Lögberg - 12.09.1957, Qupperneq 6
6
GUÐRÚN FRA LUNDI:
DALALÍF
• „Nei, blessuð farðu nú ekki að bera hingað
hvert orð, sem hún Helga á Hóli hefur þvaðrað
við þig í dag“, greip Borghildur fram í og leit til
hennar aðvarandi. „Lína var ekki svoleiðis, þegar
ég þekkti hana, og varla hefur hún lært það af
þeim mæðginunum á Jarðbrú — þau eru vand-
aðar manneskjur til orðs og æðis“.
„Erlendur reifst um það, hvað það væri sóða-
legt hjá Helgu“, hélt Dísa áfram, „og það var líka
ofboðslegt að sjá baðstofuna“.
„Ó, það er víst ekki nýtt, að þau jagist“, sagði
Gróa. „Annars tryði ég nú Erlendi til alls svona
utan hjónabands".
„Aldrei hefur það nú heyrzt um hann“, sagði
Borghildur stuttlega, svona skraf fannst henni
óþarft. „Hann meinar víst heldur lítið með þessu
glamri sínu“.
Dísa hélt áfram: „Helga sagði, að þeir þyrftu
nú stundum að stanza á Jarðbrú, bændurnir
hérna úr dalnum“.
„Það er víst ekki til þess að færa það í frá-
sögur, þó að menn fái sér kaffi hjá sveitungum
sínum“, sagði Borghildur. „Það hefur alltaf verið
gestagangur á Jarðbrú og Hjalla, þeir bæir standa
þarna alveg við götuna og gestrisið fólk á báðum
bæjunum“.
Anna stóð upp frá borðinu og gekk til bað-
stofu. Þá vék Borghildur sér að Dísu og ávarpaði
hana í ströngum málrómi: „Ef þú ferð að þvætta
um það, sem getur haft einhver skaðleg áhrif á
hana Önnu, skaltu eiga mig á fæti“.
„Mér dettur það nú líklega ekki í hug“, sagði
Dísa-
„í öllum bænum, Dísa, það máttu ekki gera.
Hún hefur nú verið svo róleg í vetur og heilsu-
góð. Líklega hefur það verið vegna þess að þú
hefur ekki verið heima til að bera í hana alls
konar þvætting“, sagði Gróa. „Þú mátt þó vita,
að það dugar ekki að koma fram við hana eins og
annað fólk, enda verður það nú aldrei til neinna
bóta að bera sögur milli bæja“.
„Það er svo sem ekkert, sem þú dembir yfir
mig“, sagði Dísa sárreið. „Ég ber víst ekki sögur í
mömmu. Það er bara eins og hver önnur lygi úr
þér, ókindin þín“.
„Nú, jæja, ekki eru nú stóryrðin hjá þér,
skepnan mín, þó að allt megi skilja. Láttu þá sjá,
að þú komir engu illu af stað Lér, en ekki kæmi
mér það á óvart. Mikið gekk á fyrir hrafninum í
morgun. Ég hef alltaf tekið eftir þeim, það er
skrítið, hvernig þeir haga sér stundum", sagði
Gróa, dálítið dulræn á svipinn.
Dísa reigsaði inn og sat með fýlu allt kvöldið.
DÍSA GERIST ÓÞOLANDI OG ÓSVÍFIN
Þá var nú komið að því, sem Dísa hafði
hlakkað mest til, að hún sæti inn í húsi hjá
fóstru sinni og saumaði í fína kaffidúkinn sinn.
En vandalaust var það ekki frekar en tóvinnan,
allt varð að vanda á þessu heimili. Hún var líka
fjarska merkiieg á svipinn, þegar hún kom fram í
baðstofuna og eldhúsið og leit spunakonurnar
smáum augum.
„Aldrei ætlar Manga greyið að verða búin að
spinna þetta inórauða band, ósköp er hún víst
ónýt til vinnu“, sagði hún einu sinni, þegar
Manga var ekki inni. Hún dró bandið fram úr
rokknum og strauk það, eins og hún hafði séð
Borghildi gera.
„Varla hefðir þú verið búin með meira“,
anzaði Gróa stuttlega og þeytti rokkinn. „Það
verður víst enginn nema þú, sem vanþakkar henni
vinnuna hennar hérna á þessu heimili“.
„Aldrei stendur á þér að svara“, sagði Dísa.
„Það var enginn annar við, sem gat svarað
þér. Það á ekki vel við, að Manga sé baktöluð,
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 12. SEPTEMBER 1957
ekki nagar hún um bakið á þér eða öðrum“,
svaraði Gróa- „Það er engu líkara en þú eigir
hálfan heiminn, síðan þú settist við útsauminn".
Borghildur kom nú inn, svo að samtalið varð
ekki lengra.
