Verkamaðurinn


Verkamaðurinn - 20.12.1964, Blaðsíða 17

Verkamaðurinn - 20.12.1964, Blaðsíða 17
wmm ÞVITl: NVARTKLÆDDA KOMAl Það var komið fram yfir miðjan vetur, þegar ég kom til bæjarins. Harðindi höfðu gengið og allt var undir þykkri fönn, svo sem oft v.ill verða í þeim lands- hluta um þetta leyti vetrar. Frosthörkur voru einnig og það brakaði ömurlega undir fæti, þegar maður gekk skaflahryggina meðfram húskumböldunum, nýjum eða gömlum eftir atvikum. A einni fyrstu göngu minni um aðalgötu bæjarins, mætti ég svartklæddu konunni. Hún vakti þó ekki sér- staka athygli mína þá þegar, nema hvað mér þótti und- arlegt að sjá fullorðna konu á gangi í frostnepjunni, án þess að hafa svo mikið sem sjal yfir sér. En konan bar hinn þjóðfræga búning kvenna, sem Sigurður mál- ari skóp þeim á sinni tíð og enn er notaður hjá kven- félögum og þjóðræknisstofnunum í bæjum. Ég mætti konunni skammt fyrir utan skóverzlun Kompanísins og sá, að hún var að skyggnast í hálffennta glugga verzl- anannna. Nei, ég veitti henni ekki nána athygli þá, þó skar hún sig svo sannarlega úr: Konur í þykkum pelsum eða vetrarúlpum, dyrgjulegar konur, lágar til knésins og kvapholda, í uppháum kuldaskóm, stelpur í leðurjökk- um eða samkvæmiskápum að sunnan, með breiða ull- artrefla um höfuðið, pjakkandi fönnina á mjóhæla Parísar-ballskóm, siginaxla karlar í hettuúlpum með belgvettlinga og stífpressaðir betri-borgarar með hönd á barði harðkúluhatta. — Hún var alveg sérstæð í þessu plássi, svartklædda konan. Daglega lá leið mín þessa götu. Eg átti erindi við marga þennan vetrarpart og ég mætti henni oft, svart- klæddu konunni, næstum alltaf á sama stað, næstum alltaf eins klæddri, þó kom fyrir að hún hafði fleygt yfir $ig sjali, en það fór ekki eftir veðurfari, hún virtist óháð slíku. Ég fór að veita henni meir.i og meiri eftirtekt og síðan beinlínis að njósna um hana. Hún var alltaf að gá í verzlanagluggana, þó einkum þar sem eitthvert skart var til sýnis. Stundum sá ég hana bregða sér inn, en hún hafði þar aðeins skamma viðdvöl. Hún var falleg þessi kona, hefðarfrú, ætti ég raunar fremur að kalla hana, svo fíngerð og smábyggð sem hún var. Augun voru óvenju dökk, augnabrúnirnar svartir hálmánar, hárið hrafnsvængur. Það var greitt upp í brúsk milli ennis og skotthúfunnar og reis í bylgju framan við eyrun. Enga konu hef ég séð með smærra nef, þó var það í fullu samræmi við andlitið í heild. Þunnar varir hennar voru alltaf fast klemmd- ar saman og kannske vegna þess virtist litla hakan ofur- lítið framstæð. — Þegar hún var ekki með svarta, ló- slitna sjalið sitt með síða kögrinu, þá sá í hvítan hálsinn og ofan á kverkina yfir dökkgrænu slifsinu, sem skreytt var rauðri rós og fest út í barminn með silfurnælu af fínasta víravirki. Peysufötin voru af mjög vönduðu klæði, svörtu, og græn uppslög á ermunum fremst og kom silkikögur undan þeim fram á úlnliðinn. Pilsið féll þétt og sítt að grönnum líkama hennar niður á danska skó. Efnismikið skottið á húfunni lék lauslega meðal dökkra fléttanna á bakinu, og ef það leitaði frain yfir öxlina, þá varpaði hún því aftur yfir með snöggri handahreyfingu. Og hvað hún var kvik í spori. Aldrei sá ég hana hrasa á klakaslóðum, það var líkara því, að hún svifi yfir þeim, en gengi. Aldrei var hún með þess- ar stóru, ljótu ráptöskur eins og hinar konurnar. Grann- JÓLÁB LAO 19 6 4 ar hendur hennar voru ekki skapaðar fyrir burð, ekki til vinnu. En hvað hún var alltaf að hraða sér, þessi svart- klædda kona? Alltaf sömu götu, alltaf sama megin, fram hjá Nýja magasíninu út undir torgið. Þá var eins og hún yrði