Lögberg - 03.10.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 03.10.1957, Blaðsíða 6
6 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Ef þú átt við áhyggjur út af heyleysinu, býst ég við, að þú þurfir engu að kvíða fyrir sjálfan þig, en það getur verið, að Doddi á Jarðbrú sé illa stæður með hey og þú sért hugsandi út af hans heimili“, sagði hún og horfði beint í andlit honum til að sjá, hvort honum brygði ekki. Hann kveikti á eldspýtunni og bar hana að pípuhausnum og kveikti í, áður en hann svaraði. „Ég hef ekki heyrt, að Doddi sé illa stæður með hey, heldur þvert á móti. Hann lógaði kú um miðjan vetur- Það munar miklu“, svaraði hann og brá ekki vitund. „Ég hef heyrt, að þú hafir ráðlagt honum það og hafir svo selt kjötið fyrir hann niðri á Ós“. „Ég hef ekki selt kjötið. Það var Siggi Daníels, sem gerði það. Ertu gröm yfir því, að Doddi vesalingurinn gat selt kjötið og fengið krónur fyrir það upp í aðra kú? Ertu að verða öfundsjúk og smásmugulega illkvittin eins og Helga á Hóli og hennar líkar?“ sagði hann, án þess að þykkjast vitund. „Nei, það er ég ekki, en ég hélt nú satt að segja, að að þú værir hættur að heimsækja þau á Jarðbrú eða hafa leynimakk við þau“. „Þér er óhætt að treysta því, að ég kem þangað aldrei. Doddi kom hlaupandi ofan að á til mín til að segja mér frá þessum vandræðum sínum, og ég réð honum að drepa kvíguna. Það var víst ekkert sérstakt góðverk eða til þess að bera það á milli bæja. En heim á hlaðið hef ég ekki komið síðan---------- „Síðan hvenær?“ greip hún fram í háðslega. „Síðan þú reiðst þangað með mér. Þú ert sjálfsagt ekki búin að gleyma því. Þess vegna er óþarfi að fara að klóra ofan í þau kaun núna“. „Þú finnur víst ekki mikið til, þó að minnzt sé á það, býst ég við, hefur víst aldrei gert það“. „Ég er heldur ekki að biðja þig að hlífa mér, heldur sjálfri þér. Það er hver sjálfum sér næstur“, sagði hann. „Svo skaltu hætta þessu nöldri, góða mín. Þú þreytir sjálfa þig með því“. ^ Hún undraðist hvað hann var rólegur. Það varð dálítil þögn. Svo byrjaði hún aftur: „Svo ertu, trúi ég, að hugsa um að leiða einhverja kúna út úr fjósinu til þeirra, svo að básinn sé ekki lengi auður“. „Er ég að hugsa um það núna?“ spurði hann. „Það veit ég ekki“, sagði hún önug. Hver hefur álitið mig hugsa um það?“ sagði hann og henni sýndist hann brosa. „Langar þig til að losna við einhverja kúna?“ „Það yrði varla farið að spyrja mig ráða eða fara að mínum vilja í því efni“. „Ég hef alltaf talað um við þig, ef mér hefur dottið í hug að selja kú úr fjósinu. Manstu ekki, þegar Siggi fékk kúna, þú vildir, að hann fengi rauðu kúna — hún hefur líka reynzt prýðilega. Vertu ekki ósanngjörn, góða mín. Það væri þá helzt, ef þau fengju eitthvert jarðnæði í vor, Manga og Steini, að ég gæfi þeim kú. Það gerði mamma sáluga alltaf, þegar hjúin hennar fóru að búa. Það getur komið sér vel. Þau eru búin að vera hérna lengi og eru gæðahjú“. „Ég býst við, að pabbi sálugi hafi gefið þeim hana alveg eins og mamma. En það er siður þinn að segja, að hún hafi gefið og gert þetta og þetta“. „Já, hún átti alltaf hugmyndina, blessunin. Hún var svoddan skörungur, eins og þú manst. Náttúrlega lét pabbi alltaf að hennar vilja — ekki stóð á því“. LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 3. OKTÓBER 1957 „Hún hefur líklega haft það til að vinna dá- lítið á bak við hann, ekki síður en þú á bak við mig“. Hann leit á hana alveg hissa: „Hvað meinarðu, manneskja, þú ætlar *þó líklega ekki að fara að baktala hana mömmu í