Lesbók Morgunblaðsins - 07.01.1968, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 07.01.1968, Blaðsíða 3
Thor Vilhjálmsson SÍÐARI HLUTI MIKJALL BVt.lll ASHHIAS Þó eflaust hafi Asturias verið efst í huga minningarnar um einveldi Ca- brera sem stóð öll uppvaxtarár hans þá var ætlun hans að bókin væri ekki staðlbundin en sýndi þá eitrun sem alltaf leiðir um allan þjóðarlíkamann frá einveldinu, þá spillingu sem fylgir of miklu valdi. Aldrei er nefnt í bókinni hvaða land er fjallað um þó Asturias noti sér þann margslungna og sterka myndheim sem hann þekkti að heiman. Hann hefur sagt frá því að skáldið Cesar Valejo frá Perú og annar höfund- ur frá Venezuela Arturo Uslar Pietri fundust oft á Parísarárunum og sögðu hver öðrum sögur af þeim blóðugu ein- völdum sem stjórnuðu heimkynnum þeirra og þessar frásögur mótúðu svip bókarinnar. Áður var Carpentier líka nefndur. Valejo var eitt af helztu skáldum Suður-Ameríkiu, þunglyndur og dó til- tölulega ungur árið 1937, í honum var líka Indíánablóð, hann var kominn af Inkunum sem einu sinni voru hámenn- ingarþjóð en í dag snauðir og hrjóðir með þunglyndustu söngva í heimi sem segja frá endalausri göngu um nakin fjöllin á barmi hyldýpisins. Valejo orkti: Haga la cuenta de mi vida o haga la cuenta de no haber aun nacido no alcanzaré a librarme Þótt ég geri upp reikning lífs míns, eða reiknist svo að ég sé ekki ennþá fæddur, mun mér ekki takast að gera mig frjálsan Og í næstu vísu 'segir: No será lo que aun no haya venido, sino lo que ha Uegado y ya se ha ido, sino lo que ha llegado y ya se ha ido. Það mun ekki verða það sem enn er ókomið, heldur það sem er komið og er nú farið heldur það sem er komið og er nú farið. Og ihér miá nefna það að eitt mesta skáld sem nú er uppi Pablo Neruda frá Chile hefur líka Indíánablóð í æðum. r egar Asturias kom heim 1933 hafði enn einn einræðisherrann fleytt sér á öldu fasisma sem skall yfir heim- inn á þeim árum og sat nú fastur í sessi, Ubico. Það var ekki viðlit fyrir Asturias að koma bókum sínum út á þessum árum, hann safnaði í handrað- ann. Og hann var næstum fimmtugur þegar Herra Forsetinn kom út. í ítalskri þýðingu nefnist hún: L’Uomo della Pro- videnza, Máður forsjónarinnar, þann tit- il var Mussolini einkar kært að bera. Það má nærri geta hvílík ögun það hefur verið jafn geðstórum manni og Asturias er að geta ekki komið frá sér þessum bókum þar sem orðin loga á síð- unum og renna áfram einsog glóandi straumar full af ákæru og formælingum og sársauka og gjósa stundum upp eins- og eldstólpar, leiftrandi myndir lýsa magnað landslag og sýna manneskjurn- ar hvernig þær eru bundnar landinu með ævafornum galdri. Þetta á ekki sízt við um þá bók sem næst kom út: Hom- bres de Maís, Menn úr maís. Hvergi hefur verið lýst betur né kafað dýpra í líí Indíánans og raktar rætur hans, röntgenlýst geðið fangelsað í þögn ör- snauðra erfingja Ihinna miklu Maya. í bókinni Herra Forsetinn lýsti Astu- rias einveldinu. Næst grandskoðar hann í Menn úr maís hinn kúgaða Indí- ána sem má endalaust þola og bíða. Eða einsog Asturias segir í ljóði: í dag ert það þú og einhver þér líkur annar þú heldur áfram á morgun að bíða hið steingerva haf verður að fjallsrana og leiftur krystallast í vötn að lifa allar breytingar af er þitt hlutverk ekkert liggur á. Manneskjan