Dagur - 03.06.1976, Blaðsíða 4

Dagur - 03.06.1976, Blaðsíða 4
4 Skrifstofur, Hafnarstræti 90, Akureyri Sírnar 1-11 66 og 1-11-67 Ritstjóri og ábyrgðarmaður: ERLINGUR DAVÍÐSSON Auglýsingar og afgreiðsla: JÓHANN K. SIGURÐSSON Prentverk Odds Björnssonar h.f. r I níutíu ár Kaupfélag Eyfirðinga fagnar níutíu ára afmæli sínu um þessar mundir. Bændur stofnuðu það og samvinnu- fólkið við Eyjafjörð er enn að styrkja það og móta, leggja því verkefni í liendur til lausnar eftir leiðum sam- vinnunnar. Það tók í upphafi á sínar herðar skyldur samábyrgðarinnar, en í farsælu starfi hefur það löngum notið ríkulegs hagnaðar, því að í þessu héraði hefur samvinnustarf borið ríkulegri ávöxt en víðast ann- ars staðar á iandinu. Um leið hefur það sannast áþreifanlega, að sam- vinnuhugsjón í verki, megnaði að lyfta hag fólksins meira en nokkur önnur félagsmálahreyfing. Þótt það hafi aldrei þótt búmann- legt að eyða mjög miklum tíma í funda- og félagsmálastörf, munu eyfirskir bændur og aðrir samvinnu- menn vart hafa getað varið tíma sín- um betur né fengið önnur störf bet- ur launuð. Gildir það ekki aðeins um stofnun þessa samvinnufyrir- tækis, heldur einnig um hin viðvar- andi félagsmálastörf á því sviði og á vettvangi búnaðarmála. Gæfu og gengi Kaupfélags Eyfirð- inga x níutíu ár má fyrst og fremst þakka félagsfólkinu, traustu og ein- huga. En um leið ber að minnast forystumannanna, Hallgríms Krist- inssonar, Sigurðar Kristinssonar, Vil- hjálms Þór, Jakob Frímannssonar og Vals Amþórssonar, núverandi kaup- félagsstjóra, sem hver á sinn hátt eiga ómetanlegan þátt í velgengni félagsins, ásamt úrvals staxísfólki fyrr og nú. Samvinnuhugsjónin, sem í eðli sínu er einföld og auðskilin, felur það meðal annars í sér, að margir einstaklingar geti og eigi að vinna sameiginlega að þeim nauðsynlegu viðfangsefnum, sem hverjum ein- stökum er um megn að leysa. Fyrsta sögulega verkefni samvinnumanna beindist að sameiginlegum innkaup- um nokkurra iðnaðarmanna, fátækra vefara. En þau innkaup færðu þeim fyrstu viðskiptalegu kjarabótina á vegum hinnar nýju hreyfingar. Ekki er til þess vitað, að nokkur hafi reynt að reikna það út, hve mikinn beinan og óbeinan hagnað fólk hefur notið af samvinnustarfinu, í einstökum héruðum eða á landinu öllu né held- ur hve mikill og almennur aflgjafi hreyfingin var og er í viðskipta- og atvinnulífinu, og þar með í batnandi lífskjörum almennt séð, síðustu ára- tugina. Enn felur samvinnufólkið kaup- félagi sínu forystu í framkvæmdum á sviði viðskipta-, framleiðslu-, at- vinnu- og menningarmála. Verkefn- in eru næg og máttur samtakanna glatar aldrei gildi sínu. HJÖRTUR E. ÞÓRARINSSON, BÓNDI, TJÖRN Kaupfélag Eyfirðinga 90 ára (ÚR HÁTÍÐARÆÐU) Árið 1886 var ekki eitt af björtu árum íslandssögunnar, öðru nær. Það gekk yfir þessa þjóð á einu mesta harðindaskeiði sögu vorrar, þegar veðurfarið var svo fjandsamlegt öllu lífi í þessu landi að segja má að hinn litli, veikbyggði þjóðarlíkami nötraði af kulda í tötrum sínum. Þjóðin átti auk þess í sálar- stríði: annars vegar var sterk tilhneiging til að kasta öllu frá sér hér en leita sér og