BFÖ-blaðið - 01.12.1990, Blaðsíða 3
Einar Guðmundsson:
Jólakveðja
í hugum manna eru jólin mikil hátíð. Þá
viljum við að okkur líði vel og við reynum að
gleyma hörmungum og öllu því sem miður
hefur farið að undanförnu.
Jólin eru hátíð frelsarans og þó íslendingar
kalli sig kristna þjóð, eru samt margir sem
gleyma boðskap jólanna fyrir umgerð þeirra.
Jólaskrautið, gjafirnar og maturinn vill
stundum skyggja á aðalástæðu þess að við
höldum heilög jól. Að við minnumst þess að
frelsari heimsins var borinn í heiminn.
Sumir eiga þó erfitt með að gleðjast á jólun-
um. Ýmislegt getur skyggt á þá gleiði. Meðal
þess eru þau hörmulegu slys sem verða í
umferðinni. Ástvinir og ættingjar sem misst
hafa einhvern eða eiga einhvern að sem hefur
orðið fórnarlamb, gleyma ekki slíkum hörm-
ungum á þessari hátíðarstundu. Þeir rifja upp
þann tíma er þeir gátu haldið upp á heilög jól
með ástvini eða ættingja, sem á árinu hefur
orðið fórnarlamb umferðarinnar.
Umferðin tekur stóran toll af okkur fá-
mennu þjóð. Við missum að meðaltali einn
heilan skólabekk á ári. Okkur þætti það
hræðilegt ef einn góðan veðurdag heill skóla-
bekkur af ungum og hressum börnum hyrfi
okkur sjónum á vit eilífðarinnar. En það er
einmitt það sem umferðin er að gera á hverju
ári. Erum við orðin svo lokuð að það kemur
okkur ekki við?
Hver er sú hætta sem mest steðjar að okkur
í umferðinni? Við sem að umferðarmálum
störfum, höfum ákveðnar skoðanir í þeim
málum. Ég ætla að nefna eitt þeirra hér. Öll
erum við ófullkomin og gerum okkar mistök í
umferðinni. Þegar mistökin verða er það
hraðinn sem ræður úrslitum hvort tjónið verð-
ur mikið eða lítið og hvort einhver slasast. Ef
hraðinn væri minni gætum við ef til vill bjarg-
að einhverju og í öllu falli yrði tjónið minna og
slysin minni eða jafnvel engin. En okkur ligg-
ur á og við hugsum: „Það kemur ekkert fyr-
ir mig.“
Látum slíka hugsun ekki verða til þess að
jólagleðin breytist í harmleik og hörmungar
hjá okkur. Þyki okkur vænt um okkar nán-
ustu hljótum við að hugsa öðruvísi. Umferð-
arráð hefur oft auglýst „Komum heil heim.“
Tökum höndum saman og sláum aðeins af
bensíngjöfinni og gefum okkur tvær til þrjár
auka mínútur til að komast heim eða að heim-
an og látum umferðaröryggið sitja í fyrirrúmi.
Látum jólin verða okkur gleðileg og njótum
þessarar heilögu stundar án þess að láta
smámistök eða yfirsjón í umferðinni skemma
fyrir okkur. Gleðilega jólahátíð.
Einar Guömundsson er
framkvæmdastjóri BFÖ
og starfsmaöur Ábyrgðar hf.
BFÖ-l>laðÍA • 4/1990 • Dcscmbcr 1990
Utgefandi: Bindindisfélag ökumanna,
Lágmúla 5,108 Reykjavík, sími 83533.
Ritnefnd: Sigurður Rúnar Jónmundsson (ritstj. og áb.m.),
Halldór Árnason og Jónas Ragnarsson.
Aðstoð: Árni Einarsson og Jóhannes Tómasson.
Myndir: Gunnar V. Andrésson (bls. 1), Morgunblaðið (5),
Norska áfengisvarnaráðið (8, 9, 11,14).
Prentun: GuðjónÓ hf. Upplag: 4.000 eintök. 4. tbl. 18. árg.