Dagur - 09.12.1986, Blaðsíða 2

Dagur - 09.12.1986, Blaðsíða 2
2 - DAGUfí - 9. desember 1986 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI SÍMI: 24222 ÁSKRIFT KR. 480 Á MÁNUÐI LAUSASÖLUVERÐ 50 KR. RITSTJÓRI OG ÁBYRGÐARMAÐUR: HERMANN SVEINBJÖRNSSON FRÉTTASTJÓRI: GYLFI KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: BRAGI V. BERGMANN BLAÐAMENN: ÁSLAUG MAGNÚSDÓTTIR, EGGERT TRYGGVASON, EGILL BRAGASON, GESTUR E. JÓNASSON, GESTUR KRISTINSSON (Blönduósi vs. 95-4070 hs. 95-4368), HELGA JÓNA SVEINSDÓTTIR, INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavík vs. 41585 hs. 41529), KRISTJÁN KRISTJÁNSSON, RÚNAR ÞÓR BJÖRNSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRHALLUR ÁSMUNDSSON (Sauðárkróki vs. 95-5960 hs. 95-5729) AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON ÚTBREIÐSLUSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: JÓHANN KARL SIGURÐSSON PRENTUN: DAGSPRENT HF. 'eiðari___________ Langþráðu marianiði náð Með undirritun kjarasamninganna milli ASÍ, VSÍ og VMSS á laugardag er merkum og lang- þráðum áfanga náð í kjarabaráttunni. í samn- ingaviðræðunum var megináhersla lögð á hækkun lægstu launa, sem lengi hafa verið fyrir neðan öll velsæmismörk. Afraksturinn er sá að lágmarkslaun í landinu hækka í 26.500 krónur á mánuði fyrir almennt verkafólk og lágmarkslaun iðnaðarmanna verða 35.000 krónur á mánuði. Þær raddir voru háværar sem vildu enn frekari hækkun og bent var á að erfitt væri að framfleyta vísitölufjölskyld- unni á þessum launum. Þótt æskilegt hefði verið að hækka lægstu laun enn frekar en gert var er ljóst að slíkt var ekki mögulegt. Með þessum samningum er tryggt að kaupmáttur lægstu launa hækkar um 30% á milli áranna 1986 og '87, ef forsend- ur samninganna bregðast ekki. Þar með er kaupmáttur lægstu launa orðinn hærri en hann var árið 1980. Með því er boginn spenntur til hins ítrasta. Samningarnir nú koma í beinu og rökréttu framhaldi af febrúarsamningunum og nú eins og þá á ríkisstjórnin verulegan þátt í því að samkomulag náðist. Ríkisstjórnin ábyrgist að verulegar breytingar verði gerðar í skatta- málum. Annars vegar verði skattakerfið ein- faldað þannig að tekjuskattur, útsvar og fleiri opinber gjöld verði greidd í einu lagi. Hins vegar beiti ríkisstjórnin sér fyrir því að stað- greiðslukerfi skatta verði komið á 1. janúar 1988. Þá er ríkisstjórninni ætlað að annast ýmsar aðgerðir í verðlags- og efnahagsmál- um, svo sem að draga úr erlendum lántökum, beita sér fyrir aðhaldi í verðlagningu opin- berrar þjónustu og stuðla að sem stöðugustu gengi gjaldmiðla. Hlutur stjórnvalda er því stór og ekki má mikið út af bregða ef ríkis- stjórninni á að takast að uppfylla þessi skil- yrði. Þessi samningalota var aðeins sú fyrsta af mörgum en þarna var tónninn gefinn. Enn á eftir að semja við fjölmarga launþegahópa, þar á meðal opinbera starfsmenn. í þessum samningum var gengið út frá því að verbólg- an á næsta ári verði 7-8%. Ef einhverjar starfsstéttir sætta sig ekki við þá hækkun sem um var samið nú og grípa til aðgerða til að knýja fram frekari hækkun er hætt við að forsendur samninganna bresti og verðbólgan æði upp á við á ný. Hvar stöndum við þá? BB. -j/iðtal dagsins.