Þjóðviljinn - 08.03.1983, Síða 7

Þjóðviljinn - 08.03.1983, Síða 7
Þriðjudagur 8. mars 1983 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 7 Þjóðleikhúsið: Oresteia Höfundur: Eskýlos Þýðing: Helgi Hálfdanarson Leikstjóri: Sveinn Einarsson Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson Búningar: Helga Björnsson Leikhljóð: Þorkell Sigurbjörnsson Dansar og hreyfingar: Marjo Kuusela Lýsing: Arni Baldvinsson Það var kominn tími til að íslendingar fengju að sjá á sviði verk eftir gríska skáldjöfurinn Eskýlos, elsta leikskáld veraldar þeirra sem skilið hafa eftir sig verk. Eskýlos var fæddur árið 525 fyrir Krist og samdi á rúmum 40 árum um 90 leikrit. Af þeim hafa einung- is sjö varðveist, þeirra á meðal þrí leikurinn „Öresteia“,eini þríleikur sem til er frá þlómatíma grískrar leikritunar á fimmtu öld fyrir Krist. Eskýlos fékk 13 sinnum verðlaun í hinni árlegu leikritasamkeppni sem háð var á hátíð Díónýsosar hinni meiri. Fyrir „Óresteiu“ fékk Eskýlos verðlaunin árið 458, tveimur árum fyrir andlátið. „Ór- ésteia“ var þannig síðasta stórvirki hans og ber hæst þeirra verka sem eftir hann liggja. Efni og aðdragandi þríleiksins hafa verið skilmerkilega rakin bæði í dagblöðum og leikskrá, svo þarf- laust er að fjölyrða um þau efni. Þess skal einungis getið að „Órest- eia“ samanstendur af þremur harmleikjum sem rekja hina skelfi- legu sögu Atreifs konungs í Argos, niðja hans og ættmenna. Fyrsti leikurinn „Agamemnon" greinir frá heimkomu Agamemnons Atr- eifssonar eftir unninn sigur í Tró- justríði, banaráðum konu hans, Klýtemnestru, og eljara, Egisþos- ar, og loks falli hans. Næsti leikur „Sáttafórn" fjallar um fund þeirra systkina Órestesar og Elektru við legstað föður síns, föðurhefnd Ór- estesar og fall þeirra Klýtemnestru og Egisþosar. Þriðji leikurinn fjall- ar um ofsóknir refsinorna á hendur Órestesi fyrir móðurvígið, meðal- göngu goða og endanlega sýknu móðurbanans fyrir atbeina Apol- lons og Aþenu. Uppfrá því verður sú breyting á stöðu refsinorna að þær verða hollvættir. f fyrsta leiknum, „Agamemn- on“, er einkum tvennt sem vert er að draga fram. Annarsvegar meistaraleg lýsing Klýtemnestru sem verður í meðferð höfundar stórbrotin og ógleymanleg per- sóna. Hann lýsir ljóslega þeirri sál- rænu togstreitu sem drottningin er ofurseld, kaldri rósemd þegar hún býður bónda sinn velkominn heim, óhamdri sigurgleði eftir vígið þegar hún stærir sig af hefndinni eftir Ífíg- eníu dóttur sína, og loks þreytu og mæðuró í leikslok. Hinsvegar er það atriðið með Kassöndru, hinni stórættuðu völvu sem Agamemnon flytur með sér heim frá Tróju sem ánauðuga lagskonu. Það atriði er meðal þeirra mögnuðustu í gervöll- um leikbókmenntunum. Kassand- ra kemur að hallarhliðinu ásamt Agamemnon, er hljóð og kyrrlát meðan móttakan fer fram, en þeg- ar hjónin eru gengin í höllina hefur hún harmatölur sínar og spásagnir sem enginn viðstaddra skilur eða leggur trúnað á. Hér verður textinn hvað blæbrigðaríkastur og þan til- finninga næstum óbærilegt. í „Óresteiu" er Eskýlos að fjalla urn ættgenga bölvun vegna hrika- legs ódæðis. Bræðurnir