Þjóðviljinn - 15.06.1989, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 15.06.1989, Blaðsíða 5
VIÐHORF Læmm af reynslunni Asta Lilja Kristjánsdóttir og Sigurður Jón Ólafsson skrifa: Fimmtudaginn 1. júní kl. 4-5 síðdegis ráku foringjar BSRB og ASÍ upp mikið harmakvein á Lækjartorgi. Tilefnið var nýjar verðhækkanir á ýmsum vörum og þjónustu, sem ríkisstjórnin hafði heimilað. Verðhækkanir þessar voru þvert ofan í skrifleg loforð ríkisstjómarinnar um aðhald í verðlagsmálum i nýgerðum kjar- asamningum. Verkalýðsforingjarnir voru af- skaplega sárir og reiðir vegna þess að ríkisvaldið hafði svikið gefin loforð. Þetta kom víst eins og þruma úr heiðskíru lofti, eins og að fá hnífsstungu í bakið eins og einn þeirra orðaði það. Þeir höfðu treyst loforðum ríkis- stjórnarinnar og það hefur vafa- laust allur sá fjöldi sem sam- þykkti samningana líka gert og saman var kominn á Lækjartorgi til að mótmæla þessari ósvinnu. Viðbrögðin við hinum „óvæntu“ verðhækkunum voru afar eðlileg, þegar haft er í huga að verkalýðsforystan hvatti okk- ur launþega með oddi og egg til að samþykkja þes?a samninga, ekki síst vegna umræddra loforða fjármálaráðherra og kumpána hans í ríkisstjórn. Þeir voru ekki ófáir sem hlýddu þessari hvatn- ingu og trúðu á heiðarleik fjár- málaráðherra. - Þar til annað kom á daginn. Hvenær lærum við aff reynslunni? Við sem þessar línur ritum fylltum ekki raðir þeirra er mynd- uðu grátkórinn á Lækjartorgi. Þetta mun sumum finnast kyn- legt, en til þess liggja tvær ástæð- ur: 1) Við samþykktum ekki kjara- skerðingarsamninginn, sem BSRB gerði við ríkisvaldið í apr- íl. Þá þegar höfðu átt sér stað hækkanir á vörum og þjónustu og ,rAðeins sameinuð byltingarsinnuð hreyfing alþýðunnar erfær um að mynda þjóðfélag réttlœtis og jöfnuðar“ þá þegar var Ijóst að kauphækk- anirnar myndu ekki vega upp á móti þeim verðhækkunum, sem dunið höfðu yfir. 2) Við treystum ekki loforðum þessarar ríkisstjómar fremur en annarra. Á þetta bentum við á fundi hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur, sem reyndar var einhver sá fá- mennasti og daufasti fundur sem við höfum sótt í þessu félagi. Á þeim fundi virtist hvorki vera stemmning til að fella né sam- þykkja samningana. Þar sannað- ist ótvírætt að þögn er sama og samþykki. hvenær ætlum við að læra af reynslunni? Hvaða ríkisstjórn hefur ekki svikið loforð, sem hún hefur gefið launþegahreyfing- unni og brotið gerða samninga? í því tilviki skiptir engu hvaða nafni hún skreytir sig, hvort hún telur sig styðja borgarastétt eða alþýðu. Við getum engri ríkis- stjórn treyst. Við getum aðeins treyst á mátt okkar og megin. 70 þús. kr. lágmarkslaun og ffullar vísitölubætur Má vera að verkalýðsforystan sé loks að læra af reynslunni. Ás- mundur Stefánsson íét þá skoðun í ljós á Lækjartorgi að í næstu samningum yrði megináherslan lögð á kröfuna um fullar vísitölu- bætur á laun. Batnandi mönnum gengur æ betur að lifa. Þar verður líka að leggja fram kröfu um lágmarkslaun. 70 þús. kr. er algert lágmark á mánuði til að lifa mannsæmandi lífi að okk- ar mati og hyggjum að fleiri geti tekið í sama streng. En til að slík- ar kröfur geti orðið að veruleika þarf öfluga, fómfúsa baráttu þar sem allir kraftar verkalýðshreyf- ingarinnar eru sameinaðir. Hvorki BSRB, ASÍ né nokkurt annað verkalýðsfélag getur stað- ið eitt að slíkri kröfugerð. Baráttan fyrir jafn róttækri kröfu verður án efa ekki háð án verkfalls. Sumir munu vafalaust segja að við höfum ekki efni á því að fara í verkfall. En svar okkar er: Á meðan kjör okkar fara sí- versnandi, á meðan hótanir um nauðungaruppboð hrannast upp höfum við engu að tapa - nema ef til vill hlekkjunum. Eðli ríkisvaldsins og svik Alþýöu- bandalagsins Við búum í