Dagur - 10.03.1990, Blaðsíða 11

Dagur - 10.03.1990, Blaðsíða 11
10 - DAGUR - Laugardagur 10. mars 1990 Laugardagur 10. mars 1990 - DAGUR - 11 „Þuijum alltafað eiga vonina til að geta bœtt okkuf - segir Sigurður Hallmarsson, leikstjóri Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Land míns fööur um næstu helgi. Sigurður Hallmarsson leikstýrir verkinu og við fengum hann til að koma í helgarviðtalið, þó hann segði að uppsetning á leik- húsverki væri hópvinna, og því væri ekkert sjálfsagðara að tala við leikstjórann en einhvern annan úr hópnum. Sigurður vildi heldur ekkert ræða við okkur um listamannalaunin sem leikstjór- anum voru úthlutuð á dögunum. En einn félagi Sigurðar úr leikhúsinu hældi honum mjög við okkur, fyrir hæfileika við að segja fólki til og ná fram túlkun sem við ætti og sagði að hann væri næmur á að sjá hæfileika hjá fólki, þó það sjálft hefði ekki hugmynd um að það byggi yfir þeim. Sigurð sjálfan skortir ekki hæfileika á ýmsum sviðum; hann er listmálari, tónlistarmaður, skemmtikraftur og eftirherma, hestamaður. En í dag spjöllum við fyrst og fremst við leikarann, leikstjórann og félagann í Leikfélagi Húsavíkur - Sigurð Hallmarsson. Sigurður er kvæntur Herdísi Birgisdóttur frá Húsavík. Hún stundaði nám við Leikskóla Lárusar og hefur leikið mörg eftirminnileg hlutverk á fjölum Sam- komuhússins. „Hún er mér hollur og góður ráðgjafi í sambandi við leikstjórnina og sömuleiðis rullur sem ég hef æft. Hún er minn besti gagnrýnandi, stundum hörð en sanngjörn." Herdís og Sigurður eiga þrjú börn sem öll hafa komið á leiksvið; Hallmar, leikhússtjóra Borgar- leikhússins, Katrínu, óperusöngkonu sem kennir við Söngskólann í Reykjavík og Aðalbjörgu, læknaritara á Húsavík. Skömmuðumst okkar eitthvað smávegis Sigurður er fæddur og uppalinn á Húsavík. Hann var eina barn hjónanna Jónínu Katrínar Sigurð- ardóttur og Hallmars Helgasonar. Þau bjuggu allan sinn búskap á Helgastöðum, sem nú er Mararbraut 21. Hallmar var sjómaður. „Ég ólst upp við að sjá bátana koma og fara, og ég man aldrei eftir föður mínum í landi, ef það var sjó- veður.“ - Hvenær manstu fyrst eftir þér og við hvað? „Ég man eftir jarðskjálftunum 1934, ég varð ofboðslega hræddur og man hvar ég var staddur þegar þeir komu. Pað er fyrsti atburðurinn sem ég man fyrir víst, en margt frá bernsku er ég ekki viss um hvort ég man, éða hvort hefur verið lýst fyrir mér svo ljóslifandi að mér finnist vera um upplifun að ræða. Ég átti marga leikfélaga. Krakkahópurinn hélt sig mikið syðst á bakkanum. Rétt sunnan við byggðina var fjárréttin og síðan tóku við Börðin með kartöflugörðunum. Petta var allt saman eitt opið leiksvæði sem krakkarnir höfðu til eigin ráð- stöfunar. Það var stutt í fjöruna framan við bakk- ann og þar var miklu meiri sandfjara en er í dag. Hér var enginn leikskóli, né dagheimili, við rák- um þetta sjáfir krakkarnir og hópurinn var sam- heldinn. Við fundum upp ýmsa leiki sem ég hef ekki vit- að til að iðkaðir hafi verið annars staðar, hvorki fyrr né síðar. Á bakkanum áttum við bátasmið, hann sagaði út báta úr kassafjölum, svonefnda fjörubáta sem við undum við tímunum saman í