Þjóðviljinn - 01.08.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 01.08.1989, Blaðsíða 4
þJÓÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Sjálfstjóm Eystrasaltslanda í fyrri viku gerðust þau merkilegu tíðindi í Moskvu að Æðsta ráðið lagði blessun sína yfir einhverjar þær róttæk- ustu breytingar sem á dagskrá eru í Sovétríkjum Gorbat- sjovs. Æðsta ráðið samþykkti með miklum meirihluta álykt- anirþar sem Eystrasaltslýðveldunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen, sem voru sjálfstæð þjóðríki á árunum milli heimsstyrjaldanna, er heimilað að taka í sínar hendur stjórn efnahagsmála. Að vísu hefur formlegri lagasetningu um efnahagslegt sjálfræði lýðveldanna verið frestað fram á haustið, en viljayfirlýsing Æðsta ráðsins í þessu efni greiðir vafalaust mjög fyrir því að þau mál komist í höfn. Eistlendingar, Lettar og Litháar urðu öðrum þjóðum Sov- étríkjanna fyrri til að átta sig á þeim möguleikum sem um- bótastefna Gorbatsjovs bauð upp á. Ber margt til þess - bæði staðgóð menntun, fjölbreyttari pólitísk reynsla en aðr- ar þjóðir hafa og tengsli við Finnland og önnur Norðurlönd, sem um margt hafa verið óskmynd Eystrasaltsþjóða um það, hvernig þær vildu helst ráða málum sínum. Einnig má hér við bæta að mjög brýn mál brenna á Eystrasaltsþjóðum, einkum Eistum og Lettum: hin miklafjölgun rússneskumæl- andi fólks í löndunum, sem svo er tengt tillitslausri fjárfest- ingu í iðnaði sem í senn er mengunarvaldur og vinnuafls- frekur og ýtir því undir áframhaldandi aðflutning fólks, með- an heimamönnum fækkar hlutfallslega. Eystrasaltsþjóðir hafa notað glasnost, málfrelsið, til að taka upp þjóðernamálin af hreinskiptni sem löngu var tíma- bær og til að tryggja tungum sínum betri stöðu. Og þær hafa tekið upp hugmyndir perestrojkunnar um efnahagslegt sjálf- stæði og sjálfsábyrgð fyrirtækja og heilla héraða til að berj- ast fyrir því sem nú er að verða: að stjórn efnahagsmála komi heim. Þetta er merkileg og jákvæð þróun - ekki aðeins vegna þess að Eystrasaltsþjóðir voru beittar mikilli hörku þegar þær voru innlimaðar í Sovétríkin með stalínskum aðferðum: fjöldahandtökum, nauðungarflutningum til Síbiríu og þar fram eftir götum. Þessi þróun sýnist ganga þvert á við það sem er að gerast í Vestur-Evrópu: þar mundi margt sem Eystrasaltsþjóðir berjast nú fyrir vera talin úrelt þjóðernis- hyggja, gott ef ekki einangrunarstefna. Eystrasaltsþjóðirnar láta sér ekki nægja að nota málfrelsið til að sækja fram á menningarsviði -en nú upp á síðkastið heyrast raddir í þá veru að tunga og menning fari að verða eina verkefni þjóð- ríkja í álfunni vestanverðri. Eystrasaltsþjóðirnar leggja ein- mitt höfuðáherslu á að ráða sínum efnahagsmálum sjálfar- vegna þess ekki síst að vald yfir þeim ræður úrslitum um framtíð þeirra sem þjóða og möguleika á að breytast ekki í minnihluta í eigin landi. Sjálfræði í efnahagsmálum þýðir nefnilega að ekki verða stofnuð önnur fyrirtæki en þau sem náttúra landanna þolir, ekki önnurfyrirtæki en þau sem kalla ekki á feiknalegs aðstreymi vinnuafls sem mælt er á stór- þjóðartungu og mun seint læra tungu smáþjóðar, hve dýr- mæt og merkileg sem hún er annars heimamönnum sjálf- um. Þau réttindi sem Eystrasaltsþjóðirnar eru nú að öðlast hafa vafalaust mikið gildi sem fordæmi fyrir margar aðrar þjóðir í Sovétríkjunum. Eins og menn vita af fréttum er margt eldfimt í sambýlismálum einstakra þjóða í því risavaxna ríki: þar finna menn ýmsan þann háska sem erfiðastur gæti reynst Gorbatsjov