Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.1959, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.1959, Blaðsíða 2
458 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS leifar myndi finnast á Ströndinni eða í Vogunum. Hann sagði að svo mundi ekki vera og engar sögur færi af því. Ekki væri orð á þvi gerandi þótt munnmæli hefði skap- azt um að nokkrir hólar væri leg- staðir fornmanna. — Hvað segirðu þá um Flekku- leiði og rúnasteininn í Flekkuvík? spurði eg. — Eg hefi aldrei séð hann og hafði gleymt honum, sagði hann. En vel á minnzt, það mun vera steinn með einhverju letri í traðar- garði hjá Stóra Knarrarnesi. — Hvers konar steinn er það og hvað stendur á honum? — Þetta er grágrýtissteinn, en ekki veit eg hvað á honum stend- ur. Eg fluttist að Stóra Knarrar- nesi 1920 og skoðaði steininn þá margsinnis, en letrið var með öllu ólæsilegt. Eg spurði marga um steininn, en enginn vissi hvað á honum stóð, né hvernig á honum stóð. Þá bjó á Minna Knarrarnesi aldraður maður, Gísli Sigurðsson, og mun hann hafa verið fæddur um 1850—60. Hann var glöggur maður og skilríkur. Hann sagði mér að letrið hefði verið ólæsilegt alla sína tíð. Foreldrar hans höfðu búið þarna á undan honum og þar áður afi hans og amma. Eigi vissu þau heldur hvað á steininum stóð, en Gísli sagði að sér hefði verið sagt, að það mundi vera eitthvert vers. Nánari upplýsingar hafði hann ekki getað fengið, þrátt fyrir eftirgrennslanir. Þykir mér því líklegt, að letrið muni hafa verið orðið ólæsilegt þegar um 1820, eða fyr. — Hvernig heldurðu að standi á því, að Jónasi Hallgrímssyni og öðrum sem verið hafa að skygnast eftir fornleifum þama, skyldi ekki vera sagt frá steininum? Enginn þeirra getur hans að neinu fremur en hann væri ekki til. — Eg veit það ekki, svaraði Benjamín, en eg gizka helzt á, að það hafi verið vegna þess, að menn hafi blátt áfram ekki munað eftir steininum. Það var svo langt síðan að letrið hafði orðið ólæsilegt, að menn voru hættir að líta á stein- inn, þeir gengu fram hjá honum án þess að muna eftir honum. Og þó var steinninn við alfaraveg. Áð- ur en akvegurinn kom lá leiðin meðfram sjónum og meðfram tún- görðunum, og þá hlutu menn að fara fram hjá þessum steini. Eg hygg að hann hafi upphaflega ver- ið þar í túngarðshliði, að túnið hafi ekki náð lengra frá bænum, en að honum. Seinna hefir svo verið hlaðinn traðarveggur suður frá þessum garði, og hefir steinninn þá lent í innanverðri kverkinni milli þeirra, og orðið þannig nokkuð út úr skotinn. Þó fór fólk þarna alltaf yfir þegar það fór til kirkju, svo að steinninn var enn á leið þess. Samt gleymdist hann vegna þess að eng- um þótti hann merkilegur. Menn vissu ekkert um uppruna hans né hvað á honum stóð, og engar sögur eða sagnir voru við hann tengdar. o-----O----o Þessar voru þær upplýsingar, sem Benjamín gat gefið mér um letursteininn hjá Knarrarnesi. Það var að vísu ekki mikið á þeim að græða, en þær nægðu þó til þess, að mig langaði til þess að sjá steininn. Fyrsta góðviðrisdag þar á eftir fór eg því vestur að Knarr- arnesi. Þar hitti eg Ólaf bónda Pét- ursson. Kannaðist hann fljótt við steininn og vísaði mér á hann. Margt hefir breytzt þarna á liðn- um árum. Túnið hefir verið fært mikið út og alfaraleið liggur nú ekki lengur meðfram túngörðum, en þjóðvegurinn er þó skammt frá bænum. Áður voru djúpar traðir heim að bænum með hlöðnum veggjum á báða bóga, en nú eru þær horfnar. Knarrarnesbæirnir standa innst við svonefnda Breiðagerðisvík að vestanverðu. í Stóra Knarrarnesi hefir lengi verið tvíbýli og þar eru nú tvö íbúðarhús. En að baki þeirra eru enn leifarnar af gömlu torfbæ- unum, sem þar voru. Hefir heim- reiðin verið önnur áður en íbúðar- húsin voru byggð og legið austar en nú er. En þó mun garðshliðið enn vera á sama stað og áður. Þar mætast tvö garðbrot, og í kverk- inni innan við þau er steinninn, eins og Benjamín hafði lýst. Þetta er jarðfastur grágrýtissteinn, um metri á lengd og toppmyndaður og tveir fletir á honum, annar mót suðri, hinn gegnt suðvestri. Ekki verður stærð steinsins séð að öðru leyti, því að honum gengur gróinn jarðvegur, svo að hann er að hálfu leyti á kafi. Á þeim fletinum, sem mót suðri snýr, er letrið. Þess gætti nú svo lítið, að Ólafur varð að benda mér á það. Steinninn var allur þakinn skóf- um, sem voru samlitar honum. Þessar skófir höfðu víðast hvar sléttað yfir stafaristurnar, svo að þeirra sá ekki stað. Með aðgæzlu mátti þó lesa upphaf fyrstu línu: „17 HVNDRVÐ.. “ og svo nafnið: „BIARNE EIOLFSSON“ í neðstu línu. En þar á milli sá aðeins móta fyrir staf og staf og varð alls ekki séð í fljótu bragði hvað línurnar mundu vera margar. Eg tók mér fyrst fyrir hendur að hreinsa þá stafi, er sýnilegir voru og reyna að þreifa mig áfram hvort eg gæti fundið fleiri. Það tókst um einn og einn staf, en árangurinn varð harla lítill. Þóttist eg sjá, að eg yrði fyrst að reyna að skafa skófirnar af öllum fletinum, áður en tækist að sjá stafaskil. En þá rak eg mig á það, að skófirnar voru álíka harðar og steinninn sjálfur. Með því að skafa þær af, átti eg á hættu að kvarnast mundi úr stein- inum og letrið skemmast við það.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.