Lesbók Morgunblaðsins - 11.12.1966, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 11.12.1966, Blaðsíða 10
AÐ FAGNAÐI Framhald af bls. 1. á einn bóndabæ og lentum í þreifandi myrkri í skóginum á heimleiðinni. Hugsa sér kolsvarta myrkur um pásk- ana! í sólskini sátum við uppi á hæðinni „Vettan“ og horfðum yfir rauð og ljós- máluð bændabýli, sindrandi hvíta kirkjuna, sléttur, sem líktust bylgjandi, fagurgrænu flosi, ása klædda dökkum skógi. Rómantískar sveitalýsingar Björn stjerne Björnsson voru mér ríkar í minni, er ég leit yfir þessa frjósömu og fögru byggð. egar rökkvaði settumst við í kringum arineldinn og röbbuðum sam- an. Stofan var þægilega útbúin með legubekkjum og mjúkum stólum. Undir einhverri stólsetunni var alltaf gervi- mús, sem tísti ámátlega þegar sezt ■var á sessuna, sem hún var falin undir. Hyggelia. Alfhildur A borðunum voru þverröndóttir dreglar og skrítnir vasar með hvítum blómum (hvítveis), sem við tíndum í skóginum og settum í rakan mosa. Bjálkahúsið hét Hyggelia, eigandi þess var föðursystir Ryggsystkinanna, kennslukona við hússtjórnarskóla í Osló. Hún dvaldi í Hyggelia lengst af í sumarleyfum sínum, og þangað hafði hún flutt ýmsa ættargripi og skapað sér þarna mjög vistlegt heimili með hlýjum persónulegum blæ. Já, það var sannarlega „hyggeligt“ í Hyggelia. Það vildi til að við Álfhildur pexuð- um dálítið um stjórnarfarið í Þýzka- landi. Þýzk stúika, pennavinur Álf- hildar, skrifaði henni langar lofgerðar- rollur um foringjann og allt það mikils- verða skipulagningarstarf, sem hann hefði afkastað landi sínu og þjóð til heilla. Álfhildur var að vísu ekki blind- ur nazismadýrkandi, en lofgerð þýzku stúlkunnar hafði þó haft talsverð áhrif é hana. Ég komst fljótlega að því, að í Horten var einhver slæðingur af ungl- ingum, sem voru að leika sér að því að þykjast nazistar. Ég fór nokkrum sinnum með Álfhildi á ritstjórnarskrifstofu „Horten Blad“. Þar var vinstúlka hennar, sem kölluð var gælunafninu Annechen, Annekén, var það víst borið fram í Horten en úr þýzku þar það komið. Hún var með ó- laglegustu ungu stúlkum sem ég hef séð, og mjög hirðulaus um klæðaburð sinn, en leiftrandi af greind, áhuga og kæti og var mjög vinsæl meðal unga fólksins í Horten, sem ekki mun hafa haft meira en tíu til ellefu þúsund íbúa þá. Þegar Annechen var á gangi um göt- ur bæjarins hafði hún varla við að heilsa með uppréttum armi og köllin: Heil og sæl! Heil og sæl! hljómuðu þvert yfir götur og torg. Þessari fornu kveðju var hroðalega misþyrmt af þeim, sem ég Jieyrði nota hana í Noregi, því að orðin voru borin fram hæl og sel. Ég tók nazistakveðjurnar í Horten fyrir ungæðishátt og gamansemi, því að yfirleitt fór lítið fyrir þeim stjórn- málaflokki í Noregi, þegar ég þekkti þar til. Eitt sinn lenti ég á útifundi á Bragernestorgi í Drammen 1935. Þegar ég innti eftir því hverskonar mannsöfn- uður þetta væri var mér svarað því, að þetta væri bara Nasjónal samlingen Af orðanna hljóðan og raddblæ mátti heyra að þetta þætti svo sem engin merkissamkunda. Enda munu engir aðrir en meðlimir N. S. og ef til vill aðeins nokkur hluti þeirra hafa trúað því að þeir ættu eftir að verða valda- miklir í Noregi. Eða öllu heldur settir aí hærra valdi til að verða húsbændur, dómarar og böðlar landa sinna. og frænka hennar. Nú víkur sögunni aftur að okkur Ingiríði, þar sem við sátum við kaffi- drykkju í hérberginu mínu í Skille- bekk. Ég var fátæk námsstúlka í Osló og vann að nokkru leyti af mér húsa- leiguna með stigaþvotti. Ingiríður var í vist hjá háttsettum foringja í hern- um. Hún hafði lokið námi í húsmæðra- skóla, en varð að geía fært sönnur á að hún hefði stundað heimilisstörf á eigin ábyrgð tilskilinn