Dagur - 23.09.1989, Page 8

Dagur - 23.09.1989, Page 8
8 - DAGUR - Laugardagur 23. september 1989 - segir Arnar Guðlaugsson þjálfari hjá Völsungi Það var ekki haldin nein sigurhátíð hjá Knattspyrnudeild Völs- ungs að afloknu keppnistímabili sl. laugardagskvöld. Ljóst var að meistaraflokkslið félagsins var fallið í þriðju deild. Liðið sem fyrir þrem árum varð íslandsmeistari annarrar deildar og komst því upp í fyrstu deild, ásamt KA sem varð í öðru sæti. Liðið lék í fyrstu deild árið eftir og einnig í fyrrasumar. í fyrra í fyrstu deild, næsta sumar í þriðju deild. Hvað er um að vera? Dagur kallaði í Arnar Guðlaugsson sem var þjálfari liðsins síðari hluta keppnistímabils- ins í fyrrasumar og aðstoðarmaður Ivans Varlanov, þjálfara liðs- ins í sumar, og Arnar skoraðist ekki undan að svara nokkrum spurningum um fótboltann. Arnar er fæddur og uppalinn Reykvíking- ur og spilaði handbolta og fótbolta með Fram á árum áður. - Varstu íþróttafrík? „Ég mundi segja það, hvað boltann varð- aði. Það var alveg sama hvaða bolti það var, að ég hafði áhuga. Ég var á kafi í þremur greinum þar til ég var 18 ára að ég varð að skipta og þá varð ofaná að vera í fótbolta á sumrin og handbolta á veturna, en sleppa körfuboltanum. Á þessum árum var ekki eins stíft æft og í dag en samt sem áður urðu alltaf árekstrar á miili bæði vor og haust, hvenær ætti að hætta í handbolta og byrja í fótbolta, og svo öfugt. Við vorum nokkrir að basla saman í báðum þessum greinum og þetta var sígildur farsi á vorin og haustin, en þetta var allt leyst friðsamlega." Arnar lék með unglingalandsliðinu í fót- bolta og síðan tugi leikja með meistara- flokki. Hann flutti til Húsavíkur 1972 og lék tvö sumur nteð Völsungum, sem þá voru í annarri deild, en fór aftur suður 1974 og léjc þá eitt sumar með Fram. 20 leikir í röð án taps - Viltu nefna minnisstæð dæmi um gengi Framliðsins á þessum árum? „Við náðum mjög góðum árangri á þessu tímabili í kringum 1970, m.a. man ég að við spiluðum 20 leiki í röð án þess að tapa. Við urðum Reykjavíkurmeistarar mörg ár í röð og tvisvar í öðru sæti á íslandsmóti, og 1970 varð Fram bikarmeistari í fyrsta sinn.“ Arnar átti ekki síður góðu gengi að fagna í handboltanum. Hann lék með unglinga- landsliðinu og meistaraflokki Fram sem varð þrisvar Islandsmeistari, síðast vorið 1972. Arnar flutti til Húsavíkur oc lék með Völsungum næsta vetur en þá var tekinn upp þráðurinn og spilað í þriðju deild og unnu Völsungar hana með miklum yfirburð- um um vorið. Haustið eftir hélt Arnar áfram að leika með Fram og var þá valinn í landsliðið og lék með því þrjá leiki. Haustið 1978 fer Arnar norður á ný og nú til Akureyrar þar sem hann var ráðinn handboltaþjálfari hjá Þór, og ætlaði að síarfa sem slíkur í einn vetur, en svo fór að þeir urðu sex og auðvitað var hann meira og ininna á kafi bæði í handbolta og fótbolta. Arnar er kvæntur Bergþóru Ásmunds- dóttur sem var einnig mjög liðtæk í hand- knattleik bæði mcð Fram og Völsungi. Bergþóra er frá Húsavík og þangað flytja þau 1985. Nú eru börn þeirra orðin þrjú, Ásmundur sem er 17 ára, Guðlaugur 11 ára og Elva Björg sem er tveggja ára. Synirnir eru farnir að láta að sér kveða á fótbolta- og handboltavöllunum. Ásmundur hefur leikið með meistarflokki í sumar og um áramótin í fyrra lék liann með unglingalandsliðinu. í sumar lék Guðlaugur með fimmta flokki. Nokkuð sáttur