og umbótastefnu hans. En takist sæmi- lega að vinna úr þeim vanda þá geta Sovétríkin einmitt sem margra þjóða ríki orðið vettvangur merkilegrar tilraunastarf- semi sem hefur gildi einnig fyrir aðra hluta heimsins. KLIPPT OG SKORIÐ Er álagning í búðum of lág? í síöasta hefti Þjóðlífs er samantekt um verulegan sam- drátt í verslun, sem stafar af rýrn- un kaupmáttar fólks og minni tekjum (minni yfirborgunum, minni yfirvinnu ofl.). Þar er og fróðlegt viðtal við Þröst Ólafs- son, framkvæmdastjóra Kron, um þessi mál. Þar kemur m.a. fram það við- horf sem algengt er hjá þeim sem starfa við verslun: að álagning á íslandi sé í rauninni alltof lítil. Þröstur segir m.a.: „Maður spyr sig að því hvort hægt sé fyrir alvöru verslunar- starfsemi að lifa við þá álagningu og þau rekstrarskilyrði sem nú eru“. Sannast hér enn sem Karl gamli Marx sagði: verund mótar vitund. Því vitanlega er það svo, að hinum almenna viðskiptavini dettur aldrei í hug að hafa áhyggj- ur út af því að álagning á vöru geti verið of lág í íslenskum búðum. Þvert á móti, honum finnst hún alltof há, hann skilur ekki hvern- ig á því stendur að það er eins og ekkert geti í raun og veru verið ódýrt á Islandi annað en útsöluföt og bækur frá því í hitteðfyrra. Smygl og ekki smygl Hitt er svo annað mál, að vafa- laust er það rétt hjá Þresti að lífs- skilyrði verslana eru mjög mis- jöfn - og sá munur er ekki góð- kynja. Hann talar um litlar sér- verslanir sem fara allt öðru vísi út úr tollheimtu og öðrum opinber- um gjöldum en t.d. stórmarkað- ir. Þröstur segir: „Allt eftirlitskerfið með litlu verslununum er bara allt annað en hjá stórum verslunarkeðjum þar sem upplýsingakerfið er mjög fastmótað og enginn hefur hagn- að af því að skjóta einhverju undan. Hins vegar getur eigandi tískuvörubúðar nánast bara farið út til Glasgow eða London og keypt fatnað í þrjár ferðatöskur og komist í gegnum tollinn toll- laust meðan við þurfum að láta skoða okkar vörur og borga af þeim tilskilin gjöld. Eigandinn tí- undar þetta bara sem einka- neyslu en fer svo með þetta í verslunina sína og leggur þar á vörurnar það sem honum sýnist og enginn veit neitt um neitt“. Þröstur fer hér ekki með nein leyndarmál - en minnir á hluti sem sjaldan eru í umfjöllun. Vanmetin atvinnugrein? Höfuðáhersla er í þessu viðtali lögð á það að verslunin sé van- metin atvinnugrein og þá meinar Þröstur Ólafsson þetta hér: „Þó svo að menn séu alltaf að tala um erfiðleika í sjávarútvegi þá eru þeir engu minni í verslun- inni. En verslunin hefur ekki haft neina samúð hjá stjórnvöldum og kannski ekki hjá þjóðinni heldur, ég veit það ekki. Mönnum hefur verið meira sama um adfrif versl- unarinnar heldur en annarra at- vinnuvega, en þarna eru miklu fleiri atvinnutækifæri í húfi en í öðrum atvinnugreinum. Þetta er vanmetin atvinnugrein“. Ritstjóri Þjóðlífs hnykkir svo á leiðara með að bæta því við að okkur komi öllum við vandi þess- arar fjölmennustu atvinnugrein- ar og sé það „sameiginlegt verk- efni þjóðarinnar að leysa þennan vanda“. Offjárfesting, heildsalar Hvernig í ósköpunum eiga menn að fara að því? Mönnum þykir víst nóg um að vera sífellt beðnir um að aðstoða fram- leiðendur og framleiðslufyrirtæki í nafni byggðastefnu og atvinnu- öryggis þótt þeir séu ekki beðnir um það líka að „greiða úr vanda verslunarinnar". Ekki síst vegna þess, að vandi verslunarinnar er af mörgum þáttum snúinn, og eru amk. sumir lítt hvetjandi til sam- úðar. Einn er sá að menn hafa fjárfest gífurlega mikið í