uppnumin. Hún hvarf þar. Og að hverju var hún að leita? £g er ekki sérstaklega hnýsinn um annarra hagi. Þekkti hér fáa og óskaði ekki eftir að brjótast gegn um þá skel yfirlætis og meinlæta, er þetta volaða smábæj- arlíf hafði hjúpað sig. En um þessa konu var ég for- vitinn. Ég sneri mér eitt sinn að kuldalegum blaðasala, sem mætti mér rétt við hlið konunnar, og spurði hljóð- lega: Hver er hún, konan, þessi svartklædda kona? Hann leit á mig fánalega og hváði, kona, ha? Hann hafði ekki veitt henni eftirtekt. Þá var að reyna aðra leið. Ég var ekki kominn nema á móts við Nýja maga- sínið, þegar ég mætti henni síðar um daginn. Hún var á óvenju hraðri ferð. Sunnanáttin var komin á og sólargangur far.inn að hækka, svo fönnin hafði sigið á götunni, en það var líka ennþá sleipara í spori og ég hrasaði við um leið og ég hliðraði til, svo hún kæmist leiðar sinnar eftir slóðanum á stéttinni. Þá leit hún í fyrsta sinni við mér. I augum hennar logaði undarlegur eftirvæntingareldur, sem þó sló skugga á vonleysis. Þá ákvað ég að kynnast vandamáli hennar, yfirgefa hana ekki fyrr en ég hefði leyst gátuna: hvers hún leitaði í þessum skranfylltu, óhrjálegu gluggum verzlananna. Og það var eins og hún skynjaði hug minn. Hún hægði för sína og gekk inn í litla verzlun, þar sem eyrnahringir og hálsmen lágu í glugga. Ég fór á eftir henni inn. Tvær ungar stúlkur röðuðu öskjum í hillur, önnur sneri sér að mér, konuna v.irtust þær ekki virða viðlits. Hún otaði nú fram hægri hendinni í átt til stúlkunnar, og þá tók ég eftir hringnum. Hún bar slitinn gullhring á baugfingri hægri handar og hún benti með vinstri hendi á tórna umgerð eftir stein. Hún var að leita að steini í hringinn sinn, þessi grannvaxna, svartklædda kona, en það sá hana enginn nema ég, og það sinnti henni þess vegna enginn. En hún fann ekki frið, því hún hafð.i einhvern tíma týnt dýrmætum steini úr dýrmætum hr.ing. Hver veit hvaða minningar voru bundnar við langslitna, steinlausa hringinn hennar? Ég ákvað að reyna að veita henni hjálp. Hún sneri alltaf við. Nei, hún hvarf alltaf, gafst alltaf upp, á móts við torgið, en utar í götunni var ný verzlun, sem seldi hringa, festar og steina. Já, þar voru meir að segja smíðaðir hringar handa ungum elskendum og settir dýrir steinar í hringa handa fínum hefðarkonum. Steinar, sem glóðu í ljósflóði samkvæmissalanna í öllum regnbogans litum og vöktu aðdáun, sem eigandinn gat aldrei framar vakið af eigin kostum. Að þeirri verzlun vildi ég geta leitt þessa leitandi konu. En var það ekki vonlaust? Myndi nokkur sjá hana, myndi nokkur meðal lifenda geta sett raunverulegan stein í hina gapandi tómu umgjörð á hringnum hennar? Konan gekk hratt út úr verzluninni. Svipurinn var harður. Hún hafði skap þessi veikbyggða hefðarfrú. Það var hart að tízkudrósirnar í þessari búðarholu skyldu ekki sinna henni, ekki svara kurteislegum spurn- ingum. Hún var of stolt til að ganga eftir svona fólki. En hún var bundin hér á þessu svæð.i milli skóbúðar- innar og torgsins. Var kannski gullsmiðurinn hennar hér einhvers staðar með verkstæðið sitt í hina gömlu góðu daga, þegar hefðarkonur voru ekki hunzaðar eins og nú? Við fylgdumst að út móts við torgið. Þá allt í einu var hún ekki lengur við hlið mér. Svartklædda konan, eina manneskjan, sem ég hafð.i öfurlítið kynnzt hér í vetur. Hvað varð af henni svona allt í einu? Ég, sem ætlaði að reyna að fá hana til að ganga með mér nokkrum húslengdum lengra, til gullsmiðanna, móts við almenningsbankann handan torgsins. Það var leiðinlegt að hún hvarf nú. Það liðu nokkrar vikur. Ég var fjarverandi úr bæn- um