Lögberg - 20.01.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 20.01.1955, Blaðsíða 6
6 - l GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF ~w. r Að hún skyldi nokkurn tíma hafa látið sér detta þetta í hug um hann, sem hafði gefið henni þetta allt saman. Stundum datt henni í hug, að segja Borghildi frá þessari yfirsjón sinni. Það gat verið, að það friðaði samvizku hennar eitthvað. En samt varð aldrei af því. En hún var fjarska góð við mann sinn þennan tíma. Hún lét sjóða það, sem honum þótti bezt. Baunir og kjöt var hans uppáhaldsmatur, og heitar lummur bakaði hún oft sjálf handa honum. Þær voru beztar, þegar hún bakaði þær, sagði hann. Hún gekk aldrei svo um baðstofuna, að hún kæmi ekki til hans í vef- stólinn og stryki yfir hárið á honum og kyssti hann aftan á hálsinn, því að hann mátti tæplega vera að því að kyssa hana á venjulegan hátt. Og svo talaði hún alltaf um það, hvað hann hlyti að vera þreyttur á að vinna svona mikið. Samt þótti henni vænt um það, hvað vefnaðurinn gekk vel-, þeim mun fyrr tæki þessi hávaði enda. En þá var þófið eftir, og ekki var hávaðinn minnstur þá. Smellirnir og hvdllirnir ætluðu alveg að æra hana. Nú gat Ketilríður ekki „stigið bótina“, eins og hún hafði kallað það, þegar hún bauðst til að þæfa, ef Þórður átti óhægt méð það. Og það gekk ekki síður en annað, sem hún gerði. Þá daga lá líka vel á henni, eins og alltaf, þegar tekið var eftir dugnaði hennar. En minningin um Ketilríði vakti Önnu til umhugsunar. Hvað skyldi Þóra hugsa um hana eftir þetta allt saman? Hún mátti til með að tala við hana. Hún sendi Jakob út eftir og bauð henni að vera við jarðarförina, en hún treysti sér ekki vegna kuldans. Og seinna gerði hún henni boð með Sigga, um að sig langaði til að sjá hana; þá var tíðin farin að batna. En Þóra átti annríkt og gat aldrei komið, þó var hún búin að fá stúlku. Loks ákvað Anna að fara sjálf út að Hvammi. Svo var það einn hlýjan sólskinsdag, þegar Þóra sat inni með litla soninn og nærði hann á móðurmjólkinni, að Björn kom inn með þær fréttir, að Anna á Nautaflötum væri að koma sunnan túnið. „Guð komi til“, sagði móðir hans, honum til mikillar undrunar. „Þú fylgir henni inn, góði minn“, sagði hún svo við drenginn. Hún hafði vonað, að það drægist svo lengi að fundum þeirra bæri saman, að Anna yrði búin að gleyma þessu vandræða vafstri, sem hún og Ketilríður höfðu staðið í, og öllum þeim óþægindum, sem það hafði haft í för með sér. Hún var fyrir löngu búin að staðráða það, að taka gullvægasta ráðið — að þegja. Þetta var allt búið. Hún vonaði, að Lína sæi að sér, því að hún hafði litið út eins og iðrandi syndari, þegar hún fór. En ef Anna fengi að heyra sannleikann, var ekki gott að vita, hvað af því hlytist. Einna leiðinlegast fannst henni, að láta Jón skáka í því skjólinu, að hún segði ekki eftir honum. Hún mundi vel, hvaða svar Lísibet hús- freyja hafði gefið henni forðum, þegar hún hafði spurt hana, hvort góð systir mætti leyna systur sína nokkru. „Góð systir hugsar um það eitt, að litla systir sé ánægð og gætir hennar fyrir öllu, sem er að einhverju leyti hættulegt fyrir hana“. Þetta hafði hún sagt, sú gáfaða kona, og Þóra ætlaði líka að hlífa Önnu við því rothöggi, sem þetta yrði henni. „Góðan daginn, Þóra mín!