fjörunni. Þetta var Hreinn Helgason í Jörfa. Hann þekkti alla báta og ég held að hann hafi kunnað sjómannaalmanakið utanbókar." - Voruð þið prakkarar? „Auðvitað vorum við prakkarar, það hefur æfinlega verið. Við vorum ekki með illkvittin prakkarastrik, því okkur var ekki illa við neinn og ég held að fáum hafi verið illa við okkur. En einu sinni strengdum við þó snúru yfirgötuna hjá Sólheimum, þá lá Melgatan niður hjá Hulduhól og niður að Helgastöðum. Kári Arnórs, Hörður bróðir hans og ég, strengdum snúru þvert yfir götuna og það kom kona með hænu í fanginu að ofan. Við biðum eftir því að hún gengi á snúr- una, en um leið kom Arnór heitinn að neðan og varð var við þetta. Konan sá snúruna og stopp- aði, en Arnór hljóp á eftir okkur suður öll Börð. Þar hlupum við Hörður niður í skotgrafir og eftir skotgröfunum sem Bretarnir höfðu grafið vestast á Börðunum. Þar kom að báðir aðilar þreyttust og hættu að hlaupa og það var ekki gert stórt mál úr þessu. Arnór var ekki þesslags maður. Þó man ég að við skömmuðumst okkar eitthvað smávegis fyrir uppátækið, og sáum það síðar að slys hefði getað hlotist af þessum prakkaraskap.“ - Á þessum árum var að alast upp kynslóð sem síðan hefur sett mjög svo svip á bæjarlífið. 1 þeim hóp ert þú og margir þínir leikfélagar, en hvað veldur því hvað áberandi mörg ykkar hafið orðið til að takast á við verkefni sem eftir er tekið, bæði í leik og starfi? „Kannski stafar þetta að einhverju leyti af því að þegar þeir sem þá voru að alast upp komust til vits og ára, þá opnaðist þeim leið í gegn um skólakerfið. Fátækum opnaðist leið í gegn um hérðasskólana sem spruttu upp víða um land. Því munu fleiri úr þessum hópi hafa fengið tækifæri til að njóta sín, heldur en áður var.“ I snjókasti við breska herinn - Eftir æfingu á Land míns föður í Samkomu- húsinu um daginn barst það í tal að þú myndir eftir stríðsárunum á Húsavík. - Ég man eftir komu Bretanna og þá bar margt nýstárlegt fyrir augu. Það vildi þannig til að Bretarnir höfðu vetursetu í næsta húsi við okkur, Sandfelli. Þess vegna var strákaskarinn í nokkuð nánu sambýli við þá, og við skutumst á snjókúlum. Þeir höfðu ekki iðkað snjókast og við strákpattarnir reyndumst þeim ekkert síðri í því, þó við reyndum ekki önnur skot. Bretarnir voru okkur afskaplega vinsamlegir, en okkur þótti vissara að halda okkur í hæfilegri fjarlægð þegar þeir fóru á heræfingu. Þegar þeir æfðu notkun byssustingja hengdu þeir upp heypoka og brun- uðu á þá með stingjunum. Þá þóttumst við sann- færðir um að nú væru þeir orðnir brjálaðir fyrir fullt og fast og mig minnir að við höfum hlaupið suður í Mundlaugarlá - til að vera sem allra fjærst þessum ósköpum. Ég varð alveg skelfingu lostinn fyrst þegar ég sá þetta, en seinna, þegar slík æfing var haldin, vorum við mikið nær og hlógum, því okkur fannst þetta stórfurðulegar aðfarir.