þann tíma og ég hafði næstum gleymt svartklæddu konunni og steinlausa hringnum hennar. Nú hafði sól og sunnanv.indur brætt upp íslagið af gangstéttum og götum bæjarins, forin hafði þornað og stormar og regn fægt stéttir og stíga. Ég mætti kinkonu minni strax fyrsta daginn eftir að ég kom til baka og ég hneigði höfuðið ósjálfrátt í kveðjuskyni. Ég þekkti ekki svo marga til að heilsa. Hér fögnuðu mér fáir, nema hún. Það er sannleikur, mér fannst bregða fyrir hýru í augunum svörtu, þessum angurværu augum leitandans. Kom þú með mér, sagði ég ákveðið í huganum. Svart- klædda konan hlýddi og við urðum samferða út stétt- ina. Lengra, sagði ég, þegar við nálguðumst torgið. Lengra, þangað, sem þú færð stein í hringinn þinn. Og hún fylgdi mér. Hún jafnvel greikkaði sporið við hlið mér. í augum hennar kviknað.i eftirvænting, sem ég hafði aldrei séð áður, við sýningarglugga gullsmiðanna bókstaflega ljómuðu þau. í glugganum lágu steinar í alls konar litum, grænir, bláir og rauðir steinar, á mjúku flosi. Svartklædda konan snaraðist inn í verzlun- ina, hún baðaði út höndunum, benti ýmist á steinana í glugganum eða tóma umgerð.ina í hringnum sínum, varirnar bærðust í ákafa. Afgreiðslustúlkan leit ósjálf- rátt upp, kannski var hún aðeins að gá að mér, ókunn- um manni, sem stóð utan við gluggann og starði inn. Hún skipti sér ekkert af hinum raunverulega viðskipta- vini, svartklæddu konunni. Hljóðlega gekk ég inn í verzlunina, ég gæti spurt um eitthvað, sem ekki væri til. Það vekur litla athygli í verzlun. Svartklædda konan leit á mig augum, sem erf- itt er að gleyma. í þeim var nístandi örvænting, hróp- andi bæn. Ég var að því kominn að vekja athygli stúlk- unnar innan við borðið á þessum henni ósýnilega kaup- anda, en þá opnaðist hurðin, sem skildi að verkstæði smiðanna og verzlunina. Fram kom dökkhærður maður á miðjum aldri að sjá, hann var í hvítum slopp og stakk örlítið við á vinstra fæti. Gleraugum í svartri umgerð hafði hann ýtt upp á hátt ennið, ■— en hann sá! Augu vinkonu minnar, svartklæddu konunnar, ljómuðu nú enn á ný. Hún var að nálgast takmark sitt. Þetta var, þrátt fyrir allt rétta verzlunin. Og þessi maður, var hann ekki hennar gamli gullsmiður? Hún benti ákveðið á lítinn rúbín í glugganum. Þetta var fagur steinn og blik hans næstur yfirnáttúrlegt í sólskininu. Steinninn var þrístrendur og mjókkaði upp eins og pýramídi. Halti gullsmiðurinn tók steininn með flísatöng og brá honum upp fyrir augu konunnar. Hún kinkaði kolli í ákafa og rétti manninum hringinn yfir borðið. Hann felldi steininn í umgerðina, strauk létt yfir barma hennar svo festingin væri örugg, og rétti konunni aftur. Það fór alda djúprar gleði um þessa litlu gullsmíða- verzlun í hinum venjulega, smáborgaralega bæ. Gleði- alda, sem aðeins kviknar á hafi þeirra óska, sem upp- fyllast eftir óralanga bið. Maðurinn hvarf á hljóðlaus- an, ósýnilegan hátt, og vinkona mín, svartklædda konan, var byrjuð að leysast upp fyrir augum mér, áður en ég gat áttað mig á hinum óvenjulegu aðstæðum. Fyrst hurfu fætur hennar, svo líkaminn upp eftir, smátt og smátt. Brot úr sekúndu litu augu hennar í augu mín í þökk, döggvuð ósegjanlegri gleði, svo hvarf hún snögg- lega öll. En augnablik skein á gullhringinn hennar í loftinu, án fingurs, þá steininn rauða einan, svo hvarf hann einnig og hið undursamlega blik hans samsafn- aðist birtunni að utan. (Framliald á bls. 19). VERKAMAÐUIIINN 17

x

Verkamaðurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Verkamaðurinn
https://timarit.is/publication/215

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.