gröfinni?" » „Nei, nei, það ætla ég ekki að gera“, flýtti hún sér að segja. „Þetta er bara alveg eins — sama sagan. Það ert þú, sem ræður, þú, sem gerir allt. Mín er aldrei getið frekar en pabba, ég samþykki það, sem undir mig er borið. Hitt er farið á bak við mig með- Ef þeim væri gefin kýr, yrði sagt, að þú hefðir gert það, ekki ég. Kannske hefur pabbi verið svo lánsamur, ef það getur þá kallazt lán, að enginn hefur sagt honum það, að það væri farið á bak við hann“. „Hann var svo skynsamur maður, að hann hefði ekki léð því eyra“. „En ég er svo heimsk að láta mig varða það dálítið, að þú lánir Dodda á Jarðbrú peninga og hlaðir undir hann á ýmsan hátt“. „Ég hef lánað fleirum en Dodda peninga í vetur“. „Færðu þá þessa peninga nokkurn tíma aftur? Heldurðu að það sé rétt að fara svona með eigur sínar? Þú verður þó að gæta að því, að þetta er allt saman eign Jakobs“. Hann hristi höfuðið. „Mér finnst þú ætla að fara að verða óvenjulega fyrirferðarmikil, þegar þú ferð að tala um fjármálin. Ég er að vona, að ég sé ekki svo nærri grafarbakkanum, að ég geti ekki innheimt það, sem ég á útistandandi, áður en Jakob minn tekur við. Þú skalt ekki vera að gera þig órólega út af því. Nóg er víst annað til. Þetta stafar af þessum missvefni, sem þú verður fyrir. Þú ættir að vera meira úti, góða mín. Jakob skal ekki vanta peninga, ef hann ætlar sér að læra meira“. Hann gekk yfir að ofninum, hristi öskuna úr pípunni í öskuskúffuna, lagði hana aftur á skrif- borðið og gekk út að glugganum. Hún fylgdi honum með augunum. Hann var talsvert öðruvísi í dag en honum var eiginlegt. Vanalega reiddist hann dálítið eða hann stríddi henni, ef hún var að jagast við hann. Nú gerði hann hvorugt. Það var eins og hann vildi bara gera gott úr öllu. Það varð löng þögn. Svo tók hún til máls: „Ég er viss um, að pabbi sálugi hefði ekki getað annað en hlustað, ef einhver hefði sagt honum eitthvað svona lagað- Ég hef reynt að láta sem ég heyrði þetta ekki, að þú værir að koma við á Jarðbrú, en afbrýðin nagar innan á mér brjóstið, svo að mig logsvíður. Pabbi hefir fundið til hennar líka. Ég hef svo oft hugsað um það, sem hann Finni var að segja okkur einu sinni, að hann hefði varla talað orð við séra Hallgrím, þegar hann var hérna. Manstu ekki eftir því?“ Hann var seinn til svars. „Ég held ég sé búinn að gleyma því“, sagði hann seinlega. „Jú, annars, ég man það víst. Honum hefur leiðzt hávaðinn í honum — hann var svo hæglátur. Það hefur víst ekki verið annað". „Ég skil bara ekkert í þér, það er eins og þú sért út á þekju“, sagði hún. „Það er vegna þess, að ég svaf ekki hálfan svefn í nótt“, sagði hann. „Þá finnurðu, hvernig mér líður, þegar ég get ekki sofið“. „Ég veit að þér líður ekki vel, góða mín“. „Samt er það álitið, að það sé ekkert að mér, nema móðursýki“, hélt hún áfram í klagandi málróm. „Það eru víst fáir, sem álíta, það“, sagði hann. „En hitt er ekki eðlilegt, að menn, sem hafa aðra eins hestaheilsu og ég, geti verið mjög nærgætnir við þá, sem eru sífelldlega lasnir. En mér sýnist þú bara hafa hresst við að jagast þetta við mig. Þú ættir að gera það oftar“. Hann laut ofan að henni og kyssti hana á vangann og brosti eins og framan í keipóttan krakka. Svo fór hann fram úr húsinu. Anna fór að klæða sig. Það var svo einkenni- lega hljótt í bænum, líkt og allir væru farnir úr honum. Einstöku sinnum heyrðist þó til Borg- hildar frammi í eldhúsinu- Hún mundi allt í einu, að Gróa hafði verið að ráðgera að fara yfir að Ásólfsstöðum. Líklega hafði Dísa labbað eitthvað á bæi líka. Hún