Lögberg - 27.01.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 27.01.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 27. JANÚAR 1955 En Manga var vel málhress og sagði ferðasöguna yfir rjúkandi kaffi, með fínu páskabrauði, sem Borghildur var fljót að fram- reiða. Hún var ekki neitt ónotaleg við hjúin á Nautaflötum, konan sú. Heimilisfólkið hlýddi á það, sem Manga hafði að segja. Hún var svo sem búin að ráða vinnumann á heimilið. Hann hét Þor- steinn. Það var úttalað að öllu leyti, nema þau höfðu ekkert talað um kaupið. Hann var uppalinn þarna á næsta bæ við Þangstaði; hún þekkti hann vel. Hann var talinn duglegur. Svo hafði hún farið til kirkju á páskadaginn. Það hðfðu allir talað um það, hvað hún væri orðin breytt. Prestsfrúin hafði sagt, að það yrðu allar stúlkur svona mannalegar, sem færu að Nautaflötum. Lína hafði verið við kirkju. Hún hafði beðið að heilsa hingað. Hún væri ráðin til læknisfrúarinnar á Ósnum næsta ár. Og svo hefðu allir verið að dást að því, að hún væri á reiðhesti húsmóðurinnar. „Þvílíkt eftirlæti“, sögðu stelpurnar, sem höfðu alizt upp með henni þarna á bæjunum út frá. Svona voru fréttirnar, sem Manga sagði og margt fleira um jarðabrask og vistaskipti, sem enginn kannaðist við nema hreppstjórinn. Þórði brá illa, þegar henn heyrði, að Lína færi til læknisins. Það gat varla verið satt. Hann hafði þó beðið hana að verða ekki á vegi Jóns, en ef þetta var ætlun hennar, gat hún ekki gengið betur í eldinn en hún gerði, því að í þessu húsi var hann tíður gestur og gisti þar alltaf, ef hann komst ekki heim, sem oft kom fyrir. Hann spurði Möngu að því, þegar enginn heyrði til þeirra, hvort Lína hefði sagt henni þetta sjálf. Hún sagði, að það hefði hún ekki gert, hún hefði bara heyrt það svona úti á bæjunum. Hann vonaði að það væri ekki satt. Nokkru seinna kom bréf til Þórðar frá Hvammi. Þangað hafði Lína sent það innan í bréfi til Þóru. Það var auðheyrt, að Lína hafði verið glöð, þegar hún skrifaði þetta bréf. Hún sagðist vera ráðin til læknisins næsta ár. Hún hefði ekki getað neitað svo góðri vist. Hún væri þá nær blessuðum dalnum og gæti búizt við að sjá hann sjálfan einstöku sinnum. Og svo ætlaði hún að læra að búa til fínan mat, svo að hún gæti haft myndarlegt á borðum, þegar þau færu að búa í Seli. Hún elskaði allt, sem honum þótti mest vænt um, Dalinn og Selið, og hann sjálfan. En samt fannst honum eins og kolsvartur skuggi legðist milli sín og framtíðarinnar við þessa fregn. Krossmessudagurinn var kominn. Manga fékk aftur að ríða út á Ströndina til að sækja nýja vinnumanninn. Dísa og Jakob sátu norðan á skemmunni og horfðu á eftir Þórði og Sigga, þar sem þeir riðu úr hlaði og út með ánni, þangað til þau sáu ekki lengur rauða koffortið hans Sigga. Jakob hafði orðið hissa á því að sjá Sigga með augun full af tárum, þegar hann var að kveðja Borg- hildi. Hann hafði haldið að fullorðinn karlmaður gæti ekki grátið. En svona var margt skrítið. Honum hafði líka verið sagt, að Siggi hefði hvorki átt pabba né mömmu, þegar hann hefði komið að Nautaflötum, og að Borghildur hefði látið hann sofa hjá sér fyrst eftir að hann kom. Hún lét víst öll börn sofa hjá sér, sem ekki áttu mömmu, datt Jakobi í hug, því að nú svaf Dísa hjá henni. „Heldurðu að þú grátir ekki, Dísa, þegar þú kveður Borghildi?“ spurði hann svo upp úr þessum hugsunum. „Ég fer aldrei frá henni“, sagði Dísa. „Ég ætla alltaf að eiga hér heima“. „En þegar þú verður stór eins og Siggi?