Lögberg-Heimskringla - 04.07.1963, Blaðsíða 4

Lögberg-Heimskringla - 04.07.1963, Blaðsíða 4
4 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 4. JÚLÍ 1963 Lögberg-Heimskringla Published every Thursday by NORTH AMERICAN PUBLISHING CO. LTD. ' Printed by n WALLINGFORD PRESS LTD. 303 Kennedy Street, Winnipeg 2, Man. Editor: INGIBJÖRG JÖNSSON EDITORIAL BOARD Winnipeg: Dr. P. H. T. Thorlakson, chairman, Haraldur Bessa- son, Rev. Valdimar J. Eylands, Caroline Gunnarsson, Jóhann G. Jóhannson, Thorvaldur Johnson, Jakob F. Kristjánsson, Tryggvi J. Oleson, Rev. Philip M. Pétursson. Vancouver: Dr. S. E. Björnsson. Monlreal: Áskell Löve. Minneapolis: Valdimar Bjömson. Grand Forks: Richard Beck. Reykjavík: Birgir Thorlacius. Akureyri: Steindór Steindórsson. London: Dr. Karl Strand. Subscriplion SG.00 per year—payable in advance. TELEPHONE WH. 3-9931 Authorized as second class mail by the Post Office Deportment, Ottawa, and for payment of Postage in cash. Séra Jón Guðnason Vegna tilmæla Jakobs F. Kristjánssonar, er dvelur á Is- landi um þessar mundir sýndi séra Jón Guðnason okkur þá góðvild, að senda blaðinu ávarp það, er hér er birt. Mér þykir og innilega vænt um bréf hans, þar sem hann segjir meðal annars: „Konan mín biður mig að flytja þér kveðju sína, við minnumst oft hins góða sumardags árið 1946, þegar þið hjón, ásamt þeim Stefáni ritstjóra og Gretti ræðismanni og frúm þeirra, voruð gestir í Reykjaskóla í Hrútafirði. Við geymum Lögbergsblaðið, þar sem Einar sagði frá þessari samverustund með ykkur.“ Þessi orð brugðu upp bjartri mynd í huga mér. Þegar við lögðum upp á Holtavörðuheiði þennan áminsta dag var suddarigning en stytti upp smásaman, þannig var frásögn Einars Páls: „Er norður af Holtavörðuheiði kom fór útsýnið að hýrna og er bílarnir staðnæmdust við Reykjaskóla var komið glaða sólskin, er speglaðist undursamlega í draumlygnum Hrúta- firðinum. 1 skólahúsinu, sem teljast má sönn héraðsprýði og sett hefir styrkan menningarsvip á umhverfið, fögnuðu okk- ur með veizlu, séra Jón Guðnason á Prestbakka og hans tígulega frú; séra Jón er bróðir séra Einars í Reykholti, áhugamaður mikill um kirkju og þjóðfélagsmál. Kona hans er ættuð frá Brunnum í Helgafellssveit. Ég þekkti þessi hjón í fyrri daga og fagnaði því að eiga þess kost að taka í hendur þeirra á ný eftir langa útivist. Séra Jón bauð okkur velkomin í byggðarlagið með fagurri og hjartahlýrri ræðu, er við þökkuðum á okkar fámælta hátt.“ — Séra Jón Guðnason er nú þjóðskjalavörður í Reykjavík og einn sá ættfróðasti maður, sem uppi er á íslandi. Hann hefir safnað miklu um ættir, einkum Strandamanna og Dalamanna og hefir gefið út merkileg rit um þau efni. Hann óskar eftir upplýsingum um þá Vestur-lslendinga sem ætt- aðir eru úr Dalasýslu og vonandi fær hann góðar undir- tektir hjá þeim. — Séra Jón veitti ritstjóra og útgefendum hins mikla ritverks Vesíur-íslenzkar æviskrár ómetanlegan stuðning með því að bera saman ártöl og ættfærslur við kirkjubækur Þjóðskjalasafnsins og við prófarkalestur. Við Vestur-íslendingar eigum honum mikið að þakka. Ávarp hans sem hér fer á eftir er „fagurt og hjartahlýtt“ eins og ávarp hans f.orðum til vestur-íslenzku gestanna í Reykja- skóla. Séra Jón Guðnason: Ávarp til Veslur-íslendinga, flutt á Hótel Borg, 18. júní 1963. Góðir géstir, íslendingar vestan um haf. Ég vil hefja mál mitt á því að bjóða ykkur hjartanlega velkomin heim til íslands. Og um leið vil ég þakka þá rækt- arsemi og tryggð við ættar- land ykkar og ættingja og vini hér heima, sem koma ykkar, svo margra og um svo langa vegu, ber skýrt vitni um. Veit ég, að ég mæli þetta fyrir hönd okkar allra, heima- fólks, sem hingað erum kom- in til fundar við ykkur, og einnig fyrir hönd fjölmargra