Þjóðviljinn - 21.12.1984, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 21.12.1984, Blaðsíða 11
_____________AFMÆLI_____________ Þorsteinn Ö. Stephensen áttrœður Svo langt er liðið á öldina, að jafnvel virðulegir öldungar geta ekki lengur kallazt aldamóta- menn. En sá maður, sem hér er til umræðu, er þó án alls efa tíma- mótamaður, fyrir nú utan það, að hann er fæddur á sólstöðudegi vetrar, svo að koma hans í ver- öldina hefur skemmtilega táknrænt gildi. Þorsteinn Ögmundsson Steph- ensen var starfsmaður Ríkisút- varpsins nærfellt fjóra áratugi, fyrstu árin sem þulur en eftir það leiklistarstjóri. Afbragðsvel sómdi hann sér við þularstörfin, því að raddhreimur og raddbeit- ing lét einkar vel í eyrum. Bjó hann við mikið dálæti hlustenda, svo að hagmælt fólk hér og hvar gerði um hann hólvísur - jafnvel heitar ástavísur. En þegar Þorsteinn tók við stjórn á leiklistarflutningi út- varpsins urðu réttnefnd tímamót fyrir stofnunina og landsmenn. Hann hóf útvarpið upp á hátt svið - ég leyfi mér að segja hæsta svið - sem leiklistartæki, og fyrir það stöndum við öll í stórri þakkar- skuld við Þorstein. í þessu emb- ætti nutu sín hið bezta eðliskostir hans. Hann er hinn fróðasti um bókmenntir, leikbókmenntir ekki sízt, og því valdi hann tíðum til flutnings hin mestu úrvals- leikrit, gömul og ný, frá ýmsum löndum heims. Hann er íslenzku- maður fágætlega góður, og því vandaði hann þýðingar á leikrit- um, leitaði allajafna til hæfustu þýðenda og fór svo sjálfur yfir verkið áður en fjölritað var, svo að ekkert færi milli mála. Hann var líka vandur að leikstjórum og hafði hönd í bagga um leikaraval, en sjálfur stjórnaði hann oftlega leikritum, einkum framan af. En svo var hann líka atkvæðamikill útvarpsleikari, og hika ég ekki við að telja hann mesta leikarann í því víðfeðma leikhúsi okkar. Mörg hlutverk lék hann af snilld fyrirsjónum Reykvíkinga, en hin eru þó langtum fleiri, sem hann skilaði beint inn í brjóstið á heilli þjóð á einu og sama kvöldi, mörgum þeirra óafmáanlega. Kemur þá aftur við sögu hreimur og beiting raddar, þar sem innsæi skapgerðarleikarans er driffjöðr- in. Sem betur fer geymir leiklist- ardeild útvarpsins hljóðritanir af mörgum þessara verka, svo að hægt er að endurflytja þau hve- nær sem er, til upprifjunar hinum eldri og til nýrrar reynslu yngri kynslóð. Nokkrar útgáfuplötur geyma og leikflutning hans, fyrst og fremst í hlutverki Arnars Arn- æusar í íslandsklukkunni. Ógetið er þess, að Þorsteinn var lengi einhver virtasti upples- ari landsmanna, bæði í útvarpi og á samkomum. Einkum fór hon- um vel að flytja bundið mál, enda er hann skáldmæltur vel og hefur brageyra í betra lagi. Er mér minnisstætt - og áreiðanlega öðr- um ferðafélögum - er hann stóð hátt í túni á Hlíðarenda eitt sinn í sumarferð útvarpsfólks og fór utanbókar með Gunnarshólma Jónasar. Sá flutningur bregður björtum glampa inn í minning- una. Þegar útvarpsfólkið almennt ber á góma, er þess vert að minn- ast, að Þorsteinn var fyrsti for- maður Starfsmannafélags út- varpsins, sem stofnað var 1936, og var löngum áhugasamur um félagsmál. En þótt hann væri fundarmaður góður, nýtur hann sín þó ennþá betur í þrengra hópi. Hann er fjölfróður mjög og gæddur ríkri kímnigáfu, svo að orðræða hans verður leiftrandi á góðri stund. í