver sín, ,þótt klækjóttur sé“. Það varð úr, að allir álitu, að Ketilríður væri sárlasin. Það var Lína ein, sem vogaði að spyrja hana að því. „Ætli það verðir ekki þú, beygjan, þín, sem verður lasin á undan mér“, var það eina, sem Ketilríður svaraði. Hún talaði ekki við nokkurn mann um kvöldið áður en hún fór að hátta. Stúlkurnar sögðu Borghildi frá ógleði Ketilríðar. „Hún skaðar þá engan með þvaðrinu, ef hún þegir“, sagði Borghildur kuldalega. Þá vissu þær, að eitthvað hafði komið fyrir milli Ketilríðar og húsbóndans, og töluðu ekki meira um það. Næsta morgun bað Ketilríður Línu að halda í hestskrattann, meðan hún skryppi inn í stofuna og talaði fáein orð við hús- bóndanji. Hún hafði heyrt til hans þar inni. Þær fóru með karl- mönnunum strax á morgnana. Vigga og kaupakonan luku við mjaltirnar með Borghildi. Lína var nýfermdur unglingur og var ekki látin mjólka. „Viltu hlusta á mig svolitla stund“, sagði Ketilríður þegar hún kom í stofudyrnar. „Ég heyri til þín“, Svaraði hann. „Það er nú bara þetta, sem ég ætlaði að segja — að mig langar til að heyið verði komið í tóft, áður en ég fer af heimilinu. Ég kann ekki við að hlaupa svona frá verkum mínum. Það er ekki nema sjálfsagt, að ég líti ekki inn til blessaðrar húsmóðurinnar, svo að hún hafði ekki illt af mínum komum. Vonandi fer þá heilsan batnandi. Helzt vildi ég, að þú yrðir sjálfur í bandinu með mér. Við gætum þá kannske jagazt á meðan, okkur til skemmt- unar“. Hún hló storkandi hlátri. „Ég hef hvorki löngun til að jagast eða ánægju af því“, svaraði hann stuttlega. „Og af engjum bind ég aldrei. Ég tek venjulega á móti, svo að þú nýtur ekki þeirrar ánægju, þótt þú hinkrir við að fara. Tommi bindur alltaf“. „Svoleiðis skussar finnst mér tæplega baggafærir“, svaraði hún með sinni venjulegu illkvittni í garð starfsfélaga sinna. * „Hann er búinn að vinna hér á heimilinu í mörg ár og hefur alltaf þótt góður verkmaður. Sjálfsagt hefur honum ekki farið það aftur í sumar“, svaraði hann jafn rólega og áður. Hún beið í dyrunum eftir svari. „Ef þú getur ekki yfirgefið heyið, áður en það er komið í tóft, meina ég þér það ekki. Varla verður þess langt að bíða“, sagði hann þá til að losna við hana. Hún brosti lævíslega og skellti aftur hurðinni. „Jæja, Lína mín“, sagði hún mjúkmál, þegar hún kom út á hlaðið, „nú hjálparðu mér á bak, svo að ég þurfi ekki að ganga alla leið eins og í gærmorgun“. „Það voru nú meiri vandræðin“, sagði Lína. „Þú hlýtur að hafa verið orðin dauðuppgefin, þegar þú komst frameftir?“ „Það, finnst ykkur, sem eruð vanar því að skeiðríða á engjarn- ar. En slíkt hefur mér nú ekki verið boðið fyrr en hér. Ekki vissi ég til þess, að settir væru undir mig hestar, þegar ég var vinnu- kind á Ásólfsstöðum, og var þó ekki styttra þaðan fram í breið- urnar, þar sem þú sást strákana vera að hjakka í gær. Svo verðum við að reyna að láta stíga fram eftir, svo að við verðum ekki langt á eftir strákaskröttunum að verkinu“. Lína vatt sér á bak með matarböggla í báðum höndum. „En sá fimleiki“, sagði Ketilríður. „Það er sama hver það er, sem kemur að Nautaflötum, hann er orðinn reiðgikkur með það sama, nema þeir hundar, sem eru orðnir svo gamlir, að þeir geta ekki lært neitt. Þarna hangir hann eins og haftsár klár við gluggann og horfir á eftir hestunum“. „Um hvern ertu að tala?