Dagur - 28.11.1983, Blaðsíða 9

Dagur - 28.11.1983, Blaðsíða 9
28. nóvember 1983 - DAGUR - 9 t Minning Hiónin á Arnarstöðum Jón Vigfússon fæddur 4. sept. 1896 dáinn 30. okt. 1983 Helga Sigfúsdóttir fædd 21. sept. 1899 dáin 2. mars 1983 Ég sest niður við að skrifa þessi minningarorð nýkominn heim frá því að fylgja sveitunga mínum og vini, Jóni Vigfússyni, til grafar. Oft sækir á mig einhver tómleiki eftir jarðarfarir, en þessi tómleiki er öllu meiri í dag en venjulega við fráfall mér óvandabundinna manna. Þó vissi ég að hverju dró og viðurkenni að Jón var búinn að skila hlutverki sínu í lífinu með miklum sóma og honum var ekkert að vanbúnaði með að leggja í sína hinstu för á þessari jörð. Ég trúi því að Jón sé nú kominn í bjartari og fegurri heim til fundar við alla gömlu kunn- ingjana, sem þangað voru komn- ir á undan honum, og vafalaust hefur Helga, konan hans, verið manna fyrst til að bjóða hann velkominn til hinnar nýju vistar, en Helga dó fyrr á þessu ári. Hún hafði óskað þess, að hún fengi að deyja á undan manni sínum, en hann kæmi þó fljótt á eftir. Henni varð sannarlega að þeirri ósk sinni. Jón og Helga voru bæði komin af traustum, eyfirskum ættum. Þau voru m.a. bæði komin af svokallaðri Randversætt, sem kennd er við Randver Þórðarson er bjó í Villingadal í Eyjafirði á síðasta hluta 18. aldar og í upp- hafi þeirrar 19. Randver mun hafa verið langafi beggja hjón- anna á Arnarstöðum. Þessi ætt er geysi fjölmenn og innan hennar finnst mikið af traustu og yfirlæt- islausu fólki. Báða þá kosti áttu Jón og Helga í ríkum mæli. Þegar foreldrar mínir fluttust til Eyjafjarðar fyrir þremur aldarfjórðungum, komust þau strax í góð kynni við þá grein Randversættar, sem kennd er við Leyning. Það voru börn þeirra hjóna Guðrúnar Ólafsdóttur og Sigurðar Sigurðssonar er bjuggu í Leyningi seinnihluta síðustu aldar. Þessi systkin, sem upp komust, voru fimm: Ólafur bóndi í Leyningi, Randver bóndi í Ytri- Villingadal, Sigurður bóndi í Torfufelli, Guðrún húsfreyja í Syðri-Villingádal og síðar ráðs- kona hjá Ólafi bróður sínum og að lokum til heimilis hjá dóttur sinni í Saurbæjargerði í Hörgár- dal, og yngst var Sesselja hús- freyja á Jökli, nafnkunnur skör- ungur sem var á undan sinni sam- tíð á ýmsum sviðum. Hún var móðir Jóns á Arnarstöðum. Kynni foreldra minna og vinátta við þennan systkinahóp styrktist stöðugt með árunum og afkom- endur þeirra hafa haldið vinátt- unni við okkur systkinin frá Vill- ingadal. Það er hverjum manni ómetanlegt að eiga svo trausta og góða granna að vinum. Faðir Jóns á Arnarstöðum var Vigfús Jónsson fyrri maður Sess- elju á Jökli. Hann var frá Hólum í Eyjafirði og systkin hans voru m.a. Jón bóndi á Vatnsenda og hálfsystir hans er Geirlaug Jóns- dóttir í Hólum. Foreldrar Helgu á Arnarstöð- um voru hjónin Sigfús Jónsson og Halldóra Randversdóttir fyrsta kona hans. Þau hjón voru bæði af Randversætt og afi Sigfúsar var Randver Sigurðsson bóndi á Jökli, bróðir Sigurðar í Leyningi, sem var afi Jóns. Þessi Randver var einn af fjórmenningunum, sem fóru í hundaleiðartgurinn suður yfir miðhálendi landsins um hávetur árið 1856 svo sem frægt er orðið. Vegna þessarar frækilegu ferðar hafa seinni tíma menn lengt nafn hans og kallað hann Hunda-Randver til aðgrein- ingar frá öðrum frændum sínum með sama nafni. Helga ólst upp á Arnarstöðum og átti þar heima mestan hluta ævi sinnar, eins og fram kemur síðar. Jón fluttist með foreldrum sín- um að Jökli þegar hann var árs- gamall og þar ólst hann