Lögberg - 08.07.1954, Blaðsíða 6

Lögberg - 08.07.1954, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 8. JÚLÍ 1954 KVENNARÁÐ Ketilríður var með bezta móti þennan vetur. Það dugði ekki annað en fara varlega. Helzt var það Siggi, sem hún átti bágt með að lynda við, og Finnur gamli, þó að hann gerði ekkert af sér og allir væru góðir við hann, af því að hann var svo mikið gamal- menni, og svo hafði húsbóndinn svo mikið eftirlæti á honum. Ketilríður gat aldrei þolað það, hvernig hann talaði um Dísu, sagði að hún væri lúmsk, sú litla, og að hún væri dóttir hans f.öður síns. „Ætli það sé nokkuð undarlegt, gamli hérvillingur“, sagði hún þá venjulega. „Það eru víst flestir synir og dætur hans föður síns nema þú“. „Þá hló karlinn og sagði: „Grísir gjalda, en gömul svín valda, og svoleiðis verður það með Dísu“. „Það skilja víst fáir svona tal, sem ekki er von. Það er meiri heimskan, sem getur rúmazt í hausnum á þessum fausk“, sagði Ketilríður sárreið. Eftir það fór hún að tala um það við Önnu, að ekkert skildi hún í þeim smekk í manni hennar, að láta karlinn sitja við borðið hjá sér og drengnum, eins og hann væri ógeðslegur. „Það er nú svona rétt að ég get komið niður matnum stundum, þegar hann er að missa grautinn niður á vestisboðungana og borðið. Ég hef líka heyrt gesti taka til þess, að hann skuli ekki vera látinn borða annars staðar. Hann gæti víst alveg eins borðað inni í búrinu“. „Hann hefur alltaf setið þarna á sama stað við borðið síðan ég kom hingað, og það þætti líklega skrítið, ef einhver færi að tala um, að hann borðaði annars staðar. Ég gæti hugsað mér, að Borghildi líkaði það ekki“, sagði Anna. „Ójá, alltaf er það Borghildur, sem ræður, alltaf að fara eftir því, sem henni þóknast. Aldrei er talað um, hvað þér sýnist. Það er meira ráðríkið óg lítilsvirðingin, sem þér er sýnd, auming- inn. Líklega hefði hún Lísibet fóstra þín ekki verið að hugsa um það, hvað vinnukonan hefði sagt um eitt eða annað, sem hún ætlaði sér að framkvæma. Það getur líka átt sér stað, að það sé ekki alls kostar hollt, að láta hann sitja rétt hjá drengnum, þar sem hann er alltaf að káfa í hundunum. Þeir eru nú bara eitraðir, segja þeir lærðu, trúi ég“. Daginn eftir spurði Anna Finn gamla að því, hvort hann þyrfti ekki að þvo sér um hendurnar, áður en hann færi að borða. „Tæplega býst ég við því“, sagði hann hugsunarlaust, eins og hans var siður, og settist í sætið sitt. Ketilríður leit til hans hornauga og hló meinfýsin. „Hann hefur líklega látið hundana þvo sér eins og vant er“. Enginn anzaði henni. Það leit út fyrir, að enginn hefði heyrt til hennar. Þetta kvöld reið Jón út á Strönd. Þar átti að halda uppboð og taka út tvær jarðir. Hann yrði sjálfsagt þrjá daga í burtu. Ketil- ríður bað Önnu blessaða að setja nú á sig rögg og koma karl- garminum frá borðinu, láta nú einu sinni sjá ,að hún væri hús- móðir á sínu heimili. Anna hafði sífellt verið að hugsa um, hvort það gæti átt sér stað, að Jakobi stafaði hætta af að sitja við hlið gamla mannsins, og oft ætlað að bera það undir mann sinn, en af því varð þó aldrei. Hún svaraði Ketilríði því einu, að það yrði víst bara til að koma af stað óánægju á heimilinu. „Þá er ekki heilsa einkabarnsins mikils metin, ef svo lítið yrði tekið illa upp. En það er eins og fólkið hérna í dalnum segir. Þú hefur tekið við af Jakobi heitnum, allt er markleysa, sem þér dettur í hug, ef manni þínum sýnist annað. Svoleiðis var það með hann, allt varð að bera undir Lísibetu; ef henni fannst eitthvað annað, þá var ekki minnzt á það framar, sem honum hafði dottið í hug. En hryllilegt væri það, ef blessuð börnin, og reyndar fleiri, hefðu það af borðhaldinu með karlinum, að þau fengju sullaveikis- meinsemd“. N „Er það voðaleg veiki?