Dagur - 23.06.1990, Page 10

Dagur - 23.06.1990, Page 10
10 - DAGUR - Laugardagur 23. júní 1990 „ ...cinn Þingeyingur sem hló mikið að ógleði minni." ann er kominn af norskum og skagfírskum ættum og þyk- ir það nú ekki slæm blanda. Foreldrar hans eru María Ragnarsdóttir, skagfírsk heimasæta, og Ole Aadnegard, Norðmaður sem kom til Islands fyrir stríð og var fyrst refahirðir á Reynistað í Skagafírði en ílengdist síðan hér á landi. Hann er giftur Brynju Kristjánsdóttir úr Grindavík og eiga þau saman fjögur börn á aldrinum 12 ára til 21 árs. Maðurinn sem um ræðir er Knútur Aadnegard nýorðinn forseti bæjarstjórnar á Sauðárkróki. Þegar Dag bar að garði heima hjá Knúti var hann önnum kafínn ásamt konu sinni við að gróðursetja tré í garðinum. Hann gaf sér þó tíma til að spjalla um ævi sína, en sagði sem svo að hún væri nú ekki orðin það löng að frá mörgu væri að segja. Spjallið endaði þó sem helgarviðtal. Sverðabardagar og byssuleikir „Ég er fæddur Sauðkrækingur árið 1951 á heimili foreldra minna að Skógargötu 1. Við systkinin erum tólf og er ég svona um mið- bikið í hópnum, svo maður gat náð sér niðri á þeim yngri ef maður varð fyrir barð- inu á eldri systkinum. Uppvöxturinn gekk áfallalaust fyrir sig. Ég byrjaði að fara í sveit á sumrin um sjö ára gamall og var þá fyrst hjá afa og ömmu á Bergstöðum, síðan á Marlandi úti á Skaga og líka á Reynistað og í Geitagerði. Tvö sumur var ég síðan heima og passaði yngsta bróður minn meðan mamma var að vinna. Þá lærði ég undir- stöðuatriðin í eldamennsku, lærði að elda svona algengasta mat. Meinilla var mér þó alltaf við að sjóða fisk og kom það til af því að í fyrsta skipti sem ég gerði alvarlega til- raun til að sjóða ýsu, þá ætlaði ég að verka hana rosalega vel og setti hana undir heita kranann. Það fór allt í mauk svo hún var ekki borðuð þann daginn. Þetta lærðist þó með tímanum og ég held að ég kæmist nú alveg í gegnum eina soðingu núna.“ - Hvernig var með strákapör í þínu ung- dæmi? „Ég held ég hafi nú ekki verið neitt mikið í þeim. Þetta voru mjög heilbrigðir leikir sem maður aldist upp við, sverðabardagar og byssuleikir, sem í giltu mjög strangar reglur og það hefur ábyggilega gert manni gott seinna meir þegar maður hefur þurft að semja sig að öðrum reglum. Maður tók auð- vitað þátt í hverfabardögunum og man ég að þar voru framarlega í flokki þeir Ólafur Jóhannsson og Einar Helgason. Annars var ég aðallega með strákunum hans Kára Steins og líka minnist ég að synir Kristjáns Gíslasonar, sem seinna flutti til Vestmanna- eyja, voru góðir vinir mínir.“ Sótti mjólk upp í kofana „í rauninni er ótrúlegt hve margt hefur breyst frá þessum tíma þegar maður var strákur. Ég man eftir því þegar maður var að sækja mjólk upp í kofana þarna fyrir ofan Skógargötuna og eftir kúnum sem voru þarna man maður greinilega eins og aðrir sem rifja upp þessa liðnu tíma. Faðir minn var nú iengi með kindur þarna líka sem maður snérist mikið í kringum og sumrin sem ég var heima við, kom það að mestu leyti í minn hlut að hugsa um heyskapinn, því að foreldrarnir og eldri systkini voru alltaf að vinna. Ég fór sjálfur snemma að vinna eins og aðrir á þessum tíma og maður reyndi að komast í alla þá vinnu sem bauðst. Aðallega var það uppskipun og síð- an var það eitt starf sem við bræðurnir vor- um lengi með, tókum við hver af öðrum. Það var að taka upp vörur í apótekinu og sjá um að brenna þar því rusli sem til féll þar. Fyrir þetta fékk maður borgað og það kom sér oft á tíðum óskaplega vei enda lítil atvinna á þessum árum og hver eyrir því kærkominn." - Hvernig var þinni skóiagöngu háttað? „Hún var nú bara ósköp venjuleg. Ég byrjaði auðvitað í barnaskóla og fór síðan í Gagnfræðaskólann sem þá var til húsa þar sem nú er Barnaskólinn. Var þar oft þröng á þingi því iðnskólinn var með sfna kennslu