Lögberg - 19.05.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 19.05.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 19. MAl 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF Helga hlammaði sér niður, þegar hún hafði heilsað, og blés þreytulega. Hún var feitasta kona sveitarinnar og var því erfitt um gang. „Ég gæti nú hugsað, að þér sýndist vera komin talsverð breyting á í baðstofunni“, sagði Doddi og hló glaðhlakkalega. Helga athugaði baðstofuna. Það var nú meiri breytingin. Þessi fína kommóða með útsaumuð- um blúndudúk, og stóðu þar myndir af börnum læknishjónanna og líka af Ásgeiri frá Háakoti. Lítill, fallegur saumakassi stóð á miðjum dúkn- um og ofan á honum var mynd af Jakobi litla á Nautaflötum. Það var haft þetta mest við hann, af því að hann horfði á eiganda kommóðunnar með augum föður síns. En það vissi nú enginn nema Lína sjálf. „Hver er hún eiginlega þessi manneskja, sem þú ert búin að ná í? Það lítur út fyrir, að hún sé ekki blásnauð“, var það fyrsta, sem Helga sagði. „Það er hún Sigurlína frá Háakoti. Þú kannast við hana. Hún var svo lengi á Nautaflötum11, sagði Hildur. „Ég er nú bara aldeilis hissa. Er hún nú komin hingað! Og það var verið að þvæla um það, að hún ætlaði til Ameríku. Svona er það, það er engu að trúa, sem maður heyrir. Og hún á þessa ómyndarkommóðu, skárri er það ljóminn. Og elda- vélargreyið er orðin svona glansandi, næstum óþekkjanleg. Þú varst svei mér lánsöm að fá þessa stúlku. Hún er víst fjarska þrifin og dugleg. Það er nú kannske dálítill munur eða hjá mér, sem hef þennan vesaling, sem ekki getur skamm- laust spunnið Sokkaband, hvað þá annað“, sagði Helga og öfundsýkin brenndi huga hennar. Hún var ákaflega öfundsjúk kona og fannst öllum líða betur en sér. Hún hafði alltaf öfundað þau Jarðbrúarmæðginin af því að búa skuldlausu búi og af því að eiga fjórðungskú. Það fannst henni, eins og líka var, vera hámark búsældarinnar. En nú bættist við fín vinnukona. Hildur hélt áfram að hæla Línu. „Hún er al- veg framúrskarandi .Svona burstaði hún maskínu- garminn úr ofnsvertu, og svo ætlar hún að sauma sparilök fyrir rúmin. Og svo er hún alltaf að þrífa og sópa. Ég býst við, að það sé leitun á stúlku, sem á annað eins af öllum hlutum og hún. Þennan kassa“ — hún benti á kassa, sem stóð undir koffortinu fram við dyrnar — „á hún fullan af leirtaui, þessu líka fína leirtaui og postulíni“. „O-já, o-já, hún segist ætla það í búið“, sagði Doddi og hló drýgindalega. Helgu gramdist að sjá, hvað þau voru sæl og merkileg yfir Línu, næs.tum eins og hún væri tilvonandi tengdadóttir og eiginkona á þessu heimili. „Hún er nú víst ein af þeim, sem hefur hug á að ná sér í einhverja karlmannsmynd“, sagði hún og glotti meinfýsin. „Verst að henni helzt svo illa á þeim, greyinu. Ketilríði sagðist svo frá, að þau væru góðir vinir, Þórður og hún, og svo heyrði ég sagt, að hún hefði látið eins og óhemja utan um Sigga Daníels í fyrra sumar, en honum hefur víst litizt betur á Rósu. En svo höfðu þau ekki talazt við í allan fyrra vetur, og Lína greyið hefði hreint verið eins og gægsni, hún hefði séð svona mikið eftir honum. En hefði ég nú átt að velja milli þeirra, hefði ég heldur tekið Línu, hún er ólíkt snotrari, og svo er Rósa greyið komin út af þessu leiðindafólki“. „Ég get nú ekki ímyndað mér, að nokkur karlmaður sé svo heimskur að hika við að taka aðra eins stúlku að sér og Lína er, ef hann á kost á því“, sagði Hildur alvörugefin. „Þú þekkir hana nú lítið ennþá, Hildur mín. Margt rausaði Ketilríður um hana, en það gerði hún nú um flesta, bæði mig og aðra“, sagði Helga. „Aldrei vissi ég, hvað það var, sem hún var að dylgja um, þegar Lína fór frá Nautaflötum. Mér skildist, að það hefði verið einhver