“ spurði Lína skilningssljó. „Það er alveg sama, hver það er. Við skulum reyna að komast áfram“, sagði Ketilríður brosleit. Dagurinn var drurlgalegur, og úr miðaftni kom hellirigning. Stúlkurnar komu heim fyrr en vant var. Þær fóru úr bleytunni frammi í gamla eldhúsinu. Þangað kom Borghildur með heita kaffikönnuna og bollapör. „Líklega er ykkur full þörf á að fá ykkur sopa“, sagði hún og hellti í bollana. Ketilríður greip bollann báðum höndum og sagði: „Alltaf ertu jafn matarleg, blessuð manneskjan11. Þegar hún hafði drukkið kaffið og Borghildur ætlaði að fara að taka bollana, gat Ketilríður ekki lengur innibyrgt þakklæti sitt til þessarar veitulu konu. Hún tók hana nokkurs konar hrygg- spennu, þrýsti henni fast að sér og lagði blautt andlitið að vanga hennar. „Guð launi þér þetta og allt annað mér auðsýnt“, sagði hún skjálfrödduð. „Líttu nú í náð þinni til mín og afstýrðu því, að ég þurfi að hrekjast héðan af þessu góða heimili. Mér hefur hvergi liðið eins vel og hér“, bætti hún við. „Nú er mér nóg boðið“, sagði Borghildur og gerði árangurs- lausa tilraun til að losna úr þessum járngreipum. „Það er eins og ég væri einhver æðri vera, sem þú hugsaðir þér að fara að til- biðja. Ég ræð víst litlu þar um“. „Jú, þú ræður einmitt miklu. Góða, hafðu áhrif á hann“, sagði Ketilríður. , Borghildur flýtti sér inn þegar hún var laus við þessi stór- kostlegu atlot, sem hana sárverkjaði undan. „Það yrði sjálfsagt ekki neinn hægðarleikur að koma henni í burtu, þó að hún og aðrir æsktu þess af heilum huga“, hugsaði Borghildur. ÓÞurrkarnir héldust nokkra daga. Það dróst að bindingar kæmust á. Það var einmitt það góða, hugsaði Ketilríður. En þegar búið var að flytja heim, sýndi hún ekkert fararsnið á sér, því að ennþá var mikið hey á engjunum. Hún gekk að því að þurrka það og sæta. Hún forðaðist að verða á vegi húsbóndans, og tókst það. Hann var heima að slá há, en mjaltakonurnar rökuðu á eftir honum, áður en þær riðu á engjarnar. Dísa sagði henni, að mamma væri farin að klæða sig, en Ketilríður sá hana aldrei. Hún var háttuð, þegar komið var af engjunum, og ekki komin á fætur, þegar lagt var af stað á morgnana. Það var alvanalegt, að vinnu- fólkið sá ekki húsmóðurina, eftir að farið var að heyja frammi á Selsengjum, nema á sunnudögum. Eitt kvöldið sagði Borghildur þau gleðitíðindi, að hjónin hefðu riðið ofan á Ós og heim aftur þann sama dag. Þá lofaði Ketilríður Guð. Það gerði enginn annar, þó þótti öllum vænt um að heyra þessar fréttir. Um síðustu helgi fyrir göngurnar riðu þau hjónin vestur að Felli. Ketilríður lét ekki sjá sig þann sunnudag. Sumir héldu, að hún hefði gengið eitthvað til næstu bæja, þó að slíkt væri óvenju- legt. Finnur gamli bjóst við, að hún svæfi úti í hlöðu. „Hún vinnur mikið, konukindin, og er líka þreytt, gæti maður hugsað“. Hún kom inn strax og hjónin voru riðin úr hlaði. Nú var ekki annað eftir en að þurrka og binda og reiða heim það, sem laust var á engjunum. Svo kæmu rólegir dagar til gangananna og sláturtíðarinnar, hugsuðu stúlkurnar. Nú yrði hægt að sofa lengur á morgnana, kýr og ær mjólkaðar seinna en áður, vegna