“ „Ég fer aldrei“, sagði Dísa. „Líklega verður langt þangað til litli drengurinn kemur“, sagði þá Jakob. „Ég vildi, að hann kæmi aldrei“, sagði Dísa. „Mér er illa við að hugsa til hans. Kannske þykir fólkinu vænna um hann en mig, og kannske fer hann að kalla pabba „okkar“ pabba „sinn“. Heldurðu, að það verði ekki leiðinlegt?“ „Þetta kallar þú hann pabba“, sagði Jakob. „Hann má það þá alveg eins“. Það vildi Dísa ekki heyra. Hún gat ekki hugsað sér, að þessi strákur yrði tekinn fram yfir sig á heimilinu, og einu sinni hafði hún haft það á orði, að hún ætlaði að verða vond við hann, þegar hann kæmi. En þá hafði fóstri hennar sagt henni, að ef hún yrði ekki góð við Kristján litla, þá skyldi hann láta hana fara á sveitina. En það hélt hún að væri einhver ljótur bær, þar sem allir gengju í ljótum fötum og yrðu vondir við sig, svo að hún ætlaði þá að verða góð við strákinn, þegar húsbóndinn sæi til. Það var komið undir kvöld, þegar nýja vinnufólkið loksins kom. Dalbúunum fannst Steini vera hálf einfeldningslegur, eins og flestir, sem utan af Ströndinni komu. Önnu fannst hann koma með sömu hákarlslyktina með sér og Manga hafði flutt inn á heimilið um veturinn, en nú var hún algerlega horfin. Gróa var, eins og fyrr hefur verið sagt, málgefin, síbrosandi kaupstaðar- kona, sem skrafaði og masaði við hvern mann, eins og hún hefði þekkt hann frá blautu barnsbeini. Hún sagði Borghildi frá því, þegar hún sat að fyrstu máltíðinni á nýju heimili, að hún hefði ekki selt eða lánað einn einasta pott eða bolla af búslóðinni, heldur læst það allt ofan í kistu, í þeirri von, að hún ætti eftir að komast í sjálfstæða stöðu aftur. Og satt að segja litist sér þessi fylgdar- maður, sem sér hefði ekki verið sendur, ákaflega æskilegur lífs- félagi, og hann hefði líka hugsað svo vel um drenginn, eins og hann væri faðir hans. Og svo hló hún hátt að fyndi sinni. „Það er bara svona“, sagði húsbóndinn og tók undir hlátur hennar. „Þú ert bara strax orðin hrifin af Þórði. Ég kalla þig seiga, ef þú getur kveikt í honum. Það hefur víst engri konu tekizt hingað til“. „Við sjáum nú hvað setur“, sagði hún og hló enn meira. „Mér finnst hún tala alltof mikið“, sagði Anna við Borghildi, þegar þær voru orðnar tvær einar. „Ég gæti hugsað mér, að Þórður yrði ekki hrifinn, ef hún lætur svona við hann“. „Maður venst þessu rugli“, sagði Borghildur, en var þó ekkert ánægjuleg á svipinn. Gróa spurði Möngu að því nokkrum dögum seinna, þegar þær krupu við að kljúfa tað niður við ærhúsin, hvort Þórður væri alltaf svona fáorður og þurr á manninn. „Já, hann er það víst“, sagði Manga eins og úti á þekju. „Nú, mér finnst að þú ættir að vita það, þar sem þú ert búin að vera hérna hátt upp í missiri11, sagði Gróa. „Já, hann talar aldrei margt“, svaraði Manga. „Mér heyrðist hann vera í hrókaræðum í morgun við Borg- hildi. Kannske það sé eitthvað á milli hans og kerlingarinnar?“ „Hvað heldurðu, að þau hafi á milli sín?“ spurði Manga kjánalega skilningslaus. „En sá bjáni, sem þú ert, manneskja“, hreytti Gróa til hennar óþolinmóð. „Já, en“, sagði Manga, „þú mátt ekki kalla hana kerlingu í öllum lifandi bænum. Hún var með húsbóndann þegar hann var barn, og þeim þykir svo vænt um hana, hjónunum og öllum, sem hérna eru. Hún er líka ágæt kona þegar maður fer að venjast henni. Það er svo undarlegt þetta fólk hér á Nautaflötum. Það er eins og lynghríslur, sem spretta á sömu þúfunni. Hjónin og Siggi eru hér alin upp síðan þau voru börn, og ég held Borghildur og Þórður líka. Þess vegna eru þau öll eins og systkini. Það er öðruvísi hérna en úti á Ströndinni. Þar var svo mikill nágranna- rígur og illt umtal um fólk; hér heyrist það aldrei“. „Já, sei, sei, skárra er það nú“, sagði Gróa. Það sama kvöld sagði hún Borghildi frá því í áheyrn alls heimilisfólksins, að hún geymdi sparifötin hans Péturs heitins, beztu skyrtuna hans og brjóstið og flibbann. Kristján litli ætti að fá það, ef Guð gæfi sér aldrei í spyrðuna, áður en hann yrði orðinn fullorðinn maður. „Það getur verið þægilegt fyrir þig að eiga þau“, sagði Borg- hildur fálega. „Skilurðu ekki, hvað hún er að fara?