Lögberg - 27.06.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 27.06.1957, Blaðsíða 6
6 GUÐRÍTN FRA LUNDI: DALALÍF Já, það gat Erlendur vel skilið. Það langaði víst flesta, sem einu sinni höfðu kynnzt honum. Svo spurði hann um hinn bróðurinn og Ástu. „Þau eru nú bara komin alla leið til Ameríku og það er ég að hugsa um að gera á næsta vori“. Það var víst ekki svo óefnilegt bjóst Erlendur við. En aldrei hafði honum nú samt dottið það í hug, á sínum yngri árum. Samræðurnar urðu ekki lengri, því að nú fór fólkið að ganga í kirkjuna. Helga valdi sér sæti við glugga, svo að hún sæi, þegar fólkið kom heiman frá bænum. Þarna komu þær Anna Frið- riksdóttir og Þóra í Hvammi með Lísibetu litlu Sigurðardóttur á milli sín. En sá uppdráttur á krakkanum. Það var kannske ekki að spyrja að fínheitunum á öllu hjá þeirri konu, enda hafði hún efni á að láta allt eftir sér. Þær settust á innsta bekkinn hjá orgelinu. Það var Jakob, sem átti að spila á orgelið. Náttúrlega átti að láta hann vera þar, sem mest bar á honum. í næsta bekk settust þæy Ásólfsstaðasystur. Þær áttu orgel og sungu alltaf, þegar þær voru í kirkju. Gróa settist hjá þeim. Hún hafði ágæta söngrödd. Erlendur settist við hlið hennar. Hann hafði feikna bassa- rödd. Fremstur sat Þórður. Dísa stóð á gólfinu gremjuleg á svip. Hún var vön að sitja á innsta bekknum, en nú var þar hvert sæti skipað. Helga kinkaði kolli til hennar — þar var sæti handa henni. Dísu þótti það helzt til framarlega, en samt settist hún þar. „Það lítur út fyrir, að það sé ekki pláss fyrir mig lengur á þessu heimili, hvorki í kirkjunni eða bænum“, hvíslaði hún í kjökurrómi að Helgu. „Það treður sér í innstu bekkina, sem getur sungið“, hvíslaði hún á móti. „Þetta gerir ekki svo mikið til. Ég verð ekki fyrir neinum eftir nokkra daga“, sagði Dísa og strauk með fínum vasaklút gremjutárin, sem leit- uðu fram í augun. Hildur hugsaði um ána öðru hvoru yfir messu- tímann. Hún gat ekki annað. Hvernig færi, ef brúin þyldi nú ekki hesta og menn? Það var ekki vandi að sjá það, að hún hafði vaxið stórkostlega meðan á messunni stóð. Hún talaði um það við Helgu, þegar þær voru komnar út úr kirkjunni, að það væri sjálfsagt að drífa sig strax af stað, en það var nú eins og það var vant, rólegheitin og værðin yfir þeirri konu. Hún sagðist þekkja það, að það yrðu allir að drekka kaffi, ef Nautaflata- fólkinu ætti ekki að mislíka. En Hildur bjóst ekki við, að hún hefði nokkra lyst á kaffi, en samt fór það nú svo, að inn að kaffiborðinu settist hún við hlið Helgu, en áhuginn óx lítið, þó að kaffidrykkj- unni væri lokið. Alltaf var eftir að tala við ein- hvern. Loks sagði Hildur, að hún biði ekki lengur, og fór út að réttinni með Þverárhjópunum. „Alltaf er áhuginn og dugnaðurinn eins hjá H|ildi“, sagði Erlendur og sagði sonunum að fara að leggja á hestana. Sjálfur átti hann eitthvað ósagt við kunningjana. Hjónin frá Þverá stigu á bak. Hildur fór að þeirra dæmi. „Við skulum bara fara að síga af stað. Ég er hugsjúk út af ánni. Það er hryllilegt að sjá, hvernig hún beljar áfram“, sagði Hildur. Helga var að síga út túníð í samfylgd með konunni frá Sléttu. Eitthvað þurftu þær að skrafa saman. Hún yrði áreiðanlega fróð næstu daga, hún Helga. Fyrir framan klifið náði það þeim þó, enda hafði þrenningin riðið hægt, því að viðkunn- anlegast var þó að halda hópinn, ef það gat gengið. „Hefst þótt hægt fari, húsfreyja“, sagði Er- lendur. „Það ætlaði ekki að ganga greitt að hafa Helgu