Atreifur og Þýestes eru sekir um glæpi. Agam- emnon er sekur um þann glæp að hafa fórnað dóttur sinni til að fá byr fyrir flota sinn til Tróju. Hann er veginn og það víg getur af sér ann- að víg. Hvenær og hvernig verður bundinn endi á þetta ferli glæpa og hefnda? Um það er Eskýlos fyrst og fremst að fjalla. Hann var maður mjög trúhneigður og fjallar um vandamálið frá trúfræðilegu sjónarmiði sem minnir ekki svo lítið á ýmsa spámenn Gamla test- amentis. í upphafi leiks gefur hann til kynna að þjáningin sé sam- kvæmt guðlegri ráðstöfun eina leiðin til upplýsingar og vísdóms. Þetta þema er síendurtekið af kórnum allt til leiksloka, en megin- stefið er að guðlegt réttlæti byggist á lögmálinu „auga fyrir auga“. í „Hollvættum" er Órestes hinsveg- ar sýknaður af móðurvíginu á for- sendum sem við fyrsta tillit virðast dálítið gerræðislegar, en reynast fullkomlega rökréttar sé höfð hlið- „Annars er sýningin ákaflega metnaðarfull og hefur greinilega ekkert verið til sparað að gera hana sem best úr garði“, segir Sigurður A. Magnússon í leikdómi sínum um Oresteiu. - Ljósm. eik. óresteia sjón af þróun samfélags, trúarhug- mynda og réttarfars í Grikklandi á þeim sjö öldum sem liðu frá Tró- justríði til gullaldarinnar á fimmtu öld fyrir Krist. Með úrskurði Aþ- enu er framkvæmd réttvísinnar tekin úr höndum guða og lögð í hendur mennskra manna, sem tempra réttlæti með miskunnsemi þegar svo ber undir, en hlutverki refsinorna er ekki þarmeð lokið. Þær fá nýtt hlutverk sem hollvættir manna og eiga að vaka yfir því að réttlætinu sé ekki misboðið með meinsæri eða öðrum ósóma. Þær fá nýjan bústað í helli einum í hlíðum Akrópólis skammt frá dómstólun- um á Aresarhæð og skjóta þeim mönnum skelk í bringu sem kynnu að hyllast til að misvirða réttvísina. Niðurstaða Eskýlosar er í raun- inni samkynja því sem gerist í Jobs- bók þegar guð ávarpar Job úr storm viðrinu. I lok „Óresteiu“ kemur fram eingyðishugmynd þarsem guðdómurinn er í senn réttlátur og miskunnsamur, þarsem „Seifur" og „Örlögin“ renna saman, og fyrir vísdóm þessa „nýja guðdóms" get- ur maðurinn gert sér vonir um að öðlast vísdóm og lífsfyllingu með því að þjást. Hér hefur verið vikið að megin- stefi þríleiksins, en vitanlega vísar hann til margra átta í senn, til dæm- is til þeirra forsögulegu hvarfa þeg- ar karlaveldið var að festa sig í sessi og uppræta síðustu leifar næðra- veldis, og til margra atvika í sam- tíma Eskýlosar sem felld eru inní verkið af miklum hagleik. Sveinn Einarsson á heiðurinn af því að við höfum loks fengið að sjá verk eftir Eskýlos á hérlendu sviði. Hann hefur tekið til handargagns snilldarþýðingu Helga Hálfdanar- sonar á „Óresteiu", stytt hana um rösklega helming og gert úr leikrit- unum þremur eitt samfellt verk. Hefur sú úrvinnsla tekist mætavel, þannig að óvíða hattar fyrir, og engu sem verulega máli skiptir hef- ur verið sleppt. Afturámóti má deila um þann hátt að taka byrjun- ina á þriðja leiknum og skeyta henni framanvið „Agamemnon", þannig að „Hollvættir" umlykja hin tvö leikritin. Mér fannst sýn- ingin ekki græða neitt á