Dagur - 13.09.1985, Blaðsíða 9

Dagur - 13.09.1985, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - 13. september 1985 ... og sá allar myndir sem ég komst yfir, segir Bjöm Þórólfsson í helgarviðtali Hann er fæddur í Húsey á Fljótsdalshéraði 2/10 1910. Þann sama dag eru fæddir menn sem gátu sér frægðar og frama í ríkari mæli en hann. Þar má nefna menn eins og Gandhi sem allir hafa heyrt talað um. Fleiri frægir eru fæddir þennan dag í október, svo sem Hinden- burg, auk margra annarra. Einnig nefndi hann nokkra ís- lendinga sem fæddir voru þennan sama dag, og jafnvel sama ár. Hann telur sig ekki vera þess umkominn að segja frá einhverju sem telst prenthæft, því hann segist vera lítill karl, og hafi alla tíð haft lítið álit á sjálfum sér. Björn Þórólfsson er fæddur í Húsey í Hróarstungu á Fljótsdals- héraði eins og áður sagði. Foreldr- ar hans, Snæbjörg ísleifsdóttir og Þórólfur Richardsson bjuggu þar í 16 ár. Þegar Björn var um ferm- ingaraldur fluttu foreldrar hans til Borgarfjarðar Eystri. Þar vann hann almenn sveitastörf eins og títt var um börn og unglinga á þessum árum. „Ég tel að það hafi verið misráðið að fara þangað,“ segir Björn. Plássið er fallegt, en það voru svo litlir framtíðarmögu- leikar á þessum stað.“ - Hvaða störf hafðir þú með höndum á þessum árum? „Það var þetta sem börn voru látin vinna, sækja kýrnar, moka flórinn, þegar ég nennti því. Ann- ars var ég bæði latur og líka það sem kallað er hálfgert dekurbarn. Það kom til af því að ég var heilsu- lítill strax sem barn, - ég var skírður þriggja daga gamall, skemmri skírn, því það var ekki álitið að ég mundi lifa nema nokkra daga í mesta lagi. Mér var sagt að ég hafi ekki verið skírður í skírnarkjól eins og venja var, held- ur hafi verið rimpað saman ein- hverjum kjólgopa úr rauðrósóttri druslu sem ég var settur í. Nafnið var valið þannig á mig að það voru skrifuð nöfn á þrjá miða sem síðan var dregið úr, og upp kom nafnið Björn, sem ég var látinn heita. Það var í höfuðið á góðum vini föður mt'ns sem nýlega var látinn. Ég fékk að vita hver hin nöfnin voru, en þau voru Stefán og Richard. Þú sérð að þessi skemmri skírn dugði vel, ég er hérna ennþá,“ seg- ir Björn og glottir. „Mér þótti ég alltaf vera einbirni, því alsystir mín, Gróa Ingigerður var rúmlega átta árum eldri en ég, og bróðir minn Richard var átta og hálfu ári yngri. Þannig að mér fannst ég oft vera einn, ef ekki hefði komið til tvö hálfsystkin sem voru á svipuð- um aldri og ég.“ Einn sólskinsdagur - Hvað um æskudagana á Aust- fjörðum? „Þetta var einn sólskinsdagur allt saman. Mér leið alltaf vel, þó ég væri talinn heilsulítill. Ég var líka lingerður, latur, en þrátt fyrir það fór alltaf vel um mig. Móðir mín annaðist mig mjög vel, og það fór alltaf mjög vel á með okkur. Þar af leiðandi var ég alltaf talinn mömmudrengur. En mér þótti ekki vont að vera það.“ - Hvað hét faðir þinn? „Hann hét Þórólfur Richard- son,“ segir Björn og stafar fyrri hluta nafnsins fyrir mig, og segir að það sé skrifað með c. „Þetta nafn kemur frá langa-Iangafa mínum Richard Long sem var kaupmaður á Eskifirði. En ég man ekkert eftir honum, sem eðlilegt er,“ segir Björn og hlær. - Hvenær kom svo Akureyri inn í myndina? „Ég flutti þangað 1930. Þá var ég ekki orðinn tvítugur. Og það skal segjast eins og er að það var ekkert sem heillaði mig þar. Ég fór sára- nauðugur, og langaði alls ekkert að flytjast hingað. Auk þess þekkti ég ekkert fólk hér, fyrir utan móð- urbróður minn, Ármann ísleifsson