við árangur yngri flokkanna íþróttaafrekaskrá Arnars og fjölskyldu gæti orðið talsvert löng cf allt yrði tínt til og það var víst meninginn að ræða um stöðu Völs- unga í fótboltanum. Arnar hefur starfað við þjálfun, bæði í handbolta og fótbolta á Húsavík síðan 1985. Síðustu dagana hefur hann hoppað um á öðrum fæti með hækjur og þrælsnúna löpp. - Varstu fyrir slysi við þjálfarastörfin? „Nei, við erum nokkrir félagar sem stund- um fótbolta okkur til gamans og heilsubót- ar. Við köllumst F. F. United en það útleggst sem Fræknir félagar. Ég snéri mig á æfingu en svona hlutir gerast á ólíklegustu augnablikum, og það kom enginn nálægt mér svo ég get ekki kennt neinum um þetta. Já, ef við snúum okkur að fótboltanum hjá Völsungi þá hefur gengið heldur brösu- lega hjá meistaraflokki. Er ég tók við liðinu á miðju tímabili í fyrrasumar var þegar búið að ráða sovéskan þjálfara, Ivan Varlanov, fyrir þetta keppnistímabil en ég hef verið honum svona innan handar í sumar. Sjálfur hef ég verið að þjálfa þriðja, fjórða og fimmta flokk og er nokkuð sáttur við árang- ur yngri flokkanna. Þriðji flokkur er í þriðja sæti í sínum riðli. Það bitnaði svolítið á þriðja flokki að nú erum við með annan flokk í fyrsta skipti og lánuðum menn úr þriðja flokki upp í annan. Fjórði flokkur var í öðru sæti í sínum riðli og fimmti flokkur vann sinn riðil, komst í úrslit og lenti þar í sjötta sæti, sem ég tel viöunandi. Auðvitað viljum við fara alla leið én ef ég á að vera sanngjarn held ég að þetta verði að teljast gott.“ Vantar þá sem eru á toppnum „Ef við lítum á stöðu meistaraflokksliðsins eins og hún lítur út fyrir mér. Árið sem liðið komst upp í fyrstu deild voru aðkomumenn fengnir til að hjálpa uppá. Annar flokkur var ekki til og þar af leiðandi ekki verið að þjálfa nýja leikmenn fyrir meistaraflokk- inn, og þetta er ástand sem við erum að taka út í dag. Við erum að gjalda fyrir þá stefnu sem tekin var fyrir nokkrum árum síðan, að vera ekki með lið í öðrum flokki. Þetta þýddi það að við misstum stráka sem hættu en hefðu getað orðið mjög góðir, en á móti vorum við að fá menn að, sem alltaf kostar eitthvað. Þetta var orðið svo slæmt í fyrra að á tímabili voru sjö, af ellefu sem byrj- uðu, aðkomumenn. Það sér náttúrlega hver maður að þetta getur ekki gengið. I sumar erum við að byrja með annan flokk og árangurinn hjá honum verður að teljast nokkuð góður, þeir unnu tvo leiki og eru allir á fyrsta ári í öðrum flokki, þannig gð þeir eiga framtíðina fyrir sér þessir piltar. Ástandið í meistaraflokki nú stafar af þeirri stefnu sem var uppi þegar annar flokkur var lagður niður. Við erum ein- göngu með heimamenn í liðinu í dag, eldri leikmenn sem eru að dala og yngri leikmenn sem eru að koma upp, en okkur vantar þá sem eru á toppnum. Þeir ungu eru ekki komnir á toppinn og hinir eru fallandi stjörnur, en þeir voru góðir.“ Vil byggja upp heilsteypt lið heimamanna - Hvernig er hljóðið í ykkur að afloknu þessu keppnistímabili? Urðuð þið fyrir von- Arnar ásamt konu sinni Bergþóru Ásinundsdóttur og liörnuni þeirra þrcnuir, Ásmundi 17 ára, Guðlaugi 11 ára og Elvu Björg 2 ára. Mynd: IM Laugardagur 23. september 1989 - DAGUR - 9 brigðum með úrslitin? „Auðvitað urðum við fyrir vonbrigðum en hljóðið í okkur er náttúrlega ekkert slæmt. Við sem erum búnir að standa lengi í þessu vitum að þetta gengur í bylgjum og það er ekki