Dagur - 23.06.1990, Blaðsíða 5

Dagur - 23.06.1990, Blaðsíða 5
HESTAR Umsjón: Kristín Linda Jónsdóttir Hestamennska er fyrir alla fjölskylduna - Spjallað við Birnu, Hólmgeir, Börk og Þóri Rafn Hvers virði er að eiga áhugamál sem sameinar Ijölskyid- una? Viljum við ekki öll þekkja bömin okkar og deila með þeim dýrmætum tíma? Hvert leitar barnið sem aldrei gerði neitt spennandi eða skemmtilegt með mömmu og pabba þegar það kemst á unglingsár? Til hvers er að vera hluti af íjölskyldu ef við kjósum að eyða fáum frístundum okkar hvert í sínu lagi? Á vetraríþróttahátíð ÍSÍ á Akureyri. F.h. Hólmgeir, Þórir, Börkur og Birna. Mörgum fjölskyldum hefur tekist að sameinast um spennandi við- fangsefni sem allir fjölskyldu- meðlimir hafa áhuga á og ánægju af. Hestamennskan getur verið slíkt viðfangsefni. Hún býður upp á geysilega fjölbreytni, getur sameinað allt í senn; áhugamál, keppnisíþrótt, ferðalög, útiveru, líkamsþjálfun, tengsl við iandið og samskipti við dýr. Að moka skít er hið besta eróbik og útreið- ar frábær lækning við stressi og streitu nútímans. Að hafa áhuga á hestum, að vera hestamaður, er heillandi lífsstíll. Allir geta verið hestamenn allt frá smábörnum upp í roskna öldunga. Hestamennska er þeirra lífsstfll Sífellt fleiri fjölskyldur í þéttbýli velja sér hestamennsku sem áhugamál. Þegar vinnudegi lýkur skella fjölskyldumeðlimir sér í reiðgallann, fara í húsin, moka út, leggja á, kemba og gefa. Ein af þeim fjölskyldum sem hafa valið sér þennan lífsstíl eru Hólmgeir Valdemarsson og Birna Björnsdóttir á Akureyri og synir þeirra Börkur 14 ára og Þórir Rafn 10 ára. Hólmgeir og Birna eru athafnasöm hjón sem reka bæði eigið fyrirtæki. Birna á og rekur snyrtistofuna Evu og Hólmgeir Heildverslun Valde- mars Baldvinssonar. Þau hafa reist sér myndarlegt heimili að Reykjasíðu á Akureyri og hest- húsið sem er í Lögmannshlíðar- hverfi er þeirra annað heimili yfir vetrarmánuðina. Þegar vorar er lagt á og hrossahópurinn rekinn yfir Bílsárskarð í sumarhagana sem eru á jörð fjölskyldu Hólm- geirs, Kotungsstöðum í Fnjóska- dal. Þar á fjölskyldan sumarbú- stað og dvelur öllum stundum, þar er þeirra paradís á jörð. Ýmsar hliðar hestamennskunnar Hvernig skyldi þeim takast að sameina krefjandi störf, barna- uppeldi og heimilshald tímafreku áhugamáli sínu, hestamennsk- unni. Birna, Hólmgeir og synir þeirra hafa kynnst flestum hlið- um hestamennskunnar. Dagleg- um útreiðum og þjálfun yfir vetrarmánuðina, spennandi hestaferðalögum að vetri og sumri. Útreiðartúrum um ilm- andi birkiskóga Fnjóskadals þeg- ar sólin skín í heiði og þegar kvöldroðinn litar fjöllin. Þau hafa öll tekið þátt í keppni og sýningum. Fyrir rúmu ári tóku Birna, Börkur og Þórir öll þátt í sýningunni Hestadagar í Reið- höllinni. Á vetraríþróttahátíð ÍSÍ á Akureyri voru Börkur og Þórir í fyrsta og öðru sæti í töltkeppni unglinga. Nú þegar landsmót hestamanna á Vindheimamelum nálgast verða Börkur og Þórir báðir meðal keppenda. Því að í Gæðingakeppni Léttis sem jafn- framt var úrtaka fyrir landsmót sigraði Börkur í unglingaflokki á hryssunni sinni Sabínu og Þórir vann barnaflokkinn á Jörva. Að gleyma klukkunni - Hvenær byrjuðuð