“ spurði Anna hugsandi. „Biddu fyrir þér. Ég hef nú séð svo mikið af henni, að ég ætla ekki að útmála það fyrir þér“, svaraði Ketilríður alvarleg á svip. Morguninn eftir tók Anna diskinn og hnífapörin hans Finns gamla af borðinu og lét þau inn á búrborðið. „Þarna ætla ég að láta karlangann borða. Þú lætur matinn hans inn fyrir, Borghildur“, sagði hún og gerði sig dálítið merki- lega á svipinn. Borghildur var farin að venjast þessum svip og vissi hvernig á honum stóð. „Hvað á það að þýða?“ spurði hún. „Má ekki vesal- ings gamli maðurinn sitja í sætinu sínu þennan stutta tíma, sem eftir er fyrir honum? Ég gæti búizt við, að Jón yrði ekki sam- þykkur þessari nýbreytni“. Ketilríður varð fyrir svörum. „Það er nú svo sem ekki eins og það sé verið að reka hann út úr bænum, þó að hann eigi að borða þarna við búrborðið. Það er hálf óviðkunnanlegt að heyra gesti, sem hafa setið hérna við borðið, taka til þess, að karlinn er þarna rétt hjá drengnum, þar sem hann er alltaf krafsandi á hundunum. Þig langar þó líklega ekki til þess, að Jakob fái sullaveikina, sem sagt er að stafi af hundunum?“ „Mér þykir ótrúlegt, að nokkur maður hafi talað um þetta“, sagði Borgðhildur stygglega. „Maturinn þinn er inni í búri, Finnur“, sagði Anna, þegar gamli maðurinn ætlaði að læðast í vana sætið sitt. „Á ég að vera þar?“ spurði hann og horfði skilningssljór í kringum sig. „Já, það á nú að fara að hafa mikið við þig og láta þig borða inni í búri“, sagði Borghildur háðslega. „Hvers vegna má ég ekki vera hérna, sem ég er vanur að sitja. Hún sagði, að ég ætti að sitja hérna, blessuð húsmóðirin“. Finnur gamli leit til Borghildar ósköp munaðarleysislega. „Komdu, Finnur minn“, sagði hún hlýlega. „Ég skal sjá um, að þú fáir nóg að borða, þótt þú sitjir inni í búri“. Ketilríður gaf því hornauga, sem Borghildur lét á diskinn af keti og kartöflum handa karlbjálfanum, og hristi höfuðið framan í Önnu. Það var fátt talað við borðið. Vinnufólkið sá það á Borghildi, að eitthvað hafði kastazt í kekki milli kvennanna. Jakob spurði, hvort hann mætti ekki borða inni í búrinu eins og Finni, því að þar væri svo mikið sólskin. „Þú situr þar sem þú ert vanur, elskan mín“, svaraði móðir hans. Finnur gamli spurði Borghildi að því í hvert skipti, sem setzt var að borðum, hvort að hann ætti að fara inn í búrið. Hún bjóst við, að svo væri til ætlazt. Anna var ekki vel ánægð með sjálfri sér. Henni fannst Finni svo raunalegur í augunum, þegar hann leit á hana allt öðruvísi en hann var vanur. En hún þorði ekki að afturkalla skipun sína vegna Ketilríðar, og svo hryllti hana við þessari sullaveikishættu, sem gæti stafað af honum. En allra þyngst var þó það á metunum, hvað maður hennar myndi segja um þetta. Líklega segði hann, að það væri sjálfsagt, að hann sæti ekki hjá Jakobi, þegar hún væri búin að tala við hann um það, hversu hættulegur hann gæti verið. Svo var það þriðja morguninn, sem Finnur læddist inn í nýja sætið, og Borghildur var nýsetzt niður með þennan kalda svip, sem hún setti upp í hvert sinn, sem hún setti matinn inn fyrir, að gengið var hvatlega inn göngin, en úti á hlaðinu heyrðist hringla í beizli. Húsbóndinn var kominn heim. Anna sat við fremri borðs- endann, rétt við búrdyrnar. Hún stóð upp í einhverju fáti og hallaði aftur búrhurðinni. „Sæl verið þið öll. Ekki sæki ég illa að“, sagði Jón og heilsaði konu sinni með kossi. „En hvar er Finni minn? Er hann lasinn?