annarra, sem ekki hafa átt þess kost að vera staddir hér í kvöld. Og um leið og þið eruð boðin velkomin, þá er einnig borin fram sú ósk, að þær stundir, sem þið dveljið hér heima, megi verða ykkur gleðiríkar, og að ný eða end- urnýjuð kynni ykkar af landi og þjóð megi geymast í hug- um ykkar um langa framtíð sem bjartar myndir og minn- ingar. Það er víst, að slíkar minningar myndu verða gildir þættir, til þess að styrkja þau bönd, er tengja saman íslendinga vestan hafs og austan. Tíminn líður með sínum jafna hraða og hver líðandi stund færir okkur venjulega næg viðfangsefni, svo að okk- ur gefst lítið tóm til að brjóta heilann um það, sém liðið er og langt að baki. En við erum þó öll tengd við liðna tímann; hann hefur mótað okkar innra líf. Við eigum minningar _ frá eigin reynslu, og feður okkar og mæður miðluðu okkur af eigin reynslu, sem þau höfðu að nokkru þegið sem arf frá fyrri tíð. Þannig eru kynslóð- irnar tengdar saman, og á- hrifin frá þeim búa í huga okkar, nátengd eigin reynslu okkar frá liðinni tíð. Og eins og falinn eldur getur orðið að björtum loga, þegar felhellu er lyft og skarað í glæður, eins geta andleg arfleifð og minningar gagntekið hug okkar, þegar sérstök tilefni vekja þær af dvala. Séra Jón Guðnason Þetta finnst mér vera að gerast hér meðal okkar í kvöld. Það er eins og tjaldi, sem hylur hið liðna, sé lyft frá, og okkur gefin sýn yfir nær því heillar aldar svið, nánar tiltekið 90 ár, eða frá því er þúsund ára sól íslands byggðar var að hníga til viðar, árið 1873, og nýtt 1000 ára tímabil að renna upp. Og sviðið, sem við horfum yfir, nær allt til dagsins í dag, til þessarar stundar, 18. júní 1963, þegar fjölmennur hópur íslendinga, heimamanna og Vestmanna, er hér saman kominn. Telja má, að vesturfarir í stórum stíl hafi hafizt um 1873, þó að nokkrir væru farn- ir áður. Næstu ár allmörg var útstreymið mest, en dró svo úr, er árferði fór að batna hér, framtíðarvonir glæddust og rýmra var orðið um þá, sem eftir voru, er svo margir höfðu flutzt vestur. Ég ætla ekki að rifja hér upp nánar sögu vesturfar- anna, þó að þrautir og bar- átta og afrek og sigrar frum- herjanna, íslenzku landnem- anna vestra, séu vissulega minnisverð íslendingasaga. Það, sem mér er ríkast í huga nú, eru tengslin milli íslend- inga austan hafs og vestan og sú íslenzka arfleifð, sem varð- veitt hefur verið vestan hafs og enn er þar við lýði. Fyrstu tengslin milli frænda vestan hafs og austan og um nokkuð skeið þau einu, en alltaf þau, sem mesta eft- irvæntingu vþktu, voru sendi- bréfin. Hér heima voru þau marglesin, síðan rætt um efni þeirra og fréttir úr þeim sagð- ar ættingjum og vinum. Það munu vera mörg dæmi um það, að bréfaskipti hafi hald- izt milli vesturfara og ætt- ingja hér heima áratugum saman. Og svo voru íslenzku blöðin vestan hafs: Heims- kringla, Lögberg, Öldin o. fl. þessi þrjú blöð, sem ég nefni, komu öll á mitt æskuheimili. Þeim var haldið saman og voru bundin eða heft. Ég bý enn að ýmsum fróðleik, sem ég svalg í mig úr þeim á mín- um ungdómsárum. Og loks voru bókmenntirnar, einkum ljóðin. Þar gnæfir hæst meðal stórskálda allra tíma, Stephan G. Stephansson, veðurbitinn erfiðismaður, en búinn and- legum ægishjálmi. En við kunnum einnig að meta marga fleiri. Ég nefni aðeins kímniskáldið Káin og Gutt- orm J. Guttormsson, sem fæddur er á Vesturheims grund og hefur þar allan sinn aldur alið, en yrkir þó betur á íslenzku en páinn á latínu. Og honum, þ.e.a.s. Guttormi, en ekki páfanum, eigum við nú að fagna meðal gesta vorra að vestan. Veri hann velkom- inn. Heill honum, og þökk fyrir Sandy Bar og önnur hans ljóð. Vissulega hafa Vestur-lslendingar auðgað bókmenntir vorar, svo, að þess verður lengi minnzt. En einnig á öðrum sviðum hafa