sem hér bjó og starfaði hjá Jóni Geirssyni lækni sem bústjóri, því Jón var alltaf að vesenast eitthvað með búskap. Þetta atvikaðist þannig að faðir minn varð fyrir slysi. Hann datt niður tröppur og axlarbrotnaði. Honum var ráðlagt að fara til Ak- ureyrar í nudd til konu sem hét Soffía og var eins konar nuddlækn- ir. Auðvitað gat hann farið í nudd hvert sem var. Ég vildi nefnilega fara til Reykjavíkur, því þar var ég orðinn kunnugur og átti vini, kunningja og frændfólk. Ég var búinn að vera þar tíma og tíma og kunni vel við mig þar. Eg var að vísu ekki langan tíma í einu og ekki í neinu starfi nema eitt vor, er ég var í gróðrastöð hjá Ragnari Ásgeirssyni. En Ragnar er faðir Úlfs læknis, og bróðir Ásgeirs Ás- geirssonar fyrrverandi forseta Islands. Ekki fór svo að ég sótti um að komast í nám, heldur vann ég það sem til þurfti, eins og annað ungt fólk sem þarna starfaði." Ég fór ekki í neitt nám -Þú minnist á nám í gróðrarstöð- inni sem ekkert varð úr. H\ærnig var með almennt nám hjá þér? „Ég fór ekki í neitt nám. Ég fór einn vetur í íýðskóla sem var á Hvítárbakka. Þar fór ég í annan bekk í öllum greinum nema stærð- fræði. Það þurfti að taka inntöku- próf í skólann og var fólki síðan raðað í bekki eftir getu. Ég var í fyrsta bekk í stærðfræði. Mér gekk alltaf illa með hana, því þar þurfti að leggja dálítið á sig, og ég er lítið fyrir það. Ég hef alltaf verið leti- blóð og er fæddur með þeim ósköpum, og ég viðurkenni það fúslega," segir Björn og býður vínber. - Hefur þú þá verið atvinnu- laus? „Nei það hef ekki verið, því ég hef alltaf verið að reyna að vinna eitthvað. Ég byrjaði strax að vinna þegar ég kom til Akureyrar, en það var 17. apríl 1930. Það atvik- aðist þannig að ég fór á undan for- eldrum mínum, og bjó þá hjá móðurbróður mínum. Éoreldrarn- ir komu svo ekki fyrr en um miðj- an júní. Ég fékk strax atvinnu við að grafa skurði hér uppi á túnum eins og það var kallað. Það er hér rétt fyrir ofan bæinn. Eftir skurð- inn fór ég í kaupavinnu fram í Eyjafjörð, nánar tiltekið að Möðrufelli. Af einhverjum klaufa- skap fékk ég sláttusting og varð að fara heim eftir þrjár vikur. Það var mjög mikið gras á túnunum og þar af leiðandi erfitt að slá. Ég ætlaði að sýna að ég gæti hæglega unnið eins og hver annar og vann rösk- lega, og fékk þennan sting sem kallaður var sláttustingur. Það er mikill verkur sem menn fá undir síðuna er þeir slá með orfi og ljá. Þetta var það mikið að ég gat ekki haldið áfram slættinum og varð að fara heim. Eftir þetta fór ég að vinna í sjoppu hjá Axel Schöuith, sem staðsett var í Hafnarstræti. Hjá Axel vann ég í þrjá mánuði og líkaði ágætlega. Ég fékk gott kaup, en vinnutíminn var mjög langur. Ég þurfti að vinna allar helgar og það var ekki mjög skemmtilegt til lengdar, svo ég hætti þar. Þá fór ég í prentsmiðj- una til Odds Björnssonar. Pabbi og Oddur voru góðir vinir, og pabbi kom mér þar fyrir. Allir voru í síld „í prentverkinu var ég í einn vetur og líkaði vel. Ég var afskaplega hrifinn af Sigurði O. Björnssyni og konunni hans, þau voru mjög góð við mig. Eftir þessa vinnu mína í prentverkinu fór ég í fiskvinnu til Helga vinar míns Pálssonar. En hann rak þá útgerð og fiskverkun hér. Ég var hjá honum meira og minna heilt ár við þau störf sem til féllu. Þá fór ég í síldina hjá Thulin- íusi. Það voru allir í síld sem mögulega gátu. Það var reglulega gaman að vinna í síldinni. Vetur- inn eftir síldina fór ég í póstinn. Þar var ég að vinna með Guð- mundi bæjarpósti Árnasyni. Hann