Þjóðviljinn - 21.09.1988, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 21.09.1988, Blaðsíða 8
MENNING Gallerí Borg Ekkert heljarstökk Hringur Jóhannesson: Ég held mig við raunsœið Hringur: „Ég sé alltaf eitthvað nýtt...“ Hringur Jóhanncsson sýnir þessa dagana í Gallerí Borg, olíumálverk og litkrítarmyndir frá síðustu tveimur árum. - Stefnubreyting væri kannski of mikið sagt, - segir hann þegar ég spyr hvort orðið hafi einhver stefnubreyting í listinni hjá hon- um nýlega. - Fólk hefur minnst á það við mig að því finnist hafa orðið ein- hver breyting síðan ég sýndi síð- ast, en þó að mín list sé í stöðugri þróun, hef ég ekki tekið neitt heljarstökk síðan 1970. Ég held mig við ákveðið raunsæi og reyni að vinna með sem flesta fleti á því; raunsæi er ekki bara eitt ákveðið sjónarhorn, eða endan- legt form. - Fram til 1970 var ég mest að leita fyrir mér, hélt mig samt alltaf við natúralismann, fór aldrei út í abstraktið. Ég gerði eiginlega ekki neitt í myndlist á árunum 1952-59, svo það má segja að ég hafi beðið af mér ab- straktlistina. Var það ákvörðun sem þú tókst eftir einhverja umhugsun? - Já, það var það á sínum tíma. Þegar ég útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum uppúr 1950 var abstraktmálverk- ið ríkjandi, og flestir mínir kunn- ingjar fóru að mála abstrakt. Nema kannski Erró. - Á þeim árum var almennt talið að eina myndlistin sem væri einhvers virði væri þessi hreina rúmfræði- eða reglustrikulist. Ég reyndi að mála í þeim anda í einn vetur þó mig langaði ekki til þess, og líkaði það alls ekki. Svo ég fór að vinna verkamannavinnu til að hafa eitthvað að lifa af og lagði myndlistina á hilluna í bili. - Það hefur sjálfsagt ráðið ein- hverju líka að ég fór ekki út í framhaldsnám eftir að ég lauk skólanum hér. En svo fann ég að þetta dugði ekki. Það fór líka að- eins að slakna á abstraktklónni, bæði hér heima og erlendis, það fóru að koma inn önnur áhrif og menn aðeins að linast á geómetrí- unni. Popplistin kom til dæmis til sögunnar og þar fékk ég ákveð- inn meðbyr. Þú hefur ekki reynt fyrir þér í popplistinni? - Nei, en hún hafði viss áhrif á mig á árunum 69 til 70. Ég þekkti Súmarana og sýndi með þeim þó ég væri ekki félagi, en ég fór aldrei út í harða popplist. Á tíma- bili gerði ég ýmsar tilraunir, vann undir áhrifum frá ljósmyndum, gerði myndaraðir og annað þar sem þau áhrif voru mjög merkjanleg. Eins varð ég fyrir áhrifum af öðrum listastefnum eins og nýraunsæinu, súrrealism- anum og konseptlistinni. En frá 1970 hef ég haldið mig að raunsæ- ismálverkinu, sem þá var einnig á döfinni úti í hinum stóra heimi, þannig að ég var ekki lengur al- veg einn í heiminum með það sem ég var að gera. Hvert sækirðu helst þínar fyrir- myndir? - Flest minna mótífa eru að norðan. Ég hef verið með vinnu- stofu norður í Haga í Aðaldal undanfarin átján ár, og finn alltaf eitthvað nýtt að mála þar, þar er endalaus fjölbreytni. Svo finn ég líka mótíf hérna í bænum, þó ekki eins mikið núna og áður. Þá mál- aði ég mikið af borgarmótífum, til dæmis poll á gangstétt... En núorðið vinn ég mest fyrir norðan. Það er gott að vinna þar, þar finnst mér ég vera í góðu jafnvægi, og finn mikið af góðum mótífum. Og það er það sem skiptir máli, það er sama í hvaða stíl málað er ef fyrirmyndin er eitthvað sem maður hefur áhuga á. - Margir virðast halda að ég sé búinn með öll form þarna norður í Aðaldal, en það gerist ekki, því ég er alltaf að leita fyrir mér, finna aðra fleti og önnur sjónar- horn. Ég sé alltaf eitthvað nýtt, birtu eða form. Sýning Hrings stendur til 27. september, Gallerí Borg er opið daglega frá 10-18 virka daga og kl. 14-18 um helgar. LG Norræna húsið Skáldakvöld Besti vinur Ijóðsins býður upp á lestur á Ijóðum ogsögum Besti vinur ljóðsins heldur skáldakvöld í Norræna húsinu n.k. miðvikudagskvöld klukkan 21.00. Þar koma fram átta skáld, flest af yngri kynslóð, en þeim til fulltingis verða Hannes Péturs- son og Hannes Sigfússon. Eftirtalin skáld lesa úr verkum sínum á skáldakvöldinu: Hannes Pétursson, Hannes Sigfússon, Valgerður Bencdiktsdóttir, Elísa- bet Jökulsdóttir, Einar Hcimis- son, Sjón, Elísabet Þorgeirsdóttir og Agúst Sverrisson. Örn Magnússon einleikari opnar kvöldið með píanóleik. Kynnir á skáldakvöldinu verður Hrafn Jökulsson. Flest eru skáldin af yngri kyn- slóð, Sjón er kunnur fyrir fjöl- margar ljóðabækur og