Dagur - 15.02.1992, Blaðsíða 4

Dagur - 15.02.1992, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Laugardagur 15. febrúar 1992 ÚTGEFANDI: DAGSPRENT HF. SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SÍMI: 96-24222 • SÍMFAX: 96-27639 ÁSKRIFT KR. 1200 Á MÁNUÐI • LAUSASÖLUVERÐ KR. 110 GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMNETRA 765 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON RITSTJÓRNARFULLTRÚI: EGILL H. BRAGASON UMSJÓNARMAUR HELGARBLAÐS: STEFÁN SÆMUNDSSON BLAÐAMENN: INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTTIR (Húsavíkvs. 96-41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, JÓN HAUKUR BRYNJÓLFSSON (íþróttir), ÓLI G. JÓHANNSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, SKÚLI BJÖRN GUNNARS- SON (Sauðárkróki vs. 95-35960, fax 95-36130), STEFÁN SÆMUNDSSON, ÞÓRÐUR INGIMARSSON, LJÓSMYNDARI: KJARTAN ÞORBJÖRNSSON PRÓFARKALESTUR: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSHÖNNUN: RÍKARÐUR B. JÓNASSON, ÞRÖSTUR HARALDSSON AUGLÝSINGASTJÓRI: FRÍMANN FRÍMANNSSON DREIFINGARSTJÓRI: HAFDÍS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASÍMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL PRENTVINNSLA: DAGSPRENT HF. Ásdís kemur til Akureyrar í dag Hátíðarsamkoma verður á Akureyrarflugvelli í dag en þá mun Ásdís koma frá Amsterdam. Ásdís þessi er ný Fokker 50 vél, sú fyrsta af fjórum sem Flugleiðir kaupa til að endurnýja vél- arnar í innanlandsfluginu. Allar vélarnar koma til landsins á fyrri hluta þessa árs. Nýju Fokker vélinni verður gefið nafn á Akur- eyrarflugvelli og hefur fjöl- mörgum verið boðið til mót- tökuathafnarinnar, enda verið að fagna stórum áfanga. Yfirmenn Flugleiða og samgöngumála verða viðstaddir svo og bæjar- stjóri Akureyrar. Þetta eru vissulega mikil tímamót í samgöngumálum þjóðarinnar og Flugleiðir ráðast í mikla fjárfestingu með því að kaupa fjórar nýj- ar og fullkomnar flugvélar. Þær munu leysa eldri vélar af hólmi í innanlandsflug- inu, en gömlu Fokker vél- arnar hafa reynst ákaflega vel. Þær voru hins vegar orðnar mjög viðhaldsfrekar og dýrar í rekstri og að nokkru leyti komnar úr takt við tímann. Nýju vélarnar eru mun sparneytnari en þær gömlu, hraðfleygari og á allan hátt hagkvæmari í rekstri. Endur- nýjunin hefur því sparnað í för með sér, þegar til lengri tíma er litið, þótt hún sé vissulega kostnaðarsöm. Fokker 50 vélarnar eru hljóðlátari og rúmbetri en gömlu F-27 og ættu farþeg- ar strax að verða varir við stóraukin þægindi, en oft var kvartað yfir hávaða, þrengslum og titringi í gömlu vélunum. Flugleiðir hafa endurnýj- að farkost sinn í millilanda- fluginu og með nýjum vél- um í innanlandsfluginu verður félagið með einn yngsta flugflota í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Koma Ásdísar til Akureyrar í dag er því liður í stórum áfanga í sögu félagsins, áfanga sem mörgum finnst ótrú- legur miðað við að hér er um að ræða lítið flugfélag í fámennu landi. Það er engin tilviljun að fyrsta Fokker 50 vélin kem- ur beint til Akureyrar frá Amsterdam og verður gefið nafn við hátíðlega athöfn á Akureyrarflugvelli. Flug- samgöngur milli Akureyrar og Reykjavíkur eiga sér langa sögu og segja má að Akureyri sé vagga Flug- leiða því þar var Flugfélag íslands stofnað á sínum tíma. Auk þess mun þessi tiltekna vél, Ásdís, fyrst og fremst sinna áætlunarflugi milli Akureyrar og Reykja- víkur. Ekki þarf að minna á það hve landsmenn eru háðir skjótum og öruggum sam- göngum í loft, á láði og legi. Þeir sjá samgöngubót í nýj- um Fokker vélum Flugleiða og því er ástæða fyrir lands- menn alla að fagna í dag. SS Öðruvísi mér áður brá Stefán Þór Sæmundsson Brenglað veruleikaskyn valdhafanna - eða er þetta bara kerlingavæl og kommabaul? Á íslandi búa sæmilega vitibornir menn, þokkalega menntaðir og allduglegir. Nokkrir skara fram úr eins og gengur og gerist en ekki er nein ástæða til að blása sig út af þjóðarrembingi af J)eim sökum. Öðr- um vegnar ekki eins vel í lífinu. A erfiðum stundum stendur fólkið saman, safnar fötum handa Kúrdum og vinnur ýmis góðverk, annars hamast hver í sínu horni, tortrygginn á svip, og reynir að skara eld að sinni köku. Þetta er allt saman ofur eðlilegt, gott og blessað, mannlegt og býsna bærilegt. Hitt finnst mér óeðlilegt, og raunar óskiljanlegt, að þjóðin skiptist í tvo hópa og er hvor með sitt veruleikaskyn. Þá er ég ekki að tala um hina sígildu skiptingu í ríka og fátæka eða hægri menn og vinstri, heldur ríkisstjórnina og fylgismenn hennar annars vegar