verslun- arhúsnæði, fjármagnskostnaður af þeirri framkvæmdagleði gerir vissulega stórt strik í afkomu- reikning verslana. Annar er tengdur milliliðum milliliðanna - heildsölunum. En Þröstur Ólafs- son hefur ýmislegt um þá að segja. Hann rifjar það upp að ís- lendingar kaupi inn öðruvísi en útlendingar, spyrji meira um vörumerki en vörutegund og heldur svo áfram: „íslendingar, og þá sérstaklega börnin okkar, eru orðin óskap- lega háð (vöru)merkjunum. f verslunum hreyfast varla önnur merki en þau sem hafa náð mikilli auglýsingu. Það tekur því hrein- lega ekki að vera með hitt. Þessar vörur eru í rauninni komnar með slíka einokunaraðstöðu að heildsalinn ræður vöruverðinu en ekki smásalinn. Enda er álagning heildsölunnar orðin miklu hærri en í smásölunni. Það er ákaflega erfitt að eiga við þessa heildsala". Þarna er bent á póst sem ekki er oft milli tanna á mönnum: hvað kostar okkur í vöruverði það auglýsingastríð fyrir heimskunn merki sem leiðir svo til þess að smásalar eru háðir geð- þótta umboðsmanna þeirra? Heilmikið, segir Þröstur. En þá er næst að spyrja: hvað ætla menn að gera við því? Er vald heildsal- anna náttúrulögmál? SÍS er líka heildsali, segir Þröstur, ef menn hefðu viljað tengja vonir við þann aðila. Og Sambandið bætir ekki úr skák, segir hann, vegna þess að það er á kafi í offjárfest- ingum. Til of mikils mælst Það er vafalaust rétt hjá Þresti Ólafssyni að verslunin nýtur ekki mikillar samúðar hjá þjóðinni. Margt ber til þess: meðal annars sú söguleg hefð að kaupmaður- inn var útlendur og menn voru mjög á hans valdi. Einnig lifír í okkur furðulengi rótgróin andúð erfiðismanna á hvítflibbavinnu: hvað á að vera að borga þessu liði stórfé fyrir að rétta einn poka yfir búðarborð? sögðu menn. En í þriðja lagi - og það skiptir mestu - er það vísast til of mikils mælst, að almenningur hafi sérstakar áhyggjur af velferð verslana. Menn telja það víst ærið áhyggju- efni að þurfa að hugsa um fiski- stofna og afkomu útflutnings- greina og bóndann í dalnum, þótt verslunin bætist ekki við. Og þarf það í sjálfu sér ekki að bera vitni um „vanmat" á atvinnugrein, að slíkt tilfinningasamband við hana er ekki virkt. Blátt áfram af því að menn vita það af reynslu að hvar sem fólk kemur saman, þar mun og verslað vera. Þjóðviljinn Síðumúla 6 • 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Rltstjóri: Árni Bergmann. Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson. Aðrlr blaöamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, ólafur Gíslason. Sigurður Á. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Þorfinnur Ómarsson (íþr.), ÞrösturHar- aldsson. Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifatofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingaatjóri: Olga Clausen. Auglýslngar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Simavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir. Bilstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóöir: Erta Lárusdóttir Útbreiðalu- og afgreiöslustjóri: Guðrún Gísladóttir. Afgreiðsla: Bára Siguröardóttir, Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innhelmtumaður: Katrin Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, rltstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Siðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð f lausasölu: 90 kr. Nýtt Heigarblað: 140 kr. Áskrlftarverð á mánuðl: 1000 kr. 4 SÍÐA — ÞJÓÐVIUIINN Þrlðjudagur 1. ágúst 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.