upp. For- eldrar hans áttu ekki fleiri börn saman. Jón missti föður sinn þeg- ar hann var þriggja og hálfs ár, en móðir hans hélt þó áfram búskap á Jökli og gekk þar oft ein til verka. Fjórum árum eftir lát Vig- fúsar gekk hún að eiga seinni mann sinn Þorstein Magnússon. Þorsteinn var mikill hagleiks- maður og þrekmaður meira en í meðallagi og Sesselju var við brugðið fyrir dugnað og fram- sýni, enda búnaðist þeim vel á þessari litlu jörð. Þorsteinn og Sesselja eignuðust tvö börn saman: Regínu, sem andaðist úr berklum um tvítugsaldur og Vigfús, sem nú lifir einn eftir af þeim systkinum tæplega áttræður og er búsettur á Akureyri. Jón Vigfússon ólst upp á Jökli og tók þar út góðan þroska. Að vísu var hann ekki hávaxinn maður en þreklegur og fylginn sér til verka. Hann var einnig snar í snúningum og gat verið skjót- ráður, en allar hans ákvarðanir og hreyfingar voru þó lausar við fum og fljótræði. Hann gekk ákveðinn að hverju verki og var gæddur þeim einstæða hæfileika að finna á sér hvenær var hentug- ast að vinna hvert verk og hann vissi jafnan fyrirfram, hvort verk- in gengju vel eða illa. Þar af leið- andi lánuðust öll hans störf óvenjulega vel. Jón vildi ekki vera áberandi maður, en samt bar hann þá persónu, að það var tekið eftir honum hvar sem hann fór. Hann var aldrei hikandi í framkomu sinni og höfðingjadjarfur var hann, ef því var að skipta. Eitt var það sem heillaði Jón öðru fremur strax á unga aldri, en það voru íslensku öræfin og seinustu æviár sín dvaldi hann þar löngum í huganum. Tvítugur að aldri fór Jón í fyrstu öræfaleit sína ásamt þremur öðrum Eyfirð- ingum. Þeir leituðu suður á Þjórsárkvíslar og vestur að Hofs- jökli svo sem venja var, en hrepptu vonskuveður þegar líða tók á leitina og urðu að lokum að halda kyrru fyrir í einn sólarhring í hvamminum við Geldingsá. Heim komust þeir samt að lokum með allt féð þótt harðsótt væri. Það gæti margur maðurinn álitið að öræfin hefðu síður en svo heillað huga hins unga manns með svo óblíðum viðtökum, en reyndin varð samt önnur. Hon- um leið jafnan best á þessum slóðum og þessa fyrstu ferð, ásamt mörgum öðrum ferðum, mundi hann glögglega tu hinstu stundar. Sumarið 1920 dvaldi Jón eina viku í hvamminum við Geld- ingsá þar sem hann hafði orðið hríðtepptur fjórum árum fyrr. Þar voru saman komnir fimm ungir Eyfirðingar til að byggja leitarmannakofa, sem stendur enn óhaggaður á sínum stað. Sesselja móðir Jóns hafði for- göngu um að þessi leitarmanna- kofi var byggður. Jón var verk- stjórinn við bygginguna, en frá þessu er sagt í Göngum og rétt- um og víðar. Þessi vika virðist hafa orðið hin eftirminnilegasta í lífi Jóns. Á gamalsaldri mundi hann alla tilhögun við verkið og hvernig því miðaði á hverjum degi. Eftir að ég var farinn að venja ferðir mínar á þessar slóðir, bauð ég Jóni stundum með mér. Hann var þá orðinn aldraður og að mestu hættur búskap. Oftast þáði Jón boðið enda þótt heilsa hans væri stundum ekki í sem bestu lagi. Ef Jón þáði boð mitt án um- hugsunar, vissi ég að ferðalagið mundi ganga vel í alla staði, enda brást mér það aldrei. Mér er þó ein ferð minnisstæðari en aðrar í þessu sambandi, en hún verður þó ekki sögð hér. Hún er geymd annars staðar. Ég mátti aftur á móti búast við erfiðleikum ef Jón vildi ekki fara með mér, sem sjaldan kom fyrir. Einu sinni frestaði ég einu ferðalagi um eina viku vegna þess að Jón vildi ekki fara. Hann hafði ekki mörg orð um það, en sagði eitthvað á þá leið, að sér litist ekki nógu vel á að fara. Það kom