“ sagði Jón við Þórð, þegar Gróa var gengin burtu. „Ég held, að Steini hafi rennt grun í það, og er hann þó heldur yngri en þú“. „Hver heldurðu að skilji þennan heimskuvaðal“, sagði Þórður stuttlega. „Hún veit það, að sjórinn skilar ekki manni hennar aftur, og nú er hún farin að líta eftir öðrum manni, sem fötin hans pössuðu á, og þið voruð ákaflega líkir á vöxt. Þess vegna finnst mér, að þú ættir að hugsa þig um, og vera ekki alltof stoltur. Þú þyrftir þá ekki að kaupa þér spariföt“. „Hann á víst sæmileg spariföt”, greip Borghildur fram í samtalið. »„Ég gæti hugsað mér, að Þórði geðjaðist ekki að svona skrafskjóðum. Auðvitað meinar hún ekkert með þessu. Það er bara orðið að vana“, bætti hún við. « „Vertu ekki að leggja slæmt til þessara mála, Borghildur mín. Þú vilt láta alla lifa þessu einlífi, eins og þú hefur gert. En það væri óskemmtilegt, ef allir færu að taka upp á því. Ég er orðinn hálf hissa á Þórði“. „Þú skalt ekki vera með áhyggjur út af Þórði“. sagði Borg- hildur. „Hann verður ekki í neinum vandræðum með konu né spariföt“. „Ef þú værir yngri, Borga mín, dytti mér í hug, að þið ætluðuð ykkur að fara að taka saman“, sagði Jón hlæjandi. „Það yrði þó skellur fyrir búið hérna, það verð ég að segja“. En Þórður hugsaði um Línu sína á daginn og dreymdi um hana á nóttunni. Oft voru þeir draumar erfiðir. Hann sá hana í klettunum, hæst í fjallinu, þar sem enginn maður hafði nokkru sinni stigið fæti. Hann langaði til að hjálpa henni, en vaknaði áður en hann gæti það. Auðvitað var hann fenginn, að þetta var draumur, en samt varð hann þunglyndur út af honum. Hann hafði alist upp við draumatrú, og gat ekki íosnað við það, að taka mark á þeim. Einu sinni sá hann Línu koma inn í baðstofuna. Hann þóttist sitja á rúminu sínu, en hún leit ekki við honum frekar en hún sæi hann ekki, en fór inn í hjónahúsið. Anna sat við gluggann og sneri baki að dyrunum. Líklega var hún að lesa í bók. Hann þóttist standa upp og horfa inn um hálfopnar dyrnar. Lína hélt á stórum skærum í hendinni, og hún klippti í aðra fléttuna á húsmóður sinni, næstum upp við hnakkann. Svo læddist hún fram aftur og dansaði af kæti eftir baðstofugólfinu, með fléttuna í hendinni. Svo fór hún að vefja þessari gulbjörtu, fallegu hárfléttu utan um höfuðið á sér, en hún tolldi illa, og fór ekki vel utan yfir jörpu, hrokknu lokkunum í vöngum hennar, sem hann hafði svo oft dáðst að. Þórður var sárgramur við Línu í svefninum. Um morguninn var hann búinn að gleyma draumnum. En þegar hann sá húsmóðurina sitja við matborðið, rann hann upp fyrir honum. Hann hafði, eins og flestir, dáðst að þéösu mikla og fagra hári þessarar konu. Það hlyti að verða óskaplegt, að sjá þetta hár klippt í burtu. „Hvað boðar það, Borghildur?“ spurði hann, „ef mann dreymir, að maður eða kona missir hárið?“ „Er nú Þórður farinn að grufla út í drauma?