annar kominn í spilið en Þórður. Kannske það hafi verið Siggi, sem hún var að glosa um. Það kom einhver rétt í því, svo að ég gat aldrei haft það upp úr henni. Það var í síðasta sinn, sem hún kom á mitt heimili“. „Sussu, sussu“, sagði Hildur og hristi höfuðið. „Hún var svo ósköp óvönduð í tali, sú kona“. Doddi horfði á Helgu með einkennilegan glampa í augum og reyndi hvað eftir annað að taka til máls, en tókst það ekki. Nú loksins komst hann að og ruddi úr sér langri varnarræðu: „Þetta er nú eins og hver önnur skreytni. Skyldi Siggi hafa farið að flytja á kerru fyrir hana alla leið hingað fram að Jarðbrú, hefði eitthvað verið öðruvísi en almennilegheit á milli þeirra? Og hún sagði mér það sjálf, að sér væri vel við Þórð, af því að þau væru búin að vera svo lengi saman, og það værí líka öllum vel við hann“. Helga veltist um af hlátri: „Fórstu að tala um þessi trúlofunarmál við hana?“ spurði hún, þegar hún gat stillt sig. Hildur varð fyrir svörum. Henni þótti nóg um hláturinn. „Hann hefur víst ekki verið neitt að hugsa um það, bara svona borizt eitthvað í tal þeirra á milli. Það fer fyrir ofan og neðan hjá okkur, svona slúður“, sagði hún þurrlega. Doddi spratt allt í einu upp úr sæti sínu og flýtti sér út að gluggakytrunni. Ein rúðan hafði verið tekin úr. Inn um hana barst söngur ofan úr fjallinu. Lína hoppaði stall af stalli og söng: „Nú er sumar í sveitum, sumar í brjóstum heitum. Komdu kæri — komdu kæri! kalla ég til þín“. Doddi leit brosandi til móður sinnar. „Nú þykir mér hún ekki óskemmtileg“, sagði hann. „Svona syngur hún allan daginn, þessi blessuð, lífsglaða stúlka“, sagði Hildur hrifin. „Hún hefur líka þessi indælu harmónikuhljóð“. „Skárri var það nú upplyftingin fyrir þig að fá þessa manneskju allt í einu inn á heimilið. Og svo ertu búin að rífa glerið úr glugganum. Eru það nú hennar ráð, þessarar söngdísar þinnar“, sagði Helga og reyndi að stilla hláturinn. „Hún segist ekki geta sofið í þessu innibyrgða lofti“, sagði Hildur. „En þau merkilegheit í þessum kaupstaðar- stelpum, þótt þær hafi alla ævina átt heima í kotum, þar sem aldrei er hægt að opna glugga", sagði Helga. „Ó, hún er nú ekki svoleiðis, það get ég sagt þér. Hún gerir sér allt að góðu og er ekkert nema viljinn og þægðin“. „Hún bara bauðst nú til að fara upp í fjall, til þess að gæta að fyrirmálsánni", gall í Dodda. „Ég fer nú að koma með kaffið“, sagði Hildur. „Lína ætlar að vera að dunda þarna upp í fjall- inu í allan dag. Hún má það víst líka fyrir mér, blessuð stúlkan. Ég bíð ekki lengur með kaffið“. Helga var gröm í skapi og þyngslaleg í göngu- lagi á heimleiðinni. Hún gekk upp að fjárhúsun- um, þau stóðu utarlega í túninu. Þar var allt heimilisfólkið við útstungu. Erlendur kom út rétt í því að hún kom að húsunum, og var hann með skófluna í hendinni, hvíldi bakið við dyra- stafinn og þurrkaði svitann framan úr sér á skyrtuerminni. Helga heilsaði. „Nú, ertu komin“, sagði hann kímileitur, „ég hélt, að þú ætlaðir aldrei að komast utan að. Okkur er farið að langa í kaffisopa. Eiginlega datt mér í hug, að tíminn hefði allt í einu hlaupið áfram um 50—60 ár og þú værir orðin nírætt gamalmenni, og ég þá náttúrlega líka, og undrað- ist ég, að ég gat þó ennþá haldið á skóflu. Og þú ert jafnsveitt og ég af að ganga þennan spöl“. „Ó-já“, sagði hún í sama tón, „það er nú svona, að vera mörmikil. Það er erfitt að hreyfa sig mikið. En nú skaltu geta, hver það er, sem komin er að Jarðbrú. Þau eru nú reyndar búin að fá sér vinnukonu“. „Nú-ú, það er það, sem liggur svona þungt á þér. Ég hélt, að Hildur hefði kannske eignazt fallega rósótt bollapör eða eitthvað, sem þig hefði langað til að eiga líka. Eða þá að þú hefðir frétt mergjaða slúðursögu. En það er þá bara