Lögberg - 15.12.1955, Blaðsíða 22

Lögberg - 15.12.1955, Blaðsíða 22
22 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 15. DESEMBER 1955 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Nei, nú segi ég þér ekki meira“, svaraði hann lágt utan úr myrkrinu. Þú þolir ekki að heyra meira. Einhvern tíma, þegar þú ert stillt og góð kona, skal ég segja þér það, en ekki núna“. „Ég þarf ekki heldur að spyrja þig. Ég veit það. Hann hefur orðið brjálaður, og það verð ég líka. Ég finn, að það á fyrir mér að liggja — kannske í kvöld. Þessi hlátur — ég get ekki ráðið við hann. Guð minn góður!“ hrópaði hún. Hann kom til hennar. „Nei, nei, hann varð ■ekki brjálaður. Hann varð bráðkvaddur nóttina eftir að hún móðir þín var borin til grafarinnar. Þú varst leynd því, góða mín, af því að þú varst sorgbitið, kjarklaust barn. Engri manneskju hefði dottið í hug að leggja það illa út annarri en Ketilríði, þeirri eiturnöðru. Þú manst þá, hvað mamma og pabbi voru þér“. Hann rétti henni höndina biðjandi. „Vertu nú stillt og góð, elsku Anna mín!“ Hún kreppti litlu, hvítu hendurnar og sló á hönd hans. Hann undraðist, hvað högg hennar voru þung og sár. „Farðu, svikarinn þinn, lygari!“ œpti hún. „Ég læt þig ekki snerta mig framar. Þú heldur kannske, að þér takist að slétta yfir þetta allt saman með fagurgala og blíðmælgi eins og vant er? En þar skjátlast þér. Ég ætla mér ekki að lifa á þínu náðarbrauði eða þiggja molana af ást þinni“. „Þú átt ást mína jafnt fyrir þetta. Það er bara eins og hver önnur hrösun, sem getur hent alla“. „Þú slærð ekki upp í augun á mér, þegar þú ert svo nálægur, að ég geti horft á þig. Þú elskar hana. Ég sá, hvernig þið horfðuð hvort á annað. Þú lagðir henni liðsyrði, þegar hún bað þig með augunum, og talaðir hranalega til mín. Og svo vogarðu þér að ljúga því, að þér þyki ennþá vænt um mig“. Hann hörfaði frá henni alveg rpðalaus. Hver skyldi hafa trúað því, að þessi prúða og orðvara kona léti sér slík orð um munn fara? Hér var eitthvað óvanalegt á seyði. Það var sjálfsagt bezt að hann færi. Hún yrði kannske ekki eins æst, ef hún sæi hann ekki. „Ég veit það, að ég hef verið hamingjusamasta kona sveitarinnar í mörg ár, en nú er ég allt í einu orðin sú óhamingjusamasta. Ég hlakka til þess, þegar ég get farið héðan og komist svo langt í burtu, að ég sjái hvorki þig né neitt, sem minnir á þig. Þá hugsa ég um þig eins og þú sért dáinn“. Röddin smálækkaði, eins og hún væri að sofna. „Ég ætla að fara“, sagði Jón. „Á morgun getum við talað skynsamlega um þetta, góða mín. Þá verðurðu orðin róleg“. „Ætlarðu til litla, fallega barsins þíns? Hún er alveg eins og hún Lísibet litla, stúlkan mín, sem er búin að liggja mörg ár í litlu kistunni sinni. En þú skalt aldrei fá að sjá barnið hennar Línu aftur, fyrst ég fæ ekki að sjá mína stúlku. Ég skal biðja Þórð að gæta að þér. Ég hef alltaf álitið Þórð góðan mann, en Ketilríður sagði, að hann væri falskur eins og allir aðrir á þessu heimili“. Hún talaði í lága svefngöngurómnum, sem honum fannst ennþá hræðilegri en ofsamælgin, sem hún hafði talað í áður. Hvorugt var henni eðlilegt. „Þú ættir sem minnst að hugsa um það, sem Ketilríður sagði þér. Hún reyndi með öllu móti að koma inn hjá þér sínum andstyggilega hugsun- arhætti, bölsýni og tortryggni. En það er áreiðan- lega eina m'anneskjan, sem hefur álitið Þórð ómerkilegan mann. Það er mér óhætt að segja“. Það fór ekki fram hjá vinnufólkinu, að eitt- hvað óvanalegt væri á seyði inni í hjónahúsinu. Gróa þaut fram til Borghildar til að segja henni fréttirnar. „Hún er víst bara alveg búin að tapa sér, manneskjan", sagði Gróa óðamála. „Ég heyrði þennan líka litla málanda. Stundum bara æpti hún. Ég heyrði að hún kallaði hann