kapítalísku samfé- lagi þar sem launamaðurinn er þræll auðstéttarinnar. Það er eðli ríkisvaldsins að verja hagsmuni auðvaldsþjóðfélagsins. Þeir sem verma ráðherrastólana hverju sinni eru málpípur ríkisvaldsins. Engu skiptir hvaða flokkar skipa ráðherraembætti hverju sinni. Hlutverk þeirra er eitt. Alþýðubandalagið hefur löng- um kennt sig við verkalýðshrejí- ingu og sósíalisma. Með þátttöku sinni í núverandi ríkisstjórn, sem gengið hefur freklega á réttindi og kjör alþýðunnar og lagt bless- un sína yfir aukin umsvif Nató hér á landi, hefur Alþýðubanda- lagið endanlega sagt skilið við verkalýðsstéttina og sósíalism- ann. Af þeim sökum höfum við hjónin sagt okkur úr þessum flokki. Verkalýðsstéttin vinnur engaw fullnaðarsigur í auðvaldsþjóðfé- lagi. Þjóðfélag réttlætis og jöfn- uðar verður ekki skapað innan þess efnahagsskipulags er við búum við í dag. Það verður ekki gert nema með gagngerri um- breytingu alls þjóðféiagsins, nema með því að kollsteypa auðvaldinu og ríkisvaldinu þess. Reynslan hefur sýnt að stjórn- málaflokkar, hverju nafni sem nefnast, eru í eðli sínu afturhalds- samir og standa lýðræðislegri þróun fyrir þrifum. Áðeins sam- einuð byltingarsinnuð hreyfing alþýðunnar er fær um að mynda þjóðfélag réttlætis og jöfnuðar. Gjört á sjómannadaginn MINNING Ég man eftir Eggert frænda svo lengi sem ég man eftir sjálfri mér. Hann var hluti af mínum innsta frændgarði sem átti mikil og náin samskipti við foreldra mína og bernskuheimili. Faðir minn, Tryggvi Guð- mundsson frá Grímshúsum í Að- aldal, og Eggert voru bræðra- synir. Móðir Eggerts var heilsu- veil kona og gekk raunar aldrei heil til skógar eftir fæðingu einka- sonarins. Vegna þessa dvaldi Eggert hluta bernsku sinnar hjá frændfólkinu í Grímshúsum. Með Eggert og Grímshúsabræðr- um ríkti sannkallað bræðraþel og kom aldursmunur þar ekki að sök, en Eggert var sjö árum yngri en yngsti bróðirinn, Axel. Þegar Eggert kom fyrst suður til Reykjavíkur, þá sautján ára gamall, dvaldi nann hjá föður mínum, sem þá var enn ókvænt- ur, og starfaði á Kleppsspítalabú- inu, en faðir minn var þá nýlega orðinn bústjóri þar. Eggert hóf iðnnám þrem árum síðar og tók hann þá húsnæði á leigu með Axel föðurbróður mínum og bjuggu þeir frændur saman nokk- ur ár. Eggert var tíður gestur hjá föður mínum eftir að hann flutti þaðan og segja má að eftir að for- eldrar mínir gengu í hjónaband hafi heimili þeirra verið hans annað heimili á námsárum hans. Árið 1947 flutti Eggert suður til Reykjavíkur með fjölskyldu sína eftir nokkurra ára veru á Húsavík eins og síðar verður vik- ið að. Fljótlega eftir það keyptu þau hjónin lítið hús að Langholts- vegi 55 og bjuggu þar í níu ár þar til þau fluttu að Skeiðarvogi 87 þar sem heimli þeirra hefur verið síðan. Fœddur 1. febrúar 1912 - Dáinn 7. júní 1989 Foreldrar mínir bjuggu í Lang- holti og urðu því fjölskyldurnar nágrannar. Samgangur var mikill milli heimilanna og vinskapur og hjálpsemi gagnkvæm. Móðir mín, sem var hjúkrunar- kona, rétti hjálparhönd þegar veikindi herjuðu á og mörg voru handarvikin hans Eggerts í Lang- holti. Þetta samband breyttist ekki eftir að faðir minn dó. Vin- skapur móður minnar og þeirra hjóna entist út ævi hennar. Eggert Jóhannesson var fædd- ur í Skógargerði við Húsavík 1. febrúar 1912. Foreldrar hans voru hjónin Guðný Eggertsdóttir smiðs á Húsavík Kristjánssonar og k.h. Guðrúnar Eiriksdóttur frá Gvendarstöðum í Kinn, og Jóhannes Guðnason frá Gríms- húsum, lengst af smiður á Húsa- vík, Jónssonar og k.h. Sigur- veigar Guðmundsdóttur frá Síla- læk. Eggert gekk í Laugaskóla í Reykjadal og lauk þar námi. Iðn- nám stundaði hann í Reykjavík og var hann þá lærlingur í Lands- smiðjunni. Einnig lauk hann prófi frá Vélskólanum og raf- magnsdeild