fullkomnast aldrei Annarsstaðar segir hann: Indíáninn er sá sem grætur sína gleði. essi bók er þrunigin grimmd við- kvæmni sársauka, þar víxlast furðuleg- ar draumsýnir og súrrealistískar of- skynjanir á landslagi þar sem eldfjöll lita himininn gráan með ösku sinni e'ða rjóða hann og blóðlita kraumandi glóð eða spegla brennisteinsgula nekt sína i sjúkum spegli hans, og litlir menn æða með andlitið salt af tárum sem streyma úr blindum augum hrópandi á konuna sem hefur yfirgefið þá og er því eina kona heimsins þrátt fyrir allar aðr- ar konur og staulast um einstigið á barmi hengiflugsins, og æði þeirra bjargar þeim frá seið hyldýpisins sem togar, og Indíáninn rís með blóðug augu upp úr mjúkum ryksköflum vegarins upp af nekt konunnar sem fylgdi hon- um af markaðnum og getur ekki sefað hann, og þegar hann fer á krána þá er brjálæðið í brennivíninu og hann drekk- ur þangað til hann hnígur á gólfi'ð, og hann heldur svo fast um sjalið sem hann keypti í borginni handa konunni sem var farin þegar hann kom heim að veit- ingakonan nær því ekki úr greip hans þó hún glenni upp kjaftinn á honum með afli valkyrju sem á til mikils að vinna og helli upp í hann í dáinu heilli flösku af brennivíni, svo hann er næst- um alveg dauður og verður með naum- indum forðað frá helju með vísindum lækna fyrir milligöngu lögreglunnar. Samkvæmt Indíánaþjóðsögunni skópu guðir í árdaga menn úr hinni helgu jurt maísins. Menn úr maís. Og Indíánarn- ir trúðu að maíss mætti aðeins neyta til að se'ðja hungur sitt og sinna en ekki umfram það, ekki til að græða á honum. Það er stríð í þessari bók við þá sem eru af nýjum tíma og fara um og brenna skógana, eyðandi hin- um fjölskrúðuga heillandi gróðri og sví- virðandi jórðina með eldinum og rækta upp úr öskunni maísinn svo aðrir geti grætt á honum: þeir stóru sem ekki sjást á þessu leiksviði, goðmögn nýja tímans, hinir fjarlægu guðir fjármálaheimsins sem sitja ópersónulegir á skrifstofum sínum og reykja sína stóru vindla í Boston Chicago og New Orleans. Þeir þessir gringos, eru ennþá ósýnilegir í þessari bók sem er fyrst og fremst um Indíánann og líka um chapin, kynblend- inginn þar sem sigraður og sigurvegari mætast í blóði manns, stundum Spán- verja. En alltaf alþýðuna, þolandann mikla. Og maísræktendur eru að berj- ast við Indíánana í fjöllunum sem eru hálfir þjóðsaga og ósigrandi nema með svikum, með eitri; svikaranum og allri hans ætt er refsað með því a'ð þeir eru gerðir ófrjóir, kyn þeirra bölvað, galdra- mennirnir náðu að formæla þeim áður en þeir voru drepnir af svikurunum og hermönnunum. Foringi uppreisnarindí- ánanna í fjöllunum Gaspar Ilom steypti sér í fljótið; en Indíánarnir trúðu áfram að andi hans væri nærri og myndi hefna í fyllingu tímans: mikið er hans megin, máttugur er hann í dansinum, kváðu þeir. Blómin voru afl hans, skýin hans dans. Hver maður á sér dýr sem er hans verndarvættur, hann ber lykt af því dýri og Indíánarnir nota ilmefni til þess að leyna þeirri lykt svo það sé ekki hægt að vinna þeim tjón. Guli hérinn var verndartákn Gaspars Ilom; gulu hérarnir með maíseyrun heyra og skynja allt, og þeir vara hann vfð þegar hætta er á ferðum; og Gas- par talar fyrir alla og ladinarnir ótt- ast hann mest, hinir spönskumælandi Indíánar sem tóku upp siði og lífshætti hinna hvítu og sviku arfinn