Lögberg - 12.05.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 12.05.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 12. MAl 1955 J ... V. GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF ^— r „Nú, það er bara svona fyrir þér, Doddi drengur. Bara að þú hefðir fengið hana fyrir fullt og fast“, sagði gamla konan broshýr. „Ja, hver veit. Ekki lízt henni á Simma. Henni er víst bara illa við hann, heyrðist mér“, sagði Doddi, og leysti utan af sér trefilinn og þurrkaði svitann af andlitinu. Svo settist hann við borðið, þar sem maturinn beið hans. „Hvernig sem allt fer og veltist, verður þó líklega heldur fleira á fóðrum hérna næsta vetur“, sagði hann ánægður. „Og hún gaf mér líka kaffi með þessu fína brauði. Ég hef nú sjaldan smakkað annað eins“. - DIMMUR SKUGGI Snemma á krossmessudagsmorguninn gekk Lína ofan að litlum torfbæ, sem stóð rétt á árbakkanum. Það hafði verið heimili Gróu Péturs, en nú var það orðið eign Sigga Daníels. Þar ætlaði hann að fara að búa með Rósu sinni, og var nú í óða önn að flytja heim búslóðina. Dyrnar stóðu opnar inn í eldhúskytruna. Inn af henni var ein stofa. Þaðan heyrðust glaðværar raddir. Þar voru þau að koma fyrir fátæklegri búslóð, þessar vonglöðu manneskjur. Lína bankaði á hurðina. Rósa leit brosandi fram fyrir. „Góðan daginn, Lína mín!“ sögðu þau bæði í einu. „Vertu velkomin. Þú ert fyrsti gesturinn, sem lítur inn í nýja heimilið okkar“. „Það verður ykkur víst ekki til mikillar blessunar, að svona ólánsgarmur sé fyrsti gesturinn, sem kemur til ykkar. Samt óska ég ykkur hjartanlega til hamingju“, sagði Lína og færði sig inn fyrir, til þess að líta á nýja heimilið. Stórt rúm uppbúið með fallegu, útlendu teppi yfir, falleg klukka á hillu yfir því, borð og tveir stólar. Fram á eldhúsborðinu stóð ný olíuvél og leirtau. „Þetta verður svo sem nógu flott hjá ykkur“, sagði Lína og fann til óþægðar í hálsinum, þegar hún hugsaði um allt þáð, sem hún hafði verið búin að kaupa sér til að prýða með framtíðar- heimili sitt. „Það er nú heldur vesalt hjá því, sem verður þarna „vestra“ hjá þér, þegar þú ferð að búa með einhverjum milljóna-stráknum þar“, sagði Siggi. „Það má nú nærri geta“, sagði Lína og fór hjá sér. Siggi hélt áfram: „Finnst þér annars ekki hjónarúmið nógu myndarlegt?“ „Ætlarðu þá að gifta þig í dag?“ spurði Lína. „Gifta mig? Nei, það ætla ég ekki að gera. Ég býst ekki við, að það yrði neitt betra að sofa hjá Rósu, þó að presturinn læsi eitthvað yfir okkur. Eða heldurðu það, Lína?“ „Ég býst við, að það sé svipað, en hitt þykir viðkunnanlegra“, sagði Lína. „Hvað heldurðu, að Borghildur segi yfir þessu öllu saman, þegar hún heyrir, að þið sofið saman ógift?“ „Ó, hún hefur nú alltaf tekið svo vægt á öllum mínum axar- sköftum, eins og þú þekkir. Hún gaf mér þó þessa myndarlegu klukku og teppið ofan yfir hjónarúmið, þótt hún vissi, að það ætti að vera prestslaus hjúskapur“, sagði Siggi glaður. „Og svo gaf Kristján kaupmaður honum nýja olíuvél í búið“, skaut Rósa inn í. , „Nei, er það mögulegt, að hann hafi þetta til“, sagði Lína. „Þá hefur nú Matthildur líklega gefið honum eitthvað?