lygara. Þvílík ósköp, drottinn minn, að þetta skyldi koma fyrir hana svona allt í einu. Það var eins og þessu væri hvíslað að mér, hvað væri í aðsigi, þegar ég sá framan í hana í gærkvöldi. Það var ásjónin hans Friðriks heitins föður hennar“. Síðustu setninguna hafði hún sagt sjálfsagt tuttugu sinnum síðan kvöldinu áður. Borghildur setti upp einbeittan svip og klemmdi saman varirnar ems og alltaf, þegar eitt- hvað mikið þurfti að gera, og gekk svo til bað- stofu. Það var búið að kveikja. Manga sat við rokkinn og glápti kjánalega framan í Borghildi, en sagði ekkert. Gróa gekk fast á eftir henni að húsdyrunum. Hana langaði til að sjá, hvað þar væri um að vera, um leið og Borgihldur opnaði hurðina. En þar var þá niðamyrkur. „Því í ósköpunuih kveikið þið ekki?“ spurði Borghildur og lokaði hurðinni samstundis. „Það var hann, sem dró fyrir gluggann“, gegndi Anna. „Hann vill ekki láta sjá framan í sig“. Jón tók glasið af lampanum og kveikti. Anna greip höndunum fyrir andlitið og kveinaði: „Ég þoli ekki þetta ljós! Ég þoli ekki þessa birtu!“ „Ósköp eru að sjá þig, góða mín“, sagði Borg- hildur í kjassandi málrómi. „Þú ert ekki búin að greiða þér“. „Ég get það ekki. Það titra svo mikið á mér hendurnar“. „Þá skal ég reyna að greiða þér. Þú verður bara að segja mér til, ef ég verð harðleikin“. Borghildur sótti greiðu og spegil. Jón tók af henni spégilinn og gaf henni til kynna með aðvarandi augnaráði, að hollast væri, að spegillinn væri kyrr þar, sem hann átti að vera. Borghildur rakti upp aðra fléttuna og reyndi að tala glaðlega: „Ósköp er fallegt á þér hárið, Anna mín. Engin kona í sveitinni hefur svona fallegt hár“. „Það væri bezt að klippa það af og brenna fléttunum. Það ætti bezt við auðnuleysi mitt“, kjökraði Anna. „Þú þarft að fara að hátta, góða mín, þú ert svo þreytt“. „Gættu að dyrunum, Borghildur“, hvíslaði Anna eftir stundarþögn. „Gættu að því, að hann fari ekki út“. „Hann fer ekki frá þér, þegar þú ert svona lasin. Hann verður hjá þér“. Þá heyrðist lági, tryllingslegi hláturinn enn á ný. Borghildur fölnaði af hræðslu og leit til Jóns. Hann hafði stungið höfðinu undir gluggatjaldið og horfði út. „Nú hef ég víst verið hræðilega harðleikin við þig. Það er svo flókið þarna. Fannstu ekki mikið til?“ sagði Borghildur og reyndi að tala stillilega. „Sárt brenna fingurnir, en sárara brennur hjartað, sagði drottningin í sögunni, sem hann Finni sagði mér svo oft. Manstu eftir henni?“ „Hann kunni svo margar sögur, aumingja karlinn, sem gaman var að hlusta á fyrir börnin, en ég var orðin svo stór, að ég hlýddi sjaldan á þær. — Svona, nú ertu orðin nýgreidd og getur farið að hátta. Ég skal sitja hjá þér, ef þú vilt, meðan þú ert að sofna“. „Kallaðu á Jakob, svo að hann geti farið að hátta, og sittu hjá mér, þangað til ég er sofnuð“. „ Viltu ekki að ég sofi hérna fyrir innan í nótt?“ spurði Borghildur Jón, þegar Anna var sofnuð. „Nei, nei, sofðu í rúminu þínu og reyndu að vera róleg. Við skulum vona, að þetta lagist og hún sofi vel. Hún hefur sjáanlega verið orðin þreytt“. Þá bauð hún góða nótt og dáðist, eins og svo oft áður, að andlegu og líkamlegu þreki, sem þessum manni var gefið. BREYTINGAR Á HEIMILINU Næsti dagur rann upp bjartur og hlýr, eins og allir dagar voru, það sem af var góunni. Borg- hildi hafði ekki orðið svefnsamt þessa nótt. Hún kveið komandi dögum. Hún þóttist vita, að þeir yrðu hræðilegir. Slíkt hið sama hugsuðu allir aðrir á heimilinu. Jón kom fram í eldhús um leið og Þórður. Borghildur spurði Jón strax eftir Önnu. Hann svaraði því hálfstuttlega, að hún hefði víst sofið í alla nótt, að minnsta kosti hefði hann aldrei heyrt neitt til hennar. Svo fór hann út í hesthús, eins og hann var vanur, og kom ekki inn aftur fyrr en kominn var matmálstími. Borghildur sagði honum þá, að Anna væri komin á fætur og henni liði áreiðanlega betur en í gær. „Náttúrlega hressist hún, manneskjan", sagði Jón fálega og fékk sér kaffibolla og gekk svo inn í hjónahúsið. Anna sat á stól út við gluggann og leit ekki við, þó að hún heyrði að gengið væri um. Hann bauð henni góðan dag glaðlega og bætti við: „Er heilsan ekki heldur skárri en hún var í gær?