þeirri að- gerð, því hún sundraði verkinu fremuren þétti það. Annars er sýningin ákaflega metnaðarfull og hefur greinilega ekkert verið til sparað að gera hana sem best úr garði. Leikmynd Sig- urjóns Jóhannssonar er vegleg og stór í sniðum, hallarmúr og hlið rammger og stílhrein, skraut á dyr- um og bakvegg klassískt og há- grískt. Búningar Helgu Björnsson eru litríkir og efnismiklir, enda voru Grikkir hetjualdar tildur - Sigurður A. Magnússon skrifar um leikhús samir og litaglaðir. Það eina sem kannski má finna að er liturinn á skikkjum refsinorna eftir að þær skipta um hlutverk: þá eiga þær að réttu lagi að klæðast purpura- rauðum skikkjum. Kannski var hvíti liturinn valinn til samræmis við búnað dómenda, og er ekki veigamikið atriði. Grímur öldunga og norna eru sömuleiðis dverga- smíð. Lýsing Árna Baldvinssonar var hnitmiðuð og átti verulegan þátt í að gera sýninguna svo mynd- ræna sem raun bar vitni. Leikhljóð Þorkels Sigurbjörnssonar voru áhrifasterk og lög hans angurvær og ljúf á að hlýða. Þýðing Helga Hálfdanarsonar er á upphöfnu, auðugu og dálítið fornlegu máli sem hæfir vel þessu forna snilldar- verki, en á stöku stað er orðafarið nokkuð svo tyrfið og ekki auðnum- ið þegar leikendur ber ört á. En það er mikil reisn yfir textanum og skáldleg fegurð sem stundum lyfti orðræðum persóna til flugs. Sviðsetning Sveins Einarssonar var um margt athyglisverð þó að ýmsu megi finna. Hún er með sam- felldum glæsibrag og myndræn í besta lagi. Hinsvegar fannst mér stílruglingúrinn alls ekki til bóta og síst færa verkið nær áhorfendum. Ég held það sé mikill misskilingur að reyna að koma til móts við leikhúsgesti með því að fleyga sýn- inguna með atriðum sem látin eru gerast í nútímanum, einsog gert var í upphafi og nálægt lokum sýning- ar. Verkið talar beint til okkar með öllum sínum þunga án þvílíkra hjálparmeðala. í þessum tilteknu atriðum urðu refsinornirnar beinlínis skoplegar og týndu bæði ógn sinni og tilgangi í leiknum. Ég kom ekki auga á neitt í þessum at- riðum sem réttlætti stílrofin, og dansatriðið með ljósaganginum og tilheyrandi tónlist kom einsog sjálfur skrattinn úr sauðar- leggnum. Þegar þessum annmörkum sleppir var sýningin í mörgum greinum mjög svo áhugaverð. Það er ákaflega erfitt að sviðsetja gríska harmleiki á hefðbundnu nútímaleiksviði svo vel sé, því þeir voru samdir fyrir hringsvið með upphækkandi bekkjaröðum á þrjá vegu kringum sviðið. Kóratriðin njóta sín aldrei fyllilega á annars- konar sviði, og hjá Eskýlosi gegnir kórinn afarmikilvægu hlutverki, er í senn hlutlaus áhorfandi þess sem gerist, virkur þátttakandi þegar svo ber undir og málpípa höfundarins með margvíslegum athugasemdum um gang leiksins og tengsl hans við fortíð og samtíð. Sveinn Einarsson hefur leyst vanda kóratriðanna á mjög skynsamlegan hátt með því að brjóta upp kórtextana og láta einstaklinga flytja þá eftir því sem við á. Með því móti verða textarnir fjölbreytilegri, skýrari og áheyri- legri. Grímur eru hinsvegar not- aðar til að gefa kórum öldunga og norna þann heildarsvip sem til er ætlast. Textameðferð í sýningunni