“ - Reynduð þið að spjalla við hermennina og fenguð þið nammi? „Þeir höfðu nú ekki mikið greyin, bresku her- mennirnir voru afskaplega fátækir, en við reynd- um að spjalla við þá og þeir við okkur. Mr. Cook var yfirmaður þeirra, hann bjó í Hjarðarholti og hafði með sér kokk sem hét Harry. Harry komst upp á lag með að tala íslensku, þetta var fljótfær náungi og opinn, og okkur fannst hann skemmti- legur. Eftir stríðið fréttum við að þeir Bretar sem hérna voru hefðu farist við Dunkirk." - Hafði koma og dvöl hermannanna á Húsa- vík mikil áhrif á unglingana sem þá voru að alast upp? „Ég held að hún hafi haft lítil áhrif á okkur. Þeir komu margir fyrst, en svo voru hér 10-14 menn í Sandfelli, og lífið hélt áfram að ganga sinn vanagang. Þeir stóðu á verði suður á bökkunum, við endann á skotgröfunum við byrgi sem stóð neðar en þar sem verslunin Kjarabót er nú. Við máttum ekki trufla þá á verðinum og sjálfsagt hafa þeir verið að fylgjast með skipa- komum. Ég man ekki eftir neinu nema jákvæðu í samskiptum Bretanna við Húsvíkinga, og upp- setningin á Land míns föður rifjar margt upp, mér til mikillar ánægju.“ - Hverju breytti koma hersins og stríðið fyrir íslensku þjóðina? „Skyndilega varð til nóg vinna handa öllum og það hvatti til aukinnar verkmenningar, sérstak- lega á sviði bygginga. Á þessum árum var tekinn upp sérstakur unglingataxti fyrir 14-16 ára, aðal- lega var hann notaður við byggingavinnu. Áður hafði verið litla vinnu að fá fyrir unglinga, helst línuvinnu, en ef þeir fengu aðra vinnu voru þeir á svokölluðu kvenmannskaupi. Ég man að ég fékk greitt eftir unglingataxtanum þegar verið var að byggja fyrstu verkamannabústaðina hér, á Brávöllunum. Herinn flutti ýmislegt með sér til landsins. Bílainnflutningur óx, hertrukkarnir komu, sem síðan í áratugi reyndust traustastir til mjólkur- flutninga á vetrum. Með nægri vinnu handa öllum komu peningar til framkvæmda, t.d. var geipilega mikið byggt á Húsavík á árunum frá 1944-50.“ Með leikmyndir í sköflunum Það mun hafa verið 1943 sem Sigurður lék sitt fyrsta hlutverk, sem smali í Manni og konu, með Leikfélagi Húsavíkur. „Mér fannst það vera ævintýri, heilmikil og skemmtileg upplifun. Sigurður Kristjánsson var leikstjóri, en hann var lengi driffjöður í starfsemi Leikfélags Húsavíkur og einnig í Karlakórnum Þrym. Seinna tók ég þátt í Spanskflugunni, með- an ég var í gagnfræðaskólanum. Ég fór í skóla suður og tók ekki þátt í sýningu hér aftur fyrr en 1949, þá settum við upp Galdra-Loft, en síðan hef ég tekið þátt f þessu óslitið þau ár sem ég hef verið hér á Húsavík." Sigurður getur þess ekki að hann leikstýrði og lék aðalhlutverkið í Galdra-Lofti, aðeins 19 ára gamall, en með eins vetrar nám í Leikskóla Lár- usar Pálssonar að baki. í þessari sýningu fór Herdís með hlutverk Dísu og Aðalbjörg, móðir hennar, var einnig með hlutverk. - Ég hef heyrt að vel hafi til tekist við upp- setningu verksins. Var þetta ekki í mikið ráðist af svo ungum manni? „Það var mjög vel lagt í þessa sýningu. Jóhann Björnsson, myndlistarkennari og myndskeri, málaði tjöld og sá um leikmyndina, af sömu natni og hann hafði alltaf gert. Við beittum ljósum, og þetta var kannski í fyrsta skipti sem reynt var að breyta til með notkun Ijósa. Það var Jóhannes Haraldsson sem sá um ljósin og reyndist hug- kvæmur. Ég hafði ekki vit á því þá að mikið væri í ráðist og hafði ekki forsjá til að hugsa um það á þessum árum. Þá var mikið erfiði að setja