“ „Hann borðar inni í búri“, sagði Jakob litli og brosti að þessari nýbreytni, sem komin var síðan faðir hans fór að heiman. Anna setti upp.sama svipinn og aðrir, en hann fór henni samt ekki vel. „Hann situr inni í búri. Það er þröngt hérna við borðið. Ég kann ekki við hann hérna við borðið, og býst líka við, að ég megi ráða svo litlu sem því“, sagði hún. Jón lagði svipuna og vettlingana í stigann, sem lá upp á loftið, inn í eldhúsinu. Jakob hoppaði upp í fangið á honum og kyssti hann, hljóp síðan til sætis síns aftur. Borghildur náði í disk og hnífapör handa húsbóndanum, en hann gekk beina leið að búr- hurðinni og hratt henni harkalega upp. Finnur gamli var ákaflega lítill og vesaldarlegur í sæti sínu. Það hýrnaði yfir honum, þegar hann sá Jón. „Sæll vertu, Finni minn! Hvað hefur þú gert af þér, vinurinn? Hefurðu brotið fallegasta bollann á heimilinu, fyrst þú ert kominn í skammakrókinn?“ spurði hann og klappaði vingjarnlega á öxl gamla mannsins. „Ég veit ekki til, að ég hafi gert neitt“, svaraði hann daufur í bragði. „En ég má ekki sitja 1 gamla sætinu mínu. Hún hefði ekki gert þetta, hún mamma þín blessunin“. „Það er ótrúlegt, að hún hefði látið sér detta slíkt í hug“, sagði Jón óþarflega hátt. „Það var ekki siður hennar, að hafa þá minnstu út undan“. „Allt var gott, sem hún gerði, sú mikla kona“, tautaði Ketil- ríður í hálfum hljóðum við hliðina á Önnu. „Hann er ekki upp úr því vaxinn, karlrolan, að ganga um klagandi. Það er þá líklega hlustað á hann“, bætti hún við. „Þetta gerir ekkert til, Finni minn. Ég fer ekki að breyta því, að sitja við hliðina á þér. Mér er sama hvar ég borða. Það verður þá nógu rúmt um kvenfólkið fyrir framan“, sagði Jón og tók hnífapörin í aðra hendina en stólinn í hina og stikaði inn í búrið. Önnu fannst leggja kulda um sig alla frá honum. „Hvers vegna læturðu svona, maður? Hann er ekkert út undan. Það er sami matur, sem hann borðar og við“, sagði hún og hélt ennþá sínum virðulega svip, þótt kjarkurinn væri að láta undan síga. „Já, nóg er á borðinu“, sagði Finnur gamli hressari, þegar hann sá Jón kominn til sín. „Borghildur sá um það“. „Ekki spyr ég að Borghildi“, sagði Jón. Þegar Jakob sá, hvað faðir hans gerði, greip hann diskinn sinn og hnífapörin og hljóp inn í búrið. „Jakob minn“, sagði móðir hans, „hvers vegna læturðu svona, elskan. Borðaðu hérna fyrir framan hjá mér, eins og þú ert vonur“. „Nei, ég borða hjá pabba og Finni“. Borghildur fór með stólinn hans á eftir honum. Dísu fannst sjálfsagt að haga sér eins og hún sá Jakob gera, því að allt hermdi hún eftir honum. Hún renndi sér niður af stólnum með diskinn sinn í fanginu. Ketilríður tók óþyrmilega í öxlina á henni: „Hvað svo sem ætlarðu að flebbast, asninn þinn?“ sagði hún óblíð í máli. „Ekki nema það þó! Eru allir að verða vitlausir eða hvað? Reyndu að skammast í sömu skorður aftur, og slettu í þig matnum“. „Ég ætla að borða í búrinu hjá Jakobi“, vældi Dísa. „Svona, haltu þér bara saman. Þú kemst varla upp með það, eins og hann, að virða það að engu, sem hún móðir þín segir. Það er eins og annað fyrir henni, blessaðri manneskjunni, allt lært á sömu bókina“. Dísa snökti, en þorði ekki annað en gegna, því að Ketilríður var reiðileg, og ekki bætti það skapið, þegar háværar samræður heyrðust innan úr bú;rinu“. „Eiga þær von á einhverjum gestum?“ spurði Finnur. „Það er líklega von á Páli Þórðarsyni“, svaraði Jón. „Hvað segirðu? Er hann nú væntanlegur? Það má segja, að alltaf fjölgi fingurgullin. Á hann þá líka að setjast að hér á þessu heimili?