“ kallaði Anna í baðstofudyrunum, göngumóð og brosandi. „Heldurðu að ég sé ekki svolítið dugleg núna. Komin alla leið út að Hvammi. Þú kemur aldrei til mín, sem ekki er heldur nein von, að þurfa að hugsa um öll þessi blessuð börn“. Hún kyssti Þóru og settist svo við hliðina á henni og horfði á barnið aðdáunaraugum. „Drottinn minn! En hvað drengurinn þinn er stór og hraust- legur. Það má segja, að þú nýtur náðar Guðs og hylli, að eiga svona mörg börn, sem öll lifa hjá þér. Hugsaðu þér, hvað börnin okkar hefðu verið orðin stór og falleg, ef þau hefðu fengið að lifa, og hvað við hefðum verið sæl, ef við hefðum átt þrjú börn. Jón langar til að hafa hálffullan bæinn af krökkum, alveg eins og mömmu. Þú manst eftir því, hvað margir krakkar voru stundum í kringum hana?“ „Þið ættuð að taka fósturbörn“, sagði Þóra, en iðraðist strax eftir að hafa sagt það. „Já, hann vill það. En hvar er hægt að fá fósturbarn. Líklega tímdir þú ekki að láta okkur fá þennan dreng, frekar en Boga litla. Svo er með alla foreldra, sem hafa nóg efni. En þessi fátækra börn eru svo leiðinleg, og oftast illa gefin. Hún er nú svo sem ekki skemmtileg, aumingja stelpan hún Dísa. Það lítur helzt út fyrir það, að hún-geti aldrei lært að lesa, hvernig sem reynt er að segja henni til. Hún verður hjá okkur þangað til hún fermist. Ketilríður bað mig þess, og ég saknaði hennar, þegar hún fór í haust. Jakobi leiddist fyrstu dagana sem hann var einn, og honum þótti svo vænt um, þegar hún kom aftur“. „Hún er nú líka komin af langleiðinlegustu og ómerkilegustu foreldrunum, sem hér hafa verið í dalnum, krakka greyið“, sagði Þóra. „Já, en samt var Ketilríður heitin ekki illa gefin. Mér fannst hún oft bara skynsöm kona“. „Karlinn var auli, og öllum krökkunum gengur svona óskap- lega illa að læra. En fyrst ég fór að minnast á Ketilríði, þá byrja ég á erindinu. Það voru þessi leiðinlegu skilaboð, sem hún kom með frá mér til þín, sem mig er búið að iðra svo mikið, að ég skyldi senda. Ég kom til að biðja þig að minnast ekki á það við nokkurn mann, og vona, að það sé ekki of seint ennþá. Þetta hefur alltaf verið mín veika hlið, eins og þú þekkir, og Ketilríður taldi mér trú um, að Lína væri hættuleg. En svo iðraðist hún og játaði það fyrir mér, áður en hún dó, að hún hefði ekki haft neina vissu fyrir því, heldur var hún svona tortryggin og svartsýn. Hún hélt, að allir væru svona vondir og breyskir. Það hefur víst stafað af því, hvað allir voru vondir við hana, þegar hún var barn og unglingur. Hún bað mig að biðja fyrir sér, aumingja manneskjan, og ég hef líka reynt að biðja svo heitt, sem ég hef getað“. „Þú mátt vera viss um það, að ég minnist ekki á það við nokkurn mann“. LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 20. JANÚAR 1955 „En heldurðu að Línu hafi grunað, hvað var á seyði fyrir Ketilríði?“ Henni var illa við Ketilríði og lét hana sjaldan sjá sig. Enda var hún víst fáum hugþekk, sú kona“, sagði Þóra, og sniðgekk þannig sannleikann með því að svara ekki spurningu Önnu. „Ég var nefnilega að hugsa um að skrifa Línu og reyna að fá hana aftur. Okkur vantar vinnukonu, og ég sá eftir henni af heimilinu, því að hún er ágæt stúlka og prýðilega verki farin“. „Hún er það. Mér féll ákaflega vel við hana. En mér finnst það ekki skynsamlegt af þér, að taka hana aftur. Þér gæti dottið þetta í hug í annað sinn, Anna mín. Ég get bent þér á góða stúlku utan úr kaupstað, sem mér bauðst nýlega, en ég gat ekki átt við það vegna þess, að hún hafði krakka í eftirdragi, en af þeim er nóg hérna. Þú manst eftir henni Gróu, ekkjunni hans Péturs“. „Hvort ég man eftir henni Gróu, leiksystur minni frá æsku- árunum, þegar ég var á Ósnum. Er það hún, sem þú hefur á boðstólum?