Þjóðviljinn - 31.03.1988, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 31.03.1988, Blaðsíða 11
SKÚFUR SKÓGAR- GLÖGG Skógur er nefndur Meinberja- skógur og er skógur skóga. Þétt vaxa þar hlið við hlið allar hugs- anlegar tegundir gróðurs og gróðurþega. Þar slúta slaufutré og grenilóð yfir loðfuru og einviði og upp með rótum þeirra þrengja sér gráfætlur og grundarljós. Ur laufþéttu lofti hanga bandfjólur og brumspottar og um árþrungna stofna fikra sig sníkjublöð og snákjurtir. Ber þar allt að einum og sígrænum gróðurbrunni árið um kring. En þó ber þar mest á berjategund þeirri er skógur þessi dregur nafn sitt af, meinberjalynginu sem þekur þrá- lega allt sem jörð getur talist í þessu laufþykkni sem ætlar allt að myrkva. Sjálf draga meinberin hinsvegar nafn sitt af innanmeini því sem neytendur þeirra kvelur og er blátt bann við tínslu þeirra svo ekki sé talað um átu. Um aldabil hefur þetta ljóst verið mönnum og því hefur jafnlengi hér ekki hundi verið sigað inn fyrir skógardyr. Er nú svo komið að ekki er lengur manngengt trjá- búka á milli. Dafna því ýmsar tegundir dýra og aðrar jaðar- skepnur í Meinberjaskógi sem ekki eru annarsstaðar finnan- legar á mannlegu bóli. En af þessum skepnum utan mannlegra fræðibóka er Skúfur. Skúfur belgist um í berjalynginu og er undarleg mannsmynd á stærð við lófa karls og verður til úr meinberjafræi sem legið hefur níu nætur í dögg á krónublöðum lyngsins. Af þeim tilburðum er tegundarheiti hans dregið, skógarglögg. Skúfurinn er hins- vegar hinn eldrauði hárskúfur hans sem stendur strípaður í loft upp af berlegu höfðinu og greinir hann auðveldlega frá glansbláum berjunum. Skúfur er því einatt auðvelt bráð og eftirsótt hinum hrygglengri dýrunum í þessu skógarmengi. Meðalaldur hans er aðeins ein helgi og e.t.v. mánudagurinn líka. Skal nú höfð eftir ævisaga Skúfs. Það ber við um þær mundir sem Skúfur er að taka út þroska sinn og situr í makindum í skjóli meinberjalyngs og gæðir sér á að- alfæðu sinni, meinberjunum, sem eru stór epli í höndum hans, að nokkrar skemmtirottur skjótast með ærslum yfir höfuð honum og sú síðasta þeirra slær halanum í hann, þannig að Skúfur sendist undan lynginu og út á smálegt bersvæði þar í grennd. Þar liggur hann vankað- ur nokkra stund, eða þar til þroski hans er nú fullur og skúf- urinn hefur náð sínum endanlega eldrauða lit. Skúfur liggur því þarna á skógargólfinu líkt og log- andi viðvörunarljós öllum þeim sem framhjá fara og fljúga, að því misskildu þó að ljós þetta verður þeim fremur til lokkunar en burtfælingar. Og þannig túlkar þetta einmitt sá er nú kemur úr háu lofti trjáþykknisins auga á Skúf, sjálfur Goggur, breiðfyglið mikla og ógnvaldur allra smánar- maðka Meinberjaskógar. Hann baðar vængjum sínum letilega á meðal hinna safaríku sogblaða einviðarins og veltist fram um þau en flýgur, því þröngt er á þessu græna þingi, en bögglar þeim saman um leið og hann kemur auga á hinn smáa rauða Skúf einum 50 metrum neðar og lætur sig falla nokkuð þunglama- lega. Á leiðinni rekur hann höf- uðið óvart í stóra villihnetu svo höggið bergmálar ámátlega um nágrennið og þvælist einnig nokkur pínleg andartök í slímug- um greinum slaufutrjánna en sig- rar að lokum með þunga sfnum og nær að breiða aftur úr væng- jum sínum í tæka tíð áður en hann klemmir ryðbrunnum goggi sín- um um stífpressaðan skúfinn og ber hann síðan í loftkasti heim í hreiður sitt á kvistbólginni grein gamals hengiviðartrés. Taka nú við nokkrar hörmung- arstundir í skammvinnu lífi Skúfs þar sem hann situr ráðvilltur, ruglaður og