“ „Hún frúsa? Nei, hún gaf mér ekki eyrisvirði“, sagði hann. „Hún er helmingi verri en karlinn, það hef ég alltaf sagt. Hér kemur laglegasti dúkur á borðið, sem stelpugreyin gáfu mér, þær Helga og Villa“. Hann breiddi dúkinn á borðið, hálfklaufalega. „Svona er það víst ágætt“. Rósa hló og skríkti af ánægju og sýndi henni hnífapör og skeiðar, sem foreldrar hennar höfðu gefið af fátækt sinni. „Finnst þér þetta ekki nógu prýðilegt?“ spurði Siggi. „Og svo ánægjan til viðbótar, því að hana ætla ég nú að reyna að hafa á mínu heimili“. Rósa vildi láta Línu bíða, meðan hún hitaði kaffi á nýju vélinni. En Lína vissi vel, að þar, sem ástin situr að völdum, er þriðju persónunni ofaukið. Hún settist ekki. „Ég kom til að biðja þig stórrar bónar, Siggi minn“, sagði hún. „Jæja — hver er hún? Hvað er það, sem ég get gert þér til gagns eða gleði?“ spurði hann glettinn. „Heldurðu að Kristján kaupmaður vildi ekki lána hest og kerru, svo að þú gætir flutt kommóðuna mína fram að Jarðbrú núna einhvern næstu daga. Ég tími ekki að láta flytja hana á klökkum. Hún gæti skemmzt undan böndunum“. „Hvað á hún að gera fram að Jarðbrú?“ spurði hann og horfði Á hana stórum augum. „Ég verð þar næsta ár“. „Næsta ár á Jarðbrú hjá Dodda og hættir við vesturförina?“ „Já“. Þau horfðu bæði á hana eins og hún væri eitthvert furðuverk. „Ég treysti mér ekki vestur vegna sjóveikinnar", sagði Lína kafrjóð. „Það eru mínar málsbætur“, bætti hún við og brosti vandræðalega. „Þú þarft víst engra málsbóta með. Það er víst ekki eins og þú hafir drýgt neinn glæp“, sagði Siggi og skellihló. „Þú ert bara sú mesta ráðgáta, sem ég hef glímt við nú nýjega. En kommóðunni skal ég koma óskemmdri fram eftir fljótlega“. „Þakka þér fyrir, Siggi“, sagði hún og kvaddi þau innilega. Hljóp hún síðan heimleiðis með augun full af tárum. Hvað áttu þessi tár að þýða? öfundaði hún þau af ástalífi þeirra? spurði hún sjálfa sig. Ekki var það beinlínis. En hún þráði að njóta ástarinnar frjálslega. Hitt var að verða kvöl og hafði alltaf verið. Sífelldur feluleikur og kvíði, að einhver kæmist að leyndarmáli hennar. Simmi var með sífelldar glósur; hún stillti sig og lézt ekki skilja, en hana sveið undan þeim eins og hrísi. Hún var farin að hata þann ógerðarslána og hlakkaði til þeirrar stundar, sem hún kæmist burtu úr návist hans. Og nú var frelsisdagurinn runninn upp. Doddi stóð við eldhúsdyrnar og beið hennar. Andlit hans var eitt sólskinsbros. „Þá er ég nú kominn“, sagði hann. „En Rauður er nú ekki vel þýður“. „Hann er víst ágætur“, sagði hún. „Ég er alveg tilbúin“. Hún hljóp upp á herbergið sitt, eftir að hún hafði náð í söðulr inn sinn inn í kjallara, og Doddi var að leggja hann á rauða klárinn. Hún tók hvítan borðdúk upp úr kommóðunni sinni og fallegan brauðdisk, vafði það innan í bréf og bað aðra læknisdótturina að hlaupa með þetta ofan í bæinn til Rósu og Sigga. Þetta hafði átt að