þið í hesta- mennskunni? „Frændi minn Hólmgeir Páls- son var í hestamennsku. Þegar ég var 12 ára var hann kominn með skellinöðrupróf. Hann bauð mér að sitja aftan á upp í hesthús. Á þessum aldri var það mjög spenn- andi boð sem ekki var hægt að hafna. Svo fór áhuginn að beinast að hrossunum. Ég keypti minn fyrsta hest fyrir fermingarpening- ana og þar með var ballið byrjað,“ sagði Hólmgeir. „Áhugi á hestum virðist hafa verið mér í blóð borinn,“ segir Birna. „Ég var fjögurra ára þegar ég fór á Landsmót hestamanna á Þveráreyrum. Síðan var ég svo heppin að fá tækifæri til að vera í hesthúsi hjá Alla Arnljóts. Alfreð Arnljótsson var barngóð- ur maður og ég fylgdi honum eins og skugginn næstu árin. Seinna var ég svo ein í húsi og naut dyggrar aðstoðar föður míns. Hann var óþreytandi að hjálpa mér og aðstoða þrátt fyrir að hann settist ekki sjálfur í hnakkinn," sagði Birna. Þau kynntust í hestamennskunni og brátt tók alvara lífsins við. Þau stofnuðu heimili og eignuðust sitt fyrsta barn og þurftu að axla þá ábyrgð sem því fylgir. „Eftir að Börkur fæddist þá fannst mér að minni hesta- mennsku væri nánast lokið. Mér fannst ég aldrei hafa tíma. Ég þurfti að vera komin heim klukk- an þetta og hitt. Áður hafði ég ekki haft neitt tímaskyn í hesta- mennskunni. Ef tækifæri bauðst gat ég farið í húsin og gleymt klukkunni og notið þess að vera til með hestunum langt fram á nætur,“ sagði Birna. Réttan hest á réttum tíma Hólmgeir og Birna eru þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa börnin sín með sér í hestamennskunni. Hvað skyldi þeim finnast skipta mestu máli í sambandi við hesta- mennsku barna? „Strákarnir byrjuðu snemma að ríða út með okkur. Við festum kaup á góðu hesthúsi til að geta boðið þeim upp á notalegt athvarf því oft þurftu þeir að bíða eftir mömmu og pabba. For- eldrar sem vilja hafa börnin sín með sér í hestamennskunni þurfa að gera sér það ljóst að ákveðin atriði verða að vera í lagi svo dæmið gangi upp. Það má fyrst nefna öryggisatriðin svo sem hjálma, endurskinsmerki og vönduð reiðtygi. í öðru lagi þarf að finna þann hest handa barninu sem hentar hverju sinni. Fyrsti hesturinn þarf að vera traustur mjúkur og mátulega sinnugur, en þau eru örskamma stund að vaxa upp úr þeim hesti. Það er því nauðsynlegt að skipta um hest til að fylgja framförum barnanna eftir. Stundum eru léleg hross kölluð barnahestar, jafnvel hross sem eru gróin í lull, óhlýðin, löt, leiðinleg í beisli og snúa ef til vill við í reiðtúrnum. Það fær ekkert barn áhuga á hestamennsku með því að kynnast slíku hrossi. Séu hrossin sinnug, falleg og góðlynd verða börnin betur vakandi, áhugasamari og njóta þess að vingast við hestinn sinn. í þriðja lagi verða foreldrarnir að hlusta á börnin sín, taka kvartanir þeirra til greina og trúa þeim. Foreldrarnir verða að reyna að leysa vandamálin þrátt fyrir að þeim finnist þau e.t.v. smámunir einir. Foreldrarnir ættu að hafa það í huga að börnin eru að takast á við og læra að vinna með lifandi veru sem er með sál, og er óútreiknanleg. Það krefst óneitanlega meira af barninu heldur en takast á við dauða hluti eins og t.d. hjól, skíði eða bolta. Þau eiga skilið