skíthræddur í miðju hreiðrinu, sjálfum faðmi Gogga- fjölskyldunnar, þar sem sjö klíst- urfiðraðir og lyktandi Goggs- ungar grenja hver í kapp við ann- an en snúa sér þó samstundis að hinum velkomna gesti og hefja af eðliskunnáttu sinni að gogga soltnum skoltum sínum í hann miðjan. Skúfur, útbelgdur af berjaáti, kann þessu skiljanlega illa og reynir að banda hinum brynvörðu unglingsgoggum frá sér en árangurslaust og verður nú brátt bumbult af kviðarkrúnkinu. Eftir nokkurt hark er þolinmæði hans á þrotum, hávaðinn er að æra hann auk kveisunnar, og með lagni tekst honum að krafsa lausa nokkra brumspotta úr hreiður- botninum. Hinir blindu fiður- gemlingar fá ekki séð hvað Skúfur ætlast fyrir og halda ólmir áfram goggi sínu, en með lagni tekst honum að binda fyrir einn fuglsmunninn og síðan koll af kolli, einn af einum, þar til öll hersingin er þögnuð og emjar hljóðdeyfð af ráðleysi út í loftið og hver í annan. Þessi glundroði er til þess að Skúfur þiggur tæki- færi til að hefja sig upp úr þessum óþægindapotti og situr nú sér til léttis á rammvörðum hreiður- barminum og hugsar sér til hreyfings. En hreyfing getur það vart orðið því niður sér hann sér til svima að er ekki annað en eitt heljarfall. Og ekki treystir hann sér til að tipla út á mjóslegna greinina, þó kvistbólgin sé, og freista þar með niðurgöngu á sjálfum trjástofninum. Skúfur situr heimspekilega á barmi sinnar örvæntingar en gef- ur sér þó óvænt stund til að virða fyrir sér þessa tignarlegu útsýn sem blasir þar við honum, enda ekki víst að annað eins tækifæri gefist honum síðar að njóta dá- semda Meinberjaskógar svo hátt uppi. Og hvílík dýrð og dásemd. Skógarsalurinn sícartar sínu feg- ursta þetta andartak sem líklega mun teljast hið minnisverðasta á lítilsverðri Skúfs-ævinni. Kólibrí- urnar kríast um í sólskininu, ór- anguttarnir sveifla sér í bandfjól- unum og ljóðhesturinn teygir úr sér við litla tjörn sem speglar einnig lítinn svanettu-hóp er sigl- ir sæll undir fögrum söngvum Uglukórsins sem hefur raðað sér symmetrískt í smáa loðfuru og yfir öllu stíga leðurblökurnar létt- an loftfimleikaballett. Já, skógar- lífið er dýrðlegt þegar best lætur og Skúfur er í þann mund að falla í sælutrans þegar hreiðrið skelfur skyndilega með miklu hnjaski þannig að hann er nær dottinn út af því en nær þó haldi á síðustu stundu og gerir lafhræddur ráð fyrir því að nú sé stóri Goggur mættur. En þegar hann gægist aftur uppá barminn sér hann sér enn til léttis að hér er skógar- kengúran komin og lítur sposk yfir bandingjana í hreiðrinu sem enn hamast blindir um eins og bófar í þögulli kvikmynd. Keng- úran kemur auga á Skúf og glott- ir. „Já, sko minn, þetta gat hann... ha, ha...“ segir hún og getur ekki leynt aðdáun sinni þó hún sé þó blandin háði. Skúfur roðnar ögn og starir feiminn og eldrauður upp til þessa stóra dýrs sem hann þekkir hingað til af af- spurn einni. „Og er minn strand núna, kemst hann ekkert, litli karlinn?“ Eftir nokkur fleiri stríðnisorð sér skógarkengúran aumur á Skúfi og býður honum far með sér, hún sé einmitt á leið niður í berjamó. Og hún tekur hann upp með loppunni og sting- ur honum niður í magapokann sem passar alveg þó Skúfur sé nokkuð feitlaginn að eðlisfari. Skógarkengúran hoppar fim- lega grein af grein og lækkar smám saman leið sína, gætir þess þó að velja aldrei of veikburða grein sem héldi ekki hinum mikla loðbúki sínum. Þetta er mikið hopp og hí fyrir Skúf greyið sem liggur í veltingi á botni pokans í dimmu og úldnu svitalofti. Nei, það verður varla sagt að kengúr- upokinn sé beint fyrsta