brag, sem ég setti saman við brottför hans frá út- varpinu fyrir áratug og gerður er bæði í gamni og alvöru, er komið að þessu: Vérsöknum þess sviptigna manns og svipríkrar frásögu hans. Þar var munúð í orðum og mungát á borðum við hlátursins dillandi dans. Og undir lok bragsins eru svo þessar hendingar: Og listin að leika er hans lífœð með sérstökum glans. Hann lifir í leiknum, svo að lýsir af kveiknum langt inn í launhelgar manns. Þar sindra bezt sannleikans orð, þar svigna mest reiðinnar borð svo að hlustendur standa og hœtta að anda. Þeir hrífast, svo sterk er sú storð. Nú er þessi mikilsvirti lista- maður orðinn áttræður. Því mið- ur hefur rómur hans hinn snjalli orðið að láta undan síga fyrir astmahæsi, svo að okkur gefst ekki að njóta hans að ráði í nýjum hlutverkum. En hvað um það. Þorsteinn kveinkar sér lítt, unir sér við lestur góðra bóka, nýtur beztu aðhlynningar hinnar mætu eiginkonu sinnar og nýtur þess einnig að fylgjast með frama list- rænna barna þeirra hjónanna og einnig þroska margra barna- barna. Óg þá kemur mér í hug, þegar börn eru nefnd, að Þor- steinn sá um barnatíma útvarps- ins árum saman. Þá orti hann t.d. hina alkunnu jólasveinasöngva, sem komu síðar út í bókinni „Krakkar mínir, komið þið sæl“, sem er einmitt nýkomin út í fjórða sinn. Alþingismenn ákvarða að ríkið skuli veita nokkrum hóp lista- manna heiðurslaun, kjarna ís- lenzkra listamanna að þeirra dómi. Er þessi heiður látinn hald- ast til endadægurs. Nú munu vera milli 15 og 20 manns í þessum hópi, en þar er ekki Þorsteinn Ö. Stephensen, og þykir mér það ósæmandi í meira lagi. Við stát- um okkur oft af miklum leiklist- arþroska í landinu og almennum áhuga á leikhúsmálum. Því mætti ætla, að ekki væri um of að 2-3 mikilhæfir leikarar skipuðu heiðursflokkinn hverju sinni, en þar er aðeins einn slíkur fyrir. Þorsteinn á einstaðan lista- mannsferil að baki, þar sem sam- an kemur flest eða allt hið traustasta í menningarlegri fram- sókn á því sviði. Honum þakkir - og heill. Baldur Pálmason Þorsteinn Ö. Stephensen er áttræður í dag. Einn okkar mikil- hæfustu leikara, sem um áratuga skeið hefur auðgað tilveru leikhúsgesta og útvarpshlust- enda; sá leikari, sem við öll, utan leikhúss og innan virðum ekki að- eins sem einn af frumkvöðlum ís- lenskrar atvinnuleiklistar, heldur einnig sem einn gáfaðasta og fjöl- hæfasta listamann okkar - og er þá reyndar rétt að minna á þá hneisu, að þjóðin skuli ekki enn hafa séð sóma sinn í að veita hon- um heiðurslaun listamanna. Mig langar, Þorsteinn, að senda þér fáein kveðjuorð á þessum degi og þakka þér einstaklega ánægju- lega samvinnu og kynni á liðnum árum, fyrst í Leiklistardeild út- varps og síðan í starfi á leiksviði Þjóðleikhússins. Ekki ætla ég að rekja hér til neinnar hlítar leik- eða starfsferil Þorsteins, en strax í menntaskóla vakti hann athygli fyrir leikhæfi- leika, fór síðan utan til náms við Konunglega leikhúsið í Kaup- mannahöfn og hóf leik með Leikfélagi Reykjavíkur strax eftir heimkomuna. 