“ „Ætli það ekki? Mér þykir líklegt, að konan hans taki á móti honum eftir allan þennan tíma“. Þá byrjuðu vandræðin fyrir framan hjá vinnufólkinu. Siggi steig svo fast ofan á tærnar á Línu, að hún rak upp skræk, og þá fóru allir að hlæja, nema Anna og Ketilríður. Hún réð sér tæplega fyrir reiði. Hún hrakti Dísu á undan sér inn í baðstofu og snupraði hana þangað til hún var farin að háskæla. Anna fór inn í húsið sitt, læsti því og lét ekki sjá sig það sem eftir var dagsins. Ef Jón kæmi og bankaði á hurðina, ætlaði hún ekki að opna. En hann kom ekki. Hún sá hann ganga suður túnið, og Finnur gamli elti hann eins og tryggur rakki. Nokkru seinna sá hún hann suður og uppi í fjalli eitthvað að snúast við lambféð. En Finnur sat uppi á fjárhúsinu og lék sér við hvolpinn. Það var leiðinlegur siður þetta, að leika sér við hundana. En hann hafði gert þetta alla tíð, og enginn hafði veikzt af sullaveiki, ekki einu sinni hann sjálfur. Hví skyldi þá Jakob endilega þurfa að taka þessa veiki. Og ekki hafði fóstra hennar talað um það, þessi myndar- og þrifa-kona. Líklega var það kjánaskapur, að vera að þessu, hugsaði Anna, og fór fram til Borghildar og sagði henni að láta Finn borða þar sem hann væri vanur að borða. „Ætlarðu ekki að láta hann borða í búrinu?“ spurði Borg- hildur. „Nei, ég vona, að það fari enginn að veikjast af sullaveikinni, þó að hann borði með okkur. Ég sá, að Jóni mislíkaði það“, sagði Anna og var nú með sinn vana svip. „Þú máttir nú vita það, að hann yrði ekki ánægður með það. Og hvað hinu viðvíkur, kemur það sjaldan fyrir nema þar, sem því meiri ógætni er höfð við hundana. Þetta er bara eins og aðrar spillingar úr Ketilríði. Þú ættir ekki að taka mark á því sem hún segir“, sagði Borghildur ánægjuleg á svipinn. Nú var hún að vinna, en Ketilríður að tapa. Anna lét ekki sjá sig við borðið. En Finnur gamli varð hýr á svipinn, þegar hann sá, að hann átti að sitja í sínu venjulega sæti og spurði Sigga, hvort sá virðulegi gestur, sem væntanlegur hefði verið í morgun, hefði hætt við að koma. Siggi svaraði því hlæjandi: „Hann kemur víst ekki í kvöld, enda er það ekki tilfinnanlegur skaði þó að hann sæist aldrei“. Ketilríður var úfin í skapi og talaði ekki orð meðan borðað var. Morguninn eftir, þegar Anna kom á fætur, sagði Borghildur henni, að Finnur væri veikur. „Kann^ke hefur honum orðið kalt þarna frammi?“ sagði Anna. Það var siður, að karlmennirnir sváfu frammi í skála vor- og sumarmánuðina, því að þá voru stúlkurnar fleiri og þrengra í bað- stofunni. Venjulega hafði þó Finnur sofið inni, en nú hafði hann viljað sofa frammi. „Það verður að bera hann inn, þegar piltarnir koma heim“, sagði Borghildur. „Þeir eru að aðgæta kindurnar frammi í fjalli“- „Það er líklega hægt að halda á karlskriflinu inn göngin“, sagði Ketilríður, sem alltaf hafði ánægju af að sýna sinn mikla dugnað. En gamli maðurinn sagði bara, að það kæmi ekki til mála, að neinn hreyfði við sér annar en Jón. „Hans hendur eru svo mjúkar, eins og hendurnar sem hún móðir hans snerti á fólki með. En þessar hendur myndu kremja mig og klípa, og slíkt þoli ég ekki, því að nú ætla ég að fara að deyja“, sagði gamli maðurinn. „Það er þá líklega bezt, að lofa honum að lognast þarna út af, karlinum“, sagði Ketilríður og geystist út á tún til hinna stúlkn- anna. Það var byrjað að hreinsa. „Það verður varla af því, að ég sofi inni 1 baðstofunni, ef þessi pestarskrokkur verður fluttur inn“, sagði hún og tók rösklega til við hreinsunina. „Hvað ertu að tala um?