niðjunum nýs lífs og meiri hagsældar í landi hinna miklu möguleika fyrir vestan haf, hins vegar seigur vilji að gefast ekki upp heldur berjast til þrautar fyrir betra félagi og bættum hag í landi feðranna. Til vitnis um það fyrrnefnda er það að á ár- unum 1886 og 87, aðeins þessum tveimur ármn, fluttu a. m. k. 2500 manns af landi brott. Hugsið ykkur, 2500 manns af 70000 manna þjóð flestir af Austur- og Norðurlandi þ. á. m. margir úr Eyjafirði. Á hinn bóginn var þó sá stórhugur í mönnum að Alþingi samþykkti, eins og Þingvallafundur árið áður, djarfmannlegt stjórnar- frumvarp, sem vísaði hiklaust veginn fram á við til miklu meira stjómfrelsis en þá við- gekkst. Á þessu sama herrans ári, 1886, tók líka til starfa Lands- banki íslands eftir lögum frá árinu áður og átti það framfara- spor eftir að hafa stórkostlega þýðingu fyrir atvinnu- og við- skiptalíf landsins. Þessara atburða er ítarlega getið í öllum sögubókum og uppsláttarritum, sem fjalla um merkisatburði í sögu þjóðar vorrar. En lengi mun þurfa að leita í þeim heimildum eftir frásögn af þeim merkisatburði, sem gerð- ist norður á Grund í Eyjafirði sunnudaginn 19. júní á þessu sama herrans ári, 1886. Þann dag var það sem nokkr- ir bændur úr innsveit Eyja- fjarðar komu saman til „að ræða um hverja stefnu skyldi taka með verslun og vörupönt- un úr héraðinu á komandi sumri og hausti, sérstaklega að því er snertir sölu á sauðum í þremur fremstu hreppum Eyja- fjarðar: Öngulsstaða-, Saur- bæjar- og Hrafnagilshreppum," eins og það er orðað í fundar- gerðinni. Allir miklir atburðir á sviði félagsmála eiga sér djúpar ræt- up í sögu og lífshræringum þess samfélags, þar sem þær gerast. Samtök eyfirsku bændanna um verslun, stofnun Kaupfélags Eyfirðinga, átti sér að sjálfsögðu sínar forsendur og sinn langa og mikla aðdraganda. Um það er ekki unnt að fjalla hér. Það verðup verkefni þess eða þeirra, sem taka að sér að skrifa 100 ára söguna, að rekja þræðina, sem liggja til Grundarfundarins. Sumir þeirra eru reyndar aug- ljósir og nærtækir. Til annarra þarf að seilast langt út í heim eða aftur í aldirnar. Hér vil ég aðeins minna á og leggja áherslu á eftirfarandi: 1 fyrsta lagi. Stofnun versl- unarsamtaka almennings í Eyja firði var þáttur í hreyfingu, sem fór um þessar mundir um öll helstu héruð landsins í því augnamiði almennt séð að gera verslunina hagkvæmari fyrir landsfólkið. í öðru lagi. Bætt verslun, þ. e. heiðarleg, vel rekin, innlend verslun, var sjálfstæðismál, geysiþýðingarmikill liður í við- reisnar- og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar að sínu leyti ekki ómerkara en baráttan fyrir bættu stjórnarfari og baráttan fyrir framförum í framleiðslu- atvinnuvegunum. f þriðja lagi. Öll þessi hreyf- ing í þjóðfélaginu, þessi ólga vona og framfarasýna í hinni sárafámennu, dönsku hjálendu í trássi við neikvæða afstöðu yfirvalda og í trássi við harð- neskju náttúruaflanna, öll var hún að sínu leyti nátengd hinu sterka stjórnmála- og atvinnu- lega umróti, sem fór um okkar hluta af heimsbyggðinni á 19. öldinni. Það er gagnlegt og sjálfsagt að gera sér grein fyrir þessu. Kaupfélag