fara í nýja heimilið hennar. Nú hafði hún víst heldur lítið með það að gera. Kannske ætti það aldrei fyrir henni að liggja að verða húsmóðir. Svo klæddi hún sig í reiðfötin og setti upp litla, fallega stráhattinn. Þá var hún ferðbúin. Frúin var búin að margsegja henni, að hún mætti vera þar í húsinu, þangað til hún færi til Ameríku. Lína hafði þakkað boðið, en bjóst við, að hún færi kannske heim til mömmu sinnar. En nú kom hún ferðbúin ofan stigann allt í einu, fór inn í stofudyrnar og sagðist ætla að kveðja. „Hvert eruð þér að fara?“ spurði frúin alveg hissa. „Fram í dal“, sagði Lína. „Ætlið þér að verða á heimili þessa manns, eða er hann bara að sækja yður fyrir eitthvert annað heimili?“ spurði hún forvitin. „Ég verð hjá honum“, svaraði Lína. „Hver hjálpar yður að útbúa yður vestur — kannske Anna á Nautaflötum?“ hélt frúin áfram að spyrja og horfði á Dodda út um gluggann. „Nei, nei“, sagði Lína. Hún hjálpar mér ekkert. Ég þarf enga hjálp“, bætti hún við og flýtti sér að kveðja. Litlu systkinin fylgdu henni út og horfðu löngunaraugum á hestana, en þorðu ekki að biðja ókunnuga manninn að lofa sér að ríða svolítinn spöl. Simmi kom slangrandi neðan úr kaupstaðnum. Lína veifaði til hans með keyrinu. Hann horfði á eftir þeim með ógeðslegu háðsglotti. Silla kom fram í kofadyrnar og kallaði til Simma: „Hvert er Lína að fara?“ Hann lét sem hann heyrði ekki. „Hver er þessi, sem Lína þeysir með?“ kallaði hún enn hærra, þegar hún sá Simma labba heim að húsinu, án þess að virða sig svars. „Það er hann þarna drjóli frá Jarðbrú — hvað sem hann heitir“, sagði hann. „Ætlar hún að verða hjá honum — fara til hans?“ „Það veit fjandinn“, sagði hann og fór inn. Þá hljóp Silla inn til frúarinnar. Hún var lítið fróðari. „Ja, hún Lína“, sagði Silla og skellti á lærið. „Hvað skyldi eiginlega verða um þá manneskju á endanum? Ég segi nú ekki annað. Hún verður sífellt leyndarmál. Það sagði mér kona utan af Strönd um daginn, að hún væri hætt við að fara til Ameríku, og hún bar hana móður hennar fyrir því. Og hún bætti því við, að sér fyndist hún vera eitthvað svo hugsandi, þegar hún talaði um Línu, nefnilega hún móðir hennar“. „Aumingja móðirin!“ andvarpaði frúin. Silla skildi ekki, hvað hún átti við. Var hún þá að verða sama leyndarmálið og Lína? Frúin opnaði hverja hurð að eldhússkápunum og sýndi Sillu, hvernig Lína hefði skilið við allt hreint og fágað. „Ég hef aldrei haft aðra eins stúlku“, sagði hún, og þ^ð var ekki laust við klökkva í rödd hennar. „Ég vona, að hún eigi eftir að verða fínindisfrú í Ameríku. Það er sorglegt, þegar svona stúlkur lenda í einhverju auðnuleysi. Nú fæ ég ungling, öllu óvanan. Skyldi mér bregða við. Ég var að vona, að hún yrði hjá mér, þangað til hún færi vestur. Hún hefði getað sagt hinni stúlkunni til“. „Ætlar hún sér að verða þarna í kotinu hjá honum Dodda?