af stað“. „O, láttu ekki svona“, sagði Hildur, eins og þú I LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 27. JÚNÍ 1957 stæðir ekki skrafandi líka, enda var það víst ekki mikið, ef áin væri ekki alveg að tryllast“. „Ég fer nú strax að skjálfa“, sagði Helga. „Ég vona nú, að þér líði vel næstu daga og nætur, fyrst þú ert búin að sjá, að Anna er 'ekki mjög þungt haldin. Mér sýndist hún meira að segja talsvert kvikari í hreyfingum en þú sjálf, enda er nú mikill munur á holdafarinu“. „Það er nú meira að sjá útlitið á konunni“, sagði Helga, „en ég get varla sagt, að ég gæti talað við hana orð fyrir Þóru í Hvammi og stelpunni henni Dísu. Þær snérust í kringum Jiana eins og vindrellur. Þvílíkt bölvað vesin“. „Nú, svo að þú gazt þá ekki einu sinni spurt hana um líðan ^hennar eftir allt saman. Það var helzt til mikið til unnið að taka á sig þennan líka krók alla leið fram á afrétt — og svo þurfum við nú kannske að sundríða ána á heimleiðinni“. Hann hneggjaði ánægjulega. „Blessaður byrjaðu nú ekki með ertnina, eins og þinn er vandi“, sagði Hildur í bænarróm. „Ég get nú bara ekki hugsað um annað en ána. Þetta hefur verið fjarska heitur dagur og hún hefur vaxið mikið“. „Já, hún er tilkomumikil núna, blessuð áin mín“, sagði Erlendur í gælurómi. „Ég er ekki mjög smeykur við hana“. „Við hvað skyldir þú svo sem vera smeykur?“ hnusaði í Helgu. „Það er alltaf sami glannaskap- urinn og ábyrgðarleysið hjá þér11. f „En gaztu nokkuð gruflað út í hitt áhuga- málið, hvers vegna. Dísa ætlar að fara í burtu?“ sagði hann með sömu ertninni. „Þú talaðir mikið við hana sá ég var“. , „Hún hafði víst ekki neitt á móti því áð skrafa sýndist mér“, gegndi Hildur fram í. „Það er nú bara svoleiðis“, sagði Helga, „að Gróa sagði mér, að það yrðu víst allir á heimilinu guðsfegnir að hún færi. Hún er orðin svo merkileg með sig og það, sem á mestu veltur, hún er farin að standa uppi í hárinu á henni Borghildi. Það sjálfsagt þríft nú enginn á því heimili, sem hagar sér svoleiðis. Gróa bjóst við, að Anna yrði fegin að Dísa færi eins og aðrir, en hjá henni hefur hún nú alltaf verið í talsverðu eftirlæti“. „Hún talar óviðkunnanlega, sá unglingur11, sagði Hildur, „þykist allt géta og öllu ráða. Þvílíkt sj^lfsálit!11 „Hún reynir alltaf að láta skína í það, að hún sé ómissandi fyrir heimilið, og einnig það, að hún ætli sér Jakob“, sagði Helga háðslega. „Það gæti ég nú hugsað, að Jóni þætti jafnræði". „Alltaf eru kvensurnar jafnvitlausar“, sagði Erlendur. „Jakob hugsar víst heldur lítið um kvenfólk“, sagði sá skólagengni. „Hann líkist þá ekki mikið föður sínum“, sagði Helga hlæjandi. „Hann verður sjálfsagt eftirbátur hans í fleiru en því“, sagði Erlendur. . „Hún er myndarleg, litla fósturdóttirin á Nautaflötum“, sagði konan frá Þverá, sem gjarnan vildi taka upp viðfelldnari umræður. „Já, það má nú segja, þvílíkt myndarbarn“, sagði Hildur. „Hún var ekki lánlaus að komast þangað“. „Ætli það geti ekki átt sér stað, að hún sé ekki alveg vandalaus húsbóndanum?