Dagur - 04.10.1985, Blaðsíða 8

Dagur - 04.10.1985, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - 4. október 1985 „Það hefur orðið mikil breyting á lífsmáta landans í ferðalögum erlendisfrá því að ég byrjaði aðfást viðfar- arstjórn. Hér fyrr á árum kom fólkið oft á tíðum all- drtikkið út úr flugvélunum, eftir flugið að heiman, þannig að það gat verið talsvert mál að halda hópnum saman. Nú sér varla vín á nokkrum einasta manni. Á því eru að vísu undantekningar, en oftast á þá viðkom- andi aðili við áfengisvandamál að stríða og hann losnar ekki við það þó hann sé floginn út fyrir landsteinana. Þetta er ánœgjuleg þróun, ekki síst fyrir okkur farar- stjórana, og hér á Ítalíu eru íslendingar mjög vel kynntir. “ Það er Pétur Björnsson, yfirfararstjóri hjá Ferðaskrifstofunni Útsýn á Ítalíu, sem er kom- inn í helgarviðtal. Pétur er Reykvíkingur, fædd- ' ur austan við læk. Faðir hans hét Björn Hall- dórsson Vilhjálmssonar á Hvanneyri, en Vil- hjálmur langafi Péturs var sonur Björns Hall- dórssonar í Laufási. „Já, Björn í Laufási er for- faðir minn, enda er sagt að ég líkist honum all- verulega í útliti,“ segir Pétur. Ég tek undir það, því þeir sem hafa séð mynd af sr. Birni og bera hana saman við myndina, sem fylgir þessu við- tali, hljóta að sjá svip með skildum. Pétur heitir hins vegar eftir afa sínum í móðurættina. Sá var lengi kenndur við Málarann í Reykjavík, en síð- ar varð hann stórbóndi á Þórustöðum í Ölfusi. Það eru því miklir búhöldar, sem standa að Pétri í báðar ættir. Enda hefur hann yfirbragð bú- mannsins við fyrstu sýn; hann virðist rólegur og yfirvegaður, en samt sem áður með vakandi auga fyrir öllu sem er að gerast umhverfis hann. En þegar hann fer að tala minnir hann meira á ítala; hann talar hratt, þannig að maður verður að hafa sig allan við til að fylgjast með. flið Laufásveginn Pétur ólst upp við Laufásveginn, við hliðina á Laufási, en þessi nöfn eru dregin frá Laufási við Eyjafjörð, þar sem sr. Björn Halldórsson þjón- aði. Það kom því næstum af sjálfu sér, að Pétur fór í Menntaskólann í Reykjavík að loknu barnaskólanámi. Úr MR fór Pétur í Háskólann, en þar var hálfgerður „losarabragur“ á náminu, eins og Pétur orðaði það. Hann ílentist því ekki þar, en hélt þess í stað til Ítalíu fyrir réttum 14 árum. „Ég fór fyrst til Perutsia, en þar er háskóli fyrir útlendinga, þar sem ég lærði ítölsku. Síðan fór ég í háskólann í Flórens, þar sem ég hélt áfram með ítölskuna, jafnframt því að leggja stund á listasögu. Petta var á þeim árum, að mikið var að gerast í háskólunum, það var órói í nemendum. Það gekk því upp og niður með námið. Útkoman úr því varð sú, að ég lauk því aldrei, en sneri mér þess í stað að fararstjórn. Það kom þannig til, að Ingólfur Guðbrandsson bað mig að fara um ítal- íu með ferð sem hét „List og saga“. Sú ferð hófst í Napolí og endaði í norðurhéruðum Ítalíu, með viðkomu í Kaprí, Róm, Pompei og fleiri góðum stöðum. Þar með var ég kominn inn í þessa ferðaþjónustu fyrir hreina tilviljun.