Þjóðviljinn - 25.10.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 25.10.1989, Blaðsíða 4
þJÓÐVILJINN (Vlálgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Evrópu- umræðan Staða (slands í samningaviðræðum EFTA við Evrópu- bandalagið um aðlögun fyrrnefndu fríverslunarsamtakanna að sameigínlegum innra markaði EB er að verða mál mála. Að sönnu hefur verið minna um þá hluti fjallað á opinberum vettvangi en búast mætti við, en eins víst að nú verði mikil fjölmiðlasprenging um þessi mál. Undanfarna mánuði hafa fulltrúar EFTA og EB borið saman bækur - fimm hópar embættismanna frá báðum aðilum og sérstök yfirnefnd eða „stjórnarnefnd“ hafa „athugað með óformlegum hætti þýð- ingarmikil atriði er varða óhindraðan flutning vöru, þjónustu, fjármagns og frjálsan búsetu- og atvinnurétt, svo og jaðar- verkefni (umhverfismál, menntamál og félagsmál),“ eíns og segir í ræðu sem utanríkisráðherra hélt á ráðstefnu í Dublin á dögunum. Þessar nefndir hafa nú lokið störfum og skilað álitsgerðum og nú er komið að hinum pólitísku ákvörðunum. í fréttum hefur því verið haldið fram með almennu orðalagi að embættismannaviðræðurnar hafi gengið vel. En enn veit enginn hvað íþeim pakkaersem þarvarsettursaman. Aftur á móti er það mjög áberandi, að upp er hafinn sterkur fjölmiðlakór sem lætur sem í þessum pakka séu kostakjör ein. Gott dæmi um það var meðferðin á Evrópumálum í kastljósi Sjónvarps nú á sunnudaginn: hver sá sem þar kom fram lagði allar áherslur á glæstar hagvaxtarvonir fyrir ís- lendinga í sameinaðri Evrópu, og svo það að nú lægi á, menn mættu ekki missa af skipinu sem siglir til framtíðar- landsins. Það gat svo varla heitið að minnst væri á það, hvað hagvaxtarsprautan gæti kostað okkar fiskveiðiþjóð, hvað það væri í stefnu og praxís Evrópubandalagsins sem erfið- ast er fyrir okkur að sveigja okkur undir. Ein syrpa í sjónvarpi segir að sjálfsögðu ekki nema tak- markaða sögu. En því er á hana minnst að hún er dæmigerð um flest það sem menn sjá og heyra um Evrópumál þessa dagana. Það er áberandi tilheinging, sem fyrr segir, til að gera sem mest úr kostum þess að „vera með“ í Evrópu, en draga úr erfiðleikum öllum. Oftar en ekki er sem menn séu að telja sér trú um að allur okkar efnahagsvandi leysist, bara ef við erum í takt við alla hina í EFTA og EB. Margir gera sér allt auðvelt með óskhyggju, eins og sá þingmaður Sjálf- stæðisflokksins sem segir í grein í Morgunblaðinu í fyrri viku að „Ef EB ætlar að vera sjálfu sér samkvæmt ætti það að leggja áherslu á að íslendingar nýttu einir auðlindir hafsins umhvefis landið". Skyldi það ekki vera nær sanni að segja, að EB er þá aðeins sjálfu sér samkvæmt að það heimti að erlendir aðilar fái að vasast í sjávarútvegi hér eins og öðru sem arðsvon er í: Til hvers væru annars grundvallarreglur EB um óhindraðan flutning fjármagns og vinnuafls? Það eru reyndar Sjálfstæðismenn sem mest hamast við að herða róðurinn inn í „evrópskt efnahagssvæði". Það er í þeirra röðum sem hugmyndir um beina aðild að sjálfu Efna- hagsbandalaginu eru lengst komnar- þeim virðist, ef marka má skrif Morgunblaðsins, einna helst slegið á frest núna af þeirri einföldu ástæðu að EB tekur ekki við umsóknum næstu þrjú árin eða svo. Við getum úr þeirri átt búist við harðri áróðurshrinu, þar sem stjórnarflokkunum, einum eða fleirum, verður lýst sem miklum dragbít á hina einu sönnu þróun. Það er eins gott að hrökkva ekki upp af standinum í þeim látum. Vitaskuld verðum við að semja um okkar viðskipti við Evrópubandalagið. En það er heimska að láta sem við eigum engra kosta völ, sem við séum eins og dæmdir fyrirfram inn í ákveðna þróun (sem þar að auki sé