“ sagði þá sú illkvittna kona, Helga á Hóli. „Mér heyrist sumir álíta það, að hann hafi einhvers konar selstöð þarna hjá Sigga“. „Engan hef ég heyrt minnast á það“, sagði 'Hildur. „Vertu viss um, að þetta hefur hún sótt til kirkjunnar“, sagði Erlendur. „Það er tilvinnandi að sundríða fyrir svona lagað“. Helga brosti drýgindalega: „Hún er nú ekki alveg ókunnug á Ósnum, hún Ella á Sléttu“. „Það er alveg dæmalaust, hvernig talað er um þann mann“, andvarpaði Hildur. „Hann hefur nú nokkrum sinnum gefið tilefni til umtals“, sagði Helga, „áreiðanlega nokkrum sinnum“. „Já, það er skammarlegt“, sagði Erlendur, „svona hefur verið talað um hann, síðan hann var unglingur. Hann hefur varla mátt brosa framan í konu, svo að slúðurtuðrurnar hafi ekki búið eitt- hvað til úr því“. Helga glotti og snéri máli sínu til Hildar: „Það er ekki oft, sem tengdadóttir þín fer til kirkju eða kemur að Nautaflötumþess utan“. f Hildur þóttist skilja, að þetta ætti að verða áframhald af hennar fyrri illkvittnis umræðum. „Hún fer nú hvorki það né annað, sú kona. Heimilið er henni allt — heimilið og börnin, enda fer það henni vel úr hendi hvoru tveggja", sagði Hildur. „Nú, ójá, þetta er nú svo sem ekki stærðar heimili, og þú ert þá kannske betri en ekki neitt“, sagði Helga. Eflaust hefðu umræðurnar ekki tekið svo skjótan endi, ef annað hefði ekki komið til at- hugunar. Ásólfsstaðafólkið reið kippkorn á undan því. Þegar að ísbrúnni kom, reið það allt í einum hóp yfir. „Ef það hefur það yfir, megum við vera vongóð“, sagði Helga. Það var nú komið yfir um og veifaði til þeirra. „Bölvaður glannaháttur er þetta“, sagði Er- lendur. „Bara að við værum á þessari grænu grein“, hugsaðf Hildur. Helga tók ekki upp sínar fyrri umræður. Það var riðið þegjandi spottann, sem eftir var að ís- brúnni. Það duldist engum, að hún var byrjuð að síga niður um miðjuna. Helga náfölnaði. „ísbrúin er að springa. Það var engin von til þess að hún þyldi, að það riði allt yfir í einu — þvílíkt uppátæki“, sagði Erlendur með sama á- hyggjuleysi og hann hefði verið að tala um hrífu- haus, sem væri líklegur til að brotna bráðlega. „Guð í himninum hjálpi okkur!“ hrópaði Helga. „Ég .fer ekki lengra — ég sný til baka. Ætli þér hefði ekki verið nær að komast fyrr af stað en standa alltaf masandi við hvern karl, sem við kirkjuna var?“ „Nei, hafðu þig nú hæga, Helga Björnsdóttir. Þú stæðir áreiðanlega enn hjá henni, þessari mála- skjóðu frá Sléttu, ef ég hefði ekki rekið þig af stað, enda voru þetta mikilvægar upplýsingar, sem þú fékkst hjá henni“, svaraði Erlendur. „Verið þið ekki að þessu bölvuðu jagi“, sagði Sigurður sonur þeirra. „Við skulum heldur fara að hugsa til að komast yfir um, meðan hægt er“. Nú stigu allir af baki nema Helga. Hún kallaði yfir sig hrædd: „Það veit Guð, að ég þori ekki! Það veit Guð—“. „Vertu ekki svona kjarklaus, mamma", sagði yngri sonurinn, Björn, sem ekki var þó nema fimmtán ára unglingur. Erlendur greip broddstafinn og reyndi fyrir sér og sagði svo, þegar hann kom til baka, að ísinn væri traustur, engin hætta nema áin kannske kæmist ofan á með tíð og tíma. „Það er sjálfsagt, að konurnar gangi fyrst yfir, svo teymum við hestana á eftir“, sagði Erlendur. Hildur braut upp reiðpilsið, krossaði sig og fór fyrst út á brúna með Línu-Grána í taumi. „Láttu piltana teyma hestinn!“ kallaði Helga skjálfrödduð, en Hildur leit ekki við. Eftir nokkrar mínútur var hún komin yfir um heilu og höldnu og kallaði til þeirra, sem eftir stóðu: „Bærilega gekk það!“ Næst fór unga konan á Þverá. Hún hljóp létt- fætt eins og köttur. Helgu létti um andardráttinn, hún fór af baki. Kannske ætlaði þetta að ganga betur en áhorfðist. „Nú skalt þú fara“, sagði maður hennar. „Ég bíð þangað til síðast. Alltaf er þó frestur á illu beztur“, sagði hún. „En máltækið segir líka, að sá reyni brú, sem seinastur gangi. Hestarnir komast frekar yfir en þú“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.