“ - Þú fórst til ftalíu til náms, var það algengt meðal íslenskra stúdenta á þessum árum? „Nei, síður en svo, það var mjög fátítt þá, en hefur aukist verulega á síðustu árum. ítalskir há- skólar hafa verið tiltölulega opnir, en nú er verið að setja þar hömlur á. Stúdentar úr þriðja heim- inum hafa sótt mikið hingað. Ég man eftir því þegar ég var í Perugia, að þá var þar mikið af Palestínumönnum og írönum, svo ég nefni dæmi. Ég kynntist því fólki af ýmsum þjóðern- um þar og ég er ekki frá því að þar hafi verið að gerast ýmsir hlutir, sem hugsanlega hafa haft áhrif á heimsmálin. Mér er til dæmis minnis- stæður einn skólafélagi minn, sem var Breti, en einnig af rússnesku bergi brotinn. Hans náms- ferill var afskaplega dularfullur. Einu sinni lán- aði ég honum t.d. ferðatösku og þegar hann skil- aði henni sagðist hann hafa farið til Sýrlands. Ég held að hlutverk hans í skólanum hafi verið eitt- hvað annað en að læra ítölsku." [fíominn á bragðið - Pétur var framan af sumarmaður hjá Útsýn, en síðan 1982 hefur hann verið fastráðinn hjá skrifstofunni. Auk fararstjórnar á Ítalíu hefur Pétur verið fararstjóri í heimsreisum Útsýnar. Ný hlýtur þetta starf að vera erilsamt og „stress- andi“, en hvað er það sem heldur mönnum við þetta sumar eftir sumar, ár eftir ár? „Ætli það sé ekki fyrst og fremst þessi mann- legi þáttur,“ svarar Pétur. „I þessu starfi kynnist maður mörgu fólki, stundum ef til vill of mörgum. Þetta gerir starfið lifandi, en oft á tíð- um erilsamt. Fólk gerir misjafnlega miklar kröfur, en í svona starfi verður eðlilega að kapp- kosta að uppfylla þarfir hvers og eins, eftir því sem hægt er. Úpp til hópa er það fólk sem ég hef kynnst afskaplega þægilegt og elskulegt. íslend- ingar eru kröfuharðir, enda er það sjálfsagt, en Útsýn hefur alltaf lagt metnað sinn í það að bjóða sem besta þjónustu. Það gerir okkur starf- ið auðveldara. Og ég get sagt það löndum mín- um til hróss, að ítölsku ferðaþjónustufólki finnst þægilegt að taka á móti íslendingum. Landinn þykir kurteis og tiltölulega hófsamur í kröfum gagnvart útlendingum, þó þeir geri kröfur til okkar, sem erum í forsvari fyrir þessari þjón- ustu.“ - Og þú sagðir í upphafi, að við værum farnir að haga okkur betur. „Já? Já? Þetta er allt annað. Fyrir nokkrum árum þurfti maður að eltast við farþegana út um alla flugstöð þegar þeir komu hingað, þeir hurfu inn á klósett, týndu farangrinum sínum og hver veit hvað. Núna sér varla vín á nokkrum manni við komuna til Ítalíu. Auðvitað fer einn og einn út af sporinu, en þá er í flestum tilfellum um áfengisvandamál að ræða, sem viðkomandi hef- ur haft með sér að heiman. Það er ekkert óeðli- legt, því það má segja að eitt meðalstórt bæjar- félag á íslandi fari hér í gegnum hendurnar á manni á hverju sumri. Og allt sem kemur fyrir í slíku bæjarfélagi heima, það gerist hér líka. Ítalía hefur alltaf haft það fram yfir Spán, að hingað hefur yfirleitt sótt ráðsett og rólynt fólk, sem vill fá annað og meira út úr sólarlandaferð en djammið. Þeir sem sækja í slíkt fara bara beint á Spán. Ekki þar fyrir, að þeir sem koma hingað hafa skemmt sér konunglega. Mórallinn hjá ítölum er líka þannig, að þeir fara út á diskótekin til að dansa. Þeir fara ekki á skemmtistaði til að detta ærlega í það, eins og landinn gerir. Þetta umhverfi hefur áhrif á fólkið. Það er ekki eins og heima, þar sem helst þarf að pakka miklum fjölda inn á skemmtistað- ina og flestir eru blindfullir. Slíkt umhverfi skap- ar óhjákvæmilega þrýsting á hvern og einn til að taka þátt í drykkjunni." fltalía heillar - Nú hefur þú dvalið lengi á Ítalíu Pétur, en hvernig stóð á því að þú fórst þangað upphaf- lega. Hvað heillaði? „Ég veit það ekki fyrir víst. Ég held að það hafi verið einhver tilfinning, eitthvert