“ „Þegiðu!“ sagði hún svo lágt, að það rétt heyrðist. „Nú, ég hélt að þér hefði skánað eitthvað í nótt, góða. Viltu ekki tala svolítið við mig? Ég var að bjóða þér góðan dag“. „Þú skalt ekkert vera að hafa fyrir því að bjóða mér góðan dag .Hér eftir erum við skilin að öllu leyti“. „Þér dettur ekki í hug að fara að skilja við mig eftir öll þessi ár, þó að þessi snurða hlypi á allra snöggvast. Það verður hægt að greiða úr henni. Við erum búin að búa saman sem hjón í þrettán ár og þar áður í mörg ár sem systkini. Þér hefur liðið vel hérna, góða mín. Manstu hvað þú varst hrygg og munaðarlaus, þegar þú komst hingað fyrst?“ „Einmitt þess vegna finnst þér það sjálfsagt, að ég taki þegjandi við öllu, sem mér er boðið. En ég er að vona, að það sé einhvers staðar til staður, þar sem ég get lifað án þíns náðarbrauðs. Jakob ætla ég að láta læra til prests, svo að hann verði ekki annar^syndaselur og þú ert. Ég get svo verið hjá honum“. Ætlaðirðu ekki til Ameríku í gærkvöldi, góða mín?“ spurði Jón dálítið glettinn. „Þú ert bara kátur yfir þessu öllu“, sagði hún áköf. „Þér finnst, að þér hafi svo sem ekki orðið mikið á Líklega finnst þér sjálfsagt, að þetta gangi í ættir. Manstu eftir sögunni hans Finna? Hefði þetta verið drengur, hefðirðu látið hann heita Finn Doddason, fyrst hinn var skrifaður Tumason". Hún hló skjálfandi hlátri. „Dettur þér í hug að ég láti fara eins með barnið mitt og farið var með Finna?“ spurði hann, og henni til mikillar ánægju var auðheyrt, að honum rann í skap. „Þótt ég gerði sjálfan mig að þeim vesaling þín vegna að gangast ekki við henni, skal hún fá gott uppeldi og njóta eignanna minna jafnt og Jakob“. „Ætlarðu að bæta því ofan á allt annað að stela frá þínu eigin barni?“ spurði hún og hlátur- inn þagnaði allt í einu. „Hann er ekki skyldari mér en hún. Ég á reyturnar mínar sjálfur og ræð því, hvað ég geri við þær. Þær eru líka vel til tvískiptanna", svaraði hann og sneri til dyra til þess að binda endi á þessa þarflausu deilu. Þá sá hann, að myndin af honum sjálfum, sem alltaf hafði staðið á sauma- borði konu hans og var fægð á hverjum degi, lá flöt og glerið sneri niður. Hann svipaðist um og sá, að þannig litu allar myndirnar af honum út. Hann tók þær allar, smáar sem stórar, og fór með þær út úr húsinu. „Þetta var ágætt“, hugsaði Anna, „hann skyldi fá að sjá, hvað lítilsvirðingin væri og það í stærri stíl. Hún ætlaði sér að reyna að velgja honum þessar vikur, sem hún átti eftir að vera á þessu heimili. Henni hafði létt talsvert fyrir brjósti við þetta. En eftir augnablikasstund kom hann aftur inn með hvíta rúmteppið ofan af gestrúminu á handleggnum. Það stóð talsverður gustur af hon- um. Hann þreif skræpótta sirsteppið ofan af rúminu sínu og fleygði því á gólfið í bræði sinni. „Ég skal sýna þér það, að ég læt þig ekki hafa ánægju af að breiða þessa forsmánartusku yfir rúmið mitt. Myndirnar geta verið hvar sem er, þangað til þú ert búin að flytja héðan“. Hann fór að reyna að breiða teppið yfir rúmið, en það fórst honum ekki vel úr hendi. „Og svo máttu gjarnan segja hverjum, sem þig langar til, að ég sé faðir að litlu heimasætunni á Jarðbrú, því að ég ætla ekki að dylja það, fyrst þú veizt það. Hún verður skrifuð dóttir þín“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.