“ sagði Jón, áður en Borghildur gæti svarað. „Það þýðir líklega óhamingju og eignatjón, býst ég við“, svaraði Borghildur. „Mikið hár er fyrir hamingjusömu lífi og ríkidæmi, segir í draumaráðningabókinni“. „Það boðar óhamingju og sorgir“, greip Gróa fram í. Hún lagði alltaf orð í samræðurnar við borðið. „Mig dreymdi, nokkru áður en ég missti manninn, að hárið á mér var orðið svo þunnt, að það grisjaði alls staðar í hársvörðinn, og mér var svo kalt á höfðinu. Ég vissi strax, að það yrði fyrir einhverri mæðu“. „Já, mig dreymdi líka, að þú værir búin að höggva þig í hend- ina, og það blæddi svo mikið úr sárinu, sumarið áður en pabbi og mamma og litla ‘stúlkan okkar dóu. Manstu ekki eftir því, góði minn?“ sagði Anna. „Nei, nei, góða mín. Vertu nú ekki að rifja þetta upp, það gerir þig angurværa. Það er ekkert að marka drauma; þeir eru bara það, sem maður er að hugsa um áður en maður sofnar", sagði maður hennar. En Steini sagði, að það brygðist þeim nú ekki þarna úti á Ströndinni, að þeir fengju góðan afla, ef þá dreymdi að þeir hefðu mikið hár og skegg. „Já, en það á nú ekki við hérna frammi í dalbotni“, greip Gróa fram í, „enda er það nú svo margt, sem sjómennirnir hafa fyrir afladrauma; það ætti ég að þekkja. En mig langar til að heyra, hvað þig hefur dreymt, Þórður“, sagði Gróa. „Ég segi aldrei drauma mína“, svaraði Þórður stuttlega. „Ég skyldi ráða hann fyrir þig“, hélt hún áfram. En Þórður sat við sinn keip og sagði ekki drauminn. Um kvöldið, þegar hætt var að vinna, reið hann út í kaupstað. Hann sagðist þurfa að finna Sigga. En erindið var að vita, hvort Línu liði ekki eitthvað illa. Kannske var hún lasin, eða hún kunni illa við sig þarna, sem hún þekkti eiginlega engan mann. Siggi var nýkominn af sjó, þegar Þórður fann hann loks eftir langa eftirspurn hjá vinnukonunum í húsinu, sem hann átti heima í. Þær hlutu að vera hreinustu heimskingjar, hugsaði Þórður. Önnur hélt, að hann væri á sjónum, ekki kominn að ennþá; en hin sagði, að hann hefði. verið að éta núna fyrir stundu síðan. Hann hefði ekki farið á sjó síðan. Svo hitti hann eldri soninn í húsinu. Hann var þó það skynsamastur að vísa honum á hann bak við ein- hverja sjóbúð. Þar stóð Siggi í miðri fiskkösinni og tveir félagai hans hjá honum. Hávær kríuhópur sveimaði yfir þeim, og stakk sér niður öðru hverju, ef girnileg lifur var í þægilegri fjarlægð frá sjómönnunum. „Maður gæti hugsað sér, að búið væri að láta þig í traföskur, eftir því hve erfitt er að finna þig“, sagði Þórður. „Það er nú svo sem ekki ólíkt því — slorkösin sú arna“, sagði Siggi. „En það eftirlæti, sem þú átt. Bara að ríða út. Það er álíka og ég, sem aldrei á frjálsa stund. Ég fer að öfunda þig“. „Er þá kaupstaðarlífið eitthvað öðruvísi en þú varst búinn að ímynda þér?“ spurði Þórður. „Já, það er öðruvísi en að vera við sjóinn, eins og ég hef verið, eða þetta þremilsins ófrelsi, að vera vinnumaður, þá hefur maður aldrei frið fyrir eintómum snúningum. Hvað ertu annars að fara, Þórður. Varla ertu að leika þér?“ „Svo má það nú samt heita. Mig langar að tala við þig hérna einhvers staðar, þar sem við þurfum ekki að kallast á til að heyra hvor til annars fyrir þessum kríuvörgum. Það er ljóti ófögnuð- urinn“. „Finnst þér það vera eitthvað annað en lóukvakið og svana- söngurinn fram í dalnum?“ sagði Siggi, og yfirgaf fiskinn og félaga sína með þeim fyrirheitum, að koma fljótlega aftur. Þórður komst fljótt að efninu: „Hvernig heldurðu að Lína hafi það?“ spurði hann. „Hvað? Veiztu þá ekki hvar læknishúsið er?“ spurði Siggi alveg hissa. „Ég held, að hún hafi það bara gott. Hún var víst heppin með vistina. Húsið er talið ágætt, og henni leiðist víst ekkert“. „Heldurðu að þú getir verið mér hjálplegur með að ná tali af henni?