Eyfirðinga varð ekki til af tilviljun. Það var ekki nein skyndileg, sérviskuleg hug detta hjá þessum eyfirsku bænd um að koma saman og stofna félag. Þetta voru venjulegir, eyfirskir sveitamenn eins og þeir, sem þar höfðu fæðst og alist upp á öllum öldum. En þeir voru svo heppnir að fæð- ast ekki fyrr en um miðja 19. öldina. Þeir ólust upp við boð- skap Jóns Sigurðssonar og annarra boðbera nýrra hug- sjóna og hugmynda um þjóð- lega endurreisn, þjóðlegt frelsi, bætta atvinnuhætti, meiri lífs- gæði og almenna hagsæld í landinu en verið hafði um aldir. Þessir menn voru í engum vafa um að stefnan væri rétt og þeip vildu vera virkir þátttak- endur í siglingunni til bjartari daga og betra lífs. Það gerðu þeir með því að gerast liðsmenn í hinni pólitísku sjálfstæðis- baráttu, það gerðu þeir með því að þróa atvinnuvegi sína t. d. með stofnun búnaðarfélaga og það gerðu þeir með því að hefja sókn til bættra verslunarhátta. Þetta var hið sögulega hlut- verk bændanna, sem komu sam an á Grund þenna annars óþekkta dag, 19. júní 1886, þeirra Hallgríms á Munkaþverá, sem var fundarstjóri, Hallgríms á Rifkelsstöðum, Sveinbjörns á Stokkahlöðum og Einars á Núpufelli, en þeir voru kosnir í fyrstu stjórnina, og hinna, sem þar voru mættir, en ekki er unnt að nafngreina hér. Allur félagsskapur hverju nafni sem nefnist þarf jarðveg við sitt hæfi í því mannlega samfélagi, sem hann á að lifa í. Ella lognast hann von bráðar út af, ef hann kemst þá nokkurn tímann upp úr jörðinni. Það var styrkur Kaupfélags Eyfirðinga að það spratt upp úr þeim frjóa jarðvegi, sem er blanda hug- sjóna og hagsmuna, eyfirskra vona og drauma um betra þjóð- félag á Islandi og bættan hag í heimabyggð. Fleira var það að sjálfsögðu, sem myndaði hinn frjóa félags- jarðveg, svo haldið sé líking- unni við gróðurinn. Þéttbýli og mannfjöldi Eyjafjarðar er eitt. Verslunarstaðurinn og höfnin góða í hjarta héraðsins er ann- að. Tiltölulega menntuð og vel Hjörtur E. Þórarinsson, stjómarformaður KEA. upplýst alþýða er enn eitt afar- mikilvægt, en ekki séreyfirskt atriði. Þetta var vöggugjöfin, sem afmæhsbarn vort hlaut í önd- verðu. En enginn lifir á vöggu- gjöfinni einni saman fram til níræðs, allra síst heilbrigðu, þróttmiklu, sífersku lífi eins og Kaupfélag Eyfirðinga hefur óneitanlega gert fram á þennan dag. Til þess þarf margt, sem ekki er hér tími eða tækifæri til að skoða og skilgreina. Það verður að bíða stóru sögunnar. Eitthvað vil ég þó nefna, sem mér virðist að skipti sköpum í þessu sambandi. Eitt er að ganga í takt við tímann, eins og stundum er sagt á líkingamáli. Það er að gegna stóru hlutverki og finna sér jafnan ný eftir því sem þörf- in kallar, jafnvel að sjá verk- efnið fyrir og taka það upp á arma sína áður en þörfin er farin að kalla. Þetta hefur Kaup félagi Eyfirðinga tekist ótrúlega vel eins og brátt mun fram koma þegar ég fer á hlaupum yfir afrekaskrána. Annað er að missa ekki jarð- sambandið. Eða að halda tengsl- um við grasrótina eins og stund um er sagt á vorum dögum. Samkvæmt mínum skilningi þýðir þetta þó einfaldlega að láta sér takast að halda vakandi