fremur sársaukalítil). Og það er meir en öfugsnúið þegar smáþjóð, sem um hundrað ára skeið taldi það höfuðverkefni sitt að ná sjálf tökum á sínum málum - hvort sem um stjórnsýslu eða forræði yfir auðlindum var að ræða - skal nú talin á að flana sem hraðast inn í samvinnu þar sem mjög verður þrengt að öllu sjálfsforræði þjóða. Hægt mun að festast, bágt mun úr að víkja, kvað Jón skáld Helgason. KLIPPT OG SKORIÐ Búdapest 1956: gagnbyltingin er orðin að þjóðaruppreisn... Nýtt ungverskt lýðveldi Á afmælisdegi uppreisnar Ungverja árið 1956 gerðust þau tíðindi, að starfandi forseti lands- ins, Matyas Szuros, lýsti yfir því að Ungverjaland væri nú lýð- veldi, en ekki alþýðulýðveldi eins og opinbert heiti ríkisins áður lýsti yfir. Petta eru merkileg tíð- indi, ein af þeim reyndar sem verða til þess að gamall hundur í blaðamennsku segir við Klippara í gær: „Ég er alltaf að hlusta á fréttir frá Austur-Evrópu sem mér finnst að geti ekki átt sér stað“. Að geta breyst Hann á við þetta hér: Það hefur verið útbreidd kenning á Vestur- löndum að munurinn á fasísku eða hálffasísku hernaðareinræði og kommúnísku flokksræði væri sá, að það væri hægt að losna við hið fyrrnefnda. Flokksræðið kommúníska væri aftur á móti svo altækt og frekt að það gæfi ekkert svigrúm meiriháttar breytingum, hvað þá að það gæti tekið upp á því að afsala sér valdseinokun. Það er þessi kenn- ing sem viðburðir í Ungverja- landi og Póllandi eru að afsanna með ótrúlegum hraða þessar vik- ur og mánuði. Það var einmitt til þess tekið í fréttum nú í vikunni að ekki er nema ár frá því að lög- reglu var í Búdapest sigað á fólk sem hafði safnast saman til að minnast þeirra sem létust í upp- reisninni 1956 - nú er fyrsti dagur þeirrar uppreisnar orðinn opin- ber þjóðhátíðardagur og hinir endurhæfðu valdhafar velja hann til að lýsa yfir fyrirvaralausu fjöl- flokkalýðræði, sem verður að veruleiíca í kosningum á næsta ári. Ásamt með þeim breytingum á stjórnarskrá sem til þarf. Hvað var alþýðulýðveldi Sem fyrr segir: alþýðuveldun- um í Austur-Evrópu, sem svo voru nefnd, hefur fækkað um eitt. Iívað þýddi þessi formúla, al- þýðulýðveldi? Hún fól það í sér, að í kjölfar sóknar Rauða hersins í stríðslok væri komið upp um austanverða álfuna stjórnarfari sem dró mjög dám af hinu sov- éska, en væri þó ekki alveg eins. Það átti að vera sameiginlegt al- þýðuveldum og Sovétríkjum Stalíns, að samkvæmt skil- greiningu væru völdin í höndum verkalýðsins, alþýðunnar - en í reynd í höndum Kommúnistafl- okksins (eða flokks sem til varð í Austur-Évrópulöndum upp úr Kommúnistaflokki og einhverj- um hluta sósíalískra eða sósíal- demókratískra flokka). Allt byggði þetta á þeirri forsendu, að pólitíkin væri einskonar vísindi sem forystusveit verkalýðsins, Flokkurinn, hefði á valdi sínu, og gerðu raunverulegt fjölflokkak- erfi óþarft. Það átti þó svo að heita að í alþýðuveldunum væru til fleiri flokkar - en það voru leifar af miðflokkum ýmiskonar, sem fengu að lifa einskonar skuggatilveru og skipa í nokkur embætti, án þess að þeir fengju að hafa nokkurt pólitískt frum- kvæði eða reka fyrir sér áróður. Nokkrar fleiri stoðir Sigur Sovétríkjanna í styrjöld- inni og nærvera Rauða hersins skipti miklu um þessa þróun og harkalega meðferð á þeim sem gegn henni snerust. Það væri samt einföldun að segja að ekki hefðu fleiri stoðir runnið undir alþýðuveldin en herinn sovéski. í sumum löndum (t.d. Tékkósló- vakíu) höfðu kommúnistar getið sér gott orð fyrir andóf gegn þýsku hernámi, álfan var í vinstri- sveiflu. Fyrirheit um marksækinn sósíalískan áætlunarbúskap hljómuðu vel út í eyrum margra þeirra sem höfðu fengið að kenna á djúpstæðri