Óðinn - 01.09.1917, Blaðsíða 2
42
ÖÐINN
í Reykjavík, og átti fyrir konu Maríu dóttur Bjarna
rektors Johnsen.
Knud Zimsen ólst því upp á heimili danskra
foreldra, og naut þar ágæts uppeldis; faðir lians
var framúrskarandi gáfumaður, vel að sjer í tungu-
málum og yfir höfuð mikill mentavinur. En jafn-
framt hafði Kn. Z. mikla umgengni við íslenska
jafnaldra sína, og fólk yfirleitt í Hafnarfirði, og
kyntist því þegar á unga aldri menning beggja
þjóðanna og hugsunarhætti. Hann kom ungur í
Flensborgarskóla og kyntist þar íslenskum sveita-
piltum, og varð fljótt ramíslenskur i anda.
Fjórtán ára gamall kom hann í latínuskólann
1889, og gekk inn i 3. bekk; gekk honum námið
prýðilega, útskrifaðist úr skóla 1893 með 1. eink-
unn. Samsumars sigldi hann til háskólans og tók
aðgöngupróf á verkfræðingaskólann, tók próf í
heimspeki 6. júní 1894, og fullnaðarpróf í verk-
fræði sumarið 1900 með 2. einkunn. Að afloknu
námi hvarf hann hingað heim, og gegndi ýmsum
verkfræðingsstörfum, bæði fyrir landssjóð og ein-
staka menn. Árið 1903 varð hann bæjarverkfræð-
ingur fyrir Reykjavík og hafði það starf á hendi
mörg ár; en árið 1914 var hann kosinn til hins
þýðingarmikla starfa, að vera borgarstjóri höfuð-
staðarins, og hófst þá nýtt tímabil í ævi hans.
Eins og öllum hlýtur að vera Ijóst, þá er starf
borgarstjóra, í jafnstórum bæ og Reykjavík er orðin,
bæði umfangsmikið og vandasamt, en til þess að
gegna því vel hafði Knud Zimsen hin bestu skil-
yrði. Hann er prýðilega vel gáfaður maður og
sjerlega skýr, atorkumaður mikill, fljótur til verka,
en þó um leið vandlátur við sjálfan sig og gætinn.
Bærinn þarf árlega mikilla aðgjörða við götulagn-
ingar, holræsagjörð, vatnsleiðslur og gasleiðslur,
en til þess að hafa yfirumsjón með öllu slíku, er
verkfræðingur auðvitað langfærastur, ekki síst ef
hann annaðhvort hefur sjálfur lagt ráðin á, hvernig
öllu slíku skyldi haga, eða þó verið í ráðum með
öðrum um það, en þetta hvorttveggja á við Kn.
Z. því hann átti sæti í bæjarstjórn mörg ár áður
en hann varð borgarstjóri, og var því ekki einungis
gjörkunnugur öllum bæjarmálum, heldur sjerstak-
lega þessum málum, sem hann hefur verið meira
eða minna við riðinn bæði sem bæjarverkfræðing-
ur og bæjarfulltrúi.
Af öðrum málum, sem borgarstjóri þarf að hafa
mikil afskifti af, eru fátækramálefni bæjarins vafa-
laust þau mál, sem ekki einungis eru útgjaldamest
fyrir bæinn, heldur líka erfiðust, og hafa því verið
talsvert vanrækt að undanförnu. Að greiða úr
þessum vandamálum, sem einnig útheimtir tals-
verða lagaþekkingu, skyldi maður að óreyndu á-
líta, að myndi verða erfitl fyrir Kn. Z. af því það
hefði legið honum fjarst. En það er síður en svo;
jeg hika mjer ekki við að fullyrða, að á þeim
stutta tíma sem liðinn er, síðan Kn. Z. tók við
stjórn bæjarins, hafi hann unnið bænum meira
gagn i þeim málum en nokkru öðru, þvi að hann
er búinn að koma þessum málum í mjög gott
horf, og þetta er ekki sagt út í bláinn, heldur er
mjer fullkunnugt um það, af þeim mörgu fátækra-
málum, sem komið hafa til stjórnarráðsins til árs-
loka 1916, og hefur ekki af afgreiðslu þeirra verið
að sjá, að skortur á lagaþekking hafi verið hon-
um að fótakeíli. Skrifstofustarfið rækir hann einnig
mjög vel.
Á þeiin síðustu tímum hafa sjálfsagl fáir menn
á þessu landi liaft eins mikið að gjöra og borg-
arsljóri, en það sjer ekki á honum. Dagurinn frá
morgni til kvelds gengur til endalausra funda í
öllum þeim mörgu nefndum, sem borgarstjóri á
sæti í, og þar við bætast svo nýjar nefndir, svo
sem dýrtíðarnefnd og matvælanefnd, sem ekki
gefa honum hvað minst að starfa, en auk þess
hefur hann þó tíma til að gegna ýmsum öðrum
trúnaðarstörfum. Bannig hefur hann í mörg ár
verið formaður IðnaðarmannaQelagsins, sem hefur
gefið honum talsverða aukastarfa, prótdómari við
burtfararpróf í mentaskólanum, og ýms íleiri auka-
störf hefur hann haft á hendi.
Hann átti aðalupptökin að því, að talsími var
lagður í Reykjavík, og var formaður talsímafje-
lagsins, þangað til landssjóður tók hann að sjer,
sjer til mikils ávinnings, því fyrirtækið bar sig á-
gætlega, og við ýms fleiri iðnaðar og verkleg fyrir-
tæki hjer í bænum hefur hann verið riðinn.
Borgarsljóri Kn. Z. hefur all frá barnæsku verið
mjög trúhneigður maður. Á stúdentaárum sinum
í Kaupmannahöfn gjörðist hann fjelagi í kristilegu
fjelagi ungra manna þar, og vann þar mikið, eink-
um sem kennari í sunnudagaskóla, og hafði for-
stöðu íslensku deildarinnar þar, er stofnuð hafði
verið 1895, og i voru aðallega íslenskir handiðna-
menn. þegar hann kom heim til íslands, tók hann
þegar til sömu starfa hjer; hann var formaður fje-
lagsins hjer frá 1908 til 1911, og álti mikinn þált
í því, að hús fjelagsins komst upp. Hann hefur
verið sóknarnefndarmaður og safnaðarfulltrúi hjer
í bænum, og rækt þau störf af mikilli alúð.