og fólkið í landinu hins vegar. Þessir mjög svo misstóru hópar hafa afskaplega mismun- andi raunveruleikaskyn. Skal það nú skýrt nánar. Vil ekki trúa mannvonskuskýringunni Það er engum morgunblöðum um það að fletta að það sem í daglegu tali kallast aðgerðir ríkisstjórnar- innar er í rauninni aðför að fólkinu í landinu. í fyrstu hélt ég að þarna væru á ferðinni róttækar sparnaðarráðstafanir, þjóðinni til heilla, en fljót- lega fylltist ég vantrú og snerist á sveif með þeim sem töldu hreina mannvonsku ráða gjörðum hátt- virtrar ríkisstjórnar. Aðrar skýringar voru varla til- tækar á því hvers vegna hún vildi láta námsmenn, sjúklinga, aldraða og barnafólk fylla í fjárlagagatið. En nú er ég líka búinn að missa trúna á mann- vonskuskýringunni. Eftir því sem talsmenn stjórnarflokkanna opna munninn oftar verð ég sífellt sannfærðari um að þeir lifa í öðrum heimi en almenningur í landinu og að raunveruleikaskyn þeirra er stórkostlega brenglað. Nefni ég nokkur dæmi. Sighvatur Björgvinsson kannast ekki við að hann sé að leggja nýjar og auknar álögur á þá sem þurfa á lyfjum eða læknishjálp að halda. Samt verður allur almenningur var við að pyngja þeirra léttist. En Sighvatur kannast ekki við það. Þetta hefur marg- oft komið fram á fundum. Hann sér bara einhverjar milljónir renna í ríkissjóð. Að keyra yfír mann og annan Áfram með dæmin. Geir Haarde sagði í Þingsjár- þætti Sjónvarpsins á dögunum að hann kannaðist ekki við auknar álögur á þá sem minna mega sín. Hins vegar talaði hann um að stjórnarflokkarnir hefðu meirihluta til að koma hinum og þessum mál- um í gegn. Já, ekkert múður, bara keyra málin í gegn í krafti meirihlutans. „Ef menn sýna mótþróa verðum við einfaidlega að keyra yfir þá,“ sagði flokksbróðir Geirs, sjálfur Halldór Blöndal, á baráttufundi sjálfstæðismanna á Húsavík. Hreinskilni ráðherrans er aðdáunarverð. Þetta er einmitt línan sem stjórnin vinnur eftir; að keyra yfir menn. Boðskapurinn kemur líka fram hjá Davíð Oddssyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni og fleirum, þótt orðalagið sé eitthvað heflaðra en hjá Blöndal. Sum sé, ríkisstjórnin kannast ekki við það að hún sé að ráðast á velferðarkerfið og leggja auknar byrðar á almenning. Hún afgreiðir allar mótbárur sem kerlingavæl, kommabaul og framsóknarfret og vill keyra yfir lýðinn. Skera skólana, skeyta ekki um aldraða, refsa foreldrum, ráðast að námsmönn- um, hirta sjúklinga, höggva fatlaða, svíkja kjósend- ur, svipta oss atvinnu. Og auðvitað má ekki hækka launin. Talnaflóð og verndað umhverfí forréttindahópa Jæja, ég má ekki vera allt of ósanngjarn í garð stjórnarinnar og ekki var ætlunin að falla í gryfju bölmóðsins eða að lesa upp úr slagorðabók Ögmundar, sem Sighvatur hefur svo mikið talað um. Eflaust eru margir ágætir einstaklingar í röðum stjórnarliða en þeir þyrftu að kynnast þeim veru- leika sem almenningur býr við, rífa sig upp úr talna- flóðinu og vernduðu umhverfi forréttindahópa. Eflaust væri best ef stjórn og stjórnarandstaða gætu unnið saman og af heilindum með hag fólksins í landinu að leiðarljósi. Séra Pálmi Matthíasson ræddi um þetta á Rás 2 og tók bæjarstjórn Akureyr- ar sem dæmi, en þar unnu minnihluti og meirihluti saman að gerð fjárhagsáætlunar og var hún sam- þykkt samhljóða. En það er þetta með veruleikaskynið og forrétt- indahópana. Atvinnuleysi er skyndilega orðið mik- ið vandamál hér á landi og ekki mun ástandið batna ef skólar fara að vísa nemendum frá í stórum stíl. Þessi þróun verður að skrifast á stefnu ríkisstjórn- arinnar og brenglað raunveruleikaskyn. Stundar- hagsmunir eru settir ofar langtímamarkmiðum. Þetta er því miður framtíðarsýn þorra almenn- ings: Kröpp kjör og atvinnuleysi. En það má ekki krukka í þá sem hafa 200 þúsund krónur og upp í 1 milljón í mánaðartekjur. Jú, vegna mikils þrýstings hafa stjórnarliðar séð sig tilneydda til að minnast aðeins á hátekjuskattinn og hver er niðurstaðan? Ja, hátekjuskattur gæfi ríkissjóði ekki nema 2 millj- arða og jrað er bara brot af vandanum sem er 15 milljarðar! Þannig er málið afgreitt af stjórnarliðum. Ekki nema 2 milljarðar. En hvað þá með 180 milljónirn- ar í grunnskólanum, 200 milljónirnar hér og 300 þar, milljónirnar sem efnalítill almenningur verður að reiða af hendi? Hefði ekki mátt nota þessa 2 milljarða frá efnafólkinu og draga t.d. úr niður- skurðinum í skólakerfinu í staðinn? Nei, þetta getur ekki verið hrein og klár mann- vonska. Þetta hlýtur að vera brenglun.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.