kreppu á fjórða ára- tugnum. Æskufólk úr alþýðu- stéttum var bjartsýnt á þá menntunarmöguleika sem því opnuðust með ýmsum sérstökum ráðstöfunum í alþýðuveldunum. Ofbeldi, hnignun En ský dró fljótt fyrir þá sólar- glætu með faraldri sýndarréttar- halda að stalínskri fyrirmynd yfir þeim kommúnistaforingjum þessara landa sem helst voru lík- Íegir til að vilja fara sínar leiðir. Þau réttarhöld, sem og sovésk hernaðaríhlutun í Ungverjalandi 1956ogTékkóslóvakíu 1968, ýttu mjög undir fyrrnefnda kenningu um að engar breytingar yrðu leyfðar, hvað sem þarfir og vilji almennings segðu. En það er svo sjálf efnahagsþróunin sem gerir gys að þeim pólitíska „árangri" sem flokksræðið taldi sig ná með hervaldi. Þessi lönd drógust aftur úr grönnum sínum í vestri með úreltri tækni, sóun á mannafla, orku og hráefnum, offjárfesting- um í þungaiðnaði, vöruskorti osfrv. Það er óánægja almenn- ings með þessa hluti sem öðru fremur magnar upp óánægju með pólitíska forystu flokka, sem í sinni forréttindastöðu spillast æ meir eftir því sem lengra líður. Óánægju og breytingakröfur, sem smám saman gera það kerfi sem eitt sinn sýndist svo ramm- gert, svo til óstarfhæft. Áhrif ungverska fordæmisins Þess vegna hefur nú valda- flokkurinn ungverski verið lagður niður og stofnaður Sósía- listaflokkur í hans stað, sem verð- ur eins og hver annar flokkur meðal flokka. Munu önnur lönd á eftir koma? Svo þverstæðufullt sem það er, þá fer það mjög eftir því hvaða útreið valdsflokkurinn sem var fær í frjálsum kosningum á næsta ári. Ef hann fær herfilega útreið mun það líklega forherða valdhafa t.d. í Berlín og Prag - þeir munu sjá sína sæng út breidda. Ef að Ungverjar hins- vegar stilla sig um að hefna sín á þeim sem sjálfkjörnir voru í fjörutíu ár og láta þá njóta þess a.m.k. að þeir taka nú upp lýð- ræði án þess að til ofbeldisverka komi - með öðrum orðum: ef Só- síalistaflokkurinn nýi fær sæmi- lega útreið í frjálsum kosningum, þá batna líkur á friðsamlegri lýðr- æðisþróun í grannríkjunum. Meira en svo: kosningar í Ung- verjalandi skipta og miklu máli fyrir stöðu Gorbatsjovs í Sovétr- íicjunum, meðal annars vegna þess að perestrojka hans í efna- hagsmálum hefur horft mjög til Ungverjalands sem einskonar til- raunavettvangs með fráhvarf frá altækri miðstýringu. áb þJÓDVIUINN Síðumúla 6-108 Reykjavík Sími:681333 Kvöldsími: 681348 Símfax: 681935 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Framkvœmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Rit8tjórar: Árni Bergmann, ólafur H. Torfason. Fróttastjóri: SigurðurÁ. Friðþjófsson. Aðrlr biaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur Rúnar Heiðarsson, HeimirMár Pétursson, HildurFinnsdóttir(pr.),Jim Smart (Ijósm.), Lilja Gunnarsdóttir, Ólafur Gíslason.Þorfinnur ómars- son (íþr.), ÞrösturHaraldsson. Skrifstofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Svanheiður Ingi- mundardóttir, UnnurÁgústsdóttir. Símavarsla: SigríðurKristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjórl: JónaSigurdórsdóttir. \ Útbreiðslu-ogafgreiðslustjórkGuðrúnGísladóttir. \ Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Halla Pálsdóttir, Hrefna \ Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. . Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla6, Reykjavík, símar: 68 13 33 & 68 16 63. Símfax:68 19 35 Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrotog setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 90 kr. Nýtt Helgarblað: 140kr. Askriftarverð á mánuði: 1000 kr. 4 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Miðvlkudagur 25. október 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.