Lögberg


Lögberg - 02.09.1954, Qupperneq 6

Lögberg - 02.09.1954, Qupperneq 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 2. SEPTEMBER 1954 J. ^ ---— GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF S— —r Það var útbrunnið undir pottinum. Hún braut sundur flögur og lagði að áftur. Nú skyldi hún spyrja eldinn. Ef það yrði farið að loga eftir fimm mínútur, segði hann já — það þýddi það, að allt yrði eins og það hefði verið milli hennar og kærastans; en ef það yrði ekki farið að loga, færi allt út um þúfur. En nú átti hún - ekkert úr, hvorki á festi eða á úlnlið, eins og nú tíðkast, svo að það var ekki gott að ætlast á tímann. Það var klukka inni í eldhúsinu. Borghildur bar hana stundum inn á borðið til sín á kvöldin, en oftar var hún þó frammi. Hún flýtti sér inn með lampann í hend- inni. Þarna var klukkan. Hún settist með hana milli handanna og horfði alltaf á hana, meðan þessar fimm mínútur voru að. líða. En þegar hún kom fram var niðamyrkur í eldhúsinu; aðeins ofur- lítil Ijósblá logatota teygði sig á einum stað upp í pottbotninn. Það var „nei“ og aftur „nei“. Auðvitað var þetta allt ekkert annað en hjátrú og vitleysa, reyndi hún að segja sjálfri sér. Ekkert að marka. Hún ætlaði sér að fara til hans, þegar hún kæmi inn, og allir væru sofnaðir. Það svæfi víst fastar en það, að það yrði vart við það, þó að hún settist hjá honum og hvíslaði fáeinum orðum í eyra hans. Hún gat ekki beðið til morguns í þessari óvissu. Loksins var soðið í pottinum, svo að hún gat fært upp úr og falið eldinn. Hún gekk svo hægt sem hún gat inn í baðstofuna, með lampann í hendinni, og setti hann á lítið borð, sem stóð við rúmið hennar Borghildar. Hún sá, að Þórður var vakandi. Þá bylti Ketilríður sér harkalega í rúminu: „Hvað ertu eiginlega að göltra með ljós um hánótt, mann- eskja?“ umlaði hún hálfsofandi. „Ég vakti yfir sláturpottinum", flýtti Lína sér að svara hvíslandi. „Nú, það er nú eins og vant er. Þið gaufið og gaufið fram á nótt við öll verk. Ekkert gengur fyrir blaðri og snúningum. Þið eruð marga daga að sjóða innan úr einum nautgrip. Svo vildi ég mælast til þess, að þú slökkvir ljósið, svo að ég geti sofið. Þú getur víst tínt utan af þér fötin í myrkrinu“. Lína flýtti sér að blása ofan í glasið, afklæddi sig í myrkrinu, breiddi sængina upp yfir höfuð og las allar fallegustu bænirnar, sem hún kunni. Sízt mátti gleyma þeim á þessu óheillakvöldi. ÁRANGURSLAUS SÁTTATILRAUN Lína vaknaði næsta morgun, þegar Borghildur fór fram úr baðstofunni. Hún fór alltaf svo snemma á fætur, að hún væri búin að hita kaffið handa piltunum, þegar þeir kæmu ofan. Nokkru seinna fór Þórður að hreyfa sig. Hann kveikti á kerti, sem hann hafði á rúmmaranum hjá sér. Hann las við það á kvöldin, eftir að búið var að slökkva á lampanum. Lína horfði á hann spurnaraugum út undan sænginni. Henni fannst svo mikið myrkur í svip hans og augnaráði, að hún varð dauðhrædd. Hún mundi líka eftir því, að hún hafði alveg gleymt að taka til utanyfirsokka handa honum kvöldið áður, svo að hún flýtti sér fram úr rétt á eftir honum, greip sokkana úr grindinni rétt við vélina og fékk honum þá. „Hvað er þetta?“ sagði hann kuldalega. „Á ég að fara í þetta sitt af hverju tagi? Það lítur ut fyrir, að þú sért eitthvað utan við þig?