og brautskráðist sem vélstjóri árið 1940. Eftir að námi lauk lá leiðin á sjóinn. Eggert réðst til Ríkisskipa sem vélstjóri en innan fárra ára fór hann að kenna veikinda sem áttu eftir að setja spor á líf hans. Heilsan leyfði því ekki langan sjómannsferil. En það var víðar þörf fyrir greindan og vel menntaðan vélstjóra sem einnig var hagur vel. Eggert varð um tíma verksmiðjustjóri sfldarverk- smiðjunnar á Húsavík, en sfldin er duttlungafull skepna sem átti það til að bregðast með öllu og fékk Eggert að kenna á því eins og fleiri. Hann fluttist suður til Reykjavíkur árið 1947 og þar bjó hann og starfaði eftir það. Hann var verksmiðjustjóri á Kletti um árabil en starfið var erilsamt ábyrgðarstarf og heilsuleysi Egg- ert ágerðist. Hann varð því að skipta um starf. Hann vann um tíma að hönnun og uppsetningu kynditækja hjá Olíuverslun Is- lands og síðan sem vélgæslumað- ur á Landspítalanum. Árið 1942 kvæntist Eggert eft- irlifandi konu sinni, Sigurborgu Sigurðardóttur úr Reykjavík, en hún á ættir sínar að rekja austur í Árnessýslu og vestur í Flatey á Breiðafirði. Dóttir þeirra er Sig- ríður Björg, hárgreiðslukona og húsmóðir í Hafnarfirði. Maður hennar er Guðmundur Geir Jónsson rafmagnstæknifræðingur og eiga þau þrjá syni, Jón Eggert, Jóhannes Geir og Björgvin. Heimili þeirra Sigurborgar og Eggerts hefur löngum verið fjöl- mennara en hér hefur verið talið. Jóhannes faðir Eggerts flutti til þeirra hjóna er þau bjuggu á Húsavík, en hann hafði þá verið ekkill í nokkur ár. Jóhannes átti heimili sitt hjá þeim eftir það, eða í sautján ár. Foreldrar Sigurborg- ar áttu einnig sitt seinasta skjól á heimili þeirra. Líf Eggerts frænda míns hefur ekki verið án áfalla og á stundum nokkuð þungbært. Veikindi móðurinnar hafa án efa haft áhrif á drenginn ungan og sjálfur horfðist hann í augu við eifiðan sjúkdóm í blóma lífsins þegar flestir horfa björtum augum fram á veginn. Hann missti annað nýr- að á besta aldri og í kjölfarið fylg- du fleiri sjúkdómar. Þrekið var því stundum tak- markað en hann nýtti það svo sem kostur var og vann stundum meira en heilsan leyfði. En Egg- ert stóð aldrei einn. Sigurborg var kletturinn í lífi hans og í frændliði þeirra hjóna áttu þau hauka í horni. Ég mundi aldrei lýsa Eggert frænda mínum sem léttum í lund en líf hans var samt enginn sam- felldur táradalur. Þar mátti einn- ig finna bjartar hliðar. Eggert kunni vel að gleðjast með glöðum á góðri stundu. Á yngri árum hafði Eggert töluverðan áhuga á félagsmálum og lagði þar hönd á plóg. Hann var félagshyggjumaður og rót- tækur í stjórnmálaskoðunum. Hann var einn af stofnendum Völsunga á Húsavík og á námsár- unum starfaði hann í félagsskap iðnnema og sat þar í stjórn. Egg- ert hafði yndi af söng og sjálfur söng hann um tíma í Karlakór verkamanna. Skærasti sólargeislinn í lífi Eggerts hefur án efa verið fjöl- skylda hans. Eiginkonan, dóttir- in og síðar fjölskylda hennar og þá sérstaklega afastrákarnir þrír. Jón Eggert, elsti dóttursonurinn, hefur nú í vetur dvalið hjá afa sínum og ömmu og sótt þaðan nám í Háskólann. Þessi samvera hefur verið þeim öllum mikils virði, en Eggert hefur legið rúm- fastur síðan í haust og að mestu leyti heima fram undir það allra síðasta. Þær eru orðnar margar sjúkra- húsvistirnar hans Eggerts. Hann þráði hins vegar mest að fá að vera heima. Ég veit að Sigurborg er nú að leiðarlokum afar þakklát fyrir að hafa getað gert honum það fært. Seinasta spítalalegan hans Eggerts var aðeins tveir dag- ar. Elsku Sigurborg og Didda, Geir og strákarnir þrír. Ég votta ykkur og aðstandendum öllum mína dýpstu samúð í sorg ykkar og söknuði. Jónína Þórey Tryggvadóttir Fimmtudagur 15. júní 1989 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.