Dagur - 23.02.1982, Síða 4

Dagur - 23.02.1982, Síða 4
ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI RITSTJÓRNARSlMAR: 24166 OG 24167 SlMI AUGLÝSINGADEILDAR OG AFGREIÐSLU: 24222 RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARM,: HERMANN SVEINBJÖRNSSON BLAÐAMENN: ÁSKELL ÞÓRISSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRlMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: JÓHANNES MIKAELSSON FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT H.F. Samstaða um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar Frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Akureyrar fyrir yfirstandandi ár, hefur ný- lega verið lagt fram og verið samþykkt til síðari umræðu. Það hlýtur að teljast til tíð- inda í jafnstórum kaupstað og Akureyri er, að samstaða allra flokka virðist vera um frumvarpið - og það á kosningaári. Þessi staða verður vart skýrð á annan hátt en þann, að formlegur meirihluti bæjar- stjórnar Akureyrar hafi leitt bæjarmálin á þann veg, að lítt sé talið gagnrýnisvert — jafnvel af stjórnmálaandstæðingum. En jafnframt ber að meta þessa afstöðu minni- hlutans og mættu ýmsir af honum nokkuð læra. Það er viðurkennt, að fjárhagsstaða kaupstaða hefur þrengst á síðari árum. Sífellt meira fé hefur farið í lögskipaðan og bundinn rekstur og því hefur minna verið hægt að verja til nýframkvæmda. Það verð- ur því að teljast mikils um vert, að bæjar- sjóður Akureyrar hefur enn á áætlun sinni umtalsverðar framkvæmdir, sem skapa atvinnu og umsvif. I áætluninni er að finna framlög til um tuttugu bygginga, sem sumar hverjar eru stórar í sniðum. Má þar nefna svæðis- íþróttahús, nýjan verkmenntaskóla, stækk- un Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og sundlaug. Til þessa verka leggur bæjarsjóð- ur stórum hærri hlut en honum ber á móti framlagi ríkissjóðs, sem stendur að þessum byggingum einnig. Þá er haldið áfram stórátaki í gatnagerð og m.a. er áætlað að fá nýja brú yfir Glerá, ofanvert í bænum. Stóráætlun er í gangi á vegum bygginga- sjóðs verkamanna. Haldið er áfram upp- byggingu Strætisvagna Akureyrar og gert ráð fyrir að kaupa nýjan vagn, til viðbótar við þá tvo, sem keyptir voru á síðasta ári. Áfram verður unnið að skipulagi nýrra hverfa og sem áður verður stefnt að því að hafa ávallt nægar lóðir. En þó að í mörgu sé staðið, eru þó mörg verkefni sem verða að bíða enn um sinn. Til þess að unnt verði að sinna þeim, þarf að- gæslu og forsjálni í rekstri. Síðast en ekki síst þarf að efla og treysta atvinnulífið og bæjarstjórn, undirstrika vilja sinn til þess með stórhækkuðu framlagi til framkvæmda sjóðs. S.Ó.B. Þrjár systu r Höfundur: Anton Tsékhov Þýöing: Geir Kristjánsson Leikstjórn og handrit: Kári Halldór Leikmynd og búningar: Jenný Guðmundsdóttir Tónlist: Oliver Kentish Lýsing: Ingvar Björnsson Leikfélag Akureyrar hefur nú frumsýnt Þrjár systur eftir Anton Tsékhov. Það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Þrjár systur verður að telja stórvirki höfundar og eitt merkustu ieikhúslistaverka allra tíma, enda er það kjörviðfangs- efni þeirra leikhúsa vítt um ver- öldina sem setja mark sitt hátt. Þrjár systur eru mikið tilfinn- ingaverk sem hleypur þó ekki eftir neinni einni troðinni braut, beldur er það í eina röndina broslegt, aðra grátbroslegt, jafnvel hátíðlegt, grafalvarlegt, sorglegt, yfirmáta heimspekilegt og fleiri rendur mætti rekja. Þessu verður ekki lýst með fáum orðum og lýsingar munu aldrei geta gefið þá mynd sem augað og eyrað geta numið í leikhúsinu sjálfu. Hér er á ferðinni eins konar fjölskyldudrama, heimilis- eða húsleikrit. Það gerist í undra- verðu iðjuleysingjasamfélagi þar sem allir eiga þá þrá að höndla hamingjuna. En þrösk- uldarnir eru margir og háir, hærri en svo að háfleygar vonir fái iyft persónunum nema rétt upp á skörina þaðan sem ekkert bíður annað en að hrapa aftur til baka - í sama gamla farið eða jafnvel enn neðar. Lánleysi fólksins er algert og meira að segja tilraunir systranna þriggja til að lifa á fornum frama fjöl- skyldunnar, ættarinnar, eru dæmdar til að mistakast. Hvað veldur? Eru það hinir óttalegu for- dómar sem meðal annars birtast í því að þegar karlmenn tali heimspekilega sé það heimspeki en reyni konur slíkt sé það þvaður? Leikur lánið meira við karlþjóðina? Eða er það ef til vill óvissan um lífið og tilgang þess: Erum við til eða höldum við það bara? Er það ástleysið og öryggisbaráttan: Margur hef- ur gifst án þess að elska? Er það