tíma til þess að fá inngöngu í Statens lærerinneskole í husstell á Stabekk. — Hvað finnst þér að við eigum að gera? spurði ég. — Þó að gaman sé að spjalla saman iheld ég, að við unum því varla, að sitja allt liðlangt kvöldið með hendur í skauti í þessari herberg- iskyrtu. — Mér finnst reglulega skemmtilegt, að fara á farfuglafundi, sagði Ingi- ríður. — En það er áreiðanlega enginn íarfuglafundur í kvöld. — Ég skrepp yfir til frú Ohlsen og fæ að sjá „Aftenposten“. — Það er skemmtifundur hjá Lands- ungdomslaget, sagði ég þegar ég kom aftur. Við könnuðumst ekki við nafnið, en töldum öllu óhætt að fara og sjá, hvað þarna væri að gerast. Ég hafði gleymt að gæta þess í blað- inu, hvar ætti að halda fundinn, en Ingiríður taldi víst, að það mundi vera í Bondeheimen, en þegar þangað kom var þar venjulegt kaffihúskvöld og lát- laust aðstreymi af fólki. — Það er „dueslípp“ sagði dyravörð- urinn brosandi, þegar ég spurði hvers vegna svo margt væri þar um mann- inn og áberandi mikið af ungum stúlk- um. „Dueslipp" er gæluorð, sem haft er um vinnukonufrídag. í Bondeheimen var okkur vísað á eitthvert sveitamannamötuneyti, sem hafði samkomusal. Eftir töluverða snúninga, fundum við í kjallarasal ein- um fólk það sem við vorum að leita lags við. Þá leyndi sér ekki, hvar við vorum í flokki staddar. Á veggnum bak við ræðustólinn var strengdur fáni Ólafs helga, gulur kross á rauðum grunni. Þetta var fáninn, sem Nasjónal samlingen, N.S., beitti sér fyrir að tek- inn yrði upp sem þjóðfáni Norð- manna. Fólkið sem þarna var samankomið var yfirleitt ungt, gerðarlegt og látlaust. Salurinn var viðhafnarlaus, en nýlega málaður og þokkalegur. Ungur, ljóshærður piltur í grárri peysu var að halda ræðu. Hann hvatti til harðrar sóknar, því að engu væri að tapa, en allt að vinna. „Köstum þrælsokinu af herðum vor- um! Vér viljum alþýðuaðal en ekki öreigalýð . . . Hugsum ekki um vesalan Vinning einstaklingsins, heldur sam- einumst í baráttunni fyrir sterkri, sam- huga, frjálsri, norskri þjóð! Stöndum einhuga saman gegn marxismanum! Burt með útlendar stefnur og alþjóða- ríki! Vinnum þjóð vorri allt, sem orkan leyfir!“ í ræðum og söngvum hljómuðu þessi orð, eða önnur svipaðrar merkingar: „Fram N. S. ungherjar! Berjizt gegn rauðliðunum! Berjizt fyrir hinn nýja Noreg, framtíðarríkið! Takmarkið er: skipulag, réttlæti og friður . . . Heill þér, foringi, þú hefur lyft merkinu og vér munum fylgja þér unz markinu er náð!“ „Fram, allir norskir menn og norskar konur! Undir merki Ólafs helga heyj- um vér baráttu vora fyrir skipulagi, réttlæti og friði!“ Meðan ræður voru fluttar og baráttu- söngvar kyrjaðir var ekki laust við, að smáskríkjur heyrðust í Ingiríði minni. Henni fannst það hálffyndið, að við skyldum hafa hafnað á þessari áróðurs- samkomu, svona alveg grandalausar. Seinna um kveldið hitti Ingiríður kunn- ingja frá Horten og skemmti sér alveg prýðilega. Formaður N. S. ungherja var hrókur alls fagnaðar. í fyrstu fannst mér hann ekki líkt því eins herskár og pilturinn í gráu peysunni. Hann bauð mér í dans og komst þá að því að ég væri frá ís- landi. — Eru nokkrir kommúnistar þar? spurði hann. Ég játti því. — Það er Ijótur flekkur á heiðri sögu- þjóðarinnar, sagði hann og hélt að vík- ingarnir gömlu hefðu ekki verið lengi að kála nokkrum kommúnistakvikind- um. Ég hugsaði um eitthvað til að bauna á hann fyrir þessi orð: — Það er ljótt að heyra, hvernig þið misþyrmið hinni fornu, fögru kveðju: Heil og sæl, (eða sæll), og vildi fá hann til að kenna félögum sínum ís- lenzkan framburð, sem ég taldi upp- runalegri. Hann hét öllu góðu um það, en með sjálfri mér var ég sannfærð um að kveðjunni Hæl og sel mundi ekki verða breytt. Það