upp leiksýning- ar hér í Samkomuhúsinu vegna þess að ætíð þurfti að fjarlægja allar leikmyndir út úr húsinu vegna árshátíða, samkomuhalds eða annarrar starfsemi sem í húsinu var. Neðri hæðin var íþróttasalur, og eiginlega furðulegt að hægt skyldi vera að drífa áfram leikstarfsemi í húsinu við þær aðstæður sem þá voru. Þó við höfum núna ráð- stöfunarétt yfir húsinu og þurfum ekki að henda leikmynd út í skafl vegna annarra samkoma, þá er það bara svo að á þessum árum hafa kröfurnar til leikstarfsemi aukist svo mikið, að þetta er mjög erfitt, svo ekki sé meira sagt. Mestu örðug- leikarnir, fyrir utan plássleysið og þrengslin, eru að lýsa stykkið svo eitthvað vit sé í. Til þess er lofthæðin ekki nægjanleg. Ljósin eru svo nálægt Ieikurunum að þau eru heit og óþægileg. Vegna nálægðar Ijósanna, eru kastararnir farnir að dreifa svo lítið, að við verðum að hafa þá fleiri svo menn séu ekki alltaf að ganga í gegnum skuggahögg á sviðinu. Miðað við þá miklu starfsemi sem verið hefur hjá leikfélaginu, væri hægt að halda að hægt hefði verið að skapa starfseminni betri skilyrði. Einhvern veginn hefur það ekki verið svo, og við höfum alltaf sagt að þetta hafi verið gert áður og hljóti eins að vera hægt nú. Meðan við höfurn fólk sem gætir ekki forsjálni við þessa hluti þá kannski gengur þetta upp, en ég veit ekki hvað það gengur lengi.“ Ef listin er einhvers virði Samkomuhúsið er byggt 1929, sama ár og Sigurð- ur fæddist. Hann segir að húsið sé löngu orðið óviðunandi. í kjölfar Kópaskersskjálftans 1975, segir Sigurður að húsinu hafi verið lokað á þeim forsemdum að það hefði ekki nægjanlegt burðar- þol til að forsvaranlegt væri að setja inn í það fólk. Burðarþolið hafi þó magnast í húsinu fyrir einhverja tilviljun, þannig að húsið var opnað aftur og hefur verið opið síðan. - Það stóð til að byggja leikhússal við Félags- heimilið og andyri hans í rauninni þegar byggt, er ekki svo? „Þegar byrjað var ábyggingu Félagsheimilisins var mikið deilt um hvorn salinn ætti að byggja Hjónin, Sigurður Hallniarssun og Herdís Birgisdóttir, í hlutverkum sínum í Júno og páfuglinn eftir Sean O’Casey. fyrst, kvikmyndasalinn eða veitingasalinn. Ég hélt því fram þá, að við þyrftum að byggja leik- húss- og kvikmyndasalinn vegna þess að annað þyrftu félög ekki að byggja, hótel myndi byggja veitingasal því það væri útilokað að reka hótel á staðnum öðruvísi en að það hefði veitingasal. Raunin varð sú að við byggðum veitingasalinn, og hótel við liann og það hefur dugað okkur síðan. Nú er búið að leggja Félagsheimilasjóð niður og ég tel næsta öruggt að ekki verði byggt leikhús við Félagsheimilið. Þetta marka ég af því að það er búið að þrengja að þessari byggingu á margan veg, bílastæði eru ónóg og mér finnst alls ekki líklegt að þarna verði byggt það leikhús sem fyrirhugað var.