Þjóðviljinn - 31.08.1986, Blaðsíða 17
Nafn vikunnar
verðurm
ruvís
Einar Sigurðsson útvarpsstjóri: Við erum staðráðin í að standa
okkur
Bylgja íslenska útvarpsfél-
agsins fór fyrst í loftið í vikunni
og hefur verið áberandi á
fréttasíðum dagblaða og í út-
varpsfréttum fyrir bragðið.
Einar Sigurðsson er útvarps-
stjóri Bylgjunnar og nafn vik-
unnar hjá okkur í þetta sinn.
Einar fæddist á Akureyri 30.
júní 1955. Hann var fyrsta barn
hjónanna Sigurðar Bárðarsonar
og Sigríðar Einarsdóttur, en
systkinin eru nú fjögur. Einar
varð stúdent frá MA, en fluttist
tvítugur til Reykjavíkur. Árið
1978 fór hann til Bretlands að
læra fjölmiðlafræði og
stjórnmálafræði, en kom heim á
ný fjórum árum seinna að námi
loknu. Þá réðist hann sem frétta-
maður á útvarpið, en eftir
skamma viðdvöl þar færði hann
sig yfir á sjónvarpið og starfaði
þar sem fréttamaður þar til í vor
að hann var ráðinn útvarpsstjóri
Bylgjunnar. Þá hafið þið það.
Hvað kostar svona útvarpsstöð
Einar?
„Það er nú ekki alveg ljóst
hvað þetta kostar en þó telur það
einhverjar miljónir. Þú getur sett
upp ýmsar gerðir útvarpsstöðva,
en við ákváðum að setja upp
vandaða stöð og það er ýmislegt
ógert enn, svo það á eftir að
koma betur í ljós hvað þetta kost-
ar.“
Og hvaðan kemur svo féð?
„íslenska útvarpsfélagið er al-
menningshlutafélag og eigendur
eru á annað hundrað. Hlutabréf
voru uppseld þegar fyrirtækið tók
að fullu til starfa. Þetta kemur úr
ýmsum áttum.“
Standið þið ekki á brauðfótum
enn sem komið er?
„Ekki vil ég nú segja það, nei
nei. Við stöndum í upphafi eins
og hvert annað fyrirtæki. Hins
vegar stöndum við frammi fyrir
miklu verki. Við byggjum ekki á
öðru en auglýsingum, ekki á
styrkjum af neinu tagi.“
Eruð þið þá samkeppnisfærir
við ríkisreknu stöðvarnar?
„Það verður tíminn að leiða í
Ijós. Við teljum okkur fyllilega
samkeppnisfæra með okkar dag-
skrá og viðbrögðin sem við höf-
um fengið sýna okkur að við för-
um vel af stað.
Fjölmiðlamarkaðurinn hér á
íslandi er að breytast mikið og
hefur verið að því lengi. Fyrir 20
árum eða svo var hér aðeins ein
útvarpsrás og fjögur flokksblöð.
Tímaritaútgáfa var ekki mikil þá.
Nú eru komnar þrjár útvarpsrásir
og flokksblöðin á undanhaldi,
hröðu undanhaldi, svo þetta er
allt að stokkast upp og ég er
sannfærður um að við munum
standa okkur á þesum markaði.
Viðbrögð hlustenda hafa öll
verið á einn veg og við höfum
komist að raun um að við náum
lengra en við héldum í upphafi.
Hlustendur á sunnanverðu Snæ-
fellsnesi ná okkur ágætlega og allt
vestur á Barðaströnd. Jökullinn
er okkur líklega hliðhollur."
Sumir segja að þið séuð of
mikið í stíl við Rás 2.
„Það er ekkert leyndarmál að
þetta er tónlistarstöð, en við ætl-
um að finna okkur stað á milli
rásar eitt og tvö. Við erum í raun
og veru þriðja rásin, en það þýðir
ekki að við munum verða lakari.
Við verðum öðruvísi.
Auk góðrar tónlistar verða
talmálsþættir algengir hjá okkur,
skemmtiþættir, leikrit og fleira
og með þessu held ég að við mun-
um skapa okkur mjög traustan
hlustendahóp. Við teljum ein-
mitt mjög mikilvægt að vera í
góðu sambandi við hlustendur,
t.d. með því að veita þjónustu
eins og flóamarkaðinn, sem þeg-
ar hefur reynst mjög vel. Við
verðum sveigjanlegir í dagskrár-
gerðinni ætlum að finna okkur
bás þar sem hlustendur vilja hafa
okkur, ekki þar sem við viljum
hafa hlustendur.“
Svo þú ert ekki hræddur við
Líklega er Jökullinn okkur hliðhollur. Mynd E.ÓI.
framtíðina. Þið leggið ekki upp
laupana áður en langt um líður?
„Nei, aldeilis ekki. Við erum
staðráðin í að standa okkur og ég
held að við munum gera það.“
Hvernig kanntu við starfið?
„Ég kann mjög vel við mig í
þessu starfi. Þessar síðustu vikur
hafa að vísu verið slítandi og ég
gæti sofið meira en ég á kost á, en
þetta er bara svo gaman. Og ef þú
kemur til okkar og sérð öll lætin
og alla starfsgleðina, þá sérðu að
þetta getur ekki verið annað en
gaman,“ sagði Einar.