áhuga og skilningi hins almenna félaga í sveit og við sjó á mikil- vægi starfsins og réttmæti mark miðanna. Án þessa geta félög að vísu lifað ótrúlega lengi en aldrei góðu lífi. Hér mætti mörgu við bæta og sumir mundu kannske vilja telja allra fyrst sérstaka mann- heill Kaupfélags Eyfirðinga, einkum að því er varðar aðal- forstöðumenn sína. En ég vil heldur líta svo á að mannheill- in, sem vissulega hefur verið mikil sé a. m. k. ekki síður af- leiðing en orsök velgengninnar. Góður félagsskapup elur upp góða menn og dregur til sín góða menn, sem svo bæta hann aftur að sínu leyti. En snúum nú aftur að hvít- voðungnum £ baðstofunni á Grund og örlögum hans. Verður nú farið fljótt yfir sögu. Fyrstu skrefin voru smá: saga 220 sauða á fæti til Eng- lands. Skip kom af hafi með 12 algengar vörutegundir til Fönt- unarfélags Eyfirðinga, því svo hét það fyrst um sinn. Þetta mun hafa verið sem næst slétt- býtti og var peningaverðið kr. з. 131,42. Þetta mundi þá gera и. þ. b. 15 krónur á sauð og var ekki svo lítið og greitt í góðu ensku gulli. Og þannig gekk allra fyrstu árin. En hið unga félag fékk fljótt að reyna misviðri viðskiptalífs- ins. Það var hræðilegt áfall, reyndar fyrir þjóðina alla, þeg- ar Bretar settu hömlur á inn- flutning lifandi búfjár árið 1896 af sóttvarnarástæðum og lík- lega einnig fyrir þrýsting frá bændum heima fyrir. Sauðaút- flutningur Pöntunarfélagsins féll úr kr. 25.000 árið 1895 í kr. 4.300 árið 1897. Ef leita ætti að hliðstæðu í nútíðinni mætti kannske helst nefna til hvarf hafsíldarinnar eða þá það að þorskstofninn hryndi til grunna. Neyðin kennir naktri konu að spinna og nú fóru félags- menn að fikra sig áfram við kjötsöltun og gærusöltun til út- flutnings og náðist brátt mikill árangur í meiri vöruvöndun og betra markaðsverði. Um þessi mál snýst öll félags- 5 leg hugsun og starf fyrstu tvo áratugina, þ. e. samkaup og álagningarlausa dreifingu á nokkrum lífsnauðsynlegum vörutegundum (og kaffi) svo og inn sölu sauðfjárafurðanna úr landi, því innlendur markaður var enginn. (Akureyri nokkur hunduð manna þorp, annað þétt býli ekkert við fjörðinn). Við þetta börðust fyrstu stjórnirnar, 3 menn, einn úr hverri deild, og fyrstu formenn og framkvæmdastjórar, sem þá var einn og sami maðurinn, þeir Hallgrímur Hallgrímsson, Frið- rik Kristjánsson og Davíð Ketilsson svo og Hallgrímur Kristinsson fyrst eftir að hann tók við forystu í félaginu árið 1902. Fátæktin var sár og getu- leysið mikið hjá fjármagnslausu félagi, enda riðaði það á óstyrk- um fótum um aldamótin og héldu sumir að það yrði ekki mikið eldra og hörmuðu það ekki allir. Þó gerðust hlutir, sem áttu eftir að hafa mikla þýðingu. Félagið kom höndum yfir lóð á Torfunefi mitt á milli bæjar- hlutanna Akureyrar og Odd- eyrar. Og þar kom það sér upp vörugeymslu árið 1898. Það var „14 áln. langt, 12 áln. breitt og 5 áln. undir lausholt með 1% áln. háu porti og kjallara undir öllu húsinu.