er einn besti maður sem ég hef kynnst um ævina. Hann var svo vandaður maður og trúr sínu starfi. Hann var einstakur maður hann Guðmundur,“ segir Björn. Það er gaman að heyra Björn tala um annað fólk, því hann talar svo fallega um alla sem hann hefur kynnst á lífsleiðinni. Það ber ekki við að hann hallmæli neinum, eða láti styggðaryrði falla í garð nokk- urs manns. „Sumarið eftir var ég í Lysti- garðinum við alls konar störf. Pabbi hafði tekið að sér starf þar, en gat svo ekki tekið starfið. Þetta fór svo að ég ílentist þar í ellefu sumur. Þar var húsbóndi minn frú Margrét Schöuith, einstök kona. Á vetruna gerði ég hitt og þetta. Ég var í póstinum, ég var líka í skó- verksmiðju hjá Jakobi Kvaran við að sníða skó og ýmislegt fleira." - Björn, á þessum árum ert þú ungur maður rúmlega tvítugur. Langaði þig ekki til að fara í nám? „Nei ég hugsa að ég hafi ekki nennt því,“ segir hann eins og ekkert sé. „Mér fannst þá að ég væri orðinn það gamall að ég pass- aði ekki í neinn skóla. Það stóð einu sinni til að ég færi í Mennta- skólann hér á Akureyri. Það var að vísu nokkrum árum áður, en það varð ekkert úr því vegna at- burða sem gerðu það að verkum að það var ekki mögulegt að senda mig til náms.“ - Hvaða atburðir voru það? ef ég má spyrja. „Þannig var að faðir minn átti peninga inni hjá „Framtíðinni" á Seyðisfirði. Það fyrirtæki fór á hausihn og faðir minn, ásamt mörgum fleirum, töpuðu öllu sínu í því máli. Þetta varð til þess að faðir minn hafði ekki efni á því að senda mig í skóla. Þetta var líka á þeim tímum þegar ekki var um uppgrip í peningum að ræða eins og oft er mögulegt nú til dags.“ - Hafðirðu nóga peninga fyrir sjálfan þig á þessum árum? „Já ég hafði það meðan ég vann. Hins vegar hefði það ekki gengið ef ég hefði ætlað í skóla.“ Aðalstarfið að lita myndir - Hvar bjóstu á þessum árum? „Ég bjó alltaf hjá foreldrum mínum, og hef búið þar alla tíð. Eftir að faðir minn dó hef ég verið í heimili með móður minni, og allt- af búið með henni, alveg þar til hún dó 1979. Hún var einstök kona og vann mikið meðan þrek entist." - Hvað tók við eftir vinnuna í Lystigarðinum? „Þá fór ég á ljósmyndastofu Eð- vards Sigurgeirssonar og vann þar í ellefu ár. Það var bæði góð og skemmtileg vinna. Aðalstarfið þar var að lita myndir. Þá var ekki hægt að taka litmyndir, og því voru myndir handlitaðar. Við þetta og ýmislegt annað vann ég hjá Evva í öll þessi ár. Svo fór fólk að taka meira af myndum sjálft, og kom það að sjálfu sér að ljós- myndastofurnar urðu fyrir því, og draga varð saman seglin. Þá var það að bróðir minn Richard vildi fá mjg út í skógerð Iðunnar. Og þar vann ég í tuttugu og eitt ár, sem lagermaður. Það er óhætt að segja að ég hefði verið lengur þar ef ég hefði ekki þurft að fara heim og sjá um gamla móður mína sem þá var orðin veik og lasburða göm- ul kona. Áður fyrr vorum við með ráðskonu sem var hjá móður minni á daginn. Síðan tók ég við þegar ég kom heim úr vinnunni á kvöldin. Þetta var orðið það erfitt að það var ekki hægt að fá manneskju til að annast gömlu konuna, og því varð ég að hætta að vinna og snúa mér að heimilis- og hjúkrunar- störfum.“ - Hvernig líkar þér að vinna heimilisstörf? „Ég er ekkert hrifinn af því. Ég hreinlega þoli ekki að elda mat. Ég er margbúinn að segja við Emil að nú látum við senda okkur matinn heim eins og gert er fyrir eldri borgara sem þess óska. En hann tekur það ekki í mál, og vill elda heima.