-€g
LEIÐARI
Fyrirbyggjum tjónið
Enn einusinni erum við minnt á það að við
búum í landi mikilla átaka. Átök okkar mann-
anna eru hjóm eitt í samanburði við þá krafta
sem takast á undir iðagrænu yfirborði sveita
Suðurlands, krafta sem hvenær sem er, öllum
að óvörum, geta losnað úr læðingi með hörmu-
legum afleiðingum. Um miðja nótt vöknuðu
Sunnlendingar upp við það að landskjálftar
hristu hús þeirra og varð fæstum svefnvært það
sem eftir var nóttu.
Voru þessir kippir fyrirboði Suðurlandsskjálft-
ans svokallaða, sem vísindamenn hafa spáð að
einhverntíma í náinni framtíð megi búast við í
þessum landshluta? Þeirri spurningu getur tím-
inn einn svarað en skjálftarnir aðfaranótt þriðju-
dags voru mun vægari en sá skjálfti sem búist er
við. Hvað sem öðru líður þá voru íbúar Suður-
landsundirlendis sem og aðrir íbúar þessarar
eldfjallaeyju áminntir um að þegar minnst varir
geta náttúruhamfarir dunið yfir.
Með skrifum Þjóðviljans um þessi mál er ekki
verið að reyna að hræða fólk að óþörfu heldur
vill Þjóðviljinn með umfjöllun sinni benda á að
við getum ýmislegt gert til að koma í veg fyrir að
tjónið verði meira en nauðsynlegt er þegar þar
að kemur.
Það er ýmislegt hægt að gera en það kostar
peninga og vinnu. Þeim útgjöldum er þó vel
varið því mun dýrkeyptara verður það þjóðinni
að halda að sér höndum og hugsa sem svo;
koma dagar koma ráð.
Þessu gerðu almannavarnir sér grein fyrir og
um miðjan síðasta áratug var skipaður vinnu-
hópur til að vinna skýrslu um jarðskjálfta á Suð-
urlandi og varnirgegn þeim. I skýrslunni kemur
fram að margar byggingar og mannvirki eru ekki
hönnuð með það í huga að standast jarðskjálfta
að svipaðri stærðargráðu og dundi yfir Suður-
land fyrir nákvæmlega 90 árum. Er þar helst um
að kenna litlum jarðfræðirannsóknum á svæð-
inu, ófullkomnum byggingarsamþykktum, ófor-
svaranlegri hönnun og misjöfnu eftiriiti með
byggingum.
Hópurinn lagði til að framkvæmd yrði kerfis-
bundin rannsókn á öllum mannvirkjum á svæð-
inu og skjálftaþol þeirra kannað.
Því var beint til einstaklinga að þeir létu kanna
íbúðarhús sín en því miður hafa þeir ekki brugð-
ist við sem skyldi. Þá var því beint til Vegagerð-
arinnar og Landsvirkjunar að kanna mannvirki á
sínum vegum og hafa bæði fyrirtækin brugðist
skjótt við og látið rannsaka skjálftaþol
mannvirkjanna. Hafa ýmsar brotalamir komið í
Ijós og þær verið lagfærðar eftir því sem kostur
var á, enda mikið í húfi þar sem samgöngur og
rafmagn eru lífæðar nútíma samfélags.
Þá er komið að þætti ríkisins. Á þess vegum
eru ýmsar byggingar, sem undir venjulegum
kringumstæðum hýsa fjölda manns, skólar og
sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og aðrar stofn-
anir á vegum hins opinbera. í þessum bygging-
um dvelst fólk oft af illri nauðsyn eða er skyldað
til þess; börn, gamalmenni og sjúkir.
Almannavarnir fóru fram á fjárveitingu til að
láta Verkfræðistofnun Háskólans gera úttekt á
þessum mannvirkjum, en sú fjárveiting fékkst
ekki.
Þessi afstaða ríkisvaldsins er óskiljanleg og
full ástæða til að fordæma hana. Með því að
neita um fjárveitingu til rannsókna á skjálftaþoli
þessara bygginga og til að lagfæra þá veiku
punkta sem kunna að koma í Ijós, tekur ríkið á
sig ábyrgð af því tjóni sem kann að verða er
hamfarirnar dynja yfir. Tjóni sem kannski verður
óbætanlegt, en hefði verið hægt að koma í veg
fyrir.
EftirjarðskjálftanaíMexíkósl. haustfórhópur
íslendinga þangað til að skoða afleiðingarnar.
Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almanna-
varna, segir í blaðinu í dag, að eftir að hafa virt
fyrir sér eyðilegginguna þá væru menn mjög
uggandi yfir hverjar afleiðingarnar gætu orðið af
Suðurlandsskjálfta. Með því að vinna skipulega
að fyrirbyggjandi aðgerðum væri þó hægt að
koma í veg fyrir að afleiðingarnar yrðu jafn al-
varlegar og þær urðu í Mexíkó og ríkisvaldinu
ber að sýna gott fordæmi.
Það er rétt að máttur okkar mannanna er lítill í
samanburði við þá ógnarorku sem býr ínáttúr-
unni. Þó hefur okkur tekist með hugvitinu að
beisla töluvert af þessari orku. Þetta hugvit get-
um við einnig notað til að vera viðbúin þeim
hamförum sem spáð hefur verið. Slíkt kostar.en
einsog áður sagði þá getur sá kostnaður komið í
veg fyrir óbætanlegt tjón.
-Sáf
Sunnudagur 31. ágúst 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 17