brjóstvit, sem leiddi mig þangað. Og ég hef ekki séð eftir því, þar sem ég kunni strax mjög vel við mig. Síðan hef ég verið sannfærður um það, að ef maður ætlar að setjast að lengri eða skemmri tíma utan heimalandsins, þá eru fá lönd sem bjóða upp á eins mikið og Ítalía. Sérstaklega á þetta við um fólk sem hefur áhuga á sögu, listum og annarri menningu, því 60% af menningar- verðmætum Evrópu eru saman komin á Ítalíu. Hér hafa öll tímabil mannkynssögunnar markað sín spor og borgir eins og Róm, Napolí, Flórens og Feneyjar eru ekki til annars staðar í veröld- inni. Þar við bætist, að ég hef alla tíð verið mjög hrifinn af ítölskum mat.“ - Fyrst þú minnist á það; máltíðir virðast skipa afskaplega háan sess hjá ítölskum fjöl- skyldum. „Já, ein af helgiathöfnum ítala er að setjast til borðs. Að vísu hefur þetta breyst með nýjum siðum, ekki síst á Norður-Ítalíu, þar sem menn eru gjarnan í viðskiptum og öðrum erilsömum störfum. Það er því minni tími til máltíða með fjölskyldunni. En enn þann dag í dag hittist ítalska fjölskyldan við matarborðið í hádeginu og á kvöldin og yfirleitt eru þá borðaðar stórar máltíðir. ítalir lifa margir hverjir til að borða og fjöl- skyldan tekur öll virkan þátt í matargerðinni. Fjölskyldufaðirinn tekur ekki síður þátt í henni heldur en húsmóðirin og það er ekki óalgengt að heyra móður ræða við ungt barn sitt um hvað eigi nú að kaupa í matinn. Fólk hér er því al- mennt mjög vel meðvitað um gæði matarins. Sérstaklega leggja þeir ríka áherslu á að hráefn- ið sé ferskt. Þeir vilja nýtt kjöt og nýjan fisk, en líta helst ekki við hráefni úr frysti.“ - Nú erum við vön því, að kjötið sé fryst strax daginn eftir að skepnunni er slátrað. Sumir ís- lendingar fúlsa meira að segja við lambakjöti, ef það hefur ekki verið fryst áður en það var mat- reitt. Vilja ítalir kjötið ef til vill nýtt af skepn- unni? Og hvernig er kjötið flutt til Ítalíu? Nú eru þeir ekki sjálfum sér nógir með kjöt. „Nei, kjöt þarf að hanga í nokkra daga eftir slátrun, en þeir vilja ekki frysta það. Það er alveg rétt, ítalir flytja inn mikið kjöt, en þeir flytja skepnurnar inn á fæti, allt frá Argentínu og mikið frá Júgóslavíu. Dýrunum er ekið beint á matvörumarkaði, sem eru til staðar í öllum ítölskum borgum. Oftast eru dýrin flutt hingað með flutningabílum og þeir koma oft í löngum lestum.“ - Hvernig stendur á því að ítalir framleiða ekki allt sitt kjöt sjálfir? Minnugur offramleiðsl- unnar á íslandi kemur þetta manni á óvart. „Það er einfaldlega vegna þess að stjórnvöld hafa lagt áherslu á iðnaðaruppbyggingu og lífs- kjörin á Ítalíu hafa batnað á undanförnum 10 árum. Á Norður-Ítalíu eru lífskjör almennt síst lakari heldur en heima á íslandi og veðurfars- lega er aðbúnaðurinn betri á Ítalíu. Vissulega er lífsgæðunum misjafnt skipt. Á Ítalíu er mikið af auðugu fólki, en það er líka stór hópur almenn- ings sem hefur það bærilegt." - Suður-ítalir eru ekki eins vel settir? „Nei, það er rétt, bilið á milli Norður- og Suð- ur-ítalíu hefur heldur aukist. Raunar er það eitt stærsta vandamál ítalskra stjórnvalda í dag. Þetta hefur orðið til þess að Suður-ítalir hafa flykkst norður á bóginn í atvinnuleit, sérstak- lega var það eftir að iðnvæðingin hófst. Það hef- ur heldur dregið úr þessu á síðustu árum, enda er stöðugt verið að reyna að örva atvinnulífið í suðrinu. En því miður hafa margar fjárfestingar þar farið í súginn, því mafían er sterk þarna syðra og tekur mikið fé til sín.