1934 lék hann fyrstu stóru hlutverkin: Jeppa á Fjalli og Dag Vestan í Straumrofi Laxness við góðan orðstír. Þor- steinn lék síðan svo til óslitið með Leikfélaginu allt fram undir 1970 og gegndi auk þess forystu- og stjórnarstörfum, var ma. formað- ur félagsins í tvígang. Þegar Þjóðleikhúsið tók til starfa 1950 og við lá, að Leikfélag Reykja- víkur yrði lagt niður, skipaði Þor- steinn sér í sveit forystumanna félagsins og hóf starfsemina til vegs og virðingar á næstu árum, þótt hann léki reyndar einnig í Þjóðleikhúsinu strax við vígslu þess Björn hreppstjóra í Fjalla- Eyvindi og Arnars Arnæus í ís- landsklukkunni. Á leikferli sínum hefur Þor- steinn sjaldan, ef nokkurn tíma brugðist og þegar skoðaðir eru leikdómar um hann, er hrannað þar upp hrósyrðum af slíkri rausn, að fylla mætti lesendur efasemdum, ef ekki hefðu sjálfir sannreynt réttmæti þeirra. Tví- vegis hlaut hann Silfurlampann, viðurkenningu íslenskra leik- gagnrýnenda: fyrir leik sinn sem Crocker-Harris í Browningþýð- ingunni 1957 og fyrir pressarann í Dúfnaveislu Laxness 1966. Með- al annarra stórra og mikilverðra hlutverka hans má nefna Brynj- ólf biskup í Skálholti, Wilícins dómara í gamanleiknum Elsku Rut, sem ég reyndar nefni hér af því að þar sá ég Þorstein fyrst á leiksviði, þá sex ára gamall, og er mér enn minnisstætt; Lenna í leikritinu Mýs og menn, Róbert Belford í Marmara, Krans kam- merráð í Ævintýrinu, Jean Valje- an í Vesalingunum, Þorleif al- þingismann í Kjarnorku og kven- hylli, gamla manninn í Stólunum og Davíð í Sumrinu ’37 og er þó fátt eitt talið. Á síðustu árum hefur Þor- steinn verið alltof sjaldséður á leiksviði, síðast lék hann Firs í Kirsuberjagarðinum hjá LR 1980 og Örnólf í Stundarfriði Guð- mundar Steinssonar í Þjóðleik- húsinu 1979-81. Fyrir þann tíma langar mig sérstaklega að þakka þér, kæra afmælisbarn og félagi. Vinnan við Stundarfrið er ein- hver ánægjulegasta endurminn- ing undirritaðs úr leikhússtarfi og ekki síður ferðirnar og vináttan, sem í kjölfarið fylgdi. Reyndar starfaði ég með Þorsteini á Leiklistardeild útvarpsins um skeið og aðdáun mín á honum sem listamanni var rótgróin en það var í raun ekki fyrr en í ferð- alögunum um þvera og endilanga Evrópu að mannkostir hans birt- ust mér til hlítar. Við sem mótuð- urn fjölskylduna brjóstumkenn- anlegu í leikritinu hans Guð- mundar urðum reyndar sjálf eins og stór fjölskylda á þriðja ár vegna tíðra ferða á leiklistarhá- tíðir erlendis, sýninga, enduræf- inga og loks sjónvarpsupptöku. Aldrei féll þar styggðaryrði og ekki var streitunni fyrir að fara í fjölskyldunni þeirri, þar áttir þú stóran hlut að máli, Þorsteinn. Ógleymanleg er okkur rík kímni- gáfa þín og hlýja, sem yljaði okk- ur og kætti á löngum og erfiðum ferðum. Þegar flett er leikdómum um afrek Þorsteins á leiksviðinu rek- umst við aftur og aftur á orð eins og höfðinglegur, snjallmæltur, háðskur; heill, hnitmiðaður og sannur. Með góðri samvisku og svo langt sem leikhúsreynsla mín og minni nær, tek ég í lotningu undir þessi ummæli en þau eiga svo sannarlega ekki síður við manninn á bak við hlutverkin. Vilji maður endilega leita uppi einhverjar aðfinnslur, má segja, að líkamleg tilþrif hafi ef til vill ekki verið meðal fyrirferðar- mestu þáttanna í leik Þorsteins, enda lítt ginnkeyptur fyrir koll- steypum og handahlaupum ým- issa yngri spámanna úr röðum svonefnds hreyfileikhúss, sem ég held reyndar að Þorsteinn af sinni alkunnu kímni hafi fyrstur manna nefnt „svitalyktarleikhús". Með- ferð Þorsteins á íslensku máli í leik og utan hefur nálgast það að vera óaðfinnanleg, og