var yfirleitt skýr þannig að gullvægar ljóðlínur skáldsins skiluðu sér til áheyrenda. Afturámóti þótti mér nokkuð skorta á þunga eða sann- færingu bakvið það sem sagt var. Alltof oft höfðu orðræður einhvern holan hljóm einsog hugur fylgdi ekki máli hjá leikendum. Átti það ekki síst við um öldungana og nornirnar. Að mínu mati voru nornirnar helsti hástemmdar og brussulegar, þannig að ógnvænleg návist þeirra gufaði einatt upp í hrópum og ólátum. Nornirnar eru síst af öllu grínfígúrur í þessu verki, en í sýningunni voru þær tíðum á mörkum þess skoplega, og hefði lágstemmdri og ísmeygilegri túlk- un verið meir við hæfi. Þrír leikendur báru af um blæ- brigðaríka framsögn og þann innri þrótt sem túlkun harmleiks út- heimtir, og er ég þá hvorki að biðja um realisma né natúralisma, held- ur túlkun sem geri tilfinningar og ástríður persónanna ljóslifandi á sviðinu ánþess að skyggja á eða draga úr þeirri táknrænu merkingu sem persónur harmleiks jafnan hafa. Helga Bachmann lék Klýt- emnestru af sönnum myndugleik og næstum óbrigðulu næmi á geðsveiflur og sálarkröm hinnar aðþrengdu drottningar, var jafn- ljóslifandi í sigurgleði sem örvænt- ingu, en varðveitti þá listrænu fjar- lægð sem hefur persónu Klýtemne- stru yfir stað og stund og ljær henni sígilda og táknræna æðri skír- skotun. Anna Kristín Arngrímsdóttir lék lítið en mikilvægt hlutverk Kass- öndru og náði eftirminnilegum tökum á því með blæbrigðaríkri framsögn og sterkri túlkun flók- inna tilfinninga, þannig að atriðið fékk þá ógnvænlegu táknrænu merkingu sem lyfti því í veldi goðsögunnar. Hjalti Rögnvaldsson lék marg - slungið hlutverk Órestesarog átti víða mjög góða spretti, einkanlega í átökunum við Klýtemnestru og seinna á flóttanum undan refsi- nornum, en kannski hefði fyrsti fundur þeirra systkina getað verið áhrifaríkari. Þar er að vísu líka við höfundinn að sakast, því hann gerir minna úr þessu tilfinningahlaðna atriði og reyndar einnig fyrsta fundi Órestesar og Klýemnestru en efni virðast standa til. Obbinn af leikurum Þjóðleik- hússins tók þátt í þessari glæstu og viðamiklu sýningu og hefði því mátt gera ráð fyrir mikilli reisn og eftirminnilegum tilþrifum, en því miður vantaði víða sálina í túlkun leikenda. Mér er vel ljóst að mik- inn galdur og sérstaka leiktækni þarf til að gera hinn forna og há - fleyga texta lifandi og hugtækan. Þann galdur höfðu of fáir leikenda á valdi sínu. Þarfyrir var sýningin merkilegur viðburður og átti greinilega erindi við leikhúsgesti, ef marka mátti langvinnt lófatak að lokinni frumsýningu. PS. Mér er það nokkur ráðgáta hversvegna nafn hins gríska snill- ings er ekki einfaldlega skrifað Eskýlos, einsog það er borið fram á grísku og flestum tungum Evrópu. Sama máli gegnir um Egisþos sem í þessari þýðingu nefnist Ægistos. Afturámóti er smíðaguðinn He- festos réttnefndur eftir grískum framburði, en ekki kallaður He- fæstos. Þarsem grískt letur er ann- arskonar en okkar letur á vitanlega að skrifa grísk orð sem næst fram- burðL Sigurður A. Magnússon

x

Þjóðviljinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.