hól og uppörvun þegar þeim tekst vel upp við jafn krefjandi viðfangsefni og hestamennskan er. Síðast en ekki síst er nauðsyn- legt í heimi vaxandi keppnis- hörku að börnin minnist þess að hesturinn er ekki vél sem hægt er að keppa á til verðlauna. Hann er lifandi persóna sem getur verið ómetanlegur vinur og félagi ef við erum honum góð og sýnum honum virðingu," sögðu þau Hólmgeir og Birna. Toppurinn á tilverunni- ferðalög á hestum „Við höfum lagt áherslu á góða aðstöðu í hesthúsinu því að frá áramótum og fram á vor er það okkar annað heimili. Um helgar förum við iðulega í húsin að morgni með nesti og dveljum þar við útreiðar til kvölds. Við höfum átt ótal skemmtilega daga saman við útreiðar í nágrenni Akureyr- ar og í stuttum dagsferðum fram í fjörð.“ Á vorin verða kaflaskipti, þá reka Birna og strákarnir hrossin yfir í Kotungsstaði en Hólmgeir fer þangað með fullan bíl af ýms- um búnaði. Flestar helgar sumarsins nýtur fjölskyldan þess að ríða út í Fnjóskadal. Ferðalög á hestum eru að þeirra mati há- punktur hestamennskunnar. Saman fer fjölskyldan í hesta- ferðalag, nýtur náttúru landsins skoðar dýralíf, gróður, ár og vötn. Þau minnast ógleymanlegra stunda þar sem þau voru ein með strákunum, hestunum og land- inu. Þegar stress, sími, dyra- bjalla, vinna og skóli voru víðs- fjarri. Fyrir tveimur árum fóru þau tvö með Börk tólf ára og Þóri átta ára í fimm daga ferðalag um Þingeyjarsýslur. Keppni er bæöi jákvæð og neikvæð Þau hafa öll tekið þátt í hesta- mannamótum og sýningum og Börkur og Þórir eru meðal efni- legustu keppnismanna í sínum aldursflokki í Eyjafirði. Samt sem áður leggja þau Hólmgeir og Birna áherslu á að þátttaka í keppni sé ekki markmið í þeirra hestamennsku. Þau telja að keppnisharka og gegndarlausar kröfur um sífellt betri árangur séu slæma hliðin á hestamennsk- unni. í ljósi þeirra umræðna sem hafa átt sér stað um slæma með- ferð á keppnishestum leggja þau áherslu á að foreldrar ungra og upprennandi knapa geri þeim ljóst hvað felst í því að vera hestamaður. Hestamennskan er gagnkvæm vinátta, virðing og gleði sem hestur og maður njóta af umgengninni hvor við annan. „Botnlausar kröfur um meiri fótlyftu og yfirferð hljóta að vekja upp spurningar um það hvenær knapinn sé ánægður. Ef hann vill alltaf betri og betri árangur verður hann þá nokkurn tímann ánægður? Að keppa á hesti getur verið mjög hvetjandi, skemmtilegt og spennandi sé þess gætt að kapp er best með forsjá. Það er líka mikilvægt að allir geri sér það ljóst að keppni er ekki toppurinn á hestamennskunni heldur er hún einn þáttur hesta- mennskunnar. Margir frábærir hestamenn keppa ekki. Foreldrar verða líka að gera sér það ljóst að sýningar og keppni vekja ekki áhuga allra barna. Það er fráleitt að álíta að þeir sem ekki sýna hesta á hringvelli séu á einhvern hátt lélegri hestamenn en hinir,“ sögðu þau Hólmgeir og Birna. - Að lokum, komu aldrei nein önnur áhugamál til greina? Þau horfa á mig spurnaraug- um, önnur áhugamál???? „Hestamennskan er svo skemmtilegt og tímafrekt áhuga- mál að allt annað fellur í skuggann.“ Börkur á Sabínu og Þórir á Jörva.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.