birtunnar. Fyrsta morguninn, sem þær ætluðu að sofa út, varð Borghildur þéss áskynja, að Ketilríður var á ferli afarsnemma, og þegar hún reis upp og fór að klæða sig á venju- legum tíma, sá hún að Ketilríður var ekki í rúminu. Hvað skyldi nú vera um fyrir henni? hugsaði Borghildur. Þegar hún hafði lagt að eldinum og látið ketilinn yfir, fór hún út til að vita hvort hún sæi ekkert til Ketilríðar. Hún var hvergi sjáanleg, en eitthvert þrusk heyrðist henni fyrir sunnan bæinn. Hún gekk í áttina þangað. Eitthvað þeyttist yfir kálgarðsvegginn, og svo annað þar á eftir. Nú skildi hún hvað Ketilríður var að gera. Stór bingur af þrýstnum gulrófum sýndi bezt, að hún var búin að vera lengi á fótum. „Ég á engin orð til yfir háttalag þitt, Ketilríður“, kallaði Borg- hildur. „Því í ósköpunum hvílirðu þig ekki eins og aðrir. Nóg er nú að vinna á daginn. Hvernig sérðu til þess arna?“ Ketilríður svaraði glaðlega: „Það eru ekki svo litlir kálskúf- arnir, að ég finni þá ekki. Svo hefurðu máske tekið eftir því, að það eru gul í mér augun, eins og í köttunum; ekki er ólíklegt, að ég sjái í myrkri, eins og þeir. Mig langaði til að húsbóndinn sæi, að vinnufólkið hans eru engir augnajfjónar. Það væri gaman, að vera búin að taka upp úr görðunum, þegar hann kemur heim. Það eru líka blessaðir þurrkar nú á degi hverjum. Ekki á maður víst, að þeir haldist. Venjulega koma rigningar um göngurnar. Ég er búin að kippa upp úr þrem beðum, og get nú sagt eins forn- aldarkonan, að drjúg séu morgunverkin“. „Já, náttúrlega eru þau það alltaf“, sagði Borghildur. „En mér ofbýður bara, hvað þú leggur á þig. Þér er þörf á hvíldinni, ekki síður en öðrum“. „Ég þekki nú ekki annað í lífinu en vinnuna og þrældóminn. Sjaldan heyrði ég, að það væri virt neitt við mig, fyrr en ég kom á þetta heimili. Svo það má ekki minna vera en að ég dragi ekki af mér þennan stutta tíma, sem eftir er. En kaffisopa get ég þegið svona bráðum“. „Það er sjálfsagt farið að sjóða á katlinum, svo að þú mátt gefa upp strax“, sagði Borghildur og sneri heim á leið. „Ég kasta þessu út, sem eftir er í beðinu. Það er ekki lengi gert. Svo þætti mér nú líklegt, að þær yngri færu að hrþyfa sig, þegar þær sjá, að kerlingargarmurinn er skriðinn úr bólinu“. „Ja, þessi manneskja“, sagði Borghildur við sjálfa sig. „Hún veit áreiðanlega, hvernig hún á að koma ár sinni fyrir borð. Henni er fleira vel gefið en dugnaðurinn“. Ketilríður var orðin eins og allt önnur manneskja. Hún var hlýleg og spaugandi við alla. Lína, sem sjaldan hafði verið kölluð annað en „beygjan“ eða „stelpuræksnið“, var nú alltaf „litla fiðrildið“ eða „litla lóan“. Borghildi nefndi hún ekki annað en blessunina, og aldrei var setzt svo að matborðinu, að hún talaði ekki um, hvað maturinn væri indæll og kaffið bragðgott og hress- andi. Það hafði þó oft verið ódrekkandi skolp og maturinn óætur fyrir salti. Á laugardagskvöldið fyrir göngur komu hjónin heim. Þá var búið að hlaða fyrir öll hey og taka upp úr görðunum, þurrka kartöflur og rófur og koma þeim í geymslu. Borghildur dró það ekki af Ketilríði, að hún hefði drifið í öllum þessum miklu vinnu- brögðum, jafnvel þótt hún vissi, að það myndi verða til þess að hún ílentist þar á heimilinu. Það