og landið og blóð sitt, og hinn helga maís, þeir þora ekki að hreyfa sig, þeir sjá hest- ana fara framhjá einsog svört fiðrildi, og grunar bara riddarana með andlit einsog brenndar kökur; það er hætt að rigna. Og í djúpblárri nótt Iloms stökkva litlir glitrandi hérar frá stjörnu til stjörnu og boða hættu, og úr fjöllunum berst lykt af gulum páfagauk. Þannig er saga Asturiasar einsog ofvaxið prósa- ljóð eða endalaus vefnaður þar sem eitt söguljóðið tekur við af öðru me'ð ilm- andi litum og máttugum myndum. Heim- ur fullur af galdri og fordæðuskap: draugar og vættir, galdramaður í hjart- arlíki, póstur sem getur breytzt í koyot, steppuúlfinn sem rennur snarlega yfir fjöllin. Stundum temja indíánarnir hann. Þú mátt ekki skjóta þennan koyot, veiztu nema þarna fari sjálfur póst- urinn ásthryggi sem þú varst sendur að leita uppi. E invaldinn Ubico hafði loksins hundskazt úr hásætinu 1944, og frjáls- lynd stjórn Arbenz gerði Asturias að menningarfuiltrúa við sendiráðið í Mexíkó, síðar varð hann sendisveitar- ritari í Argentínu og loks sendiherra í San Salvador. Eftir hina miklu Indíánastúdíu hans, skoðun hans á hinni þreyjandi alþýðu, þá tók hann næst fyrir þau öfl sem standa á bak vfð einvaldana sem pína fólkið. Á þessum diplómataárum fór að koma út hinn mikli bananaþríleikur hans sem er innblásinn af hinum ófagra leik United Fruit Company. Á fyrsta bindi: Fárviðrið hef ég þegar minnst. Þar segir frá tilraun bandaríska hug- sjónamannsins Mr. Mead til þess að rétta hlut smælingjannia í Mið-Am'eríku, og endar á ofsabyl sem kostar hann og konu hans lífið en erfðaskrá þeirra tryggir sjálfstæði bananaræktenda. Næsta bindið: E1 Papa Verde, Græni Páfinn, er ein frægustu bóka Asturiasar og segir frá atburðum sem eru byggðir á því sem gerðist 1927 þegar United Fruit fékk keppinaut í félagi sem var stofnað í Honduras en bandaríska stjórn in beitti sínum áhrifum til að berja það niður og hjálpa United Fruit til a'ð gleypa keppinautana, 1929 komst meiri- hluti hlutabréfanna í eigu United Fruit og síðan hefur ekkert fjármálastórveldi verið til í Mið-Ameríku nema United Fruit, og því stjórnar hinn græni páfi sem reisir og fellir ríkisstjórnir eftir því sem hentar hagsmunum hans með hjálp Bandaríkjastjórnar undir fána frelsisins sem við elskum öll svo heitt. Á þessum staðreyndum mannkynssög- unnar byggir Asturias skáldverk sitt. I þessu bindi er sögð sagan af því hvernig ævintýramaðurinn Geo Maker Thomp- son hefst til valda og dreymir um að verða nútímaútgáfa hinna miklu sjó- ræningja fyrri tíma í Karabíska hafinu sem söfnuðu ótrúlegum auði með því að svífast einskis og Geo Maker Thomp- son ætlar að komast lengra en þeir og gernýta möguleika nútímans og verða græni páfinn, nútímasjóræningi sem hefur átta'ð sig á auði þessa lands og lætur ekkert standa í vegi fyrir sér að hrifsa hann undir sig, græni páfinn sem er kallaður drottnari ávísunarinnar og hnífsins, sá sem siglir léttan byr í mannasvita, blekkir hina arðrændu með því að bjóða þeim framfarir meðan hann er að hirða af þeim allt sem þeir eiga og flækja í net sitt og sá spill- ingunni, hann viðurkennir bara rétt hins sterka, og ágirndin stýrir öllu æði hans þessa ljóshærða risa frá því hann gengur Framh. á bls. 10. 7. janúar 1968 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.