“ - Er draumurinn um nýtt leikhús þá alveg dáinn? „Ég vil nú ekki segja það. Það má kannski byggja leikhús annars staðar og Leikfélag Reykjavíkur sýndi það vestur á Granda að það er hægt að leika í skemmum, bara að húsrýmið sé nóg. Salur þarf ekki að vera svo geipilega fínn, svo hægt sé að leika þar, og sena ekki svo flott, hún þarf bara að búa yfir því rými sem nauðsyn- legt er til að leika á, og til að geyma leiktjöld milli þátta. Hins vegar viljum við að leikhúsgestir á Húsa- ; vík geti notið þess að vera í leikhúsi og að það fari vel um þá. Ég játa það, að mér eru það sár vonbrigði að ekki skyldi vera byggt við Félags- heimilið. Ég er vel kunnugur þeirri vinnu sem allt það fólk hefur lagt á sig sem nálægt leikstarfsemi hefur komið, því það að koma upp stórri leiksýn- ingu er geysileg vinna. Þó fólkið geri sér þetta til dægrastyttingar finnst mér oft að tíminn sem í . þetta fer þyrfti ekki að vera svona mikill, ef aðstaðan væri betri. Ef leiksviðið og allt sem því tilheyrir væri rýmra, væri þetta mikið auðveld- ara. Þrátt fyrir alla þessa vinnu getur árangur þarna aldrei verið eins góður og við vildum að hann væri, og eins og hann gæti verið ef aðstæður væru fyrir hendi með þeim starfsafla sem þarna er. Ég er næsta viss um að það leikfélag er ham- ingjusamt sem á yfir eins miklu af góðum starfs- kröftum að ráða eins og Leikfélag Húsavíkur. Það er synd fyrir Húsavík, að eiga þessa starfskrafta sem eru reiðubúnir að fórna öllum sínum frítíma, lungann úr vetrinum og vel það, fyrir þessa starfsemi. Ef þessi starfsemi, leik- starfsemi yfirleitt, og listin yfirleitt er einhvers virði fyrir mannlíf á Húsavík, þá er það synd að við skulum ekki bera gæfu til að geta búið betur að þessari starfsemi og þessu fólki. Þó Samkomu- húsið hafi verið gott svarar það engan veginn þeim kröfum sem við gerum til sýninga í dag, svo mikið hafa kröfur okkar aukist með tilkomu sjónvarps og góðra leikhúsa." Yetrar- og stórhríðarstarf Sigurður er viljugri að ræða um aðstöðuleysi félaganna í leikfélaginu, heldur en um eigin afrek á sviði Samkomuhússins. Þó hann væri aðeins búinn að vera einn vetur í Leikskóla Lárusar Pálssonar þegar Galdra-Loftur var settur á svið, þá lauk hann þaðan prófi eftir þriggja vetra nám, sem stundað var jafnhliða námi í Kennaraskólan- um. „Það hagaði svo til að Leikskólinn var þá eftir- miðdagsskóli og kvöldskóli, þetta kom niður á heimanámi fyrir Kennaraskólann, en það varð að hafa það. Ég kunni afskaplega vel við mig í Leik- skóla Lárusar og fannst ég læra þar mikið, en fann þó betur, löngu eftir að ég var farinn úr skólanum, að þá var að koma til mín við hinar ýmsustu aðstæður, ýmislegt sem Lárus sagði. Það var alltaf hægt að gogga eitthvað upp úr vitund- inni sem hann hafði sagt og þetta sýnir að hann var frábær kennari. Þetta eru fleiri nemendur hans sammála mér um, en því miður misstum við hann of snemma." - Hvaðan kom þér hvötin til að fara til leiklist- arnámsins? „Það voru leikarar á heimili mínu í bersku. Afi minn, Helgi Flóventsson, lék mikið og var lengi skemmtikraftur hér á Húsavík. Einnig lék móðir mín og ég býst við að ég hafi orðið fyrir áhrifum af því. Ég fékk snemma áhuga fyrir leikhúsi en á þeim árum stóð ekki til að hægt væri að leggja þetta fyrir sig sem atvinnu. Leikfélag Reykjavík- ur var þá öðrum þræði áhugamannafélag og ég tók þátt í sýningum þar sem stadisti, meðan ég var í skólanunt hjá Lárusi, og hafði gaman af. Þegar kom fram í maí og ég gekk yfir grasið á Klambratúni, þá fór ég að fá heimþrá og fannst útilokað að lokast inn í leikhúsi yfir sumarið, fannst þetta frekar vera vetrar- og stórhríðar- starf.