Þjóðviljinn - 12.08.1986, Síða 5
stutt
Þroskaþjalfun
Starfsfólk stoppar
Rætt við Kristjönu Sigurðardóttur þroskaþjálfa um starf
hennar á Kópavogshæli og málefni þroskaheftra
Kristjana Sigurðardóttir
deildarþroskaþjálfi í Hús-
inu, sambýli fyrir þroska-
hefta í Kópavogi, hefur
starfað með þroskaheftu
fólki síðan 1960. „Þegar ég
var að læra þá vorum við
kallaðar gæslusystur, og
það lýsir ágætlega viðhorfi
þeirra tíma,“ sagði Krist-
jana. Hún er fædd á Kúvík-
um í Reykjafirði en uppalin
ásamt níu systkinum á
Djúpuvík. Áhugann á starf-
inu telur hún að hún hafi
fengið strax sem barn á
Ströndunum því þar var
töluvert af vangefnu fólki
sem flakkaði milli bæja og
var á hálfgerðum vergangi.
„Margt af þessu fólki myndi
vera á sambýli sem Húsinu í
dag,“ sagði Kristjana. „En það
var alls staðar tekið vel á móti
því, kannski vegna þess að þetta
var lítill hreppur og einangraður
þannig að allir þekktu alla og
tóku þeim eins og þeir voru. Við
krakkarnir ólumst því upp við að
líta á vangefna sem eðlilegan hlut
í tilverunni.
Kobbaskeið
var úr silfri
Ég man vel eftir einum manni
sem kom stundum heim, sá var
kallaður Kobbi. Hann var mjög
matlystugur og fékk að borða hjá
okkur með sérstakri skeið úr silfri
sem var kölluð Kobbaskeið.
Mamma dreif upp veisluborð
þegar hann kom og við krakkarn-
ir horfðum á hann borða eða
skófla í sig matnum með stóru
skeiðinni. Einu pari man ég líka
eftir sem lifði á því að flakka á
milli bæja og alls staðar var það
leyst út með matargjöfum og
klæðnaði. Mitt viðhorf hefur
mótast af þessu og mér hefur
alltaf liðið vel með þessu fólki.
En þegar ég sagði systkinunum
mínum að ég ætlaði að læra þetta
þá varð allt vitlaust. Pabbi og
mamma stóðu þó með mér og ég
fór í skólann 1960. Þá bjuggu
nemendurnir inn á.Kópavogshæli
því það var þá svo út úr að við
gátum ekki búið í Reykjavík og
farið á milli því starfið hófst
klukkan sex á morgnana. Þá átt-
um við að vekja vistmennina og
sennilega heftir reksturinn á
þessu verið hugsaður þannig að
þetta var rekið einsog spítali.
Kópavogshælið var í tveimur hús-
um, karla- og kvennahúsi en
blandað var á deildunum getu-
lega séð. Þetta voru einu bygg-
ingarnar og stóðu austan við
gamla Holdsveikispítalann. Það
var búið við þröngan kost en upp
úr þessu var byrjað að byggja
lengjuna sem er núna deildir 7-
10.
Þá byrjuðu öfgarnar í bygging-
unum í öfuga átt að mínu mati.
Þetta var byggt flannastórt og átti
að vera svo bjart og flott. En
gangarnir eru svo stórir og vega-
lengdirnar svo miklar að það er
mjög óhentugt. Manneskjulega
hliðin gleymdist alveg. Vangef-
inn einstaklingur verður að labba
marga tugi metra á milli vistar-
vera.
Nálægð við annað fólk er van-
gefnum mjög mikilvægt og þess
vegna finnst mér svo gott að
vinna í Húsinu sem er skipulagt
einsog venjulegt heimili. Og ég
finn stóran mun á vistmönnum
sem hafa dvalist á fjölmennari og
stærri deildum áður. Öryggis-
kenndin eykst og það er staðr-
eynd að það er ekki hægt að vinna
með þroskaheftum einstak-
lingum fyrr en þeir geta treyst á
umhverfið og mann sjálfan. I litl-
um sambýlum geta þeir heldur
ekki einangrað sig og allt starf
verður auðveldara."
Troðlð á
deildunum
- Aðstaðan hlýtur þó að vera
betri en þegar þú hófst störf
1960?
„Jú vissulega. Húsnæðið í þá
daga var þó ágætt miðað við
þeirra tíma mælikvarða, en það
gekk erfiðlega að fá starfsfólk.
Hælið var útúr og Strætisvagnar
Kópavogs ekki farnir að ganga.
Aðeins einn starfsmaður var á
kvöldvakt en vistmennirnir fóru
snemma í háttinn, annars hefði
þetta ekki gengið. Það var troðið
á deildunum og þá varð Kópa-
vogshæli að taka við öllum sem
komust ekki að á öðrum stöðum,
tii dæmis á Skálatúni eða Sól-
heimum. Við fengum líka marga
frá Kleppjárnsreykjum. Það sem
bjargaði miklu var að þarna voru
duglegir vistmenn sem gátu
hjálpað mikið til. í dag eru ein-
staklingar sem vinna með okkur á
Hælinu sem voru þar þegar ég
byrjaði. Ég man eftir einum sem
vakti okkur alltaf á réttum tíma á
morgnana en við vissum aldrei
hvort hann kunni á klukku. Það
veitir þessu fólki lífsfyllingu að
hafa slíkt hlutverk og það er mjög
mikilvægt.