“ „Já, mér bauðst hún fyrir skömmu. Hún er dugleg stúlka og þrifin, og drengurinn hennar er myndarlegt barn. Þar fáið þið fósturson“. „Mér féll alltaf vel við Gróu. Hún talaði náttúrlega alltaf helzt til mikið, en hún var svo góð við mig. Ef við gætum fengið hana, værum við nokkuð góð. Möngu langar til að vera kyrr. Hún er nú óttalegur „barri“ við öll verk, en Jón heldur að hún sé dugleg við útivinnuna, og hún er góð að spóla síðan vefstóllinn var settur upp. Hvað er drengurinn gamall. Ætli hann hafi ekki ljótt orð- bragð, fyrst hann er alinn upp í kaupstað?“ „Hann er á fimmta ári“, sagði Þóra. „Mér sýndist hann stillilegur“. „Hann er þá jafngamall litla drengnum okkar. Hann hefði verið á fimmta ári, ef hann hefðilifað hjá okkur. Við sjáum nú til, hvað Borghildur segir. Hún var því mótfallin, að ég skrifaði Línu, eins og hún var þó dugleg“. Þóra var ekkert hissa á því. Hún Borghildur var ekki fædd í gær. Það þurfti ekki að segja henni allt, sem gerðist á heimilinu. Hún hafði sjálfsagt veitt því etirtekt, að eitthvert leynimakk var milli Ketilríðar og Önnu; og svo voru allar ferðirnar, sem Ketil- ríður fór á milli bæjanna með gjafir. Slíkt var óvanalegt. Hvað sem hefði verið komið í huga hennar áður. Það fór ekkert fram hjá þeirri konu. Þóra fylgdi vinkonu sinni úr garði eftir að hún hafði tafið lengi. Hún bað hana fyrir eldspýtustokk, vafinn innan í bréf. Jón hafði gleymt honum, seinast þegar hann kom að Hvammi. „Hvað ertu að senda þetta, manneskja“, sagði Anna og hló. „Hvað heldurðu að hann muni um einn eldspýtustokk?“ „Hann er hálffullur af smápeningum“, sagði Þóra. „Góða, láttu krakkana leika sér að þeim“. „Nei, svoleiðis förum við ekki með peninga hér í Hvammi. Hann verður að fá hann. Það er undir nokkur sendibréf“, sagði Þóra og stakk stokknum í vasa hennar. Þegar þær voru komnar fram undir merki, sáu þær Jón hlaupa út túnið á Nautaflötum. „Nei, sérðu bara, Þóra. Þarna kemur hann á tómri milli- skyrtunni úr vefstólnum að vitja um mig. Svona er hann um- hyggjusamur. Það er ekki að furða, þó að mér sé sárt um þennan mann. Það væri voðalegt, ef aðrar konur nytu hans. En ég má bara skammast mín að hugsa svona“, sagði Anna. „Þá fer ég ekki lengra“, sagði Þóra. „Þú ferð ekki að detta þennan stutta spöl. Ég má ekki fara lengra“, bætti hún við, þegar Anna bað hann að fylgja sér þangað til hann væri kominn til þeirra. „Við förum þá að rabba saman, og það dregur tímann. Maður má aldrei líta af þessum krökkum“. „Finnst þér ekkí, að þau séu heldur mörg?“ spurði þá Anna. „Nei, nei; þau eru ekki of mörg. Að minnsta kosti vildi ég ekki sjá af neinu þeirra“. Svo fóru þær að kevðjast. Það gekk lengri tími í það en Þóra hefði kosið. Anna fór að tala við hana aftur, og svo komu nýjar kveðjur. Svona gekk það alltaf fyrir Önnu. Jón var komin svo nálægt, að hann kallaði til Þóru, þegar hún var að snúa heim á leið. „Sæl og blessuð, Þóra! Kærar þakkir fyrir síðast. Ætlarðu ekki að gefa þér tíma til að tala svolítið við mig?“ Þóra sneri sér við til hálfs og veifaði til hans. Hún sá um leið, að Anna hljóp í útbreiddan faðm hans eins og smáborn. „Hún segist ekki mega vera að því; hún þarf alltaf að líta eftir krökkunum, og þó finnast henni þau ekki vera of mörg“, sagði kona hans. „Nei, auðvitað verða börnin aldrei of mörg“, sagði hann. „En mér finnast þau vera of mörg, af því að hún hefur ekki tvær duglegar vinnukonur“. „Henni Þóru verður ekki mikið fyrir því að hugsa um þau, þessum dugnaðarforki“. „Nei, láttu það alveg vera, að fara að setja upp þennan að- dáunarsvip, þó að þú heyrir minnzt á Þóru og krakkana hennar. Það er ekki til þess að líta upp til hennar fyrir það að vera ólétt annað hvort ár. Ef hún heldur svona áfram, verður hún brátt í vextinum eins og Helga á Hóli“, sagði Anna með uppgerðar fýlusvip. „Ónei, hún reynir sjálfsagt