“ Hann horfði á hana með sams konar svip og Ketilríði, og mál- rómurinn var líka eins og þegar þau voru að kýta. Lína flýtti sér að laga misgripin. Þá var eftir að finna leppana. Hann lét annan skóinn upp lepplausan, á meðan hún leitaði. Hún lét innan í hinn. Hann tók leppinn innan úr honum og fleygði honum á á gólfið. Það var ekki að efa það, að hann var bálreiður. Hún reyndi að ná tali af honum allan daginn, en hann forðaðist hana og talaði varla orð af vörum við hitt fólkið. Þegar rökkursvefninn kom yfir alla, lá hann inni í rúmi. Þá hafði hún vonast eftir að geta talað við hann. En sú von brást. að áttu víst að bregðast allar vonir hennar. Eldspýtan hafði ekki logað nógu lengi. Morguninn eftir náði hún í skriffæri og fór fram í búr. Þar skrifaði hún honum, meðan Borghildur var að hita morgunkaffið, nokkur orð á hálfa litla örk. Hinn helminginn lét hún í bókina, sem hún hafði skrifað á. Efni bréfsins var, að biðja hann að vera ekki reiðan við sig. Hún hafi ekki getað gert neitt að þessu. Það hafi víst verið af því, að húsbóndinn hafi verið drukkinn, að honum skyldi detta þessi vitleysa í hug. Þetta var fyrsta bréfið, sejn hún skrifaði honum. Ketilríður þrammaði fram í eldhúsið, þegar hún var að enda við skriftirnar. Hún skellti á lærið, þegar henni varð litið inn í búrið. „Ekki er nú hægt að kalla, að drósin hafi það mjög annríkt. Er hún ekki bara setzt við skriftir. Hvað skyldi hún hafa sagt við okkur, vinnukindurnar sínar, maddaman í Hraundölum, ef við hefðum hagað okkur svoleiðis“. Lína flýtti sér að skrifa utan á og stinga bréfinu inn í umslagið og líma það aftur. Svo lét hún bókina með því í upp á búrhillu. „Það eru ekki margar stundirnar, sem hún situr við bréfa- skriftir, hún Lína litla“, sagði Borghildur. „Hún svíkur engan á vinnunni sinni, þó að hún sé ekki gömul“. „Ojæja, þetta er svoddan eftirlætisskino á heimilinu“, sagði Ketilríður þá og gaf Þórði, sem kom fram rétt í því, auga. Seinna um daginn, þegar Þórður sat einn frammi í eldhúsinu, rétti Lína honum þetta bréf og sagði: „Ég var beðin að fá þér þetta bréf og taka svar“. Svo fór hún inn í búrið og sá hann rífa bréfið upp og líta á innihaldið. Hún sá, að hann fleygði því hvorutveggja á gólfið. „Hvaða svo sem fjandans skrípaleikur er nú þetta?“ sagði hann, stóð upp og gekk inn í baðstofu. Hún tók upp umslagið og bréfið af gólfinu. Hamingjan sæla. Það var ekki furða þó hann kallaði þetta skrípaleik. Hún hafði, í fátinu sem á hana kom, þegar Ketilríður kom fram, látið óskrifaða arkarhelminginn inn í umslagið. Bréfið sjálft lá í bókinni uppi á hillunni í búrinu. Hún bætti við á það, að misgrip hefðu orðið með þetta bréf, sem hann hefði fengið í morgun. Og svo biður hún hann ennþá að fyrirgefa sér, og vera ekki eins svipþungur og hann hafi verið í gær og í dag. Utan um þetta lætur hún umslag og skrifar nafnið hans á það. Um kvöldið, þegar hann kom úr hús- unum, gat hún fengið honum bréfið. „Hér kemur bréfið, sem þú áttir að lesa í morgun“, sagði hún og brosti að vandræðum sínum. En bros hennar særði hann eins og hnífsstunga. Hann leit á bréfið og þekkti strax, að það var frá henni, opnaði eldavélina og stakk því inn í logann. „Ég er enginn krakki", sagði hann, „sem hef gaman af óskrif- uðum pappírsseðlum. Þú skalt skemmta þeim, sem betur geta tekið því en ég“. „Það var skrifað á þetta“, sagði hún dapurlega. „Hitt voru eins og hver önnur mistök. Vertu ekki reiður við mig, Þórður. Ég gat ekkert gert að þessu. Hann var bara drukkinn“. „Það hefur sjálfsagt ekki verið í fyrsta sinn þetta“, sagði hann. Orð hans voru svo þung, að henni gundust þau vera eins og svipuhögg á sig. „Jú, þetta hefur aldrei komið fyrir áður“, flýtti hún sér að segja. „Þetta var bara eins og hvert annað gaman, eða ég veit ekki hvað ég á að nefna það“. „Ég efast ekki um, að þér þyki það gaman. Þá skaltu bara leika þér að eldinum, en þú skalt ekki leika þér að mér. Fyrst þú gerir