Lesbók Morgunblaðsins - 31.01.1954, Page 5
- LESBÓK MORGUNBLAÐSINS
57
sveiflaði honum til og frá á því
þangað til farið var að blæða úr
kjálkabörðunum. En þá skárust
aðrir í leikinn og skildu þá eins og
grimma hunda. Þetta gerðist úti á
hlaði. Ég fékk nóg af að horfa á
þetta og flýtti mér í bæinn. Var
mér þar vel tekið og gisti ég þar
um nóttina.
Heim kom ég svo daginn eftir
til Merkiness. Þar var aldrei haft
mikið vín um hönd og var það sér-
stakt, þar sem rúmlega 40 röskir
sjómenn voru saman komnir. Ég
var ekki fyrr kominn heim en ég
varð að fara að draga í eldinn fyr-
ir hana Gerðu mína og hjálpa
Siggu til að mala. Sigga var niður-
setningur og átti altaf að vera að
mala rúg og bankabygg, því að
mjöl fluttist þá ekki til landsins.
Ég malaði oft fyrir Siggu, því að
amma mín bað mig að létta undir
með henni, veslingnum. Amma
vorkenndi henni, því að á hverj-
um degi þurfti að mala hálfan
fjórðung svo dygði í brauð og út
á grauta handa 25 manns.
Oft varð ég að fara upp í heiði
til þess að rífa lyng handa kúnni
og kindunum. Kúnni einni var ætl-
að hey, en í harðindum vildi slæð-
ast nokkuð af því í hesta og kindur,
og varð því að rífa lyng líka handa
kúnni. Mér þótti þetta leið atvinna,
enda var það sú mesta rányrkja,
sem hugsast gat, að rífa lyngið
þangað til svart flag var eftir.
Það er ekki von að Reykjanesskagi
sé gróðurríkur, þar sem lyngið hef-
ir verið rifið öldum saman jafn-
skjótt og það reyndi að festa ræt-
ur og skapa gróðrarmold.
AUMK VUN ARVERÐ AR
SKEPNUR
Nú er ekki meira að segja af
veru minni í Merkisnesi. Ég fór
þaðan á lokadaginn og lagði land
undir fót. Ég gekk yfir túnin í
Staðarhverfinu og þótti mér þar
ljótt um að litast. Vetur gamli
hafði haft gripageymsluna fyrir
bændur. Þar voru grindhoruð
hross og eitt fallið úr megurð eða
sandsótt. Strigi var saumaður utan
um töglin á hrossunum svo að fé
skyldi ekki naga allt hár af stert-
unum á þeim vegna hungurs. Þar
sá ég líka fé, sem klætt var í striga,
því að það hefði etið ullina hvað
af öðru.
Síðan hélt ég að Hrauni í Grinda-
vík til þess að hitta Pál félaga
minn, því að við vorum sammælt-
ir á leiðinni austur. En þegar ég
kem þar hafði hann ráðið sig til
sjóróðra og landvinnu á vorver-
tíð. Þarna var ég um nóttina og
svaf hjá Páli. Sagði hann mér þá
að þar hefði gengið mikið á um
daginn, áflog og ryskingar og hefði
endað með því að einum hefði ver-
ið skotið á hausinn niður í hland-
forina. Sá hefði ekki verið frýni-
legur, er hann var dreginn upp,
en mesti vígamóðurinn var þá úr
honum. Þetta voru lokin.
LÖNG DAGLEIÐ
Nú ætlaði ég að ná í Jón Benó-
nýsson á Þorkötlustöðum og
flýtti mér þangað í býtið morgun-
inn eftir. Hann var þá farinn, en
ég fékk þó samfylgd, þrjá karl-
menn og sjóbúðar ráðskonu, sem
ætluðu austur í Fljótshlíð. Hýrn-
aði þá heldur yfir mér. Þetta var
röskleika fólk að sjá og sýndist
mér á ráðskonunni að hún mundi
ekki verða eftir af okkur. En svo
vorum við beðin fyrir 4 tryppi að
rek^þau upp í heiði. Þau voru svo
horuð og lúsug að við gátum ekki
látið þau bera pokana okkar og
losuðum okkur því fljótt við þau.
Nú var sólskin og breiskjuhiti
og tók okkur brátt að þyrsta. Ekki
fundum við Drykkjarstein, því að
nú var landið allt öðruvísi en um
veturinn þegar hann stóð einn upp
úr gaddinum og benti a sig. Þegar
austur í Ögmundarhraun kom voru
þar djúpar sporholur í klappirnar
eftir hestafætur og líkt og þrep
sums staðar, eins og stendur í
gamalli vísu:
Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar,
sem fáka reyna fæturnar
og fyrir þeim brjóta skeifurnar.
í tveimur af þessum holum var
mjög gruggugt vatn, en svo vorum
við þyrst að við þurtæmdum þær
og fengum þó ekki nóg. Ekkert
gátum við talað saman fyrir þorsta,
en þegar við komum til Krýsivík-
ur fengum við sýrublöndu, — og
mikill himnaríkisdrykkur var það.
Síðan var haldið áfram austur í
Herdísarvík. Þar ætiuðum við að
matast, en það var ekki hægt fyrir
mývargi og enginn maður heima,
svo ekki komumst við í bæinn.
Við héldum svo fyrir ofan vatn,
til þess að losna við Vogsósana og
komum að Stakkahlíð. Þar hvíldum
við og átum. Þar lá í hlaðvarpan-
um tryppi svo horað að það gat
ekki staðið á fótunum, en annað
skjögraði þar í kring um það. Svo
var haldið austur að Ölfusá í sama
steikjandi hitanum, og var ekkert
lát á ráðskonunni og var þetta þó
orðinn all langur og erfiður á-
fangi. Hún gerði að gamni sínu og
lét fjúka í kviðlingum, en heldur
voru þeir grómkenndir. Við feng-
um ferju í Óseyrarnesi og svo
skildust leiðir á Eyrarbakka. Þakk-
aði þar hver öðrum fyrir sam-
fylgdina. Og mér fannst það vel af
sér vikið af kvenmanni að hafa
gengið á einum degi í óþolandi hita
alla leið frá Grindavík til Eyrar-
bakka.
MAÐUR VERÐUR
AÐ BJARGA SÉR
SEM BEZT GENGUR
Síðumenn, sem ég atti að verða
samferða, voru famir fra Eyrar-