var komið fram á nótt, þegar við Ingiríður leiddumst í veg fyrir strætisvagn, sem okkur hentaði. — Heldurðu að nazistarnir nái nokkurntíma undirtökum í Noregi, og takist að skapa það framtíðarríki, sem þeir eru sífellt með á vörunum? spurði ég Ingiríði, en fannst um leið að spurn- ingin væri frámunalega fjarstæðu- kennd. — Ne-ei, svaraði Ingiríður. — En fán- inn þeirra er fallegur. E kki þykir mér sennilegt að lngiriöi hafi oft orðið hugsað til hins stutta ævintýris okkar með N. S. ung- herjum, og þess hve bágt hún átti með að halda niðri í sér hlátrinum yfir hin- um vígalegu tilburðum þeirra og hátt stemmdu slagorðum. En það liðu ekki mörg árin áður en hláturinn fór af og Norðmenn urðu skelfingu lostnir yfir athæfi þeirra, sem þeir höfðu áður talið meinlaus grey, en nú gerðust böðlar landa sinna og sviku þá með öllu móti. Ingiríður hóf nám við Statens lærer- inneskole í husstell á Stabekk. Friður ríkti í landinu meðan hún lærði og lauk prófi, en uggurinn við það, sem var að gerast úti í heimi, fór sívaxandi. Og svo rann upp 9. apríl 1940, þegar Þjóðverjar óðu inn í Noreg gráir fyrir járnum. Þeim var greidd leiðin af nazistum, sem voru kenndir við foringja sinn og kall- aðir Quislingar. Svo sem mörgum mun enn í minni, svo hræðilegt var það, flutti Vidkun Quisling ræðu í norska útvarpið inn- rásardaginn. Hann tilkynnti með makt Qg miklu veldi, að ríkisstjórninni hefði verið vikið frá, en hann tekið við öllum völdum. (Herra til sjós og lands 1 upp- hafi!) Ef her Norðmanna hreyfði sig til varnar þýddi það dauðarefsingu .... --------En það var Stabekk, skólinn hennar Ingiríðar (og þó nokkurra ís- lenzkra stúlkna), sem ég ætlaði að minnast á að lokum. Því að þar mátti með sanni segja, að „Herrfolket" sæti að fagnaði með fimmtu herdeild. Skólinn var ekki tekinn hernámi fyrr en langt var liðið á stríðið, líklega um það bil tveimur árum fyrir stríðslok. Þá var þetta öndvegis menntasetur gert að einskonar „Slaraffenlandi“ fyrir „Wehrmakten", en það var orlofs-hvíld ar- og hressingarhæli, réttasta nafnið hefði verið letigarður í orðsins fyllstu merkingu ,slík óhirða og letingjabragur, sem þarna ríkti í einu og öllu! •Þeir, sem sáu Stabekk eftir stríðslok, en þó enn í höndum Þjóðverja sögðu að það hefði verið sem hin ægilegasta martröð að sjá þá hræðilegu meðferð, sem staðurinn hafði sætt. Það var að sjálfsögðu blaðafólk, sem þarna gekk um garða, að fengnu leyfi húsameistara ríkisins, og undir leiðsögn fólks, sem hann valdi til fararinnar. Einhverjum varð að orði við komuna: „Það þarf sjálfsagt ekki minna en tíu þúsund til að bæta upp skemmdirnar hér“. (Norskar krónur 1945). — Hverjar tíu þúsund krónur eru eins og dropi í hafið, svaraði fulltrúi húsameistara. Og við skoðunina reynd- ust skemmdirnar svo yfirgengilegar, og sumar óbætanlegar, að engar tölur náðu yfir. Á Stabekk lifðu nazistar svo sannar- lega í „rús og dús“. Hlunnindi og þægindi öll fóru að sjálfsögðu eftir metorðum í hernum, þeir sem hærri voru að tign voru vitan- lega betur settir með kvennafar sitt eða kynvillu.en undirmennirnir, þó að þeim yrði vitaskuld til hjálpar að „tysker- tösene“ voru ekki vandar að bóli, nó sökuðust um, þó að „elskhuginn" „elsk- aði“ þær í námunda við aðra dáta. Ástin sigrást á öllu! Ég ætla nú að minnast á nokkur atriði með Sta'bekk, sem hafa festst mér í minni, ég hef ekki tiltæk bréf né held- ur prentað mál um þetta, þó að ég eigl bæði sendibréf og nokkurt úrklippusafa úr blöðum eftir stríðslok, þegar betur kom í ljós, hvað raunverulega hafði gerzt í Noregi hin hræðilegu hernáma ár. Framhald á bls. 13. 10 LESBÓK MORGUNBLAÐ SINS 11. desember 1966

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.