í sama húsi svo stundum varð að kenna annars staðar í bænum. Veturinn sem ég var í þriðja bekk var minn bekkur t.d. aðallega til húsa í Sjálfsbjörg, sem er hús hér niðri við sjó. Þar man ég að var oft mik- ill gólfkuldi og í sterkri norðanátt lá við að maður fyndi öldurnar skella á húsinu." Sjóveikur upp á hvern einasta dag „Veturinn eftir að ég útskrifaðist sem gagn- fræðingur fór ég á vertíð til Grindavíkur og þar kynntist ég konunni. Hún vann þar í frystihúsinu og ég líka og það þróaðist bara á þennan venjulega hátt. Eg fluttist síðan til Grindavíkur og við bjuggum þar í tæp þrjú ár. Nær allan þann tíma var ég til sjós og kynntist mörgum góðum mönnum. Fyrst var ég á Þórkötlu annarri, komst í siglingar- túr á trolli fyrir tilviljun og fór síðan á síld og net um haustið. Leiðinlegast var að ég var sjóveikur upp á hvern einasta dag, það var bara þrjóskan sem hélt manni gangandi. Um borð á Þórkötlu var einn Þingeyingur sem hló mikið að ógleði minni og það espaði mann upp svo maður gaf sig ekki. Þetta var samt mjög erfitt og ég man að þegar við vor- um á netunum þarna um haustið gekk sólar- hringurinn þannig fyrir sig að farið var út um fjögur á nóttunni og maður var ræstur um sjöleytið. Þá fór maður upp og byrjaði á því að æla áður en fyrsta trossan var dregin. Á meðan verið var að leggja hana var morg- ungrauturinn og hann píndi maður ofan í sig og fór síðan og ældi aftur. Með grautnum fékk maður alltaf appelsínu sem maður át eftir næstu trossu og að sjálfsögðu fór hún sömu leið og annað sem inn fyrir varirnar kom. Yfirleitt sleppti maður síðan kaffinu og var þá komið að hádegismat sem maður át af eins og maður gat og sendi hann síðan rakleitt útbyrðis. Svona gekk þetta og við komum yfirleitt að landi um áttaleytið, lönduðum og síðan rölti maður heim o« borð- aði matinn sem konan hafði til handa manni og var það eina máltíðin sem ekki fór upp úr manni um leið. Þá fór maður að sofa og vaknaði aftur klukkan fjögur. Þessi hringrás var á deginum hjá mér í einar fjórar vikur og var maður orðinn ansi þreyttur að þeim tíma loknum. Sjóveikin hvarf ekki fyrr en ég fór á ann- an bát, Ársæl Sigurðsson, rétt eftir áramót- in. Þá fann ég fyrir smá sjóveiki í fyrsta túrnum en síðan ekki söguna meir.“ - Hvenær var síðan haldið aftur hingað á æskuslóðirnar? „Upp úr 1970 fluttum við hingað norður á Sauðárkrók og fór ég þá strax að vinna og læra á trésmíðaverkstæðinu Hlyn og var þar uns ég hafði lokið sveinsprófi. Éftir það hóf- um við Broddi Þorsteinsson að vinna saman við smíðar og keyptum eftir tvö ár trésmiðj- una Ás, ásamt Ingimari Jóhannssyni. Henni héldum við gangandi í ein þrjú ár, en þá var reksturinn orðinn frekar erfiður svo við skiptum fyrirtækinu upp og tók ég mikið af útiáhöldunum í minn hlut. Eftir það fór ég að starfa sjálfstætt og hef gert síðan. Ég hef verið með þrjá til fimm menn í vinnu og unnið við ýmsar byggingar. Aðallega hef þó unnið í sveitunum og líkar mér vel að vinna fyrir bændur. Líkaði mjög vel á sjónum Meistaraprófið kláraði ég síðan í fjölbrauta- skólanum á hans fyrstu árum og útskrifað- ist um leið og fyrstu stúdentarnir.“ - Var það draumur þinn í æsku að verða smiður? „Ekki held ég það nú, flest þau störf sem maður hefur lent í hafa nú meira komið upp í hendurnar á manni fyrir tilviljun, en mað- ur hafi unnið að þeim leynt og ljóst. Ég hefði t.d. alveg getað hugsað mér að vera sjómaður áfram, því mér líkaði mjög vel á sjónum. Þar er góður félagsandi og skorpu- vinna sem ég kann vel við. Annars er það nú dálítið merkilegt í sambandi við smiðinn, að við erum fjórir bræðurnir sem erum tré- smiðir svo þetta er kannski eitthvað í blóðinu.