“ spurði Silla, þótt frúin hefði sagt henni, að hún hefði ekki nokkra hugmynd um, hvert Lína væri að fara. „Ég veit ekki nokkurn skapaðan hlut fremur en þér sjálfar“, anzaði frúin fálega yfir þessum sífelldu spurningum. „En ef þér gætuð verið hjá mér í dag og á morgun, þætti mér fjarska vænt um það. Aumingja stúlkan verður eftir sig og öllu óvön“, bætti hún við í hlýrri málróm. „Sjálfsagt, elskan“, sagði Silla. Lína sló duglega í klárinn, þegar hún hafði kvatt Simma með keyrinu. Hún heyrði köllin í Sillu og hafði gaman af. Nú byrjaði undrunin. En hana langaði til að flýta sér í burtu frá þessu öllu saman, glitrandi snjáldrinu á Simma, skvaldrinu í Sillu og ásök- unaraugnaráði húsmóðurinnar, yfirgefa kolareykinn og fisklykt- ina, anda að sér heilnæmu og hressandi dalaloftinu. Það var glaða sólskin og sunnangola. Dalurinn breiddi móti henni faðminn, sem hvorki tilheyrði sumri né vetri. Það var ekki hvítur engil- faðmur, eins og Þórður var einu sinni að benda henni á. „Hvernig líkar þér veðrið?“ spurði Doddi, þegar þau höfðu hlunkazt áfram þegjandi dálitla stund á níðhöstum klárunum. „Það getur tæplega betra verið“, sagði Lína. „Ég get hugsað mér, að mömmu líki það. Hún trúir á veðrið“. „Já, það gera fleiri“, sagði Lína. Rétt í þessu dró dimman skýflóka fyrir sólina. Dalurinn varð dimmur og golan svöl. „Hvaða ólukku-fyrirboði var nú þetta?“ sagði Lína. Þau riðu þegjandi lengi. Línu fannst ískaldar hendur strjúkast eftir andliti sínu og berum hálsinum, en þá dró frá sólinni og dalurinn var orðinn uppljómaður á svipstundu. „O, það er búið“, sagði Doddi karlmannlega. „Já, það er búið“, endurtók hún. Hildur stóð úti fyrir bæjardyrunum, þegar þau riðu í hlaðið. DQddi var ofsakátur eins og krakki, veifaði mömmu sinni utan úr tröðinni og kallaði: „Hugglaður reiði ég heim mína brúði“. Það var úr gömlu kvæði, sem hún hafði einhverntíma verið að reyna að kenna honum. „Og það er nú svo sem ekki eins og hún sé þín brúður, Doddi drengur11, sagði hún brosandi. Lína hoppaði af bak i og heilsaði tilvonandi húsmóður sinni með kossi. Hildur bauð hana velkomna og virti hana fyrir sér, alveg hissa yfir því, að svona fín og lagleg stúlka skyldi vera að flytja á hennar fátæklega heimili. „Mikið var ég nú óánægð með þennan skugga, sem endilega þurfti að koma áðan“, sagði Hildur hálfáhyggjufull. „Nú tekur mamma til með hjátrúargrillurnar“, sagði Doddi. „Það var mér líka“, sagði Lína. „Hann var svo svartur og kaldur“. „Ég man nú líklega eftir haglélinu, sem gerði á okkur, þegar við vorum að flytja hingað fram í dalinn. Það var heldur ekki langt eftir því að bíða að syrti að“, sagði Hildur og stundi mæðulega. „Já, en svo kom sólskin á eftir“, gall í Dodda. „Ég er nú ekki ósköp kvíðinn“, bætti hann við og snaraði hnakknum á hlaðið, svo að hann gæti farið að spretta söðlinum af. Hildur hafði sópað og fágað allan bæinn, eins og ætti að fara að halda veizlu. Lína kunni vel við sig í baðstofunni, þó að hún væri þröng og gluggarnir allt of litlir, svo að hún væri nógu björt. Rúmin voru afar skrítin, líktust skáp, sem vantar hurðina fyrir. Hildur sagði, að þetta hefðu verið kölluð lokrekkjurúm. Fyrir einu þeirra