“ - Hvernig er stjórnarfarið? Ég átti erfitt með að átta mig á lírunni, þurfti að borga mörg þús- und fyrir eina bjórkönnu, Er mikil verðbólga? „Já, það er nokkur verðbólga, líklega um 13%. Þú nefndir háar tölur. Það minnast margir íslendingar á þetta við mig, en ég bið þá bara að líta í eigin barm. Tveim árum eftir að við skár- um núllin aftan af krónunni voru þúsund lírur nákvæmlega 10 kr. íslenskar eða 1000 kr. gaml- ar. í ár eru 1000 lírurnar rúmlega 22 krónur eða 2200 gamlar krónur. Dugur ítalskra stjórnmála- manna virðist því öllu meiri heldur en íslenskra. ítalir hafa hins vegar ekki séð ástæðu til að skera núllin aftan af lírunni." @ðruvísi áfengisvandamál - Við vorum áöan aö ræða um matarvenjur ítala; þeir borða gjarnan margréttaðar máltíðir daglega, jafnvel 5-6 rétta, og verja löngum tíma í borðhald með fjölskyldunni. En hvað með vín- menninguna. Eiga þeir sitt áfengisvandamál? „Já, vissulega er áfengisvandamál á Ítalíu. Því er ekki að neita. En það er af öðrum toga en hjá okkur. Hjá íslendingum kemur ofneysla áfengis oftast fyrst fram á andlegu hliðinni, ann- að hvort sem orsök eða afleiðing. Á Ítalíu er hins vegar miklu algengara að líkamlegir kvillar segi til sín. Skorpulifur er algengur sjúk- dómur, t.d. meðal karlmanna, og eflaust á hann sinn þátt í tiltölulega lágum meðalaldri þeirra. Vissulega drekka ítalir mikið, en hjá þeim er ekki um drykkjuskap að ræða, í þeirri merkingu sem við leggjum í þetta orð. Þeir drekka vegna þess að þeim þykir gaman að vera í félagsskap og ræða sín hjartans mál, auk þess sem þeir eru aldir upp við daglega umgengni við vín. Þú sérð vínbúðir á hverju götuhorni og fyrir vikið verður vínið ekki forboðinn og um leið eftirsóttur ávöxtur. Þar að auki er vín hluti af þeirra matar- menningu. Guð gaf okkur gott gras og kýr sem gera úr því mjólk. Hann gaf ítölum vínviðinn og vínberin, sem þeir breyta í vín. Og það gildir það sama með vínið á Ítalíu og mjólkina á ís- landi. Þess vegna er áfengisvandamál þeirra svo stórt, að það má helst ekki minnast á það. En það er ekki eins dramatískt og heima á íslandi.“ 4. október 1985 - DAGUR - 9 - Pétur Björnsson, fararstjóri Útsýnar ö ftalíu, í helgarviðtali, þar sem hann rœðir um Ítalíu og ítali, fslendínga d Ítalíu, útlendinga d íslandi og ýmislegt fleira forvitnilegt fSýrt eða ekki dýrt - í beinu framhaldi af umræðum okkar um mat- ar- og vínmenningu ítala;.á Ítalíu er hægt að fá sjöréttaða „sælkeramáltíð" fyrir 600 krónur, sem dugir einungis fyrir þokkalegum fiskrétti á íslandi. Fælir hátt verðlag í íslenskri ferðaþjón- ustu erlenda ferðamenn frá landinu? Ég spyr þig vegna þess að ég veit að þú hefur líka reynslu af því að lóðsa erlenda ferðamenn um ísland. „Okkar aðstæður eru náttúrlega mjög sérstak- ar. íslensk ferðaþjónusta kemur alltaf til með að höfða til þeirra efnameiri, ekki til fjöldans. Hins vegar held ég að við höfum ekki upp á nógu góð- an aðbúnað að bjóða, miðað við það verð sem við setjum upp. Þeir sem koma til íslands eru margir hverjir búnir að skoða allan heiminn. Samt sem áður erum við oft á tíðum að bjóða þessu fólki upp á ákaflega lélegan mat og enn lé- legra húsnæði, á verði sem er miklu hærra held- ur en þekkist í Evrópu. Við erum því ákaflega frumstæðir í ferðamálum. íslensk stjórnvöld hafa lítið fjárfest í ferðamálum og þar vantar heildarstefnu.