“ Félagssvæðið stækkaði. Árið 1891 bættist Öxndæladeild við, árið eftir Hörgdælir og þar næst Þelmerkingar og upp úr alda- mótunum Hlíðardeild, þ. e. Kræklingahlíðin. Árið 1906 er löngum talið ár hinna miklu þáttaskila í sögu félags vors. Ef taka ætti líkingu af æviferli manns þá mætti e. t. v. segja að allt til þessa hafi félagið brölt á fjórum fótum og fálmað sig áfram en nú hafi það risið á fætur og gengið upprétt út í birtuna og lífið. Ég hef nú leitast við að rekja þessa sögun í fáum orðum. Vér höfum séð að afmælisbarn vort fæddist á örlagatímum í sögu þjóðar vorrar, þegar hún var að losa sig úr hinni löngu og leiðu vist hjá Dönum. Vér höf- um séð hvernig það óx í takt við þarfir og kröfur tímans bæði landfræðilega og að fjöl- breytileika viðfangsefna. Þetta sjá allir og viðurkenna. Hitt skortir frekar á að menn sjái nógu skýrt eða vilji viður- kenna almennt, hver hefur ver- ið hlutur félags vors í þeirri innanlandsbaráttu sem við tók, þegar sjálfstæðisbaráttunni við Dani lauk. Það er barátta ein- stakra héraða landsins við að halda fólki sínu og atvinnu- tækjum. Sú barátta stendur enn. Það er staðreynd að utan Faxaflóastranda hefur sú bar- átta ekki annars staðar borið betri árangur en við Eyjafjörð. Hvers vegna? Svarið er án efa ekki eitt né einfalt. Einn hluti þess er þó alveg ljós. Óslitið 90 ára starf Kaupfélags Eyfirðinga með almennri þátttöku héraðsbúa í sveitum og bæjum, samsöfnun fjármagns hinna mörgu til ein- beitingar að ákveðnum þjóð- þrifaverkefnum á hér gildan þátt. Og að viðbættum rekstri heildarsamvinnusamtakanna hér á Akureyri, sem lika er óbeint kaupfélaginu að þakka, er það örugglega gildasti þátt- urinn. Ekki svo að skilja að neinum detti í hug að allt væri hér í kalda koli ef KEA hefði ekki komið til. Auðvitað hefði þró- unin fundið sér sína farvegi þótt á annan hátt væru. Vafa- laust væri hér dásnotur bær þar sem Akureyri er. Sennilega væri líka rekið frystihús á Dal- vík og e. t. v. líka í Hrísey. Kannske væri líka búið enn í Grímsey þótt ekkert sterkt, byggðumunnandi félag hefði eflst hér við fjörðinn. Vér vitum þetta ekki og má hver sem vill reyna að geta sér til um svipmót KEA-lausra Eyjafjarðarbyggða. En vér sjá- um það sem vér höfum og vér höfum mikla ástæðu til að vera ánægð með heildarmyndina. Eru þá engar blikur á lofti hins félagslega himins? Hvort sjást nokkrar sprungur í hinn félagslega grunn? Víst eru blik- ur yfir höfðum vorum. En eru þær þykkri en löngum og löng- um áður? Himinninn hefur aldrei verið alveg heiðskír í sögu KEA. Vér störfum í þjóð- félagi þar sem himinninn er hrannaður allavega litum skýj- um, allt frá rósrauðu niður í biksvart. Af því skýjafari hlýt- ur allt vort starf að litast, þótt vér ráðum vonandi meginlitn- um sjálfir. Grunnurinn skiptir mestu máli. Hann má aldrei bila. En á meðan kaupfélagið heldur tryggð við gömlu boðorðin sín um vel rekna heiðarlega versl- un þá eru þar óbilandi steinar í grunninum. Á meðan það heldur sambandinu við gras- rótina í dölum og ströndum Eyjafjarðar þá hangir það á sterkri rót. Á meðan leiðarljós þess er einbeiting að verkefnum sem miða að eflingu atvinnu og búsetu í Eyjafjarðarbyggðum öllum sem heild og jafnframt hverri fyrir sig, þá þarf ekki að óttast að grunnurinn gliðni sundur og byggingin taki að hallast. Ég