í dag fylgjast þau vel með öllu
sem varðar starfsfólkið og fjöl-
skyldulíf þess, spyrja eftir börn-
unum og þess háttar.“
- Hver eru helstu vandkvæðin í
þessu starfi?
„Alvarlegasti vandinn er sá að
starfsfólk helst svo stutt við vegna
lágra launa. Það er mjög erfitt
fyrir vangefna að þurfa að laga sig
að tugum starfsfólks um ævina og
gerir allt erfiðara. Ef maður fer í
sumarfrí þá halda þau að maður
sé að hætta, svo vön eru þau
örum mannabreytingum. Okkur
finnst slæmt ef börn okkar þurfa
að skipta um kennara og vitum að
það eykur á öryggisleysi þeirra.
Vangefið fólk þarf alltaf að búa
við þetta öryggisleysi og eins og
ég nefndi áðan þá er ekki hægt að
vinna með vangefnum nema
kynnast þeim og vinna traust
þeirra.
Kallaði okkur
líknarsystur
Þetta er vandamál í öllum upp-
eldisstéttum í dag sem þarf að
leysa. í þetta nám ætti enginn að
fara nema að áhuginn sé svo mik-
ill að hann geti verið í þessu í
langan tíma en staðni þó ekki.
Margir halda að þeir sem vinna
með þroskaheftum séu svo „gott“
fólk en það er ekki nóg og raunar
rangur skilningur. Ein frænka
mín kallaði okkur alltaf „líknars-
ystur“ en ekki gæslusystur því
hún misskildi starf okkar alveg.
Þroskaþjálfastarf byggist heldur
ekki eingöngu upp á fagmennsku
þó hún sé nauðsynleg. Sterk
skapgerð og þolinmæði eru
nauðsynlegir eiginleikar. Þetta er
bæði líkamlega og andlega erfið
vinna og áhugi á málefninu er því
nauðsynlegur. Það er eðlilegt að
hver starfsmaður geti ekki unnið í
langan tíma við ströng prógrömm
einsog til dæmis atferlismótun
krefst og sumir finna sig best í að
starfa með fullorðnum einstak-
lingum í sambýli.
Þetta er sú vinna sem ég kann
best við, og eitt atriði finnst mér
mikilvægt hér í Húsinu. Á
matmálstímum sitjum við öll við
kringlótt eldhúsborð en í gamla
daga þá sat allt fólkið við stór
langborð og svo var bara
skammtað á línuna. Minn
draumur er að keypt verði upp
ein gata með litlum húsum og
fólkið búi við skipulag einsog er í
Húsinu. Það væri áreiðanlega
ódýrara þegar upp væri staðið og
langtum betra fyrir fólkið.
Það er engin lausn að kaupa fín
og dýr einbýlishús í einhverju út-
hverfi þar sem enginn veit að íbú-
arnir eru vangefnir, þau geta ein-
angrast jafnmikið þar og inni á
stórri stofnun."
Mestu framfarirnar |
voru að opna
stofnunina
- Helstu framfarirnar í málefn-
um þroskaheftra?
„Það eru lyfin meðal annars.
Nú eru komin mikið betri lyf,
bæði við geðkvillum sem oft
fylgja vangefni og eins floga-
veikilyf. Mestu framfarirnar eru
þó þær að opna stofnunina meira
og leyfa vistmönnum að fara um
og hafast eitthvað að. Fólk sem er
fullt af ónotaðri orku hneigist
alltaf meira til óæskilegs atferlis.
Það var til mikilla bóta þegar
vangefnir fóru að fá vasapeninga
sem þeir geta ráðstafað að eigin
vild. Þessir peningar gera okkur
kleift að fara með þeim í bíó,
leikhús og svo framvegis. Áður
borguðum við starfsmennirnir
stundum slíkt úr eigin vasa og
gátum þar af leiðandi lítið farið
með þau. Það voru engir pening-
ar til og ef einhver átti afmæli þá
kom fyrir að við borguðum gjafir
sjálf. Núna geta þau keypt jóla-
og afmælisgjafir handa hvort
öðru og ættingjum. Þau hafa
mjög mikla ánægju af að fara í
bæinn og versla og mér hefur
alltaf fundist mjög gaman að
halda upp á jólin með þeim, gleð-
in er svo mikil.“
- Að lokum, mikilvægustu at-
riðin til bóta fyrir þroskahefta
einstaklinga?
„Að unnið sé með fáum í litlu
rými og að kjör starfsfólks séu
bætt til þess að það haldist lengur
við í starfinu. Við mundum sjálf
varla vilja búa með hundruðum
einstaklinga yfir ævina og því ætt-
um við þá að ætlast til þess að
vangefnir þurfi þess?“
-vd.
Kristjana Sigurðardóttir þroskaþjálfi: starf þroskaþjálfa er mjög krefjandi, bæði líkamlega og andlega, og ófaglært starfsfólk er okkur því mikil stoð. Mynd E.ÓI.
Þriðjudagur 12. ágúst 1986 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 5