hafði ekki séð henni bregða fyrir í morgun. Það var búið að borða morgunmatinn, þegar Anna kom fram í eldhúsið. Borghildur var þar alein. „Hvar er allt fólkið? Ég heyri ekki nokkurt hljóð í bænum. Það minnir mig á dauðs manns gröf“, sagði Anna og það fór hrollur um hana við að heyra þessa samlíkingu, sem hún hafði sjálf dreg'ið upp í huganum. Dauðs manns gröf! — Það var hræðilegt orð. Borghildur sagði það, sem Anna vissi þó áður, að Gróa hefði farið yfir að Ásólfsstöðum, Dísa væri einhvers staðar að leika sér á skautum, en um Möngu vissi hún ekkert. Anna settist við borðið og fór að borða, en lystin var lítil. Hún heyrði Borghildi vera að tala um, að eiginlega sæi hún nú eftir Gróu, hún væri ágætt hjú, þó að hún væri nokkuð málgefin. Anna játaði bara og stóð upp og gekk inn aftur. Hún heyrði Borghildi fjasa um, að hún bragðaði ekki matinn. Rétt á eftir gekk Þóra í Hvammi inn í eld- húsið. Hún hafði þann sið að ganga inn, án þess að berja á dyr. Borghildur tók henni glaðlega. „Það veit víst á eitthvað, að þú ert á ferð núna, þegar aldrei kemur maður“, sagði hún, þegar þær höfðu heilsazt. „Það veit vonandi á það, að snjóinn fari að leysa. Hann er orðinn nokkuð langur, þessi vetur, finnst manni, þó að hann telji víst ekki fleiri vikur en aðrir fyrirrennarar hans“, sagði Þóra og fékk sér sæti í húsmóðurstólnum við borðsendann. „Það voru aðrir tímar, þegar þú varst hérna daglegur gestur, Þóra mín“, sagði Borghildur, „góðir tímar, sem ljúft er að minnast“. „Já, þá voru fæturnir léttir og lífið ábyrgðar- lítið — og þá var gaman að koma að Nautaflötum“, sagði Þóra glaðlega. Hún sá, að það lá ekki vel á Borghildi og vildi fegin lífga hana upp. „Ójá, það var margt, sem dró gesti að heimil- inu, sem nú er horfið“, andvarpaði Borghildur. „Það er alltaf gaman að koma hingað“, sagði Þóra. „Þó verð ég líklega aldrei svo gömul, að ég sakni ekki Lísibetar". „Hún fór of snemma héðan“, sagði Borg- hildur döpur. „Hún hefði, aldursins vegna, getað verið hjá okkur ennþá, og þá hefði verið annað snið á heimilinu en nú er“. „Er Anna ekki góð til heilsunnar núna?“ spurði Þóra. „Nei, hún er það ekki núna, farin að vaka heilu og hálfu næturnar, en sofa fram að hádegi, og hefur svo enga matarlyst. Ég er alveg að gefast upp á þessu. Ég óttast, að ég geti ekki uppfyllt síðustu ósk Lísibetar minnar — að vera önnur hönd Önnu, meðan hún þyrfti þess með, helzt að yfirgefa hana aldrei“. „Það er ekki undarlegt, þó að þú sért orðin þreytt. Þú hefur unnið hér mikið“. „Það er ekkert að vinna, eins og þú getur skilið, svona dugleg kona. Dísa þurfti nú endilega að koma heim og ætlar hreint og beint að eyði- leggja heimilið. Hún hefur alltaf leiðinleg verið, en út yfir tekur þó nú. Þvílíkt stríð!“ „Ég kom nú einmitt til þess að reyna að fá hana í vist út á Strönd, af því ég vissi, að hennar er ekki beint þörf hér á heimilinu“. „Það væri meira lánið, ef hægt væri að koma henni í burtu. Hún er sí og æ að rápa yfir að Hóli. Ég er dauðhrædd um, að hún komi með einhvern þvætting þaðan. Samt skal ég ekki full- yrða neitt. En það skipti um heilufar önnu eftir að hún kom þaðan í fyrsta sinn. Blessuð komdu inn til hennar. Það er ómögulegt að hafa hana út, þó að veðrið sé gott“- Þóra fór inn og bankaði á húshurðina og lauk upp, áður en henni var boðið inn. Anna sat við ofninn með skammel undir fótunum og bók í kjöltunni. Þóra bauð góðan daginn. Anna stóð á fætur og brosti glaðlega og heilsaði vinkonu sinni með mörgum kossum.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.