Lögberg-Heimskringla - 29.09.1966, Blaðsíða 6

Lögberg-Heimskringla - 29.09.1966, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG-HEIMSKRINGLA, FIMMTUDAGINN 29. SEPTEMBER 1966 A jl' ■■ ". - GUÐRÚN FRÁ LUNDI: Tengdadóttirín Skáldsaga —r „Já, mér finnst það. Þú seg- ist vera búin að vera tvisvar trúlofuð áður, svo að ég býst ekki við, að þín ást sé hreinni en mín,“ sagði hann. „Svo hefurðu ætlað að verða kominn í hjónabandið áður en ég frétti þetta?“ „Ég var búinn að segja þér, að ég ætlaði að reyna að kom- ast hjá því að kvænast þér. Hvernig ég hefði losnað við það, þarf ég ekki að brjóta heilann um lengur,“ sagði Hjálmar. Gunnhildur klappaði tengda- dóttur sinni á öxlina. „Komdu nú fram með mér, góða mín, og fáðu þér eitthvað að borða. Á morgun getum við svo talað í rólegheitum um þetta vanda- mál. Þetta kom okkur svo á óvart og Hjálmar er tæplega vaknaður,“ sagði hún í sínum hlýjasta málróm. „Nei, nú borða ég ekki fleiri máltíðirnar héma á Hraun- hömrum. Hefði aldrei átt að stíga hingað mínum fæti,“ sagði hún beisklega. „Þú varst víst ekki mjög ó- fús til þess að koma hingað,“ sagði Þorgeir, „og mikið má það vera, ef þú átt ekki eftir að iðrast eftir þessu óðagoti, sem ég er tæplega búinn að skilja ennþá.“ „Satt er það, að ég var hrif- in af ykkur feðgunum og öllu á þessu heimili, og mér hefur liðið hér ágætlega, en svona lagað óhreinlyndi læt ég ekki bjóða mér,“ sagði hún dauf- lega. „Reyndu þá að sansa þig og vera kyrr. Þetta hefur komið fyrir áður, hef ég vitað. Stjúp- an hefur tekið barnið, alið það upp sem sitt eigið afkvæmi, en móðirin verið frí og frjáls eftir sem áður.' Mér finnst slíkt gæti orðið hér. Þér lætur vel barnauppeldið, svo hef- urðu sagt mér,“ sagði Þorgeir. „Sonur þinn hefði sjálfsagt ekki kært sig um það, fyrst hann var búinn að ætla sér að kvænast mér aldrei,“ sagði Sigurfljóð. „Hvað er að marka það, sem hann segir hálfsofandi? Ég hefði nú sjálfsagt haft einhver ráð með að koma ykkur í hnappelduna.“ Þá rann Sigurfljóð í skap að nýju: „Þú treystir þér til að koma flestu í framkvæmd með ráðríkinu. Þér er það ekki nóg að búa með konu þinni eins og hún sé ambátt, heldur ertu á góðum vegi með að fara eins með son ykkar. Hann hefur drukkið minnimáttarkenndina með brjóstmjólkinni, aumingja pilturinn.“ „Það er nú bara það lakasta, að hann hefur aldrei bragðað brjóstamjólk og þess vegna ó- þarfi að kenna í brjósti um hann.“ „Er það kannske satt, sem ég hef heyrt, að hann sé ekki sonur Gunnhildar, en viti þó ekki annað en að svo sé?“ „Flest læturðu þig varða um,“ sagði Þorgeir önugur. „Það er allt mér að kenna,“ sagði Gunnhildur skjálfrödd- uð. „Ég bað Þorgeir að segja honum það ekki, hélt að hon- um þætti ekki eins vænt um mig, ef hann vissi, að ég væri ekki móðir hans.“ „Finnst ykkur þetta ekki sví virðilegt athæfi að leyna manninn því, hver er móðir hans?“ „Nei, hættu nú alveg, Sigur- fljóð,“ greip Hjálmar fram í, „þú hlýtur að geta fengið þér eitthvað annað til að jagast út af en þetta, sem þér kemur víst frekar lítið við. Ég hef vitað það, að ég var af fyrra hjónabandi pabba, síðan ég var smákrakki. Afi sagði mér það.