“ Litlu hlutverkin krefjast oft meira - Segðu mér frá starfinu með Leikfélagi Húsa- víkur. „Þrátt fyrir örðugar aðstæður á ég ágætar minnigar frá starfinu í þessu gamla Samkomu- húsi og langt í frá að ég vildi vera án þejrra minn- inga. Það hefur oft verið talað um það að ef við fengjum stærra hús, þá tapaðist þetta andrúms- loft sem er í gamla húsinu. Þetta er auðvitað bull, andrúmsloft eins húss er ekkert annað en andi þeirra sem þar vinna, starfa og eru. Hús er vitn- isburður um þá alúð sem lögð er í að gera það vistlegt og aðlaðandi, og Leikfélag Húsavíkur er sannarlega búið að gera mjög mikið í húsinu.“ Þau eru orðin mörg hlutverkin hans Sigurðar. Flestir minnast líklega Tevje í Fiðlaranum á þak- inu, en einnig man fólk Púntila vel, sýningarnar á Júnó og páfuglinum og Tehúsi ágústmánans, og herprestinn í Góða dátanum Sveik, svo fátt eitt sé nefnt og ekki farið út fyrir svið Samkomuhúss- ins. „Hlutverk sem ég hef leikið hafa í sjálfu sér öll verið aðalhlutverk í mínum huga. Þau hafa skipt mig mestu máli af hlutverkunum þegar ég hef verið að leika þau og þá er alveg sama hvaða hlutverk það eru. Það þarf að leika litlu hlutverk- in engu síður en hin, þau krefjast oft miklu meira og hafa færri orð til að koma sínum karakter til skila og þrengri ramma.“ - Er eitthvað það verk á þínum ferli sem þér finnst vænst um, eða sem þú telur þig hafa lært mest af? Hallmarsson í hlutverki Tevje. Fiðlarinn á pam.- „Mér finnst ég hafa lært af þessu öllu, enþegar upp er staðið veit ég ekki hvað ég hef lært. Ég hef kannski lært það að við þurfum alltaf að eiga vonina til að geta bætt okkur, og til að geta bætt okkur þurfum við alltaf að leggja okkur fram, og vera reiðubúin til að endurskoða unnið verk. Mér hefur oft fundist sárt, kannski mánuði eftir að ég hef leikið hlutverk, þegar ég sé að eitthvað hefði auðvitað átt að gera öðruvísi en það var gert, það hefði farið betur. Ég held að þetta nagi alla sem fást við einhverskonar sköpun, það kemur alltaf að tíma endurskoðunarinnar. Auð- vitað hljóta allir að eiga sín góðu og slæmu tímabil en þegar ég hætti að hafa gaman af því að leika, þá ætla ég að hætta. Það sem við áhuga- leikararnir höfum að gefa er leikgleðin, og það er sú leikgleði sem oft hrífur menn með sér.“ - Er leiksýning ekki nokkurs konar spegill á líf- ið og tilveruna, og ef svo er lærir þá leikhúsmað- urinn ekki mikið um lífið og tilveruna, svona á nokkrum áratugum? „Jú, ætli það ekki. Leiksýning þvingar leikar- ann til að hugsa um iífið og tilveruna frá þeim sjónarhóli sem persónan sem hann er að túlka sér hana. Því margvíslegri persónur sem við lendum í að túlka, því margvíslegri sjónarhorn fáum við, en að vísu í gegn um rithöfundinn. Þegar best lætur erum við leidd í sannleikann um þessa hluti, með aðstoð leikstjórans. En það er bara sannleikurinn frá einni hlið." Leikstjórastarfíð er krefjandi Að loknu námi starfaði Sigurður eitt ár sem kennari á Eskifirði og annað ár á Akureyri en síðan kom hann