skortur á trúnaði og einlægri vin- áttu: Við hittumst sjálfsagt aldrei aftur - kannski eftir 10-15 ár, en þá munum við naumast þekkja hvort annað, kinka kuldalega kolli þegar við heils- umst? Þannig má lengi spyrja en svörin verður áhorfandinn að finna hjá sjálfum sér. Þrjár systur eru rússneskt leikrit sem á að gerast í smábæ nálægt Moskvu og þráin að kom- ast til borgarinnar og verða við það að manni gegnsýrir verkið. Þetta minnir óneitanlega á okk- ar eigin sögu, flutninga úr dreif- býli til þéttbýlis þar sem menn trúðu að hamingjan ætti heima. En á fjölum Samkomuhússins minna Þrjár systur á fleira. Mér finnst jafnvel að ef gamla fóstran Anfísa og senditíkin Ferapont hefðu verið svört á litinn hefði þetta allt getað gerst í Ameríku. Lífsfirringin og hið eitraða sæði í hjörtum mannanna er hið sama og í mörgum meiriháttar heimil- isleikjum Bandaríkjanna og nægir þar að minna á Sölumaður deyr og Hver er hræddur við Virginíu Wolf? Tilfinning og hjartalag spyr ekki um þjóðerni. Sýning Leikfélags Akureyrar á Þrem systrum er mikill við- burður, ég leyfi mér að segja stærsti sigur þess. Það er ekki einasta að viðfangsefnið sé erfitt og stórt heldur er svo listilega og kunnáttusamlega að því staðið á allan hátt, að slíkt hefur aldrei 'fyrr sést hér um slóðir. Hópur- inn sem að sýningunni stendur starfar eins og sigurverk í klukku. Ekkert hjólanna tekur aukasnúning á annars kostnað, heldur vinna þau saman, hóf- stillt og jafnt, og klukkan gengur rétt. Verkstjórinn, Kári Halldór, hefur unnið frábært verk við að stilla saman þessi hjól. Oft hefur verið sagt að rúss- nesk leikrit og kvikmyndir hefðu þann höfuðsvip að ganga hægt. Gamansamur kunningi minn sagði, eftir að hafa horft á rúss- neskan sjónvarpsmyndaflokk, að það væri furðulegt með Rússa og afrek þeirra. Þeir gætu meira að segja orðið heimsmeistarar í því að halda kjafti! Að sönnu fer sýningin á Þrem systrum hægt fram, í hennier hægurhjartslátt- ur sem örvast þó og nálgast æði þegar tilfinningabál brýst upp á yfirborðið. Hraðinn í sýning- unni er þannig yfirleitt í réttum stíl við anda og inntak þess sem gerist hverju sinni. Þannig kemst skilningur og túlkun leik- stjórans greinilega til skila. Að mínum dómi má sýningin ekki vera hraðari, mætti jafnvel vera enn hægari á stöku stað svo áhrif yrðu fullkomnari. Þrjár systur eru leiknar á tjaldalausu sviði, á göngum og á svöium leikhússins og hljóm- sveitin er á svölunum að baki áhorfenda, þannig að þeir eru raunar í miðju þess sem gerist. Sviðsmyndin, köld og einföld, iátlaus tónlistin að baki og sam- spil þessa við ljós og skugga gefa sýningunni mikið gildi, undir- strika andrúmsloftið og örva þann blæ og þann takt sem í framsetningunni felst. Öll upp- færslan er ákaflega myndræn, jafnvel svo að leikendurnirsjálf- ir verða ómissandi þættir í myndbyggingunni þar sem þeir standa uppsviðs eða til hliðar og skuggum þeirra bregður á veggi og gólf. Þannig líður sýningin hjá eins og myndröð. Um frammistöðu einstakra leikenda mætti hafa langt mál. Það verður þó ekki gert hér, enda ósanngjarnt bæði vegna sýningarinnar sjálfrar og þeirra einstaklinga sem hlutverki gegna. Ferskan andann sem rík- ir má rekja til hóps af ungum, efnilegum leikurum sem hingað kom til liðs við gamalkunna leik- endur LA, en mesta athygli vek- ur hversu afarvel hefur tekist að temja þessa ólíku krafta, hefla, skrapa og pússa svo úr verður sú órofa heild þar sem enginn sker sig úr hópnum - enginn verður stjarna og enginn fellur í skuggann. Hvert einasta hlut- verk ef jafnmikið aðalhlutverk. Einhver lesandi kann nú að vera orðinn þreyttur á hrifningu minni af Þrem systrum Leikfé- lags Akureyrar. Má vera að ein- hvern þyrsti nú í galla og mistök, ekki síst þá sem setja jafnaðar- merki á milli gagnrýni og nei- kvæðra dóma. Eg gæti friðað sálir þeirra með því að minnast á stirðlega framsögn í fyrsta hluta eða því líkt, sem eru þó smáat- riði þegar á heildina er litið, að ég læt það ógert. Ég vona hins vegar að sem flestum lánist að upplifa þá reynslu sem ég hef nú gert. Svona á leikhús að vera! Ég trúi því að verði viðlíka alúð lögð við sýningar Leikfé- lagsins héðan í frá sem nú hefur verið, ætti grundvöllur hins norðlenska atvinnuleikhúss að vera endanlega tryggður. Með þökk fyrir Þrjár systur, Sverrir Páll. Marinó Þorsteinsson og Guðjón Petersen í hlutverkum sínum. Ljósm. Páll A. Pálsson. 4 - ÖÁérÚR - febrúarl 9612

x

Dagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.