“ Gunnhildi létti við að heyra þetta. „Það var svo sem auð- vitað, að honum fyndist ann- að óviðeigandi, þeim skyn- sama manni,“ sagði hún. Sigurfljóð stóð á fætur. „Þá hef ég víst litlu hér við að bæta öðru en því, að ég hef hugsað mér að taka Ástu til mín og barnið. Ég ætla mér að láta hana læra eitthvað, svo að hún geti tekið sig myndarlega út sem húsmóðir, þegar þar að kemur,“ sagði hún. „Mér finnst ég varla geta komið betur fram við hana.“ Hún hikaði og bjóst kannske við, að Þorgeir myndi ítreka það, sem hann hafði stungið upp á áður, að hún tæki barnið og æli það upp og allt yrði eins og áður, en hann þagði. „Helzt af öllu vildi ég að þú skiptir þér ekkert af okkur Ástu hér eftir. Ég get kostað hana á skóla sjálfur,“ sagði Hjálmar. „En ég hef nú ætlað mér að hafa dálitla hönd í bagga með Ástu minni. Hún hefur alltaf verið eftirlætið mitt, síðan hún var svolítil hnyðra hjá okkur á Hálsi. Ég-vona, að hún hafi ekkert á móti því að ég fái að ala barnið upp sem mitt barn og gefa því alla þá ást og um- hyggju, sem ég ætlaði að sýna manni mínum. Það finnur ekki til þess, þó að ég verði grá- hærð og ellileg, en það hefði hann fljótlega séð, sem er tólf árum yngri en ég.“ „Það er víst alveg óþarfi að vera með neinar ráðagerðir um ófædda manneskju,“ sagði Hjálmar og snaraðist fram á gólfið, þreif jakkan sinn og klæddi sig í hann. „Ég get nú varla ímyndað mér að nokkur móðir láti sér detta í hug að gefa barnið sitt,“ sagði Gunnhildur, „aðra eins guðsgjöf.“ „Það er svona svipað og þeg- ar verið er að fala kálf undan góðri kú, áður en hún er bor- in,“ sagði maður hennar háðs- lega. Sigurfljóð stóð upp og veif- aði svipunni eins og í kveðju- skyni til hjónanna. „Þá segi ég bara verið þið sæl,“ sagði hún og rigsaði fram gólfið. Hjálmar fylgdist með henni. „Ég ætla að ná í hestinn, fyrst þú ert staðráðin í að fara,“ sagði hann. „Það er fallega gert af þér að fylgja mér út í síðasta sinn,“ sagði hún. Hún kvaddi allt kvenfólkið í baðstofunni með kossi og þakkaði því sam- veruna. „Gleymdu nú ekki, Valka mín, að leggja í ofninn hjá gömlu konunni, þegar ég er farin,“ bætti hún við kveðj- una. „Ég veit ekki til, að það hafi gleymzt nokkurn morgun, síð- an ofninn var settur upp,“ sagði Valka. „Ég hef nú stundum kastað flögum á hann á daginn,“ sagði Sigurfljóð. „Það getur víst hver sem er kastað flögum á eld,“ sagði Valka þurrlega. Svo bætti hún við, þegar Sigurfljóð var kom- in fram fyrir: „Það reynir að þakka sér flest, svona fólk.“ Enginn hafði þakkað henni fyrir samveruna. Þó hafði hún áreiðanlega ekki komið neitt ómyndarlega fram við það þessar vikur, sem hún var hús- móðir á þessu heimili. Sjálf- sagt stafaði það af því, að það var ekki búið að átta sig á því, að hún væri að fara alfarin burtu. Samt fannst henni það eins og allt annað átakanlegt vanþakklæti. Hjálmar beið úti fyrir dyr- unum. „Viltu ekki þiggja ann- an hest? Rauður er orðinn tals vert þreyttur,“ sagði hann, þegar hún kom út í dyrnar. „Nei, ég fer á mínum eigin hesti,“ var svarið, kalt og beiskt. Hann fór og teymdi hestinn út að læknum, svo að hann gæti drukkið. Þá heyrðist gengið hægt innan göngin, svo var komið við handlegg henn- ar og nafn hennar nefnt í hálfum hljóðum. „Hvað er það, Gunnhildur?