var dökkleitt léreftshengi. I því hafði Hildur sofið, en nú átti Lína að sofa í því, en Hildur hafði búið um sig í öðru rúmi á heysæng, því að ekki voru til nema tvær undirsængur. En Lína sagði, að annað hvort yrðu þær að sofa saman eða þá að hún svæfi í því rúmi, varla færi hún að reka hana úr rúmi. Það hafði nú gamla konan ekki látið sér detta í hug, að Lína vildi sofa í sama rúmi og hún, svona fín stúlka, og svo var rúmið líka svo mjótt. En það fór lítið fyrir Línu í rúmi. Hún var tággrönn og hreyfði sig ekki í svefninum. „Nú þarftu að reyna að muna, hvað þig dreymir fyrstu nótt- ina, sem þú ert hjá mér“, sagði Hildur, þegar þær voru háttaðar. „Æi, mig er búið að dreyma svo leiðinlega í vetur, að mig langar ekki til að dreyma neitt“, sagði Lína og grúfði sig ofan í koddann og sofnaði samstundis. Hún steinsvaf í sömu stellingum um morguninn, þegar Hildur fór að klæða sig. Hún fór hægt, eins og ungbarn svæfi fyrir ofan hana, og hugsaði sér að færa henni kaffið í rúmið. En áður en farið var að sjóða á katlinum, var Lína komin alklædd út á hlað. „Og ég, sem ætlaði að færa þér kaffið í rúmið“, sagði Hildur við hana, þegar hún kom inn með „góðan daginn“. „Ég þekki nú ekki svoleiðis11, sagði Lína. „Þú mátt þó ekki fara að dekra við mig og gera mig lata“. „Ó-nei, það er víst engin hætta á, að ég geri það. En manstu ekki hvað þig dreymdi?“ „O, það var svo óttalega ruglingslegt og vitlaust. Mig dreymdi svolitla barnsvöggu, sem stóð þarna inn við stafninn hjá borðinu. Hálft í hvoru fannst mér það myndi vera barn í henni. Svo kom Þórður á Nautaflötum með fullt fangið af lyngi og fyllti vögguna með því, og það voru svo falleg blóm á því, stór hvít og rauð blóm“. „Þetta verður fyrir einhverju góðu — svona falleg blóm“, sagði Hildur, sæl á svipinn. Hún var svo innilega ánægð og var þess fullviss, að það yrði sér til blessunar að fá þessa stúlku á heimilið. Nú komu hlýir sólskinsdagar úti og inni. Lína var dáð og dýrkuð. Doddi fylgdi henni með augunum hvert sem hún fór. Það var sannarlega gaman að hafa hana hjá sér, horfa alltaf á hana. Hún var í svo hreinum og fallegum fötum, sem fóru svo vel á grönnum, fallegum líkama hennar. Doddi var í vandræðum, þegar hann þurfti að fara að stinga út taðið. Honum fannst Lína allt of fín til þess að snerta á svoleiðis skítverkum. En Lína var ekki í vandræðum með neitt. Hún festi bara hreinan poka framan á sig, utan yfir ljósleita kjólinn, og svo var hún jafnhrein og hún hefði aldrei snert á taðinu, þegar pokinn var tekinn burtu. Svo kom Siggi Daníels einn daginn með hest og kerru. í henni var aleiga Línu. Doddi hljóp ofan á eyrarnar — lengra komst kerran ekki. Hann sló á lærið, þegar hann sá, hvað kommóðan var falleg. „Það eru nú tæplega húsakynni fyrir svona hirzlur hér á Jarðbrú“, sagði hann. Heim var kommóðan samt borin á handbörum og alla leið inn í baðstofu. Seinna kom koffort og stór kassi. Lína átti svo sem þó nokkuð til, ekki eldri en hún var, hugsaði Hildur. „Mér þykir nú líklegt“, sagði