þig ekki ánægða með mig einan, þá var þetta rétt valið hjá þér“. Það var eins og hann ætlaði að segja eitthvað meira, en hann -hætti við það og bjóst til að fara inn í baðstofuna. „Þú misskilur mig“, sagði húri biðjandi. „Talaðu við mig. Vertu ekki svona reiður, elsku Þórður“. „Nei“, svaraði hann. „Ég hef ekkert meira við þig að tala framar. Ég hélt, að þú værir góð og saklaus stúlka. En fyrst svo er ekki, þá höfum við ekkert meira saman að sælda“. Svo var hann farinn. Hún stóð eftir með augun full af tárum. Næstu dagana eftir þetta reyndi hún að ná tali af honum, en hann forcjaðist hana. Svipur hans var alltaf jafn myrkur og þung- búinn. Loks gafst hún alveg upp á því að reyna að ná tali af honum. En hún skrifaði honum bréf og afhenti honum það sjálf. Hann lét það óupprifið í eldinn eins og hitt. Hún horfði á það brenna. Þar brann síðasta vonin um sættir. „Ég skil ekkert í þér, Þórður“, sagði hún skjálfrödduð. „Ég áleit þig betri mann en það, að þú vildir ekki heyra sannleikann í þessari vitleysisþvælu, sem gerir þig svona hugsjúkan“. „Ég á ekki von á að þú segir mér sannleikann. Það þýðir ekkert að tala um þetta meira. Ég vil ekki vera í þessu félagi með ykkur“, sagði hann. „Það er ekkert félag“, sagði hún móðguð. „Ég hef fulla sjón ennþá“, sagði hann, og svo hló hann ein- kennilegum hlátri, sem þó var enginn hlátur. „Hún kom illa upp um ykkur, eldspýtan“. „Hún gerði þig laglega vitlausan“, sagði Lína sárgröm og fór burtu. Hún sá, að það var þýðingarlaust að reyna að sannfæra hann. Þó að hann væri geðprýðismaður, vissi hún, að hann var ósveigjanlega þrár, ef hann tók það í sig. — Það var bezt að lofa honum að eiga sig með allan sinn þvergirðingshátt. HVAÐ HEFUR KOMIÐ FYRIR? Nýja prjónavélin var komin. Borghildur, sem ekki hafði farið út af heimilinu í þrjátíu ár til að vera nótt í burtu, lagði nú af stað vestur að Felli til að læra á vélina. Lína tók við niðri-verkun- um. Ketilríður settist aldrei svo að matborðinu, að hún fyndi ekki að matnum. Ýmist voru grautarnir sangir, saltir eða daufir. Þá bar Anna það alltaf undir mann sinn, því að allt var rétt, sem hann sagði. „Er grauturinn nokkuð sangur, góði minn?“ „Nei, hann er indæll. Annars hefur þú víst eins gott vit á því og ég“. „Já, mér finnst hann ágætur. Lína er fyrirmyndar ráðskona. Það er ég búin að sjá þessa dagana síðan Borghildur fór“. „Jæja, þetta er sjálfsagt vitleysa“, sagði Ketilríður, „mér bragðaðist hann svona“. Það var siður, að húsbóndinn las dagblöðin fram við eldhús- borðið. Þá hafði Borghildur alltaf heitt á könnunni, og hann fékk sér við og við bolla, og hún sótti flösku inn í þilskápinn í búrinu; þar var hún alltaf geymd og sjaldan tekin út úr honum nema á morgnana. Þá fékk hann sér út í kaffið úr henni. Nú stóð einmitt svo á, að pósturinn kom næsta dag eftir að Lína tók við eldamennskunni. Þegar hún var búin að þvo upp eftir morgunmatinn, kom hann með alla dagblaðadyngjuna fram á borðið. Inni í baðstofunni var hamast á tveim rokkum og sauma- vél í hjónahúsinu. „Maður heyrir ekki til sjálfs sín eða getur hugsað fyrir kven- fólkinu“, sagði hann, þegar hann var setztur við lesturinn. „En þú verður að hafa heitt á könnunni, Lína. Ég þarf alltaf að fá mér dropa, svona öðru hverju“. Það var náttúrlega sjálfsagt, að hún hefði allt eins og Borg- hildur var vön að hafa það, bæði það og annað. lEn hún hefði helzt kosið, að hann væri ekki þarna. Hún var svo einkennilega feimin í nærveru hans, síðan hann hafði haldið henni í faðmi sér þessa stund inni í búrinu og kysst hana hinum mjúku kossum. Hann sat og las. Hún prjónaði þær