Einn daginn, þegar allt fólkið sat við mat-
borðið yfir ljúffengri kálfakjötssteik, gerði Dísa
sig merkilega á svip og sagði öllum til mikillar
undrunar: „Mér fellur ekki bragðið af steikinni
hjá þér, Borghildur. Ég skal kenna þér að búa til
betri steik“.
„Ég býst nú við, að ég sé orðin helzt til
gömul til að fara að læra. Það hefur verið hægt
að borða matinn hérna, þó að hann sé kannske
ekki soðinn eftir allra nýjustu matreiðslubókum“,
sagði Borghildur.
Steini fór að hlæja. „Ætli það væri ekki betra,
að Borghildur kenndi þér“, sagði hann ertnislega.
„Heldurðu kannske, að ég hafi ekki lært eitt-
hvað hjá henni frú Ástu?“ sagði Dísa.
„Steikin er ágæt ein^ og vant er“, sagði hús-
bóndinn. „Þeim, sem finna að matnum hjá Borg-
hildi, er áreiðanlega ofaukið við matborðið11, bætti
hann við.
Dísa kafroðnaði og leit til fóstru sinnar í von
um liðsauka, en hún lét sem hún heyrði ekki,
hvað talað var. Eftir þetta var þagað yfir borðum.
„Ekkert skil ég í því, hvað hann pabbi er orð-
inn breyttur nú í seinni tíð — hann, sem var svo
hlýr og góður við mig, meðan ég var krakki, en
nú er hann bara uppstökkur og kaldlyndur“, sagði
Dísa við Gróu fram í eldhúsi nokkru seinna. „Það
er mikill munur á honum eða henni mömmu, sem
alltaf er svo góð og blíð“.
„Ójá, það er heldur ómögulegt annað að
segja en að þú ætlir að fara að gera þig nokkuð
breiða, ef þú ætlar að fara að finna að matnum
við hana Borghildi. Þú verður þá varla mosagróin
hérna á heimilinu“, sagði Gróa. „En þó að mamma
þín sé nú góð og blíð, býst ég við, að hún hafi
kannske átt einhvern þátt í því, að hann er orðinn
kaldlyndari en hann var, blessaður húsbóndinn“.
„Ekki datt mér nú í hug, að nokkur mann-
eskja, sízt þú, segðir annað eiens og þetta um
'hana mömmu“, sagði Dísa gremjulega. Það var
sama við hvern hún talaði á þessu heimili, alls
staðar mætti hún mótblástri.
„Þú mátt verða fegin, mamma mín, þegar
Gróa fer af heimilinu", sagði Dísa þennan sama
dag við fóstru sína. „Hún talar ekki alltaf vel um
þig, finnst mér“.
„Hún er ágætt hjú, þó að hún sé nokkuð
málgefin. Ég sé eftir þeim báðum, Möngu og
henni. Hver veit, hvernig þær kynna sig? Og nýr
vinnumaður líka“, svaraði Anna.
„Það má víst allt fara fyrir mér — helzt af
öllu vildi ég þó, að Þórður færi“, sagði Dísa.
„Það verður nú sjálfsagt ekki þetta árið, sem
hann fer“, sagði Anna.
„Mér finnst ég ekki geta liðið hann á heimil-
inu“, sagði Dísa. Svo sagði hún henni, hvað Gróa
hefði sagt framm í eldhúsinu.
„Ég hef nú aldrei farið varhluta af dómum
heimsins, trúi ég“, sagði hún, „þeir eru upp og
ofan réttlátir. Kannske það sé eitthvað hæft í
þessu, en þú lætur líka kjánalega, Dísa, ef þú
ætlar að fara að hreykja þér yfir alla á heimilinu.
Borghildi fellur það sjálfsagt ekki vel, en Jón
þolir það miklu síður“.
„Þetta var nú svo sem ekki mikið, sem ég
sagði, en það er allt tekið illa upp fyrir mér. Ef
einhver annar hefði sagt það, hefði pabbi ekki
rokið upp“, nöldraði Dísa.
„En það hefði engum öðrum en þér dottið
það í hug“, sagði Anna hógvær.
„Borghildur getur nú verið þó nokkuð stór í
stykkjunum, skal ég segja þér. Það vantaði víst
ekki mikið á, að hún berði mig þarna um kvöldið,
þegar ég kom handan frá Hóli, af því að ég gaf
það í skyn, að Helga hefði séð, að bændurnir úr
framdalnum Jcæmu við á Jarðbrú“.
„Hún hefur víst aldrei lagt það í vana sinn
að berja fólk“, sagði Anna, „en ég sá, að hún að-
varaði þig með augunum að tala varlega. Þykist
Helga sjá Jón fara þangað heim?“
Dísa brosti lymskulega: „Það er víst ekki svo
sjaldan, sem hún hefur séð hann stanza þar“.