svo í ljós að við hefðum lent í hrakningum, ef við hefðum farið þá, en viku seinna fór Jón hinn glaðasti með mér, enda gekk okkur þá allt að óskum. Það var sem sagt örugg trygging fyrir góðri ferð að hafa Jón með. Einu sinni þegar ég kom að Arnarstöðum til að bjóða Jóni með í leiðangur suður á Lauga- fellsöræfi, var hann búinn að vera dálítið lasinn um tíma og treysti sér illa til að fara. Ég spurði hann þá hvort hann héldi að ferðin gengi illa, en hann var ekki hræddur um það, það var bara heilsan sem hann var hræddur við. Þegar Helga kona hans heyrði það, leit hún brosandi til hans og sagði með sinni venju- legu hógværð: „Ég held þú ættir bara að fara með honum, ég veit að þú hressist við það”. Meira þurfti ekki. Jón fór með mér og þetta fór eins og Helga bjóst við. Jón kom hressari heim aftur þótt ferðalagið væri dálítið erfitt á köflum. Þannig orkuðu öræfin á Jón. Ég hef nú lokið að segja frá þeim þættinum sem tengdi okkur Jón hvað traustast saman, en ég get ekki hætt við minningu þess- ara vina minna án þess að rekja lífsferil þeirra örlítið nánar. Helga og Jón voru gefin saman árið 1922 og þá fóru þau að búa í Hólsgerði. Ári seinna fæddist Sigfús sonur þeirra. Eftir eins árs búskap í Hólsgerði fluttu þau að Arnarstöðum og þar fæddist Klara dóttir þeirra. A Arnarstöð- um bjuggu þau Jón og Helga til ársins 1960, en þá tók Sigfús sonur þeirra að mestu við jörð- inni ásamt konu sinni Elsu Grímsdóttur. Þau eru nú flutt til Akureyrar og eiga tvö uppkomin börn. Klara giftist Eiríki Björns- syni og þau hafa búið í Arnarfelli til þessa dags og hafa eignast 6 börn og allmörg barnabörn. Arn- arfell var upphaflega byggt á hálflendu Arnarstaða árið 1939 af Frímanni Karlessyni. Árið 1981 voru gömlu hjónin orðin fremur heilsuveil og gátu ekki lengur séð um sig sjálf. Tengdadóttir þeirra, sem hafði annast þau var líka orðin sjúkl- ingur svo þau voru tekin á Krist- neshæli til umönnunar og þar dvöldu þau uns þau önduðust bæði á þessu ári með tæplega 8 mánaða millibili. Eins og fram hefur komið kom ég oft í Arnarstaði til Jóns og Helgu. Oftast kom ég til að leita mér fróðleiks. Þau voru bæði mjög minnug, Helga var þó ör- uggari í minni sínu. Ég dáðist oft að öryggi þessarar gömlu konu þegar ég var að spyrja hana að einhverju gömlu. Það var sama hvort ég spurði hana um menn, málefni, vinnubrögð eða áhöld frá gamalli tíð, á öllu þessu vissi hún glögg skil. Ég iðrast þess nú að hafa ekki skrifað meiri fróð- leik eftir þeim meðan minni þeirra var enn öruggt, en skyndi- lega fann ég að ég var orðinn of seinn. Nútíminn var að fjara út úr minninu, þótt gamli tíminn hefði þar sess nokkru lengur en þetta er ekki annað en það sem ellin er stöðugt að gera okkur gamla fólkinu og við það verða allir að sætta sig sem fyrir því verða. Þótt Jón og Helga séu horfin mér sjónum um sinn, þá efast ég ekki um að ég á eftir að hitta þau aftur á öðrum leiðum og mér finnst afar notaleg tilhugsun að vita að ég verð örugglega vel- kominn gestur hjá þeim þegar þar að kemur. Þá ætti ekkert að þurfa að hefta för okkar Jóns um ókunnar sem kunnar öræfaslóðir. Angantýr H. Hjálmarsson frá Villingadal. Húsvíkingar Óskum eftir að ráða umboðsmann á Húsavík Upplýsingar gefur Hafdís Freyja Rögnvalds- dóttir á skrifstofu Dags á Akureyri í síma 24222. Strandgötu 31, Akureyri sími 24222. S Ovenjulega glæsflegt úrval af kertum ogkonfekti til jokmna er að koma í allar kjörbúðir. Verðið afar hagstætt.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.