stundir, sem hún var ekki að snúast við matarverkin. Svo þegar Þórður kom inn til að fá sér kaffi, fann hún, að hann horfði á sig þessu kveljandi augnaráði. Hún flýtti sér burtu, þegar hún hafði hellt í bollann hans. Og hún varð svo fegin, þegar piltarnir komu inn og farið var að leggja sig í rökkrinu. Nú sat Þórður ekki á stólnum í eldhúsinu hjá henni meðan aðrir sváfu, heldur lá hann inni í rúmi sínu, líklega með fýlu. En hún snerist ein frammi við plaggaþvott og ýmislegt annað, sem tilheyrði verkahring Borghildar. Aldrei hafði hún séð það fyrr, hvað sú manneskja hafði mikið að gera og kom miklu í verk. Svona leið þá fyrsti dagurinn, að ekkert sérstakt hafði komið fyrir. Lína þóttist vita það, að það væri bara ástæðulaus kvíði að halda, að eitthvað kæmi fyrir, þó að henni væri svona lítið gefið um að hafa hann þarna einan hjá sér. Var hann ekki sami maður- inn og hún hafði verið hjá í fimm ár, og meira þó, og aldrei dottið í hug, að neitt kæmi fyrir? Næsta dag, þegar hann kom að utan frá því að gefa hestunum og brynna þeim, neri hann saman höndunum hálfhlæjandi og talaði um, að það væri anzi kalt. Þá kom þessi einkennilegi kvíði í hug hennar. „Nú er komið að því“, var eins og hvíslað að henni. Hún stóð upp og henni datt í hug að fara inn í baðstofu, en hætti þó við það. „Það er heitt á könnunni“, sagði hún, og ætlaði inn í búrið til að ná í bolla. En á næsta augnbliki var hún í faðmi hans, og hann kyssti hana hlæjandi aftur og aftur. „Það hlýjar mér fljótar og betur að kyssa þig“, sagði hann. Hún gerði árangurslausa tilraun til þess að losa sig úr faðmi hans. „Það er svo gott að kyssa þig, Lína, þú ert svo heit og fjörug, að þú ætlar að gera mig vitlausan“, sagði hann og lofaði henni að brjótast um. Svo kyssti hann hana á ný og sleppti henni svo. Hún flýtti sér inn í búrið, blóðrjóð og skömmustuleg yfir því, hvað hann hafði haldið henni fast að sér. Því í ósköpunum lét maðurinn svona? „Jæja, Lína, varstu ekki að tala um kaffi?“ sagði hann fyrir framan. „Jú“, sagði hún. „Komdu með glasið, sem er þarna inni í þilskápnum. Þú veizt. Svo skulum við fá okkur kaffi og láta vel út í það. Það er óþarfi að vera feimin, þó að ég kyssti þig. Hefurðu aldrei kysst karlmann fyrr? Ég er alveg hissa“. Lína anzaði ekki einu orði, hellti bara kaffinu í bollana, og þau fengu sér vel út í. Hann sagði: „Þykir þér ekki gott að fá þér út í?“ „Jú“, svaraði hún og hló. „Það er ágætt. Aðgættu bara vel, að enginn sjái glasið“. Lína var allt öðruvísi en hún var vön, það sem eftir var dagsins, einkanlega þegar Þórður var í eldhúsinu. Til allrar ham- ingju var það stutt. Bara að hann væri farinn af heimilinu. Nær- vera hans var að verða óþolandi. Um kvöldið ætlaði hún aldrei að geta sofnað. Næsta dag, þegar Jón fór út í hesthúsið, hugsaði hún: Skyldi hann láta eins, þegar hann kemur inn núna? Hún ætlaði að fara inn í búr, svo að hún yrði ekki á vegi hans. Hún settist við glugg- ann og lét hurðina aftur. Nú var hann að koma fram göngin. Hún gat ekki gert að því, að hjartað í henni fór að slá hraðar en áður. Hún hreyfði sig ekki og anzaði engu. Hún heyrði að hann settist og fór að skrjáfa í blaðahrúgunni. Þá gerði hnykillinn henni þann óleik, að skoppa ofan á gólfið. Rétt á eftir stóð hann í búrdyrunum og horfði á hana brosleitur. „Eertu að fela þig, Lína?“ „Nei, ég er að prjóna“, svaraði hún undirleit. „Mig langar í kaffi“. Hún stóð hikandi upp. Hún sá í augum hans, hvað það var, sem hann æskti eftir. Það var ekki kaffi. En hún gat ekki komizt út úr búrinu, án þess að ganga beint í fangið á honum. Hún gekk fram á mitt gólfið, þar stanzaði hún: „Viltu færa þig frá dyr.unum?