“ Gautar í Húnaveri - Ætlaðir þú sem ungur maður ekki að fara í framhaldsnám? „Jú, ég ætlaði mér nú alltaf í eitthvað Laugardagur 23. júní 1990 - DAGUR - 11 lengra nám og m.a. var það að brjótast í mér að fara í Verslunarskólann, en af því varð nú aldrei. Systkini mín fóru hins vegar mörg í framhaldsnám og útskrifuðust frá MA, Kennaraskólanum og fleiri skólum." - Hvernig var með skemmtanir í Skaga- firði á unglingsárunum? „Þær voru nú eitthvað svipaðar og í dag. Þegar maður var sextán, sautján ára voru hér böll um hverja helgi. Aðallega var það í Húnaveri, Miðgarður var að byrja að koma inn í myndina. Sú hljómsveit sem dró mest til sín minnir mig að hafi verið Gautar þegar þeir spiluðu í Húnaveri. Þessir dansleikir fóru sjálfsagt líkt fram og þeir gera nú á dögum. Menn slást núna eins og þá, þó held ég að það sé orðið dálítið ofsakenndara en á mínum dögum. Eftir því sem mér skilst eru menn farnir að beita fótunum óspart í slags- málum núna, en ég minnist þess hinsvegar ekki að menn hafi lyft löppum þegar þeir voru að tuskast í Húnaveri á sjöunda ára- tugnum." Lék einn leik fyrir Tindastól - Þar sem þú ert nú skagfirskur, hefur þá hestamennska aldrei kitlað þig? „Einhvern veginn hef ég nú alveg sloppið við þá bakteríu, þó svo að töluvert sé um hana í fjölskyldunni.“ - Hvað þá með íþróttir? „íþróttir hef ég aldrei stundað af neinu viti. Þó minnist ég þess að ég lék einn knatt- spyrnuleik fyrir Tindastól, sennilega í fimmta flokki. Var leikið á Hofsósi við strákana þar og úrslitin voru á þá leið að ég held það sé best að minnast ekki á þau. Ef ég man rétt þá var Frímann Guðbrandsson í marki hjá okkur og þurfti að horfa æði oft á eftir boltanum í netið hjá sér. Það lýsir nú kannski áhuga mínum að ég man ekki einu sinni hvar á vellinum ég spilaði, ég man bara að ég var þarna einhvers staðar í þessum leik. Sumarið eftir að ég fermdist var ég að vinna í frystihúsi í Höfnum á Reykjanesi og þar var spilaður fótbolti í öllum pásum og matartímum svo ég missti nú ekki alveg áhugann fyrir boltanum eftir þennan leik þó hann væri lítill. Þarna í Höfnum fékk ég eitthvað fyrir brjóstið af öllu sprikljnu og hef aldrei losna almennilega við það og á mjög erfitt með að hlaupa enn þann dag í dag. Ég hef samt mjög gaman af því að horfa á boltaleiki og aðrar íþróttir og það kemur fyrir oftar en ekki að maður kemur hálf- raddlaus heim eftir að hafa horft á leik í körfunni hérna á veturna.“ - Er Knútur Aadnegard veiðimaður? „Stangveiðimennsku hef ég aldrei stundað. Þó var það einu sinni að Guðjón vinur minn bakari dró mig með sér í lax- veiði eftir að hafa útlistað fyrir mér hversu gaman þetta væri. Ekki fékk ég nú samt þann stóra í þeirri ferð, en sá þó einn lax. Helsta veiðimennskan er svartfuglaskytterí á veturna, en við eigum þrír saman bát sem maður gefur sér nú samt alltof sjaldan tíma til að nota. Einu sinni gengið til rjúpna Aðeins einu sinni hef ég farið á rjúpnaveið- ar. Þá fórum við Broddi Þorsteinsson saman til rjúpna, báðir í fyrsta sinn. Við létum keyra okkur upp á Kálfadal einn góðan degi í brunagaddi og snjó upp í klof. Lítið sáum við af rjúpu en lentum ofan í einhverj- um fúaflóa þarna svo fór upp fyrir og við vorum orðnir töluvert slæptir þegar við komumst niður á veg aftur þar sem Heiða- bóndinn tók okkur upp í og leyfði okkur að sitja í niður í bæ. Þegar við síðan sögðum veiðifróðum mönnum frá leiðinni sem við gengum kom það í ljós að við virtumst hafa þrætt þá staði þar sem síst var rjúpna að vænta. Broddi slysaðist þó til að skjóta eina, en ég hafði ekkert upp úr krafsinu annað en þreytu og bleytu og hef aldrei gengið til rjúpna aftur.