að vinna svo mikið, að það safnist ekki utan á hana annað eins spik og á Helgu á Hóli, sem aldrei kemst að nokkru verki. Hún er hreinasta plága fyrir Ella, enda þykir honum ekkert í hana varið. Nei, Þóra verður aldrei lík henni, hversu oft sem hún gildnar, það máttu vera viss um“, sagði Jón. „Og nú er Bogi litli búinn að fá rauðleitt hár eins og hinir krakkarnir. Það er nokkuð skrítið, að þau skuli öll þurfa að líkjast honum Sigurði, eins og hann er leiðinlegur. Aumingja Þóra. Ég var samt svo hyggin, að tala ekki um það við hana“, hélt Anna áfram. „Já, og svo er ég með eldspýtustokk frá Þóru til þín. Hún sagði, að þú hefðir gleymt honum seinast þegar þú komst að Hvammi", bætti hún við og rétti honum stokkinn. Hann tók hikandi við stokknum, eins og hann væri heitt járn. „Hvenær skyldi það hafa verið? Ég er ekki tíður gestur í Hvammi“. „Hún talaði ^kki um það. Sagði bara, að það væru smápeningar í honum. Ég sagði henni að láta krakkana leika sér að þeim; en hún sagði, að svoleiðis væri ekki farið með peninga á sínu heimili“. „Það segir hún líklega satt. Sigurður yrði sjálfsagt skrítinn á svipinn, ef hann sæi litlu rauðkollana sína leika sér að silfri“, sagði hann og dundaði við að rekja bréfin utan af eldspýtu- stokknum og aðgætti vandlega, hvort nokkurs staðar væri skrifað orð á pappírinn, en svo var ekki. „Alveg er hún Þóra dæmalaus með heiðarleikann, að fara að senda svona lítilfjörlegt“, sagði hann og hló ánægjulega. Þóra gekk hægar en hún var vön heimleiðis og forðaðist að líta til baka. Þó að það væri óþolandi, að vera flækt í þessu svika- neti, hefði hún aldrei getað fyrirgefið sjálfri sér, ef hún hefði orðið til þess að skyggja á hamingju þessarar góðu konu. Vonandi ætti hún ekki eftir að komast að því, hvað þessu hlýju faðmlög voru tvískipt. Það mundi særa hana því sári, sem hún gæti ekki þolað. Þannig hugsaði hún, meðan hún þurrkaði burtu áleitin tár, sem fylltu augun hvað eftir annað. Hún var þó ekkert kjökur- kvendi; og ekki minntist hún þess, að hafa fellt tár, síðan Lísibet húsfreyja var jarðsungin. Þetta hlaut að stafa af snjónum og birtunni. VISTASKIPTI Firfim dögum seinna reið hreppstjórinn í kaupstaðinn til að finna Gróu Péturs. Borghildur var því samþykk, að reynt yrði að fá hana fyrir vinnukonu næsta ár. Auðvitað væri hún nokkuð málgefin, en það varð ekki á allt kosið; eitthvað yrði að reyna. Það var alltaf vandi, að velja vinnufólk. Gróa Péturs var sjómannsekkja. Bærinn hennar stóð fast við ána. Þangað fór Jón hreppstjóri. Hann hafði komið þar fyrr. Þegar Gróa missti mann sinn í sjóinn, hafði hann gengizt fyrir samskotum handa henni, svo að hún þurfti ekki að selja þennan litla bæ, heldur bjó í honum ásamt móður sinni og barni. En nú var gamla konan nýdáin, svo að Gróa ætlaði í vist með drenginn. Hún varð hissa, þegar hún sá Jón hreppstjóra. „Nú ber eitthvað nýrra við, að þú kemur til mín“, sagði hún brosleit. Hún var kona rúmlega þrítug, grönn og snotur á fæti og hvik í hreyfingum, sítalandi og hlæjandi. Jón bar upp erindið strax og hann hafði fengið sér sæti. „Hamingjan góða“, sagði Gróa. „Ég var einmitt að útgera um vistráðin í gær, hérna hjá læknisfrúnni, en barninu ætlaði ég að koma í sveit, ef ég gæti. En þú getur nærri, hvort ég hefði ekki heldur kosið að fara til þín, á annað eins heimili, og hafa drenginn hjá mér“. „En heldurðu, að þú hefðir tekið mér, ef frúin hefði ekki orðið á undan?