sé enga ástæðu til að ótt- ast að neitt af þessu sé að bila. í því trausti vil ég fyrir allra vor hönd óska afmælisbarninu, Kaupfélagi Eyfirðinga, velfarn- aðar á síðasta tugáfanganum á leið til aldarafmælisins árið 1986. Á þeim hátíðisdegi munum vér áreiðanlega mörg mæta, sem hér erum nú, þótt sum okkar verði trúlega eitthvað hrörlegri en vér þó erum í dag. Aftur á móti er ég viss um að afmælisbarnið verður engu óhressara en það er nú og það skiptir mestu máli. □ Aukning atvinnulífs Margt er það, sem kallar á fjár- bindingu hjá eyfirskum sam- vinnusamtökum, þvf verkefnin kalla úr ýmsum áttum og treyst er á aðstoð Kaupfélags Eyfirð- inga. Mjög alvarlegt atvinnuástand blasti við í Hrísey á síðasta ári, vegna skorts á skipakosti til hrá efnisöflunar. Varð þá horfið að því ráði að kaupa Snæfell, 300 tonna skuttogara í Noregi, í samvinnu við sveitarfélagið í Hrísey. Lagði KEA fram 30 milljónir kr. á móti 11 milljón kr. framlagi hríseyinga vegna þessara kaupa. Á sama hátt er KEA nú að leggja fram 11 milljónir kr. til skipakaupa fyrir Utgerðarfélag Dalvíkinga h.f., gegn hlutfalls- lega jafn háum upphæðum frá öðrum hluthöfum. Frystihúsin í Hrísey og á Dal vík höfðu ekki nægileg verk- efni, og því fengu ekki allir næga atvinnu þar, hennar þurfti mest með. Snæfell hefur þegar gjörbreytt atvinnunni í Hrísey. Þannig reyna samvinnusam- tökin að koma til móts við óskir fólks um aðstoð, þegar atvinnu- lífið þarf raunhæfra og skjótra úrbóta. □ Hér sést vestur eða upp Grófargilið, þar sem fyrst var byggt sláturhús, gærurotun var hafin, og þar sem fyrsta mjólkursamlag landsins tók til starfa. Þar var og Pylsugerðin til húsa. Ofar í gilinu er núverandi Mjólkursamlag KEA, Efnaverksmiðjan Sjöfn, Efnagerðin Flóra og Ketilhúsið. Stöðugur bílastraumur liggur um Grófargil. Matvælaiðnað urinn er nú að hverfa þaðan, enda vantaði stækk- unarmöguleikana á hinu þrönga svæði. (Meðfylgjandi myndir tók E. D.) Fyrsta sláturhús KEA tók til starfa í Grófargili 1907. Arið 1928 var núverandi sláturhús byggt á Odd- eyri, áfast frystihúsi. Síðan hafa þær byggingar verið stækkaðar og endurbættar. í sláturhúsum fé- lagsins var á síðasta hausti lógað 57.300 fjár, hátt á fimmta þúsund nautgripum og 1100 svínum. Ásamt slátur- og kjötfrystihúsi, er þarna reykhús, salt- og kolasala og beinaverksmiðja. Fyrsti slát- urhússtjórinn var Ingimar Sigurðsson frá Draflastöðum, þá S'gtryggur Þorsteinsson, Sveinn Þórðar- son, Halldór Ásgeirsson, Haukur P. Ólafsson og nú Þórariim Halldórsson. I sláturtíð vinna allt að 130 manns við þessa deild, en annars 30 maxms. Kjötiðnaðarstöð KEA á Akureyri tók til starfa haustið 1966 í nýjum og vönduðum húsakynnum á Oddeyri og hefur starfað þar síðan. Á síðasta ári var framlciðsla hennar seld fyrir 300 milljónir kr. Allt hrácfnið er frá landbúnaðinum komið, og vörur Kjötiðnaðarstöðvarinnar eru scldar um allt land í ört vaxandi mæli. Þar er nú að taka til starfa rannsóknarstofa, og aukinn hefur verið og endur- bættur vélakostur. Framkvæmdastjóri er ÓIi Valdemarsson. Starfsfólk er um 60.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.