skáldsögu sem út kom í fyrra. Á dögunum sendi hann frá sér ný ljóð, Nótt sítrónunnar. Ágúst Sverrisson hefur sent frá sér eina ljóðabók og gaf á dögunum út smásagna- safnið Síðasti bíllinn. Elísabet Þorgeirsdóttir hefur sent frá sér tvær ljóðabækur á rúmlega 10 árum. Einar Heimisson hefur birt eftir sig smásögur, bæði frum- samdar og þýddar, en hann og Ágúst munu lesa smásögur eftir sig . Valgerður Benediktsdóttir hefur ekki enn sent frá sér bók, en ljóð hennar í Árbók skálda sem AB gaf nýlega út vakti at- hygli. Ljóð Elísabetar Jöku- lsdóttur hafa birst víða, sem og smásögur hennar. Hannes Sigfússon hefur lengst af búið í Noregi og ekki lesið op- inberlega hér á landi í áratugi, en nú í haust er von á sjöttu ljóða- bók hans. Áhrif Hannesar á yngri kynslóð skálda eru ótvíræð og fyrsta bók hans, Dymbilvaka, er eitt af lykilverkum íslenskra nú- tímabókmennta. Hannes Pétursson vakti korn- ungur athygli fyrir ljóðagerð og er nú eitt þekktasta og ástsælasta: skáld þjóðarinnar. Langt er um liðið síðan Hannes las síðast upp á opinberri samkomu. Kaffistofa Norræna hússins verður opin í tilefni af skálda- kvöldinu og er fólk hvatt til að mæta tímanlega. Miðaverð á skáldakvöldið er 400 krónur. Ágúst les smásögu á Ijóðakvöld- inu. MINNING Margrét Gríinhagen Fœdd 3. 3. 1926- Dáin 14. 9. 1988 Nú þegar ég er að kveðja mæta og mikilhæfa konu, Margréti Grunhagen, langar mig til að minnast hennar með nokkrum orðum. Margrét var óvenjulega sterkur persónuleiki. Gáfumar voru miklar og fjölþættar. Hún var gædd góðvild, hlýju og næmi fyrir fólki og umhverfi. Hún bar umhyggju fyrir jörðinni sinni og öllum sem þar voru um lengri eða skemmri tíma. Umhyggjan náði einnig til dýra og gróðurs. Þessu kynntist ég vel þegar ég fór í heimsókn í Miðhús fyrir þrem árum með tvær sonardætur mínar 5 og 10 ára. Pabbi þeirra hafði verið eina nótt í Miðhúsum þegar hann var 6 ára. Maðurinn minn er frændi Sighvats í Miðhús- um og fór hann þangað í heim- sókn með strákinn. Þetta var ekki gleymt, slík var tryggðin hjá þeim hjónum báðum. Þegar við sonardæturnar mínar höfðum fengið hressingu og telp- urnar Ieikið sér við Snata, kisu. heimanlingana og kálfa fór Marg- rét með okkur upp í ásana fyrir ofan bæinn. Þar eru fallegir klett- ar og hólar þar sem börnin höfðu leikið sér. Þau eru 6. Þarna er fjölbreytilegur gróður og útsýnið er hrífandi, tignarleg fjöll og fa- gurt, ræktað land. Allt land Mið- húsa höfðu hjónin girt til þess að geta stjórnað beit og ráðið nýt- ingu landsins. Það var ógleymanleg upplifun að spjalla við Margréti þarna úti í náttúrunni og finna ást hennar á landinu. Hér hafði hún búið með manninum sínum. Þau höfðu byggt hér upp allt og ræktað og, eins og hún sagði, talið það gott og göfugt að framleiða mat. í þessarí ferð tók Margrét eftir því, hvað eldri sonardóttir mín, Hanna Kristín, var mikið nátt- úrubarn. „Hún svífur", sagði Margrét. Þá bauð hún henni að koma til sín og dvelja í viku til reynslu og verða sumarbarn næsta sumar ef hún kynni vel við sig og þeim félli vel saman. Nú hefur Hanna Kristín verið í Mið- húsum í 2 sumur og alltaf líkað vel. „Hún er alltaf góð“, sagði Hanna Kristín um Margréti. Að vera alltaf góð er undursamlegt af konu sem er búin að berjast við erfiðan sjúkdóm í mörg ár. Það er undursamlegt og dásamlegt að hún lét aldrei bugast en var alltaf sterk þó að líkaminn yrði magur og þrekið minnkaði. Að lokum var ekki stætt lengur. Sjúkdóm- urinn náði yfirhöndinni. Margrét var gædd miklum tónlistargáfum og sum börn hennar hafa erft þær. Hún tók mikinn þátt í tónlistarlífi í sveit sinni bæði með kórstarfi og org- anleik. Börn Margrétar og Sighvats eru þessi: Geirþrúður iyfjafræð- ingur, Hjálmur píanóleikari, Arnór, hann er við nám í Banda- ríkjunum, Helga blokkflautu- leikari, Ingunn flugfreyja og Hallur, sem er heima. Barnabörn eru 2, Margrét og Sighvatur Örn, auk þess eitt stjúpbarn, Nanna. Margrét verður jarðsett í Haukadal. Það eru tengdafor- eldrar hennar, Arnór Sigurjóns- son og Helga Kristjánsdóttir einnig jarðsett. Ég og maðurinn minn, Gísli T. Guðmundsson, Hanna Kristín, foreldrar hennar og litla systir eigum Margréti mikið að þaícka. Við söknum hennar öll. Ég votta fjölskyldunni innilega samúð. Kristín S. Björnsdóttir 8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miftvikudagur

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.