“ - Emil? „Já hann Emil er nokkurs konar uppeldisbróðir minn. Hann kom hingað til að fara í Menntaskólann árið 1938 að mig minnir. Hann ætl- aði að búa hjá Steinsen bæjar- stjóra sem þá var, en svo fór það svo að þar var ekkert húspláss, svo frú Steinsen bað mömmu að taka þennan unga mann inn á heimilið, sem hún og gerði. Hann fór svo ekki í burtu aftur, og var tekinn inn á heimilið sem einn úr fjöl- skyldunni. Við Richard höfum alltaf litið á hann sem bróður okkar. Mamma tók að sér unga stúlku, Söllu Sigmarsdóttur sem bjó hjá okkur þar til hún gifti sig og flutti til Reykjavíkur. Salla hef- ur líka verið ein úr fjölskyldunni og verið eins og systir okkar. Svo þú sérð að gamla konan hefur stundum haft nóg að gera,“ segir Björn. Það er aðdáunarsvipur á andliti hans þegar hann minnist á móður sína. Enda finnst það á öllu sem hann segir um móður sína að þar er aðdáun að baki. Of latur til að giftast - Þess vegna spyr ég Björn hvort hrifning hans og aðdáun á móður hans hafi orðið til þess að hann giftist ekki. Nú hlær hann dátt og segir, „nei það er langt því frá. Að vísu var samband okkar mömmu mjög náið og gott alla tíð, en ekki var það tii þess að ég gifti mig ekki. Mamma var sko ekki á móti því. Ætli ástæðan hafi ekki verið sú að ég nennti því ekki. Ég hafði það svo gott að ég hef eflaust ekki viljað fórna þeim þægindum sem ég hafði. Hins vegar hef ég átt mín ástarævintýri eins og aðrir ungir menn, - kannski of mörg, það er ekki að vita. Ég hef alltaf átt mikið af góðum vinkonum. En ætli það hafi ekki verið letin eins og ég sagði.“ - Nú höfum við Björn rabbað um lífið og tilveruna frá því hann var barn fyrir austan og allar götur fram að deginum í dag. En það er langt frá því að það sé tæmandi skýrsla um það sem á daga hans hefur drifið. Víða hefur hann unnið, þrátt fyrir eigin umsögn að hann sé latur og værukær. Hver ætli áhugamálin séu? „Þau hafa alltaf verið að lifa líf- inu lifandi. Það hefur verið mitt mottó gegnum lífið. Að skemmta mér og hafa það gott er líka það, sem mér finnst að fólk geri of lítið af. Menn lifa ekki nema einu sinni. Það er heldur ekki verra að kynn- ast góðum vinum. Góðir vinir eru eitt það mikilvægasta sem til er. Ég hef verið mjög heppinn hvað það varðar, því ég hef alltaf átt góða vini. Eitt skal ég segja þér,“ heldur Björn áfram. „Þegar ég kom fyrst til Akureyrar var ég geysilega einmana. Ég þekkti engan og var eins og viðundur. Svo var ég svo heppinn að kynnast fólki af Hlíð- ar-, og Ryelfjölskyldum. Það fólk allt var mjög gott við mig. En það má ekki líta á þetta sem eitthvert „snobb“, því þannig er ég ekki. Þetta atvikaðist bara þannig að þetta var fólkið sem ég kynntist fyrst er ég kom hingað til Akureyr- ar. Það var einkennilegt hvað erfitt var að ná sambandi við innfædda. Það var einna helst aðkomufólk sem ég átti sem kunningja fyrst, fyrir utan þessar fjölskyldur sem ég nefndi. En svo kom þetta allt saman, og ég eignaðist mjög góða vini hér, sem ég hef haft samband við lengi, og jafnvel enn þann dag í dag. Maður var í klíku eins og það var kallað.“ - í hvernig „klíku“ ertu núna? „Núna er ég starfandi í „Húsi aldraðra", eftir því sem ég get og hef tök á. Það er ákaflega gott og heilbrigt fólk sem þar starfar. Ég hef verið það lánsamur í lífinu að ég hef ekki kynnst öðru en góðu og heiðarlegu fólki. Ég get sagt með sanni að ég hef ekki kynnst einni einustu manneskju í lífinu sem mér er ekki vel við. Og ég ber góð- an hug til allra, og hef verið ein- staklega heppinn í lífinu." - Telurðu að þú hafir farið ein- hvers á mis að hafa ekki kvænst? „Það tel ég ekki, því þó ég hafi ekki átt börn sjálfur, þá hef ég átt börn, þ.e.a.s. ég lít á þau sem mín eigin, - börn systkina minna. Það gefur mér ákaflega mikið. Enda reynast þau mér mjög vel.