þeir unnið afrek, sem eru þjóðerni þeirra til mikillar sæmdar. Þeir hafa stofnað blómlegar íslenzkar byggðir, bæði í Kanada og í Banda- ríkjunum; þeir hafa margir gerzt ágætir lærdómsmenn og einnig öflugir framtaks- menn í mörgum starfsgrein- um. Þeir mynduðu brátt söfn- uði, til þess að varðveita og efla sinn helga trúararf. Þeir hafa haft og hafa enn með sér bæði staðbundin félög og einnig víðtæk félagasamtök, sem allar horfur eru á að standa muni og eflast um langa framtíð, allt eins fyrir það, þó að íslenzkan hljóti að þoka fyrir enskunni í daglegu lífi. Vitund um upphaflegt göfugt þjóðerni og máttur öflugra samtaka mun eftir sem áður orka að viðhalda nánum tengslum við ættland og þjóð. Ég, sem þessi orð mæli, var um skeið starfandi í Þjóð- skjalasafni Islands og hafði þá á hendi ýmislega fyrir- greiðslu fyrir Vestur-Islend- inga, bæði þá sem komu heim og líka með bréfaskiptum. Það vakti þá oft undrun mína og aðdáun, hve innlifaðir þeir voru öllu, sem íslenzkt var. Ég leyfi mér að nefna nokkur dæmi. Tvær systur í Mani- toba báðu bréflega um fæð- ingarvottorð sín. Vottorðin voru afgreidd, og líklega hefi ég, venju fremur, vandað mig með skriftina. Ég fékk þakk- arbréf til baka, þar sem þess var getið, að systurnar tímdu helzt ekki að láta vottorðin af hendi til þeirra nota, sem ætlað var, heldur langaði til að setja þau í ramma og hafa þau til prýði á stofuvegg. ís- lenzk stúlka, sem átti heima sunnarlega í Bandaríkjunum og kunni víst ekki eitt orð í íslenzku, sendi mér milljón í bréfi, að vísu milljón sem var sérstaks eðlis. Hún skrif- aði mér fyrst og tjáði mér, að hún ætlaði að fara gifta sig og stofna heimili. En áður en það yrði, sagði hún að sig langaði til að fá upplýsingar um ætt sína og fá heimilis- fang einhvers nákomins ætt- ingja síns hér heima. Mér tókst að leysa þenna vanda fyrir stúlkuna og fékk svo frá henni þakkarbréf, þar sem næst á eftir ástúðlegu ávarpi komu orðin: Milljón þakkir! Og þó að ég megi nú ekki lengja mál mitt um of, þá langar mig til að bæta enn við einni stuttri frásögn. Fyr- ir 14 árum komst ég fyrir sér- stök atvik í bréfasamband við háaldraðan Vestur-ilslending, sem verið hafði vinnumaður hjá foreldrum mínum hér heima um það leyti sem ég fæddist, en síðan farið vestur og gerzt bóndi í Manitoba, en var nú setztur að á elliheim- ili í Vancouver. Það kom í ljós, að hann hafði, í fjarlægð- inni, fylgzt með æviferli mín- um og systkina minna og þótti mér það furðulegt. Þegar ég fann hann vera svona fróðan, datt mér í hug að leita til hans um upplýsingar um móður- bróður minn, sem langa ævi hafði átt heima við Kyrra- haf, en var fyrir all löngu látinn. Þeir höfðu ekkert þekkzt hér heima og mikil fjarlægð var milli þeirra vestra. Þó höfðu þeir af alveg sérstakri tilviljun hitzt einu sinni, árið 1930, og orðið sam- nátta á gististað. En það var ekki sofið nóttina þá. Og um hvað ræddu þeir gömlu mennirnir, annar eftir 40 ára dvöl og hinn eftir nær 50 ára dvöl í Vesturheimi? Þeir voru alla nóttina að fara með ljóð eftir Kristján Fjallaskáld. Það var arfur að heiman. „Og frændi þinn kunni jafnvel meira en ég“ bætti gamli maðurinn við. Þegar erfðirnar að heiman, tengslin við ættlandið, eiga svo djúp ítök í hjörtum þeirra, sem fluttust fulltíða vestur, þeirra, sem fluttust þangað á barnsaldri, og einnig þeirra sem fæddir eru vestra og ekki kunna hið forna móð- urmál, þá eru það ekki róm- antískir hugarórar, heldur raunsæ framsýni að álykta svo, að hið bezta í íslenzkri arfleifð, það muni geta varð- veitzt um aldir meðal frænda vorra í Vesturheimi, ef svo verður að því hlúð sem hing- að til, sem ekki er ástæða til að efast um. Bjartur boði Framhald á bls. 7.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.