“ spurði hún ekki óhlýlega. „Ég er ekki ánægð með þessi málalok,“kjökraði hún. „Vertu hérna í nótt fyrir það fyrsta. Kannske geta þeir séð ein- hver ráð önnur en að þú farir héðan. Þorgeir verður aldrei ánægður með neina tengda- dóttur aðra en þig. Hann hef- ur vérið svo rólegur til skaps- munanna síðan þú komst, en það er hann nú því miður ekki alltaf, þó að ég hafi reynt það, sem ég hef getað, að búa vel við hann, en geðsmunirnir eru svo stórir.“ „Þú hefur verið helzt til meinlaus við hann, þykist ég vita, það getur allt farið út í öfgar. En ég verð ekki kyrr hér, nema Hjálmar óski þess,“ sagði Sigurfljóð, „en það er víst engin hætta á, að hann geri slíkt, verður sjálfsagt dauðfeginn að losna við mig.“ „Nei, það verður hann ekki,“ sagði Gunnhildur, „hann hefði orðið ánægður með þig, það er ég viss um. Hitt er alveg vonlaust — Þorgeir gefur það aldrei eftir. En það var ekki af neinum ógerðarhætti að ég sagði honum það aldrei, að ég væri ekki móðir hans. Ég hélt, að hann færi kannske að grufla út í það, hvernig hans raunverulega móðir hefði ver- ið og áliti, að hún hefði verið mikið fallegri og betri en ég, og þætti þess vegna ekki eins vænt um mig. Ég fann ekkert ranglæti í því.“ „Það getur verið, að það sé ekkert óviðkunnanlegt eða ranglátt við það, þó að mér finnist það, en nú kemur mér þetta ekkert við og vertu nú sæl. Ég sé að Hjálmar er að koma með hestinn.“ Gunn- hildur þakkaði henni samver- una. „Þetta er óttaleg vitleysa í þér, Sigurfljóð, að hugsa þér að leggja vestur yfir fjall núna, komið undir háttatíma, og það á þreyttum hestinum. Má ég ekki bjóða þér að fylgja þér að þá að þú lofir mér því að gista einhversstaðar hérna megin fjallsins?“ sagði Hjálm- ar. „Nei, ég ætla mér ekki að gista, og ætla að verða ein á ferð héðan af í lífinu. Þú hef- ur ekki haft mikinn áhuga á að bjóða mér samfylgd þessar vikur, sem ég átti heimtingu á kurteisi þinni. Þess vegna get ég ekki þegið hana núna. Líklega hefurðu ekki verið vitund slæmur í hálsinum, þegar þurfti að sækja mig vestur í vetur? Þú hefur bara ekki viljað flytja mig heim að Hraunhömrum sem unnustu þína, og þér var nokkur vor- kunn.“ „Nei, þar hefurðu mig fyrir rangri sök, Sigurfljóð. Ég var slæmur í hálsinum, það var engin uppgerð.“ „Jæja, ég er kannske ill- kvittin í þinn garð, en ég skil bara ekkert í þér að láta hafa þig til þess arna,“ sagði hún. „Þér er það víst allt skiljan- Tegt,“ sagði hann ekki laus við háðshreim. „Þú varst búin að gera pabba svo hrifinn af þér sem tenðdadóttur, að hann hefði eyðilagt mömmu, ef ég hefði ekki látið undan. Ég vona, að þú sért ekki ævareið við mig, en ég kom mér aldrei að því að segja þér, hvernig ástatt var fyrir Ástu.