Dagur - 06.03.1985, Blaðsíða 4

Dagur - 06.03.1985, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - 6. mars 1985 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SÍMI:. 24222 ÁSKRIFT KR. 200 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 28 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: GÍSLI SIGURGEIRSSON BLAÐAMENN: EIRÍKUR ST. EIRÍKSSON OG GYLFI KRISTJÁNSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRlMANN FRÍMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI: 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. Þrenn samtök um byggðamál íslendingar vilja fá að velja sér búsetu - velja hvort þeir búa á þéttbýlasta hluta landsins við Faxaflóann, eða hvort þeir búa úti á landsbyggð- inni, ýmist í byggðakjörnum sem þar eru eða í strjálbýlinu til sveita. Fullyrða má, að þegar grannt er skoðað eru íslendingar einnig þeirrar' skoðunar, að val á búsetu á ekki að þurfa að hafa afgerandi áhrif á efnaleg kjör manna og afkomu. Samt er það nú svo að sífellt breiðara bil er að myndast milli þeirra sem búa á höfuðborgar- svæðinu og hinna sem búsettir eru annars stað- ar á landinu. Þetta bil hefur sífellt verið að koma betur og betur í ljós og með margvíslegum hætti. Það er því ekkert undarlegt þó að áhugafólk um byggðamál taki sig saman og myndi með sér samtök um áhugamál sitt. Það má hins vegar segja að séu nokkur tíðindi, að á stuttum tíma hafa þrenn samtök um byggðamál séð dagsins ljós. Það er ef til vill fyrst og fremst til marks um það að fólk er að vakna til sífellt meiri vitundar um það misrétti sem fólk býr við, allt eftir því hvar það býr á landinu. Samtök um jafnrétti milli landshluta hafa starfað um nokkurt skeið og aðallega á Norður- landi. Samtökin Ný vernd, sem Jónas Pétursson, fyrrverandi alþingismaður, hefur staðið fyrir, starfa aðallega á Austurlandi. Yngst þessara samtaka er félagsskapur sem nefnir sig Stólpa og eru það nemendur í framhaldsskólunum sem þar starfa. Öll þessi samtök vinna í raun að sama mark- miði og nýlega héldu þau sameiginlegan fund á Akureyri, þar sem baráttumálin voru skilgreind og eftirfarandi markmið samþykkt: „Höfuðmarkmið samtakanna er að sameina alla landsmenn um að vernda búsetu fólks, hvarvetna á landinu, með því að jafna aðstöðu þess á öllum sviðum þjóðlífsins." Öll leggja þessi samtök megináherslu á ótví- ræða og virka valddreifingu sem m.a. felur í sér aukið sjálfstæði landsbyggðarinnar, bæði stjórn- unar- og efnalegt, ásamt óskoruðum umráða- rétti yfir eigin aflafé heima í héraði. Er í því sambandi minnst á rétta gengisskráningu, sem er forsenda þess að fjárflóttinn frá undirstöðu- greinunum úti á landi hætti og einnig á verslun með gjaldeyri víðar en á höfuðborgarsvæðinu. Rætt hefur verið um nauðsyn þess að endur- skoða stjórnarskrá lýðveldisins með tilliti til þessara atriða. Dagur fagnar því að víðtæk samstaða virðist vera að nást um mikið hagsmuna- og réttlætis- mál, sem snertir hvern einasta borgara þessa lands. Þessi samtök þurfa að teygja anga sína inn í alla stjórnmálaflokka og hafa áhrif á gerðir stjórnmálamanna og embættismanna, sem öllu ráða um framvindu byggðamála. Hvað segja bæjarfulltrúar um fjárhagsáætlunina? „Það er ekki hægt að gera allt í einu“ „Ég er sátt við endanlega gerð frumvarpsins, enda er þetta sú niðurstaða sem við í meirihlut- anum komumst að. En það þýðir auðvitað ekki það, að ég vildi ekki gjarnan að við hefð- um haft svigrúm til að gera meira og betur á ýmsum sviðum.“ Það er Sigríður Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Alþýðubandalagsins, sem þannig komst að orði, þegar hún var spurð um frumvarpið að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir yfirstandandi ár. Hún var næst spurð um hverju hún hefði viljað breyta, ef hún ein hefði fengið að ráða? „Þetta er erfið spurning,“ svar- aði Sigríður. „Ég lagði mjög mikla áherslu á Síðuskólann og hefði gjarnan viljað að við hefð- um getað farið þar að tillögum skólanefndar. En ég er á því að það hafi ekki verið framkvæman- legt. Þrátt fyrir það er ég mjög ánægð með þann áfanga sem við náum, sem þýðir að yngstu börn- unum í Síðuhverfi verður kennt í skólanum næsta haust, í stað þess að nú þarf að aka þeim milli hverfa í skóla. Auðvitað hefði ég einnig viljað gera stærra átak í dagvistamálum, t.d. hefði verið þörf á að byrja á annarri dagvist á þessu ári og auk þess erum við með gamalt heimili úti í Glerár- þropi, Árholt, sem þarf mikillar endurnýjunar við. í það hefði ég gjarnan viljað leggja peninga, en ég geri mér líka góða grein fyrir því, að það er ekki hægt að gera allt í einu, því miður.