“ sagði hún, en fann, að það var ekki vel viðeigandi, að tala svona til húsbónda síns. Hann varð ennþá hrekkjalegri á svipinn og færði sig til hliðar. Hún tók á allri sinni einurð og bætti við: „Ef þú lætur svona — svona eins og þú lézt í gær, þá tala ég um það við önnu“. „Ertu svona stíf á meiningunni, Lína mín?“ sagði hann og var auðsjáanlega vel skemmt. „Þú þarft ekki svo langt. Hvíslaðu því að Kötlu gömlu; hún verður ekki lengi að koma því inn fyrir dyrastafinn. Það er orðið langt síðan hún hefur gosið núna“. Þá fór Lína að hlæja og gekk beint í fangið á honum. Hann kyssti hana jafn ákaft og ástríðufullt og daginn áður. Þegar hann lét hana lausa, sagði hann: „Nú skaltu fara og tala við Ketilríði“. En hún fór ekki inn í baðstofuna, heldur að eldavélinni og hressti eldinn við. Þetta endurtók sig dag eftir dag. Blöðin voru þrautlesin, hvert einasta orð, eftir tímanum að dæma. Og Lína gat búizt við nýjum atlotum í hvert skipti, sem húsbóndinn kom inn úr hesthúsinu. Stundum oftar. — Mjúkir, nautnaríkir kossar hans vöktu sæla tilfinningu í brjósti hennar, sem hún hafði álitið að ekki væru til nema í sögum og ljóðum skáldanna. Hún bjóst við, að þetta væri sú guðdómlega „ást“. Hún hafði alltaf vonazt eftir því, að hún kryddaði tilhugalíf þeirra Þórðar, en svo varð ekki. Hún hafði gert meira en að vona, hún hafði þráð það. En nú kom hún óboðin með öllum sínum hita og allri sinni aðdáun. Hún dáðist að hverju orði, sem hann sagði, og hlustaði eftir fótataki hans, þegar hann kom að utan. Ef eyrun voru ekki nógu nákvæm að þekkja, hvort það var hann eða Siggi, þá sagði hjartað það með því að auka hraða sinn að miklum mun. Hún hafði alltaf verið hreinleg stúlka í klæðaburði, en nú tók þó út yfir. Hún hafði lítinn spegil í búr- glugganum til þess að vera viss um, að útlit sitt væri sem ákjósan- legast. Á hverjum degi lét hún rjómaskeið í handklæðishornið og neri því yfir andlitið, eftir að hún hafði þvegið sér úr sápuvatm- Það voru fegurðarmeðul kvenfólksins á þessum árum, og gerðu þau húðina hvíta og mjúka. Ilmvatnsglas átti hún niðri í kofforti, sem hún notaði lítið nema á messudögum. Þá lét hún nokkra dropa 1 slifsið sitt og peysuna. Nú var það frammi í búri, því var hellt í dagtreyjuna, og hárið fékk sinn skerf af því. „Það er nú meiri „desús“ lyktin af kvenmanninum“, sagði Ketilríður um leið og hún gekk fram hjá henni, þegar hún var að yfirgefa rokkinn og fara svona einu sinni eða tvisvar á dag fram 1 hlóðaeldhúsið, því að hjá því varð ekki komizt. Annars mátti engan tíma missa frá spunanum. Á heimilið var komin spunakona utan úr dal, óskapleg hamhleypa við þráðarspunann. En Ketilríður var vön því, að þanga ekki á þeim fyrstu, þegar til vinnunnar kom- Hún var búin að hugsa sér, að láta hana ekki skila fleiri hespunum eftir vikuna. Þess vegna tók hún ekkert eftir því, sem var að gerast í eldhúsinu. Hver glöggskygn manneskja hefði þó látið sér detta eitthvað i hug yfir þessu háttalagi. Þau voru tvö ein þarna frammi allaU birtutímann af deginum. Þórður var sá eini, sem þóttist vita hvað væri á seyði, þó að hann sæi aldrei neitt. Og nú, þegar mesti sársaukinn var horfii^n úr sál hans, fór hann að iðra þess, að hafa ekki reynt að forða þessu fáráða barni í tíma frá slíkum forlöguiu, sem ekki gátu haft annað en ólán í för með sér. Hann hafði þ° verið búinn að hugsa sér að bera hana á höndum sér yfir allar torfærur í lífinu. En nú fannst honum hann hafa hrundið henn út í þær með þverúð sinni og harðýðgi.

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.