“ „Þú mátt vera viss um, að ég verð alltaf bezti kunningi ykkar Ástu og vil ykkur allt það bezta. Þú skalt fara til Noregs í vor. Ég skal sjá um Ástu og barnið og þeim skal líða vel, meðan þú ert í burtu. Það er komið mál til að þú reynir að brjótast undan ofríki föður þíns. Þú skalt ekki vor- kenna honum, þó að hann verði að láta dálitla fúlgu af hendi við þig — hann er víst ekki svo auralaus.“ „Ég endurtek það, sem ég sagði inni áðan, að helzt vildi ég að þú skiptir þér ekkert hvorki af mér né Ástu. Það á illa við eftir það, sem á undan er gengið,“ sagði hann og tók þétt í hönd henni. „Vertu sæl, Sigurfljóð. Heldurðu að þú getir fyrirgefið mér?“ „Ég verð búin að því, þegar við sjáumst næst, en líklega verður nokkuð langt þangað til,“ sagði hún og vatt sér í söðulinn. Rauður tók röskan sprett suður túnið, þó að hann væri búinn að hreyfa sig ó- venjú mikið þennan dag. Gunnhildur færði sig út á hlaðið og staðnæmdist við hlið sonar síns. „Það er óviðkunn- anlegt, að hún skuli ætla sér að leggja á fjallið undir nótt- ina,“ sagði hún lágt og hálf- raunalega. „Hún vildi ekki fylgd,“ sagði hann jafnlágt. „Baðstu hana ekki um að hætta við að fara og að allt yrði eins og áður?“ „Nei, það datt mér ekki í hug. Hvernig hefði það getað orðið, þar sem hún er búin að kasta hringnum?“ Þá var gengið rösklega inn- an göngin og út í dymar. Þau þekktu vel, hver var þar á ferð, en hvorugt þeirra leit við, heldur fylgdu Sigurfljóð eftir með augunum þangað til hún hvarf suður í hraunið. „Það er ekki að undra, þó að þið séuð að góna úr ykkur augun á eftir henni, þessari skessu,“ sagði Þorgeir í bæjar- dyrunum. „Ég fyrir mitt leyti er guðsfeginn að losna við hana, hún hefði svælt upp öll- um eigum okkar á skömmum tíma, ef hún hefði sezt hér að og fengið að ráða.“ „Það á heldur illa við að þú kastir svona löguðum kveðjum á bakið á henni, þegar hún ríður úr hlaði,“ sagði sonur hans, „ekki léztu svo lítið með að fá hana hingað norður.“ „Hvað er að tala um það, þegar ég þekkti hana ekki nema að nokkru leyti. En nú,“ sagði Þorgeir og hækkaði rödd ina um leið og hann sló bylm- ingshögg í bæjarhurðina til að gefa orðum sínum áherzlu, „en nú væri sama, þó að hún kæmi með allan þann mikla Hálsauð og byði mér hann sem meðgjöf með sér, eins og hún orðaði það sjálf áðan, skyldi ég ekki hleypa henni inn í bæinn.“ „Það er oftast nær skammt öfganna á milli hjá þeim, sem eru nógu óhemjulegir í skoð- unum sínum,“ sagði Hjálmar kuldalega. Gunnhildur tók fast í hönd hans og bað hann að vægja fyrir honum föður sínum. „Það er líklega þú sjálfur, sem getur heitið óhemja. Það er svo sem ekkert ómyndarlegt framferði þitt og þessarar Heiðargarðastelpu. Mig undr- ar ekki, þó að þú hafir verið hálfimdirleitur í vetur. Nátt- úrlega sárskammast þú þín fyrir allt saman.“ Það dugar ekki að leggja árar í bát.

x

Lögberg-Heimskringla

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg-Heimskringla
https://timarit.is/publication/160

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.