“ spurði hann. „Mikil ósköp; það hefði ég gert á augabragði. Ég er þegar orðin alveg skítóánægð yfir því, að ég skyldi vera svona fljótráð. En þetta er nú ágætis hús, eins og þú þekkir, og það er vandi að neita góðri vist“, sagði hún. „Ég ætla að reyna að tala við frúna. Þetta er svoddan gæða- kona, og getur valið um stúlkur. Það er ótækt fyrir þig að geta ekki haft drenginn hjá þér“, sagði hann. „Já, en þú mátt ekki styggja blessaða frúna“, sagði Gróa. „Þú mátt vera viss um, að ég fer varlega að henni“, sagði hann brosandi. „En við vorum farin að hlakka til að fá drenginn; og ég er óvanur því, að fara erindisleysu, einkanlega þegar kven- fólk er annars vegar; þess vegna býst ég við, að þetta gangi fyrir sig“. „O, þú ert nú alltaf svo spaugsamur“, sagði Gróa hlæjandi. Eftir dálitla stund kom hann aftur og læknisfrúin með honum. Hún sagðist ætla að gefa eftir vistráðin, vegna þess að Jón væri kunningi sinn. Sér legðist áreiðanlega eitthvað til. Og þar með var málið útkljáð. , Hreppstjórinn reið heim, eftir að hafa drukkið kaffi hjá Gróu. Hann færði Þórði bréf frá Línu. „Endilega þurfti hann að koma með það“, hugsaði Þórður. Hann flýtti sér með það ofan í hús og las það þar. Það var ákaflega ástúðlegt bréf. En samt vissi hann, að hún hefði verið óánægð þegar hún skrifaði bréfið. Hún sagði, að sér hefði þótt leiðinlegt, að geta ekki kvatt hann almennilega, áður en hún hefði farið frá Hvammi. Hún hefði ætlað að skrifa honum; en á þVí heimili sæist hvorki blek eða pappír. Hún sagðist ennþá vera óráðin, en samt byðust sér dágóðar vistir. En sér fyndist hún hvergi geta hugsað til að vera, nema í blessuðum dalnum, nálægt honum. Þórður gat sér þess til, að hún hefði grátið yfir bréfinu, því að skriftin var klesst af einhverri bleytu, sem hafði svo verið strokin burtu. Það er sárt fyrir karlmann að hugsa til þess, að stúlkan hans gráti af þrá eftir nærveru hans, og geta þó ekkert gert til þess að hún verði ánægð. Þetta næsta ár yrði voðalega lengi að líða, en svo yrðu þau alltaf saman úr því — allt lífið í gegn. Það ætlaði hann að skrifa henni í næsta bréfi. Hann las bréfið á garðabandinu í ærhúsinu á hverjum morgni, þangáð til það var farið að verða óhreint, þá læsti hann það niður í koffort hjá hinu bréfinu. ---- „Ekki eru nú öll vandræðin búin, hvað vinnufólkinu við kemur, þó að Gróa Péturs sé væntanleg á heimilið með vordögun- um“, sagði Jón hreppstjóri einn morguninn, þegar allir sátu við matborðið. „Einhvern vinnumann þurfti víst að fá sér, úr því að Sigga hefði dottið það í hug að fara að vista sig hjá „karlinum“: Svo var Kristján kaupmaður almennt kallaður. „Já“, sagði Siggi. „Það var meiri skollans vitleysan í mér, að gera það; þó að skemmtilegt sé við sjóinn, þá er ég farinn að iðrast eftir því fyrir löngu. En ég get ekki verið að gera graut í því héðan af. Líklega kem ég hingað aftur næsta vor“. „Það þætti mér líklegt að þú gerðir“, sagði Borghildur. „Það er leiðinlegt, af þú þarft að eyðileggja allar skepnurnar þínar fyrir þetta flakk í þér“. Þá var það Manga, sem tók til máls: „Ef ég fæ að fara út að Þangstöðum um páskana, skal ég reyna að útvega vinnumann“. „Það er nú líklega sjálfsagt, að þú fáir að fara, og það ríðandi", sagði Jón. Og svo fór Manga ríðandi á reiðhesti húsmóðurinnar út að Þangstöðum á skírdagsmorgun, sem þá bar upp á fyrsta sumardag, og var því tvöfaldur hátíðisdagur, enda var hún ánægjuleg á svip, þegar hún reið úr hlaði. Á annan páskadag kom hún heim aftur, alveg heil á húfi, þó að Siggi hefði fullvissað önnu um það, að Stjarni henti henni af baki og mélmölvaði í henni hvert bein, eða kæfði hana í einhverri keldunni úti á Ströndinni. Því auðvitað kynni hún ekki að sitja á hesti frekar en aðrir þar útfrá.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.