hægt að búa við eilífa velgengni. En við vitum það líka að svona slæmt gengi varir ekki endalaust. Við hljótum að snúa þessu við og horfum fram á bjartari tíma. Það sem Völsungur stendur frammi fyrir núna, í sambandi við meistaraflokk, er að taka ákvörðun um hvort eigi að byggja upp heilsteypt lið heimamanna, taka sér tíma í það og vera kannski tvö þrjú ár í þriðju deild. Eða hvort það á að setja stefnuna strax á aðra deild og gera þá ráðstafanir til að fá einhverja leikmenn til að styrkja liðið. Persónulega finnst mér að við eigum að byggja upp heilsteypt lið því þessi stefna; að kaupa sér lið, getur aldrei skilað árangri ef til lengri tíma er litið.“ Hef lært heilmikið af Varlanov - Nú hafið þið tekið upp nýja stefnu í þjálf- aramálum, ekki satt? „Jú, og ég tel að það hafi skilað sér á margan hátt mjög vel. Ég sé stórar framfarir hjá yngri mönnunum, en eins og allir vita er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og það verður alltaf erfitt að breyta þeim sem eldri eru. Yngri mennirnir hafa mikið lært og eru mun betur spilandi en áður. Persónu- lega finnst mér að það hefði mátt vera meiri kraftur í boltanum hjá þjálfaranum, en hann hefur þetta auðvitað eftir sínu kerfi frá Sovét. Þessi kraftur og harka sem fylgir fót- boltanum hér er séríslenskt fyrirbrigði. Æfingar liðsins byggjast mikið á boltaæfing- um og spili, hann vill hafa fínt spil og láta boltann ganga en ekki setja þetta ofurkapp á hörkuna, eins og margir hafa gert. Ann- arrar deildar keppnin er rosalega hörð og við höfum kannski verið að tapa á því að vera ekki nógu harðir af okkur.“ - Ivan Varlanov kom til Völsungs í febrúar sl. og er ráðinn til tveggja ára. Hvaða árangri telur þú að störf hans hér skili? „Ég held að það sé engin spurning að ráðning þessa manns hefur það að segja að okkar yngri flokkar eiga að koma mun betur undirbúnir til þeirra eldri en þeir hafa gert. Ég er búinn að vera viðloðandi fótbolta frá því að ég man eftir mér en í sumar er ég búinn að læra heilmikið sem ég var ekki með á hreinu áður og öðruvísi æfingar en hafa tíðkast hjá okkur.“ - Hafa tungumálaerfiðleikar ekki gert vart við sig í samskiptum við þjálfarann? „Jú, það er svolítið vandamál með tungu- málið og ég held að sumir hverjir segist skilja þó þeir skilji ekki, menn játi bara og geri svo eins og þeim finnst sjálfum en séu ekki allir tilbúnir til að viðurkenna að þeir séu ekki alveg með það á hreinu hvað er að ske. Yfirleitt hefur þetta þó gengið ágæt- lega.“ Meiri stuðningur annars staðar - Hvernig er mórallinn gagnvart fótbolta- mönnunum hér eftir fallið í þriðju deild? „Ef við eigum að tala um móralinn í kring um þetta er kannski best að byrja á þeim tíma þegar liðið stóð sig sem best í annarri deild. Þá kom upp svolítill meðbyr í bænum en þó fannst mér alltaf vanta að hugurinn fylgdi með. Það var svona óbeint verið að hnýta í menn, þannig að mér hefur fundist stuðningurinn almennt hjá bæjarbúum ekki hafa verið nógu mikill. Það er kannski frekja að fara fram á þetta en maður finnur það annars staðar að þar er meiri stuðningur við liðin. Þetta þarf ekki alltaf að vera í formi peninga heldur þessi andlegi stuðn- ingur, og að menn finni það að það sé tekið til þess sem þeir gera vel. Þá finna þeir til ábyrgðar og standa sig vel, fyrir sitt félag og sinn bæ. Og ég held að það sé mikils virði fyrir hvert bæjarfélag að eiga íþróttamenn sem standa sig vel.