ný vinnu- kona“, sagði Erlendur og hló ánægjulega. „Já, og það þessi óhræsis stúlka“, sagði Helga. „Ef ég hefði aðra eins hjálp, þá gæti ég sjálfsagt sofið á nóttunni fyrir þrautum í handleggjunum. Ég finn það, að ég þoli ekki þessar mjaltir á sumrin“. „Nú, ertu nú hætt að geta sofið. Aldrei verð ég var við það, og vært sefurðu þó á morgnana, þegar ég klæði mig“. „Hvað ætli þú svo sem vitir, sem háhrýtur alla nóttina. Þú ætlar að verða alveg eins og karlinn hann faðir þinn með bölvaðar hroturnar“, sagði hún önug. „Það er hraustleikamerki að geta hrotið. En hver er hún annars þessi vinnukona, sem Doddi er búinn að ná í?“ » Helga gleymdi alveg öllu önuglyndi og fór að hlæja. „Það er nú reyndar hún Lína, sem var á Nautaflötum. Hún er hætt við vesturförina og komin til Dodda, og þau eru svo montin af henni, að ég gat ekki annað en hlegið að þeim upp í opið geðið á þeim. Það er nú svo sem sama, hvort er, Ameríkudýrðin eða kofarnir á jarðbrú". „Það er ágætt að Hildur fær einhverja mann- eskju sér til hjálpar. Ég vona, að hún fari ekki þaðan aftur“, sagði Erlendur kátbroslegur. „En ég held, að ég verði nú að segja eins og mér finnst vera, að ég sé ekki, að hún hafi neitt með vinnukonu að gera“, sagði Helga. „Það hefði víst verið nær að ég hefði fengið vinnukonu mér til hjálpar“. „Eins og þú hafir ekki þarna tvær kven- mannspersónur til að vinna það versta fyrir þig. svo að þú getir safnað meiru utan á þig af fitunni. Og ekki eru þær kaupdýrar, þó að þær séu kannske ekki eins fínlega til fara og þessi nýja þarna á Jarðbrú, þá gerir það minnst til“, sagði Erlendur kímileitur. Ragnhildur gamla hafði fært sig nær til þess að heyra, hvað tengdadóttir hennar hefði með- ferðis af fréttum. Nú gegndi hún fram í samtalið og ekki mjög þýðlega: „Hvaða vinnukona skyldi vilja fara til þín, sem á völ á einhverju öðru? Hér hefur maður púlað meira en hálfan daginn, án þess að fá svo mikið sem bláan vatnsdropa til að hressa sig á. En þú situr á bæjum að veiða slúður og slabb um náungann“. * ' Erlendur þóttist nú skilja, að komið væri til sinna kasta að reyna að miðla málum, eins og svo oft áður: „Vertu nú ekki ósanngjörn, gamla. Hún kemur ekki með eina einustu slúðursögu, bara stórmerkar fréttir. Þar til og méð sendi ég dreng- inn heim áðan, til þess að hengja ketilinn yfir, svo að það sýður sjálfsagt á honum“. Síðan sneri hann máli sínu til konu sinnar: „Reyndu svo að síga heim og vera nú einu sinni snör að mala á könnuna, áður en kviknar algerlega í kerlingar- varginum. Við blásum mæðinni á meðan“. Helga seig heim túnið, sárfegin því að þurfa ekki að lenda í orðasennu við tengdamóður sína í þetta skiptið. Skyldi það vefa nokkur munur, að hafa síglaða og syngjandi stúlku hjá sér eins og Hildur gamla? En það var ólíklegt, að hún hefði því láni að fagna mörg árin, og eitthvað þyrfti líka að gjalda henni. Ekki voru þær orðnar svo kauplágar, vinnukonurnar nú á dögum. Lína hafði ekki verið nema rúma viku í nýju vistinni, þegar Hildur sagði henni, að það væri sjálfsagt, að hún fengi hest fram að Nautaflötum. En Lína sagðist ætla að láta það bíða, þangað til seinna, að hún færi til kirkju. En sig langaði til að skreppa yfir að Hvammi. Doddi var fljótur að sækja þann rauða og snara söðlinum á hann. „Auðvitað setur hann reiðhestinn undir þig“, sagði Hildur hreykin. „ÖIlu má nú nafn gefa“, hugsaði Lína. Hún hefði heldur kosið að ganga en sitja á svona ill- gengri skepnu, en áin var því til fyrirstöðu. En hún lét það ekki í ljós og kvaddi húsbændur sína með virktum. Þau stóðu á hlaðinu og horfðu á eftir. „Finnst þér hún ekki lagleg?“ spurði hann. „Jú, ég held það nú, aldeilis bráðlagleg“, sagði Hildur.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.