____________________________ „Búið að gera margt sem mun endast okkur um ókomna framtíð“ - segir Snorri Björn Sigurðsson bæjarstjóri Snorri Bjöm Sigurðsson er ungur maður sem tók við starfi bæjarstjóra Sauðárkróks í vor af Þórði Þórðarsyni. Snorri Björn var á síðasta kjörtíma- bili sveitarstjöri á Blönduósi og þar áður bæjarritari á Króknum. Nú hefur þú sjálfsagt ekkert gengið að því gruflandi þegar þú komst hingað í vor að staða bæjarsjóðs væri ekkert sérstök og erfitt og mikið verk framundan. Hvað kom til að þú tókst þessu starfi? „Ja ef ég gæti svarað því þá væri ég mjög ánægður með mig,“ sagði hann í glettnislegum tón. „Þetta er eitt af þeim fáu störfum hér um slóðir sem hentar fyrir mína menntun. Ég var búinn að vinna hérna áður og þekkti flest starfsfólkið sem var mjög gott og er það enn. Nú, ég tel að Krókur- inn eigi mikla framtíð fyrir sér ef hlutirnir ganga eðlilega fyrir sig og mig langaði að vera þátttak- andi í mótun þeirrar framtíðar. Og svo lít ég nánast á mig sem heimamann, því ég er fæddur og uppalinn í Stóru-Gröf 12 km héðan. Var í gagnfræðaskóla hérna sem unglingur og mér finnst vera ákaflega lítil skil á milli Sauðkrækinga og Skagfirð- inga. Hér býr öll fjölskylda mín, nema ein systir mín sem býr á ísafirði. Ég var eins og ég hef áður sagt, að koma heim. Ég velti því samt vel fyrir mér þegar ég fékk boð um að koma hingað og þá með spakmælið gamla „enginn er spámaður í sínu föðurlandi“ ofarlega í huga. Svo hafði ég það mjög gott vestur á Blönduósi. Þó að staða bæjarsjóðs sé erfið þá er það ekkert einsdæmi fyrir Sauðárkrók. Flest sveitarfélög eiga í erfiðleikum vegna þess m.a. að af þeim hafa verið teknir tekjustofnar sem þeim hafa verið markaðir í gegnum árin en engir komið í staðinn. Núna síðast skerti ríkissjóður framlag sitt til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.“ Svo það er enginn barlómur í þér? „Nei, nei. Krókurinn hefur ákveðna hluti fram yfir mörg önnur bæjarfélög. Summa þeirra gefur Króknum meiri möguleika en flestum öðrum, ef við horfum framhjá þessum skammtíma erfiðleikum. Hitaveitan vegur líklega þar þyngst, fáir bæir eiga eins góða og ódýra hitaveitu og við. Lega bæjarins er góð, hann liggur vel við samgöngum. Hér er búið að framkvæma marga hluti sem munu endast okkur um ókomna framtíð. Þetta hefur auðvitað kostað sitt og þess vegna eru skuldirnar eins og þær eru í dag. Það hefur verið farið geyst í uppbygginguna undanfar- in ár, kannski hægt að gagnrýna hversu hratt það hefur verið gert. En það hafa allir verið sammála um nauðsyn þessara framkvæmda og ég vil alls ekki segja að um neina óráðsíu hafi verið að ræða í fjármálum bæjarins á undanförn- um árum. Skuldirnar eru í sjálfu sér ekki ofboðslega miklar, við erum bara með allt of mikið af skammtímalánum sem gera greiðslustöðu bæjarins mjög erf- iða. En það eina sem ég hef virki- legar áhyggjur af er að við getum ekki svarað þeim kröfum sem til okkar eru gerðar í atvinnuupp- byggingunni. Þar á ég við hluta- ifjáraukningu í útgerðarfélaginu og Steinullarverksmiðjunni. Það verður virkilega erfitt að leysa það dæmi.