“ - Á vellinum hafa stuðningsmenn aðkomuliða stundum yfirgnæft heimamenn, hvernig virkar þetta á liðið? „Það virkar auðvitað mjög illa, því þeir sem eru að leika hverju sinni eru bara venjulegir strákar og ef þeir finna engan stuðning á bak við sig á einn eða neinn hátt þá fara þeir jafnvel að láta sér á sama standa um úrslitin, fyrst öllum öðrum virðist vera sama. Menn þurfa að finna hjá sér hvöt til að standa sig vel vegna þess að þá er tekið eftir því og mönnum kannski hampað örlít- ið. En þegar illa gengur, að þá séu menn ekki skammaðir og rakkaðir niður, heldur fái þeir smááminningu um að gera betur. Afskiptaleysi hefur slæm áhrif á lið.“ - Gengur ver að afla fjár fyrir knatt- spyrnudeildina þegar illa gengur á vellin- um? „Það gefur auga leið. Þegar illa gengur vill fólk kannski sem minnst af því vita, en þegar vel gengur er strákunum hampað óspart og öllum öðrum, serm eru að stússast í kringum knattspyrnuna. Ég man þetta vel frá því í gamla daga þegar það var misjafnt gengi hjá Fram, stundum sat maður einn í klefanum eftir tapleiki og enginn vildi við mann tala, en þegar vel gekk var fullur klef- inn og maður komst varla í bað. Þetta. er svona allsstaðar.“ Það þarf að hlúa að krökkunum - Komu þér á óvart þau úrslit sem urðu hjá liðunum á Norðurlandi eftir keppnistima- bilið? „Nei, í sjálfu sér ekki. Það kom einna helst á óvart hvað Leiftur hefur orðið neðar- lega, ég hélt að þeir myndu standa sig mun betur en þeir gerðu. Það var kannski ekki reiknað með að KA yrði íslandsmeistari en þetta er alveg frábært hjá þeim og þeir eiga heiður skilinn fyrir hvað þeir hafa komið vel út úr þessu. Þórsararnir eru kannski heldur slakari en ég átti von á, en það var þó kær- komið að þeir skyldu ekki falla.“ - Manstu skemmtileg atvik frá sumrinu? „Því miður eru kannski fáar mjög skemmtilegar minningar frá sumrinu. Þó er búið að vera gaman af og til, ég væri ekkert í þessu annars. Hins vegar gæti þetta verið skemmtilegra með betra gengi.“ - Verða miklar breytingar á liðinu eftir þetta sumar? „Það er erfitt að segja um það á þessari stundu. Sjálfsagt eru þeir eldri orðnir nokk- uð þreyttir og hugsa sér gott til glóðarinnar að leggja skóna á hilluna. Hins vegar held ég að það væri mjög gott fyrir þessa yngri sem eru að koma, að þeir reyndu héldu svona aðeins lengur í hendurnar á þeim. Menn eru að taka út stöðuna þessa dagana og svo verður að safna liði, leita hefnda og reyna að standa sig betur.“ - Hvernig finnst þér aðstaða til íþrótta á Húsavík? „íþróttaaðstaða er nokkuð góð. Við höf- um nýtt og glæsilegt íþróttahús sem nýtist fullkomlega fyrir innigreinarnar. Það er helst að það vanti fleiri tíma, því það er þeg- ar komið í ljós að það mætti nýta fleiri tíma en fyrir hendi eru. Útiaðstaða til knatt- spyrnuiðkana er ágæt, þó vantar tilfinnan- lega æfingasvæði á grasi, því þessi keppnis- völlur þolir ekki það álag sem er af þeim æfingum sem þurfa að fara fram á grasi. En það er f undirbúningi að útbúa æfingasvæði. Mér sýnist að Völsungur og Húsvíkingar eigi mjög efnilega unglinga á mörgum sviðum. Það þarf að hlúa að þessum krökk- um og búa þannig í haginn að þau geti stundað það sem þau hafa áhuga á. Þá veit ég að árangurinn veöur góður og að við komum til með að eignast afreksmenn.“ IM

x

Dagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.