til Húsavíkur, starfaði fyrst sem kennari, síðan sem skólastjóri Barnaskólans, ákvað að hætta 1987 en tók þá við fræðslustjóra- stöðunni og gegndi því embætti í tvö ár. Sigurður segir að sér hafi alltaf líkað vel að kenna, og að við eigum góða krakka sem hlýi sér oft með viðmóti sínu þegar hann mæti þeim á götu. Þegar Siguður hætti sem skólastjóri ætlaði hann að starfa við að aðstoða kennara í dreifbýl- inu við að setja upp sýningar, m.a. fyrir árshátíð- ir og skemmtanir í skólunum, en þá kom fræðslu- stjórastaðan til. Um tildrög uppsagnar sinnar sem skólastjóra, segir Sigurður að leikstjórastarfið sé svo krefj- andi, að einfaldlega sé ekki hægt að sinna öðru á meðan. Sér hafi oft verið búið að falla ilía að vera klofinn milli þess að vera kennari og leikstjóri. „Mér fannst kominn tími til að velja annað hvort, og mér fannst ég ekki geta íagt leik- starfsemina á hilluna.“ í ágúst hélt Sigurður til Færeyja, þar sem hann sviðsetti Síldin kemur-síldin fer, eftir Iðunni og Kristínu Steinsdætur, í Klakksvík. Sýningin þótti takast vel, metaðsókn hefur verið og verkið verið sýnt milli 30-40 sinnum, og enn er verið að sýna það. Sigurður er ekki alveg ókunnur síldar- stemmningunni, hann var fjórar vertíðir á síld og vann auk þess á síldarplaninu hjá Ugga, m.a. með Ingimundi Jónssyni, og segir að þeir eigi þaðan margar ánægjulegar minningar. „En ég var ekki til sjómennsku fallinn. Ég var alltaf sjó- veikur og með sjóriðu, en vinnan til sjós líkaði mér vel og jannst veiðarnar spennandi og skemmtilegar. Það hefur verið mér gott vega- nesti sem leikstjóra hvað ég hef gripið í mörg störf í þjóðfélaginu, en til slíks hafa kennarar tækifæri á sumrin." Get eiginlega hvergi verið á frumsýningu - Nú leikstýrir þú fjölmennustu leiksýningu sem sett hefur verið upp á Húsavík, leikverki með söngvum og dansi þar sem alls 47 flytjendur koma fram. „Til liðs við okkur hafa komið unglingar úr Framhaldsskólanum, sem hafa starfað þar undir ágætri leiðsögn Einars Þorbergs. Þegar við vinn- um með þessu unga fólki finnum við hve ómetan- legt starf það er sem hann vinnur þar í raun og veru, því unglingarnir hafa brennandi áhuga til þátttöku í svona sýningu og ég er viss um að þarna erum við á réttri leið. Ég hef trú á að þetta verk verði mikið sótt því það er ótrúlega mikil fjölbreytni í þessari sýn- ingu. Svona verk geta ekki aðrir skrifað en þeir sem þekkja mjög vel möguleika leikhússins, og Kjartan Ragnarsson hefur margoft sýnt hve mik- ill leikhússmaður hann er. Mér finnst stórkost- legt hve vel Atli Heimir nær stíl þessa tíma í músíkinni. David Thompson sér um tónlistina og það er ómetanlegt fyrir leikfélagið að fá slíkan mann til samstarfs. Einar Þorbergsson sér um dansana, og það er ánægjulegt fyrir félagið að fá svo samvirka krafta til þessa átaks og ég er þeim þakklátur fyrir samstarfið.“ - Hvernig líður leikstjóranum Sigurði Hall- marssyni á frumsýningarkvöldi? „Á frumsýningu vil ég helst ekki láta neinn sjá hvernig mér líður. Ég vildi helst geta verið alls staðar, en get eiginlega hvergi verið, og allra síst í salnum.“ IM

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.