allra manna best kann hann þann gald- ur í list sinni að vera eðlilegur, geta látið hverja setningu hljóma, sem væri hún að kvikna í fyrsta sinn á sviðinu þá stundina, hugsuð af viðkomandi persónu og óhugsandi í munni annarra. Kæra afmælisbarn, ég vona, að þú sért búinn að fyrirgefa mér það, þegar ég lét hífa þig upp undir rjáfur í Þjóðleikhúsinu á rósrauðu skýi í Góðu sálinni og dúsa þar dágóða stund kvöld eftir kvöld og að ég skuli ekki enn hafa kornið í verk, að endurnýja kynni mín af pressaranum góða nema í leiklestrarformi á friðarsam- komu í fyrra. En ég veit að ég mæli fyrir munn okkar allra í Stundarfriðs-fjölskyldunni og gömlu félaganna hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þegar ég óska þér alls góðs á ókomnum árum um leið og ég vona, að við eigum enn eftir að njóta krafta þinna á leiksviði, ekki bara einu sinni heldur oft. Stefán Baldursson í dag þegar Þorsteinn Ö. Stephensen leikari fyllir áttatíu ár er það með einlægri virðing og þökk sem Félag íslenskra leikara sendir honum sínar bestu heillaóskir. íslenskir leikarar eiga honum skuld að gjaida, bæði í listrænu og fé- lagslegu tilliti, sem aldrei verð- ur að fullu goldin. Það væri hrein fásinna að ætla sér í þessari klausu að gera nokk- ur viðhlítandi skil þeim merka þætti sem Þorsteinn hefur átt í leiklistarmálum íslendinga. Er þess að vænta að þeirri sögu verði gerð skil af þeim sem til þess eru betur hæfir. Aftur á móti er mér það ljúft og skylt að nefna hér þann hlutann af lífsstarfi Þor- steins Ö. Stephensen sem snýr að félagsmálum íslenskra leikara þó aðeins í stuttu máli sé. Mun á engan hallað þó sagt sé að Þor- steinn hafi verið einn aðal hvata- maðurinn að stofnun Félags ís- lenskra leikara. Var hann enda kosinn fyrsti formaður þess og gegndi því starfi fyrstu sjö árin. Islenskir leikarar búa enn að því starfi sem þá var unnið og aldrei verður fullþakkað. Enda þótt með tímanum hafi aðrir menn tekið við forystustörf- um í félaginu hefur Þorsteinn alla tíð verið virkur félagsmaður og látið sig varða hvernig unnið hef- ur verið að þeim markmiðum sem því voru sett í öndverðu og enn eru í fullu gildi. Á þessu fékk undirritaður að kenna þegar Þor- steini þótti ungir menn fara offari í að breyta og bylta því sem þeim þótti úrelt og gamalt í félaginu. Vorum við Þorsteinn þá settir saman í nefnd til að jafna ágrein- inginn, og þó ekki verði sagt að þau nefndarstörf hafi gengið át- akalaust, var það mikil og dýr- mæt reynsla fyrir byrjandann þegar Nestorinn tók hann á hné sér og leiddi hann í ýmsan sann- leika um félagsmál leikara. Samt sem áður tókst okkur ekki að verða sammála um alla hluti í nefndinni og varð aðalfundur að skera úr um sumt. Tel ég mér skylt að játa það hér og nú að betur hefði ég tekið meira mark á efasemdum Þorsteins um ágæti ýmissa þeirra breytinga sem þá voru gerðar (þú veist hvað ég meina, Þorsteinn!). Um leið og ég flyt Þorsteini bestu árnaðaróskir frá Félagi ís- lenskra leikara ásamt þakklæti fyrir störf hans vil ég nota tæki- færið og þakka fyrir mig, að hafa fengið að starfa með honum og læra af honum, bæði í félagsmál- um og í starfi hans sem leikari. f.h. Félags íslenskra leikara Sigurður Karlsson. Föstudagur 21. desember 1984 ÞJÖÐVILJINN - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.