klassa ferðamáti. Og enn finnur hann, enn saddur af berjunum, fyrir magaþembu sem nú er frekar eins og flug- eða bflveiki. Það er bókstaflega allt á þeytingi inní honum, innyflin komin í eina flækju af þessu stöðuga hoppi og að lokum gefst maginn upp send- ir innihald sitt beina leið uppí kok á Skúfi og þaðan út um munninn. Og hann ælir aftur, og aftur. Það myndast brátt pollur í pokanum og í hinum veltist Skúfur haldlaus hvað eftir annað, því ekki lætur kengúran af hoppinu, enn er drjúgur spotti til jarðar. En allt í einu snarstansar hún þó á hnall- þykkri engiviðargrein því næmu nefi hennar hefur borist hinn megni fnykur af bröltinu í poka hennar. Hún gægist ofan í hann með loppu sinni og grettist öll þegar hún sér hvað við blasir. Og glæsilegt er það ekki. Skúfur greyið er nú ekki annað en einn æluköggull í pokabotninum og fnykurinn af meinberjaælunni er einn sá hinn rammasti sem um getur. Það fýkur snöggt í kengúru og hún krafsar í flýti ógeðið upp úr pokanum og hendir því sem viðbjóði burt frá sér. „Að maður skuli hleypa þessu hyski inná sig,“ hvæsir kengúran og er þotin niður að tjörn til að reyna að þvo þetta af sér. En heppnin er þó með Skúfi í þetta sinn og hann svífur nú í blárri berjaslepju eins og hala- stjarna um skógarsalinn án þess þó að nokkrum bregði við því (Uglukórinn syngur enn) og lendir af tilviljun í djúpri blóm- krónu hins hávaxna þerriblóms sem bjargar honum frá frekara falli. Skúfur liggur nú þarna á ný- jum og betri botni en útældur sem fyrr og enn ringlaðri en nokkru sinni, hann reynir ekki einu sinni að giska á hvar hann er nú stadd- ur en ákveður að láta fyrirberast þar þá um nóttina. Líður hún áfallalaust og er nú upp runninn mánudagur, Skúfs-ævin er senn á enda. En um leið og fyrstu geislar morgunsólarinnar brjótast niður í gegnum laufþykknið til að skína á ælubláan Skúfs-líkamann í gula blóminu sínu, tekur það síð- astnefnda að síga. Þerriblómið hefur um nóttina látið yfirbugast af hinni megnu svækju sem fylgdi þessum óvænta gesti og stöngull þess hefur nú misst allan mátt þannig að jurtin er að sligast undan eigin þunga og Skúfs. Það hallar smám saman meir og meir á það og að lokum steypist blóm- ið fram yfir sig og Skúfur enda- sendist út úr krónu þess og fellur sem fyrr lengra niður í skóginn, nú viðkomulaust þar til hann hafnar í galopnu gini hvarúlfsins sem liggur í nývöknuðum mak- indum undir sínu uppáhaldstréi og var einmitt rétt í þessu að geispa sínum fyrsta morgun- geispa. Þegar hann er í honum miðjum er hann truflaður af þess- ári himnasendingu sem lendir í miðju koki hans. Hvarúlfurinn tekur jafnan feginshendi við öllu því sem að kjafti hans kemur, en í þetta sinn líkar honum alls ekki við bragðið sem berst að laukum hans og skyrpir þessum ólystunga bita því samstundis út úr sér. Skúfur má nú enn einu sinni endasendast um loftið og liggur skömmu síðar marflatur á þeim sama stað er saga hans hófst, á hinum smáa bervangi í miðju meinberjalynginu þangað sem skemmtirotturnar veltu honum á sínum tíma. Þarna liggur nú hetj- an með rauða skúfinn á ný eins og timburmaður á miðjum mánu- degi sem reynir að átta sig á at- burðum helgarinnar. En hann rankar fljótt við sér og rís á fætur, tínir af sér storknaða æluklep- rana, finnur til svengdar og skríður aftur upp í lyngið í berja- leit. Og þar unir hann sér nú þeg- ar komið er fram undir aðra helgi, í hárri elli og hefur yfir ævi- sögu sína hverjum þeim sem hlusta vill. New York City 17. mars 1988 Hallgrímur Póskablað ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.