“ „Jú, auðvitað veit ég það. En heldurðu að ég fari að troðast þangað heim, og svo hefði hún kannske ekki einu sinni tíma til að heilsa mér, og þaðan af síður að tala við mig“. „Þú skalt fara bakdyramegin. Þá finnurðu hana“. „Nei, þú verður að ná í hana fyrir mig“. „En sá vesalingur, sem þú ert, Þórður, þegar þú ert kominn í kaupstaðinn. Þú hefðir ekki verið í vandræðum, ef þú hefðir verið í smalamennsku eða einhverju svoleiðis stússi á Nautaflötum. Ég skal þá sýna þér, hvort ég verð lengi að ná í stúlkuna. Ertu búinn að aíljúka öllum þínum erindum og ætlar kannske að fara að halda heimleiðis“. „Já, erindið var ekki annað en að sjá Línu“. „Jæja, þá skaltu bíða hérna upp með ánni — í Stóra-Hvammi, — en þú mátt bara ekki vera of bráðlátur; Það er ekki víst, að hún geti komið strax. Það þarf alltaf að vera að snúast í kring um sig, þetta kaupstaðarpakk“, sagði Siggi. „Ég bíð í klukkutíma“, sagði Þórður. En við sjálfan sig sagði hann, að hann gæti beðið alla nóttina, í von um að fá að sjá hana, þó ekki væri nema allra snöggvast. Lína var búin að ljúka við öll sín verk og sat við hvítskúrað eldhúsborðið, ánægð á svip yfir vel unnu dagsverki. Hún virti fyrir sér útsýnið, sem hún var þó farin að kannast við: húsin og torfbæina í kaupstaðnum, hafið blátt og slétt í lognmollunni, fagurt sólarlag, hinum megin, langt í fjarska, fjöll og dali, sem hún mundi ekki hvað hétu, þó hafði hún horft á þau á hverjum degi frá Háakoti, aðeins dálítið nær sér. Hún fór að syngja með lágri, dreymandi röddu, svo að það heyrðist ekki um allt húsið: „Svo mína sálu nú sigraða hefur þú. Engum ég unna má öðrum en þér“. Þá stakk Siggi kollinum inn um opinn gluggann. „Þetta á vel við“, sagði hann hlæjandi. „Hann bíður þín uppi í Stóra-Hvammi“. „Hver?“ spurði hún og kafroðnaði. „Hann, sem þú ert að syngja um“. „Er það Þórður?“ „Hver heldurðu að það sé annar en hann? Áttu nokkurn kærasta annan, sem þú gætir hugsað þér, að biði eftir þér uppi í Hvammi? En sá vesalingur, sem hann er; hann kom sér ekki að því, að finna þig sjálfur. Hann er eins og feiminn krakki, og þú svona blóðrauð í framan. Það er víst þó nokkuð erfitt, að vera að pukra þetta, sé ég er. En þú mátt ekki láta hann bíða lengi, því að barnsþörfin er bráð, eins og þú veizt. Hann ætlar að bíða í klukkutíma“. Svo hljóp Siggi burtu frá glugganum. „En sú biðlund, að ætla að bíða í heilan klukkutíma. Aumingja Þórður, svona var hann stilltur; og svo að koma sér ekki að því, að láta sjá sig við dyrnar á læknishúsinu. Hún gat nú sagt sér það sjálf, að hann, sem hún hafði verið að hugsa um, hefði varla farið að senda mann fyrir sig. Hann var vanur að reka erindi sín sjálfur, óhikað og feimnislaust. Og varla hefði hann beðið í klukkutíma eftir fundi hennar. Þórði fannst hann hlyti að vera búinn að bíða í hálftíma; en þegar hann tók upp úrið og leit á það, voru það ekki nema rúmar tíu mínútur. Skjóni sleit upp safríkt grængresi, gaf frá sér værðar- kennt, muldrandi hljóð, gaf upp öðru hverju, japlaði mélin og missti smátuggur út á milli flipanna, fór svo aftur að bíta. Hund- urinn, þessi tryggi, sjálfsagði förunautur fjármannsins, lá sofandi við fætur húsbónda síns. Allt var kyrt og þögult þessa dásamlegu júnínótt. Áin niðaði hljóðlaust áfram skammt fyrir utan hann. Það var eins og allt biði í hljóðri þrá eftir því sama og hann sjálfur — einum ástafundi. Skjóni lyfti allt í einu upp höfðinu. Hann hafði orðið var við hreyfingu uppi á hvammsbrúninni. Lína kom hlaupandi í einum spretti, og var komin í faðm kærastans, næstum því áður en hann vissi af nærveru hennar. „Ég ætla ekki að láta þig bíða í klukkutíma, góði“, hvíslaði hún brosandi. „Ég hefði beðið í alla nótt“, sagði hann glaður. „En hún hefði orðið löng“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.