“ - Hvaða hugmyndir hefur þú? „Ég get nefnt eina hugmynd. Það á að vernda allt hálendið, því þar eru óbætanleg náttúru- verðmæti, auk þess sem jafn stór óbyggð svæði fyrirfinnast varla lengur í Vestur-Evrópu. Með því að friða þetta svæði og skipuleggja um það ferðir mætti stórauka ferðamannastraum inn á hálendið, án þess að stefna náttúrunni í hættu. Og auðvitað á að borga fyrir herlegheitin. Ég veit að mörgum landanum þætti það hart, en ég sé ekki aðra leið til að standa straum af kostnaði við að halda öræfunum í horfinu. Þeir sem farið hafa um hálendið komast ekki hjá því að sjá ljót sár eftir torfærubíla. Slíkt grær ekki á einu sumri; þvert á móti er miklu líklegra að sárið verði upphaf að áframhaldandi upp- blæstri. Til að fyrirbyggja þetta þarf að koma upp öflugri gæslu. Hver á að greiða fyrir hana? Ef við ætlum ekki að láta eyðileggja þessa staði þá verðum við að verja þá. Fari svo fram sem horfir, þá líður ekki á löngu þar til sumir þeirra verða ónýtir vegna eftirlitslítils átroðnings. Og mér finnst alveg ástæðulaust að leyfa mönnum að aka alveg að okkar perlum í náttúrunni. Menn geta nú gengið örlítinn spöl og notið ósnertrar náttúrunnar, án þess að hafa bílinn, tjaldið eða skálann alveg við hliðina á sér.“ - Hver er mesti munurinn á því, að fara með ísiendinga um ókunn lönd, eða að leiða útlend- inga um Island? „Það sem maður þurfti að bjóða útlendingun- um upp á heima á Islandi, það var nokkuð sem íslendingar hefðu aldrei látið bjóða sér í útlönd- um. Þetta er að vísu ákaflega misjafnt eftir stöðum. Sumir gisti- og veitingastaðir á íslandi eru vel reknir, en því er öfugt farið með miklu fleiri. Fólk sem kaupir sér dýrar ferðir hingað er vant fínum hótelum, en ekki skólahúsnæði með sturtu niður í kjallara, þar sem þarf að standa í biðröð til að komast að. Þetta þarf að laga. því við eigum mörg atvinnutækifæri ónýtt í ferða- þjónustu. Það er sjálfsagt að nýta heimavistirn- ar, þar sem ferðamannatíminn er stuttur. En er það ofrausn að bjóða skólafólki á heimavist upp á herbergi með sér snyrtingu og baði? Ég held ekki. Þvert á móti held ég að það sé þroskandi á vissan hátt fyrir unglinginn. Því miður er íslensk ferðaþjónusta enn í vöggu. Það eru flugfélögin og stærri hótelin í Reykjavík, sem eru á alþjóðlegu plani. en þegar maður kemur út fyrir borgina byrja vandamálin strax að gera vart við sig." - Að lokum Pétur, langar þig að setjast að á Ítalíu? „Nei, ég er búinn að búa hér það lengi. að það togar ekki í mig lengur. Ég er það mikill íslend- ingur í mér, að ég sakna Islands eftir langa úti- vist. Hins vegar finnst mér ómögulegt að geta ekki komist af og til suður á Ítalíu til að vera þar um tíma. Það er svo mikið að gerast þar; þar getur maður upplifað svo margt, sem þekkist ekki í öðrum löndum. Enda þóttu menntamenn í Evrópu ekki fullþroskaðir hér áður fyrr, nema þeir væru búnir að fara til Ítalíu. Og það er mik- ið til í því, þar sem landið er mjög þroskandi skóli fyrir hvern og einn. Ég finn það best með sjálfan mig. Konan mín ásakar mig stundum fyr- ir að telja allt best á Ítalíu. Vissulega fer margt úrskeiðis hjá ítölum, þú getur lent þar í ævintýr- um og erfiðleikum og séð allt það svartasta, en samt sem áður er Ítalía eitthvað alveg sérstakt i mínum huga.“

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.