“ -þá Snorri Björn Sigurðsson, bæjarstjóri. Fríðarfundur að Löngumýrí Friðarumræðuhópur í Skaga- firði gekkst fyrir almennum fundi um friðarmál að Löngu- mýri laugardaginn 8. nóv. sl. Fundurinn var fámennur sök- um illviðris, sem gekk yfir Norðurland þennan dag. Dr. Gunnar Kristjánsson, sóknarprestur á Reynivöllum, var gestur fundarins. Rakti hann í fróðlegu erindi þróun friðarum- ræðu síðustu ára og svaraði fyrir- spurnum fundarmanna um þau mál. Fundurinn samþykkti eftir- farandi ályktun um friðarmál: Almennur fundur um friðar- mál haldinn að Löngumýri í Skagafirði 8. nóv. 1986 fagnar fundi leiðtoga stórveldanna í Reykjavík 11.-12. okt. sl., en lýs- ir jafnframt yfir vonbrigðum sín- um með niðurstöðu fundarins, þar sem svo litlu virðist hafa munað að tækist að ná víðtæku og heimssögulegu samkomulagi um stórfellda fækkun kjarnorku- vopna og afvopnun. Telur fundurinn, að öllum ætti að vera orðin ljós sú hætta, sem gjörvöllu mannkyni stafar af kjarnorkuvígbúnaðinum, verði ekkert að gert, þar sem þjóðir heims ráða nú þegar yfir nægjan- legum vopnabirgðum til að gjör- eyða öllu lífi á jörðinni. Kjarnorkuslysið í Chernobyl á síðasta vetri, sem valdið hefur nú þegar ófyrirsjáanlegum afleiðing- um, minnir á þá ólýsanlegu vá, sem jafnvel takmarkað kjarn- orkustríð getur haft í för með sér. Verði vígbúnaðarkapphlaupið fært út í geiminn, eins og horfur eru á, mun það að öllum líkind- um hafa í för með sér aukna og áður óþekkta hættu á gjöreyð- ingu. Fundurinn fagnar þeirri niður- stöðu, sem náðist á öryggismála- ráðstefnu austurs og vesturs í Stokkhólmi, sem dregur úr líkum á styrjaldarátökum fyrir slysni. Brýnasta verkefnið nú telur fund- urinn vera að stöðva vígbúnaðar- kapphlaupið á grundvelli tillagna þeirra, sem fram voru lagðar á stórveldafundinum, m.a. mcð stórfelldri fækkun svokallaðra meðaldrægra og langdrægra kjarnaflauga, en einnig að endir verði nú þegar bundinn á allar frekari tilraunir með kjarnorku- vopn. Harmar fundurinn, að slík- um tilraunum skuli enn haldið áfram. Fundurinn hvetur íslensk stjórnvöld nú í kjölfar leiðtoga- fundarins, þegar nafn íslands er á allra vörum, til að láta friðarrödd okkar heyrast greinilegar í sam- félagi þjóðanna en verið hefur, m.a. með því að styðja sérhverja viðleitni á alþjóðavettvangi, sem miðar að afvopnun og stöðvun kjarnorkuvígbúnaðar, sem hlýtur að vera hið endanlega takmark. Forsenda alls friðar er að eyða tortryggni og ótta í heiminum. í því efni að vera friðflytjendur höfum við íslendingar sterka stöðu sem vopnlaus smáþjóð úti í Atlantshafi. Hvetur fundurinn til aukinnar friðarumræðu hér á landi og meiri virkni og samstarfs friðar- hópa, hvar sem er á landinu. Minnumst þess, að almenn- ingsálitið er aflið, sem knúið get- ur leiðtoga heimsins til að afvopnast.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.