BFÖ-blaðið - 01.12.1990, Blaðsíða 7
Að loknu umferðarþingi
Dagana 22. og 23. nóvember s.l. var haldið
umferðarþing í Reykjavík, hið fyrsta í röðinni.
En héðan í frá verða slík þing haldin árlega.
Þinghaldið einkenndist af því hve víða var
komið við í umferðarmálum. Fjallað var um
umferðarfræðslu og ökunám, umferðarmann-
virki, löggæslu, umferðarslys og kostnað þjóð-
félagsins af völdum þeirra, tryggingabætur og
vegfarendur. Þá var frummælendum tíðrætt
um fyrirbærið umferðarmenningu, sem talin
var afar takmörkuð í landi voru.
Hver frummælandi hafði aðeins sjö mínút-
ur til að koma efni sínu á framfæri svo að fæst-
ir eyddu tíma sínum í málalengingar og auka-
atriði, komu sér beint að efninu, hnitmiðað og
markvisst. í byrjun hafði ég efasemdir um að
svona skipulag gengi upp en þær reyndust
algerlega óþarfar þegar upp var staðið og
tímamörk röskuðust ekki meira en venjulegt
er þegar fyrirlesarar hafa meiri tíma. Fyrir
þetta eiga skipuleggjendur þingsins lof skilið.
Stuðningur við lækkun leyfilegs vínanda í
blóði ökumanna
Vegna þess hve margar hliðar umferðar-
mála voru kynntar komu umræðuhópar sem
störfuðu víða við. Fjöldi tillagna og ályktana
komu úr hópunum og var m.a. samþykktur
stuðningur við frumvarp Árna Gunnarssonar
og félaga um að lækka prómillmörkin í 0,25
Ökumaðurinn skiptir öllu
Þrátt fyrir að mikið væri íjallað um úrbætur
á gatna- og vegakerfi og bættan búnað öku-
tækja var það viðhorf ríkjandi að þrátt fyrir
allt slíkt væri það ökumaðurinn sálfur sem
ætti stærstan hlut að máli. Að síðustu væru
það hans viðbrögð sem skyldu á milli feigs og
ófeigs í umferðinni.
Herkostnaðurinn 5-7 milljarðar á ári
Upplýsingar um umferðarslysin og þann
kostnað sem þau hafa í för með sér er sú gusa
sem ég held að flestum verði minnisstæð. í
erindi sínu hélt Lára Margrét Ragnarsdóttir
hagfræðingur hjá Ríkisspítölunum því fram að
kostnaður þjóðfélagsins vegna umferðarslysa
væri a.m.k. 5 milljarðar króna árlega. í skýrslu
landlæknisembættisins, sem dreift var á
þinginu, er því haldið fram að þessi kostnaður
sé um 7 milljarðar. Engu skiptir hvor talan er
nær lagi. Þær eru báðar ógnvekjandi þegar á
það er litið að um 138 þúsund ökutæki eru í
landinu. Þetta þýðir að herkostnaður bílaflota
landsmanna vegna umferðarslysa er 35-50
þúsund á hvern bíl árlega.
Ungu fólki hættast
Áberandi er hve slys á börnum og ungling-
Um eru tíð og hve stór hluti þeirra ökumanna
sem eiga aðild að umferðarslysum er ungt
fólk. Hvað veldur? Er undirbúningi þeirra
áfátt? Er tillitsleysið og glæframennskan svo
mikil að það þurfi fullþroskaðan og fullvaxinn
einstakling til að komanst lifandi frá þeim
hildarleik sem við köllum umferð?
Umferðarmenning og fordæmi
Margir frummælendur fjölluðu um umferð-
armenningu og umferðarsiðferði íslendinga.
Niðurstaða þeirrar umfjöllunar er í stuttu
máli sú að ökulag landans miðist fyrst og
fremst við það að hann þurfi að komast leiðar
sinnar og engar reflar. Skítt með aðra í
umferðinni. Þeir eru í besta falli að flækjast
fyrir ef ekki heinlega sendir honum til höfuðs
og því best að verða fyrri til að ná sér niðri á
þeim. Af þessu helgist ökuhraði, framúrakst-
ur og almennt tillitsleysi við aðra. íslenskur
ökumaður sé einfaldlega siðferðislega van-
þroskaður.
Ábyrgð fullorðinna og reyndra ökumanna
er því mikil. Hin svokallaða umferðarmenn-
ing, þ.e. ökulag og afstaða til umferðarinnar,
er frá þeim komin. Þeir eru fordæmið. Ef til
vill skiptir yfirgripsmikil þekking á bílum og
hvernig hann er uppbyggður smávægilegu
máli fyrir umferðaröryggi. Líklega skiptir
meiru að ala upp góða ökumenn sem sýna öðr-
um ábyrgð og eru sjálfir ábyrgir. Ökumenn
sem líta ekki á bíl sem leikfang heldur hættu-
legt tæki sem þeim er trúað fyrir.
Árni Einarsson. 7