Siggi, „að þú reynir að ná í Línu, svo að kommóðan þurfi ekki að hrekjast mikið — hún er anzi óþægileg í flutningi“. „O-já, o-já, við sjáum nú til“, sagði Doddi og horfði íbygginn á svip framan í Sigga. Svo hló hann ánægjulega og bætti við: „Manni dettur nú svo margt í hug“. „Það er ekki nóg að láta sér detta í hug“, sagði Siggi glettinn. „Það verður að reyna að koma því í framkvæmd“. „Já, við skulum nú bara bíða rólegir. Kannske þú heyrir eitthvað, Siggi minn, áður en langt um líður“. En það fannst Sigga ótrúlegt, að hann ætti eftir að heyra það, að Lína og kommóðan ílengdust á Jarðbrú, þó að hann væri orðinn hissa á Línu og hennar háttalagi nú í seinni tíð. NÚ ER SUMAR í SVEITUM Það vakti ekki lítið umtal í nágrenninu, þegar það sást, að ljósklæddri stúlku brá fyrir öðru hvoru kringum bæinn á Jarðbrú. Enginn var þó eins forvitin og Helga á Hóli. „Hvaða gestur getur eiginlega verið kominn að Jarðbrú? Það er einhver manneskja í taðinu með Hildi, og ég hef séð hana fyrri þar úti“, sagði hún. „Kannske þau hafi fengið sér krakka eða ungling sér til hjálpar“, sagði Erlendur. „Hún fer nú að þreytast, aumingja stráið hún Hildur, og letilegt fyrir fullorðið fólk að fara hvern snúning“. „Mér sýnist hún vera jafn tindilfætt og hún er vön“ hnussaði í Helgu. „Hún er alltaf eins og ung stelpa sú manneskja“. Næsta dag sást, að verið var að flytja eitthvað á kerru utan eyrarnar, og allt lenti það á Jarðbrú. Þá varð Helga þess fullviss, að eitthvað óvanalegt var á seyði. Hún klæddi sig því í skárri fötin og gekk út eftir um kvöldið. Það var svo sem ekki um að villast. Þarna hljóp snjóhvít manneskja upp túnið og stefndi upp á fjall. Og það var hvorki krakki né unglingur, heldur fullorðin stúlka. Hildur kom fram í dyrnar jafnsnemma og Helgu bar að dyrun- um. Helga heilsaði með mörgum kossum. Hildur sagði, að sér fyndist fjarska langt síðan hún hefði komið. „Ó-já, ég hef nú ekki stigið mínum fæti út úr landareign- inni, hvorki hingað eða neitt annað, síðan ég fór hingað út eftir í vetur, þegar þú meiddir þig. Hvernig hefurðu það nú? Ertu ekki orðin jafngóð af byltunni?“ sagði Helga og athugaði bæjardyrnar hátt og lágt, rétt eins og hún hefði meira áhuga á þeim en heilsu- fari grannkonu sinnar. Dyrnar voru betur sópaðar en vant var, $g gekk þó Hildur þrifalega um. Og þarna hékk dökkleitur kjóll á einum naglanum. „Jú, jú, ég er orðin ágæt af því, sem betur fer, enda býst ég við að hafa það rólegra þetta ár að minnsta kosti en vanalega hefur verið. Þóroddur minn dreif sig í að taka vinnukonu. Hann hélt víst, að ég kæmist aldrei til heilsu aftur“, sagði Hildur á leiðinni inn göngin. * „Nei, ekki öðruvísi“, sagði Helga. „Mér hefur alltaf sýnzt þetta, að hér væri komin ný manneskja. Erlendur hélt, að þið hefðuð fengið ykkur krakka, en hitt datt okkur ekki í hug, að þið væruð svona flott, að taka vinnukonu“. „En svona er það nú samt“, sagði Hildur glettin. Doddi sat brosandi inn á rúmi.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.