“ Gamlar stjörnur - Það hefur ekki verið möguleiki að koma að hér í viðtalinu því sem blaðamaður sá í bókahillu á heim- ili Björns í Lyngholti 8 á Akureyri. Þar eru nefnilega bækur um gamla, og löngu liðna leikara. Þess vegna er tími til að spyrja um þess- ar bækur. Nú kemur bros. „Ég var kvik- myndasjúkur,“ segir hann. Ég sá nánast hverja einustu bíómynd sem sýnd var hér í bænum í ára- raðir. Þeir sem seldu miða í kvik- myndahúsunum voru allir vinir mínir. Og ef sást til mín í biðröð, þá þurfti ég ekki annað en lyfta einum, tveimur, þremur fingrum upp í loftið til merkis um hversu marga miða ég ætlaði að fá, og þá fékk ég undantekningalaust, ef miðar voru til. Þessar bækur tengj- ast því þessum áhuga mínum á þessum gömlu myndum og gömlu stjörnum sem þá voru. Það voru stjörnur eins og Norma Shearer, sem var, og verður alltaf uppá- haldsleikkonan mín. Þá má nefna nöfn eins og Marlene Dietrich, Fredric March, Clark Gable, Car- ole Lombard og fleiri og fleiri. Við Þórhalla Þorsteins vinkona mín þóttum alveg óþolandi ef við vor- um innan um annað fólk því við töluðum ekki um annað en útlenda leikara, og þekktum alla með nafni.“ Nú bregður Björn sér frá og kemur aftur að vörmu spori með ljósmynd af uppáhaldsleikonunni Normu Shearer. „Þessa mynd sendi Norma mér sjálf. Ég skrifaði henni og fékk myndina senda frá Ameríku.“ Nú gerum við stutt hlé á viðtal- inu og göngum um íbúðina sem Björn býr í. í herbergi hans er mynd af Elvis Presley. „Ég hef alltaf haldið mikið upp á Presley," segir Björn. Hann hef- ur alltaf höfðað mikið til mín og ég á margar góðar plötur með honum. Fyrir utan aðrar plötur, því ég á allgott safn, sem ég hlusta alltof sjaldan á þessi síðustu ár. Það er svo lítill tími.“ - Hvað er svona mikið að gera hjá „ungum“ manni á ellilaunum? „Það er alltaf hægt að finna sér 13. september 1985 - DAGUR - 9 Ég skrifaði upp- áhaldsleikkon- unni minni Normu Shearer, og hún sendi mér áritaða mynd af sér frá Ameríku. Mynd: KGA. eitthvað að gera. Sjónvarp glepur alltaf eitthvað. Þó þykir mér sjón- varpinu hafa farið aftur síðustu ár. Mér finnst það ekki sýna t.d. nóg af þessum „gömlu góðu“ myndum. Það er allt orðið útatað í blóði og ofbeldi sem ég get ekki fellt mig við. Það er líka ástæðan fyrir því að ég er hættur að fara í bíó. Myndirnar hafa breyst svo mikið til hins verra, finnst mér.“ - Það hanga á veggjum myndir eftir Björn, er hann þá listmálari? „Ekki er hann það blessaður. Hins vegar hafði hann áhuga á því að læra slíkt á yngri árum. En faðir minn sem var skynsamur og með báða fætur á jörðinni eins og það er kallað, sagði að ég hefði ekki í mér þá seiglu sem til þurfti á þeim tíma að fara í myndlistarnám. Hann hafði líklega rétt fyrir sér sá gamli.“ - Lestu í þessum bókum urn gömlu stjörnurnar sem sendu þér myndir af sér til íslands? „Ef illa liggur á mér, sem gerist ákaflega sjaldan, þá á ég það til að lesa í þessum bókum, og þá er ekki að sökum að spyrja, allt vont skap rýkur út í veður og vind og ég lifi upp gamla góða tíma með þessum stjörnum." Nú er kominn tími til að setja amen eftir efninu. Við þökkum Birni Þórólfssyni kærlega fyrir skemmtilega dagstund og óskum honum alls hins besta í framtíð- inni. - gej

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.