„Hún þykir nú ekki áreiðanleg, sú kona, og
ekki gott að leggja mikið upp úr því, sem hún
segir“, sagði Anna. Hún trúði því varla ,að hún
ætti enn einu sinni að rekast á svik og ótryggð í
fari manns síns. Hann hafði þó lofað henni að
koma ekki á það heimili. En hvers virði voru orð
og loforð svikara? Hvað hafði hún ekki orðið að
þola í fyrra vetur? En hún var nú orðin svo lífs-
reynd og fullorðin kona, að hún ætlaði að reyna
að taka öllu með stillingu. Hún gat ekki trúað
því, að Borghildur og Þórður væru í vitorði með
honum- Nei, auðvitað voru þau það ekki. Þau
vildu bara hlífa henni við að vita það.
Dísa hélt áfram að segja henni fréttirnar eftir
Helgu á Hóli. Doddi hafði sagt henni frá þessum
góða kunningja, sem gæfi honum holl ráð og
hafði komið kjötinu í peninga fyrir hann. Sá hinn
sami ætlaði að sjá um, að hann yrði ekki lengi
auður, básinn í fjósinu. Og þetta var náttúrlega
enginn annar en Jón hreppstjóri — það hafði
Helga sagt. Einnig hafði Doddi getað keypt þessi
líka feikn af mat fyrir peninga.
Anna hlustaði á án þess að hvetja eða letja.
„Hvernig vissi Helga það, fyrst Doddi nefndi
ekkert nafn?“ spurði hún áhugalaust.
„Hún veit það, að enginn annar en Jón lánar
peninga og hefur ráð á að gefa kýr. Helga segir,
að hann hlaði undir þau, enda græði þau á tá og
fingri“.
„Mér heyrist þetta nú vera eins og hverjar
aðrar getgátur“, sagði Anna og hélt áfram að
hekla, en nálin fór þó að ganga talsvert hraðara.
Hún fann vel, að Dísa var eins og Ketilríður,
reyndi að sverta alla og rægja, en samt var ekki
hægt annað en finna, að í öllu þessu þvaðri gat
leynzt sannleikskorn.
* Anna heyrði, að Dísa hélt áfram rausinu, en
henni fannst hiún vera langt í burtu: „Þess vegna
er þeim svo illa við, að ég sé hér, Þórði, Borghildi
og pabba. Þau eru hrædd um, að ég heyri eitthvað,
sem ekki er hollt, að þú fréttir. Aumingja mamma!
Það er meira, hvað fólkið er undirförult og óhrein-
lynt við þig“.
„Það gerir víst ekki mikið til, þó að ég heyri
ekki svona lagað“, sagði hún og dáðist að því,
hvað hún gat talað kæruleysislega.
Dísu sárnaði að sjá, hvað þessi mergjaða saga
hafði lítil áhrif á fóstru hennar. Hún sat eins og
dáleidd og lagði hekludótið í kjöltu sína. Hugur
hennar var floginn nokkur ár til baka. Hún sat
inni í baðstofukytrunni á Jarðbrú. Fyrir ofan
hana í rúminu lá hvítvoðungur í fínum fötum,
sem sælustu og sárustu endurminningar hennar
voru tengdar við. Hún hafði fellt mörg tár yfir
þessum fötum- Hún hafði dunandi hjartslátt og
titrandi taugar. „Góði Guð!“ andvarpaði hún með
sjálfri sér. „Hjálpaðu mér til að gleyma. Láttu
þessa endurminningu hverfa“. Þá vörðust hlýir
barnshandhleggir um háls henni og litla fóstur-
dóttirin hvíslaði brosandi við vanga hennar: „Þú
situr sofandi, mamma, með opin augun“. Anna
tók hana upp á hné sér, þó að hún væri orðin
helzt til stór til þess, og þrýsti henni ákaft að sér.
„Elsku stúlkan mín — elsku litla stúlkan mín“,
sagði hún með klökkva. Hún var fædd á sama
sólarhringnum og litli engillinn, sem hún hafði
verið að hugsa um. Þarna kom svar við bænar-
andvarpi hennar. Þetta barn var henni ætlað að
elska og annast. Hitt barnið, sem hún átti svo
bágt með að gleyma, hefði hún sjálfsagt aldrei
fengið að hafa hjá sér. Hún grúfði andlitið í hálsa-
kot Lísibetar og langaði til að gráta, en harkaði
það af sér.
„Ekkert skil ég í því, hvað þér getur þótt
vænt um þessa stelpu, eins og hún þykir frek og
leiðinleg“, sagði fullorðna fósturdóttirin út við
gluggann.
„Það er líklega Helga á Hóli, sem segir það,
eins og fleira fróðlegt“, sagði Anna fálega.
„Það segja það áreiðanlega fleiri“.
„Ertu þá ekki hissa á því, að ég skyldi geta
verið góð við þig sjálfa, meðan þú varst barn?“
I