“ - Nú stóðst þú og þinn flokkur að hækkun fasteignagjalda; er það ekki í svolítilli þversögn við tal flokksins um versnandi kjör almennings? „Ég vil nú fyrst og fremst skrifa fjárhagsstöðu heimilanna á reikning ríkisstjórnarinnar, auk þess sem ég tel að hag þeirra sé Sigríður Stefánsdóttir. betur borgið með því að auka kaupmáttinn, í stað þess að skerða samneysluna. Ég er sam- neyslumanneskja og tel að þeir peningar sem til þeirra hluta fara nýtist okkur betur heldur en ef hver og einn hefði eitthvað fleiri krónur á milli handanna. Það kemur þeim líka betur til góða, sem lægst hafa launin, að sam- neysluleiðin sé valin. Það er ekki verið að taka neitt af fólki, án þess að það fái eitthvað í staðinn. Ef við hefðum lækkað álögur hefði það leitt til hækkunar á þjónustugjöldum eða þá að úr henni hefði verið dregið. Það held ég að sé mun verri kostur.“ - Það hefur komið fram í við- tölum við bæjarfulltrúa, að uppi eru mismunandi skoðanir um hvor tekjustofninn sé réttmætari, fasteignagjöldin eða útsvörin, t.d. bendir Freyr Ófeigsson á að fasteignaskattarnir séu ekki eignaskattar, þar sem þeir leggist jafnþungt á gjaldendur, hvort heldur sem þeir eigi eignina skuldlausa eða ekki. „Já, ef til vill er ekkert það skattakerfi til sem er fullkomlega réttlátt. Ég tel þó, eins og skatt- framtölum er háttað hér á landi, að þau gefi ekki rétta mynd af ráðstöfunartekjum fólks. Fólk úr öllum flokkum er sammála um það. Þess vegna held ég að skatt- ar sem eru miðaðir við eignir gefi réttari mynd af greiðslugetu fólks heldur en skattar af launum. Þar sleppa þeir síður sem eiga stórar eignir en greiða sama sem engin útsvör. Hins vegar erum við í Al- þýðubandalaginu á því, að ef til vill þyrfti að breyta skattakerf- inu. T.d. kæmi til greina að hafa útsvarsálagninguna stighækkandi og einnig er íhugunarvert að taka upp aukna skatta á stóreignafólk. En því miður eru slíkar breyting- ar ekki á valdi bæjarstjórnar Ak- ureyrar." - Hefði ef til vill mátt spara meira í rekstrinum, þannig að meira fé hefði orðið til fram- kvæmda? „f rekstrinum eru ýmsir þættir sem ekki er hægt að skera niður, enda flokkast sumir þeirra undir nýframkvæmdir. Ég nefni fram- lög til dvalarheimila og nýs strætisvagns, auk þess sem þarna inni eru lögbundin framlög, til sjúkratrygginga svo dæmi séu tekin. I fyrra var skorin niður ákveðin prósenta á alla línuna. Það var ekki gert núna, en við fórum vel í saumana á rekstrin- um og lækkuðum rekstrarliði, þar sem við töldum það raun- hæft. Það þýðir ekkert að vera að skera niður tölur, til þess eins að fá fallegri fjárhagsáætlun á papp- írnum, ef við vitum að hún er ekki raunhæf. En það er rangt að við í meirihlutanum höfum ekki reynt að beita aðhaldi.“ - Marka átökin við gerð fjár- hagsáætlunarinnar skörp skil í bæjarstjórninni til frambúðar? „Ég veit það ekki, því enn hef ég ekki séð neinar tillögur frá sjálfstæðismönnum um breyting- ar. Ég veit því ekki hverjar eru grundvallarskoðanir þeirra. Ég get ef til vill svarað þessu þegar þær eru komnar fram,“ sagði Sig- ríður Stefánsdóttir. -GS Kútmagakvöld haldið í Sjallanum annað kvöld Lionsklúbburinn Huginn gengst fyrir kútmagakvöldi í Sjallanum á föstudagskvöldið, en slík kvöld hafa verið árlegur viðburður Lionsmanna um langt árabil. En þessi kvöld eru ekki eingöngu fyrir Lions- menn, því allir eru velkomnir; það er að segja allir karlmenn. Konur eru síðan velkomnar þegar hallar að miðnætti. Á kútmagakvöldinu verða ein- göngu sjávarréttir á borðum, lystilega hanteraðir af mat- reiðslumeisturum Sjallans. Alls verður um 50-60 tegundir að velja, og hvort heldur sem er, heita eða kalda rétti. Ýmislegt verður gert mönnum til skemmtunar. Svavar Gests, fjöldæmisstjóri Lionshreyfingar- innar, verður veislustjóri og auk þess mun hann stýra uppboði á málverkum eftir akureyrska lista- menn. Meðal þeirra sem eiga myndir á uppboðinu eru Ragnar Lár, Örn Ingi, Kristinn G. Jó- hannsson, Helgi Vilberg, Guð- mundur Ármann, Valgarður Stefánsson, Sigurður Aðalsteins- son, Úlfur Ragnarsson og Ólafur Torfason. Þá mun vera von á skreiðarneytanda frá Nígeríu til hátíðarinnar, en mikil leynd hvíl- ir yfir því hvers konar verknað sá gestur fremur í salnum. En svo mikið mun vera víst, að viðkom- andi er í meira lagi heitfengur, því hann mun ekki hafa það til siðs að klæða af sér kuldann - eða hitann. Gestur hátíðarinnar verður Halldór Blöndal og mun hann ávarpa samkomuna án þess að minnast á pólitík. Þá mun bóndinn frá Keflavík í Hegra- nesi, Jóhann Már Jóhannsson, syngja á hátíðinni við undirleik Guðjóns Pálssonar, skólastjóra Tónlistarskólans á Hvamms- tanga. Það er því Ijóst, að engum ætti að leiðast á kútmagakvöld- inu. Miðasala og borðapantanir verða í Sjallanum á morgun, fimmtudag, frá kl. 17 til 19.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.