“ spurði Lína. „Ég skil þig ekki“. „Hvað skyldi það vera, sem þú skilur, aulinn þinn? Reyndu bara að vera ekki fyrir mér, annars lendirðu í afrakinu“. Lína hörfaði til hliðar og spurði ekki aftur. Hún sá, að Ketil- ríður var í sínum versta ham. Anna hljóp suður túnið, þegar hún sá Jón koma framan úr fjallinu. Þau mættust við túngarðinn. Hún stóð innan við girð- inguna, en hann fyrir utan hana. Þau höfðu ekki talazt við síðan hann kom heim, daginn áður. Hún lét sem hún væri sofandi, þegar hann háttaði. Á morgnana var hann búinn að vera lengi á fótum þegar hún vaknaði. Hún bauð honum „góðan dag“. „Góðan daginn“, sagði hann. „Mér þykir frúin vera snemma á fótum, og farin að hlaupa um túnið“. Það var svo sem auðheyrt, að hann var ekki orðinn ánægður ennþá. Það var þessi frúartitill, sem aldrei heyrðist, nema þegar hann var ekki vel sáttur við hana. „Það kemur ekki til af góðu“, sagði hún dauflega. „Finnur er veikur. Heldurðu að það sé ekki voðalegt, ef hann skyldi deyja?“ „Ekki finnst mér það svo sem neitt voðalegt. Hann hefur víst einskis að sakna úr veröldinni. Hún hefur ekki hossað honum, aumingjanum“. Hún stóð vandræðaleg og horfði niður fyrir sig. Ef þessi hái garður hefði ekki verið á milli þeirra, hefði hún kannske boðið honum góðan daginn með kossi. Það hefði máske blíðkað hann eitthvað. „Er hann mikið veikur?“ spurði hann. „Já, hann þekkir engan, og hann vildi ekki, að Ketilríður bæri sig inn í baðstofuna. Þú átt að gera það, enginn annar“. Hún sneri heimleiðis, en gekk hægt. Hún vissi, að hann kæmi á eftir sér, legði handiegginn utan um sig, kyssti sig á vangann og spyrði, hvort hún væri með fýlu. „Mér finnst það hryllilegt, ef kistan hans yrði borin út úr bænum bráðlega“, sagði hún, „þá bætist sú þriðja við, áður en árið er liðið. Það sagði Sigga, og það varð líka, þegar pabbi, mamma og litla stúlkan okkar dóu“. Hún heyrði, að hann stökk ofan af túngarðinum og kom á eftir henni. En í stað þess, sem hún hafði vænzt, stikaði hann framhjá henni og sagði kuldalega: „Þá rýmkast kannske við matborðið hjá þér?“ Hann var þá svona gramur við hana. Það var ekki í fyrsta sinn, sem svona lagað kom fyrir, þegar hún fór eftir því, sem Ketilríður ráðlagði henni. Helzt ætti hún aldrei að fara eftir því, sem hún segði. Hún snerist úti við dálitla stund. Þegar hún kom inn var Finnur kominn inn í gamla rúmið sitt, og Siggi var að fara fram i Selbreiðar eftir hestum; það átti að sækja lækni. Borghildur sagði henni, að hann þekkti Jón. „Hvernig getur staðið á því, að hann þekkir hann, en ekki okkur?“ spurði hún. Hún reyndi með öllu móti að hlynna að gamla manninum, þvi að samvizkan minnti hana sífellt á, að hún hefði hrakið hann fra borðinu síðustu dagana, sem hann var á fótum. En það var líka það eina, sem hún hafði gert honum rangt til í lífinu. Einu sinni, þegar hann var með rænu, spurði hún hann, hvort hann gæti fyrirgefið sér hvað hún hefði verið vond við hann. Hann horfði á hana dágóða stund áður en hann svaráði, en það var lágt svar: „Þú hefur aldrei verið vond við neinn hingað til, Anna litla. En hún leggur fáum gott til, þessi sterka kona, og ekki langar mig til þess að hún snerti á mér. En þínar hendur eru mjúkar eins og silki. Nú skaltu kalla á hann Jón, ef hann er nálægur“. Eftir stutta stund var Jón setztur við rúmið hjá gamla mannirfum. „Ég er að hugsa um þetta litla, sem ég á“, sagði sjúklingurinn- „Hún á að fá það, blessuð konan þín, hún hefur alltaf verið mer svo góð. En Sigga ætla ég hrossin mín“. „Anna er enginn fátæklingur, góði minn; hún á allt með mer • „Ég veit það vel, en hún þarf að senda drengnum peninga- þegar þú snýst á móti honum“, sagði Finnur. „Einu sinni ætlaði hún að gefa mér það, sem hún bjóst við að hún hefði erft eftir foreldra sína, en það var bara ekkert, svo að hún gat ekki gefið það. Nú fær hún þetta litla, sem ég læt eftir mig, nema hrossin- Þú sérð um þetta fyrir mig, Jón minn“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.