“ Formaöur fímmtán ára - Hvenær vaknaði áhuginn á stjórnmálum? „Mjög snemma, ég var ekki nema fimm- tán ára þegar ég gekk í Félag ungra sjálf- stæðismanna á Sauðárkróki og lenti þá strax í því að verða formaður. í Félagi ungra var ég síðan þar til ég fór til Grindavíkur. Þar skipti ég mér hinsvegar ekkert af pólitík og hafði ekki meiri áhuga fyrir þessum málum en það, að í fyrsta sinn sem ég gat neytt kosningaréttar sleppti ég að kjósa. Ég hef nú samt alltaf séð eftir því, því að ég tel að menn eigi að nota sinn kosningarétt ef þeir geta komið því við heilsu sinnar vegna. Fljótlega eftir að við fluttum hingað norð- ur á Krókinn fór ég síðan aftur að taka þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og var lengi í stjórn Sjálfstæðisfélagsins hér á staðnum. Formaður bæjarmálaráðs Sjálfstæðisflokks- ins var ég síðan í nokkur ár og svo formaður Sj álfstæðisfélagsins. “ - Hvenær fórstu á lista fyrir Sjálfstæðis- flokkinn í bæjarstjórnarkosningum? „ í kosningunum 1982, þá var ég í fjórða sæti og kom inn í bæjarstjórn hér á því kjörtímabili þegar Jón Ásbjörnsson flutti burt af staðnum. 1986 var ég síðan í þriðja sæti á listanum og í ár var það toppsætið eft- ir að þau sem áður voru fyrir ofan mig drógu sig út úr málunum." - Finnurðu mikla ábyrgð hvíla á þér sem oddvita listans? „Tvímælalaust er það mikil ábyrgð að leiða flokk, hvort sem það er Sjálfstæðis- flokkurinn eða einhver annar, og maður finnur fyrir þeirri ábyrgð. Ég er þó feginn því að hafa fengið þennan reynslutíma í bæjarmálum áður en ég lenti í forustuhlut- verkinu. Maður hefur starfað með mörgu góðu fólki og alltaf hefur verið hægt að leita til annarra bæjarfulltrúa, úr öllum flokkum, um mál sem mann skorti þekkingu á.“ Sauðárkrókur höfuöstaður Norðurlands - Hvernig leggst það í þig að vera forseti bæjarstjórnar? „Maður veit að þetta er ábyrgðarmikið starf. Forsetinn þarf að vera andlit bæjarins út á við í mörgum málum. Ég mun að sjálf- sögðu reyna að standa mig eftir bestu getu og þetta leggst alveg þokkalega í mig. Þau sem á undan mér hafa gegnt þessu, hafa verið afbragðsfólk og staðið sig með glæsi- brag og verið bænum til sóma og ég vona að ég nái að feta í fótspor þeirra.“ - Er Sauðárkrókur bær á uppleið? „Á því leikur enginn vafi. Hvað öll ytri skilyrði snertir og náttúruaðstæður, þá er Sauðárkrókur örugglega sá kaupstaður á Norðurlandi sem hefur hvað besta mögu- leika til vaxtar. í rauninni held ég að það hafi verið tilviljun og kannski hve kostir heita vatnsins komu seint í ljós að Sauðár- krókur er ekki höfuðstaður Norðurlands, því ég held að hér séu öll skilyrði betri fyrir kaupstað en á Akureyri. Helst eru það hafn- arskilyrðin sem hafa háð okkur en annað er mjög gott.“ Yið sjáum til - Þegar þú lítur um öxl, er þá eitthvað sem stendur upp úr í minningunni? „Ekki man ég nú eftir neinu sérstöku. Lífið er kaflaskipt og maður er þakklátur fyrir það sem maður á og það sem maður hefur komist í gegnum. Ég held ég hafi ver- ið heppinn í gegnum tíðina, ég hef kynnst mörgum skemmtilegum mönnum og góðum félögum. Sérstaklega minnist ég þess þó þegar ég var hérna á grásleppu tvö vor með þeim Sævari Einarssyni og Gunnari Þórðar- syni. Það var mjög skemmtilegur tími og virkilega gaman að kynnast Gunnari. Hann er svo sannur veiði- og íþróttamaður í sér að það var sama hvort maður var að príla með honum úti í Drangey eða draga grá- sleppunet, alltaf hugsaði hann um það hvernig bæta mætti árangurinn." - Hefurðu lifað eftir einhverju „mottói" í gegnum tíðina? „Slíkt er nú varla hægt að tala um. Maður hefur reynt að standa við það sem maður hefur sagt og þá frekar reynt að svíkja alla jafnt. Þó man ég eftir einu, það er þegar konan er að tala um það við mig að gera eitthvað, þá svara ég víst oft með orðunum: Við sjáum til. Ég tel nefnilega að það sé best að lofa ekki meiru heldur en maður sér sér fært að koma í verk.“ Þetta voru lokaorð Knúts Aadnegard áður en hann tók aftur til við fyrri iðju í garðinum ásamt konu sinni. SBG - Knútur Aadnegard forseti bœjarstjórnar ó Sauóárkróki í helgarviðtali

x

Dagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.