mátti til að láta hana njóta sann- mælis, þó að hún væri erfið og allir óskuðu henni í burtu. „Hún hefði haldið manni „gildi“, hún Lísibet, hefði hún ráðið hérna húsum“, sagði Finnur gamli. „Það verður líka gert“, sagði Borghildur. „Þetta verður marg- háttað gildi, bæði engjagildi og gjöld fyrir garðvinnuna, og svo vegna þess, að hjónin eru komin heim“. Svo var setzt að súkkulaði og kaffidrykkju, en vínflöskuna, sem venjulega var á borðum, þegar svona var haft mikið við, þorði Jón ekki að koma með. Hún skyldi verða tekin upp á morgun og næsta dag. „Hlakkarðu ekki til að ríða í göngurnar, Jón minn?“ spurði Finnur gamli. „Þú hefur haft hægt um þig nú í seinni tíð; það hefur gert konan“. „Alltaf segir Finnur eitthvað skrítið“, sagði Borghildur og leit til Önnu. Það var ekki hægt að sjá, að hún hefði tekið eftir því, sem Finnur sagði. „Þig minnir, að þú sért að tala við Jón, þegar hann var krakki“, hélt Borghildur áfram. „Ja, nei, Borghildur mín. Ég er ekki orðinn svo ruglaður í ríminu, að ég fari ekki nærri um það, hvað við erum orðin gömul“, svaraði gamli maðurinn. „Finni veit hvað hann syngur ennþá“, sagði Siggi brosleitur. „Honum hefur líklega sýnzt Fálki fara heldur hægt hérna fratn eyrarnar“. „Það var þetta, sem ég átti við“, svaraði Finnur, „að ég hef alltaf álitið, að það ætti betur við hann smalamennska heldur en hjúkrunarstörf, þó að þau sýnist ætla að fara honum sæmilega úr hendi í þetta sinn“. „Við bætum okkur upp þess^r kyrrstöður á morgun, ég og Fálki“, svaraði Jón og hrukkaði ennið dálítið óánægjulega. Þegar búið var að drekka kaffið, og allir fóru að þakka fyrir sig, klifraði Dísa litla upp á hnéð á pabba sínum, sem hún kallaði, og bar feimnislega fram þessi bænarorð, sem hafði kostað móður hennar mikla þolin mæði að kenna henni: „Elsku pabbi, lofaðu mér að vera hérna lengur og mömnaU líka. Við viljum hvergi annars staðar vera en hérna hjá Jakob • Anna hafði varla talað orð meðan á kaffidrykkjunni stóð, en nú brosti hún til manns síns og sagði: „Þú getur ekki neitað barninu, Jón, þegar það biður þú? svona vel“. „Ég hefði ekki getað ámálgað það við Ketilríði, að hún fseri, eftir allt það, sem hún er búin að vinna meðan við vorum í burtu • „Má ég vera hérna, og mamma líka?“ vældi Dísa. „Ég vil ekki láta Dísu fara burtu“, sagði Jakob. „Hún fer heldur ekki“, sagði faðir hennar. „Segðu mömmu þinni, að þið farið ekkert“, sagði hann við Dísu og lét hana fara ofan af hné sér. Dísa hljóp inn til móður sinnar með þessi gleðitíðindi. Hun var lögzt upp í rúm, hafði verið búin að hugsa sér að fá gigtar' kast, ef Dísa ræki ekki erindið nógu skýrlega, eða því yrði ekki anzað, sem hún segði. Henni yrði þó varla sagt að hafa sig í burtu, ef hún gæti sig tæplega hreyft fyrir gigtarkvölum. En þegar Disa hvíslaði því að henni, sem Jón hafði sagt, reis hún upp, tók Dísu a kné sér og kyssti hana áfergjulega, en slíkt var óvenjulegt. „Ég gæti nú ímyndað mér“, sagði hún við Borghildi, sem koiu inn í þessu, „að einhverjum hafi leiðzt að missa hana héðan aI heimilinu, — þetta skýra og skemmtilega barn“. „Jakob hefur gaman af að hafa hana til að leika sér við » svaraði Borghildur fálega.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.