Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.1984, Síða 11
Þetta er ekki uppstillingarmynd. Eftir harðan árekstur lenti þessi bfll, sem áður var, utan í
skiltinu sem minnir á notkun bflbelta. Ökumaðurinn slapp lifandi, — sennilega fyrir það eitt
að vera með spennt belti.
Er gagn aö
búbeltum?
Eftir Jón B. Þorbjörnsson
essi grein verð-
ur með nokkuð
öðru sniði en
venjulega. Nú
verða einhvers
konar tækniundur og nýjungar lögð til
hliðar en mannlegi þátturinn í tengslum
við tæknina fær að vera í fyrirrúmi. —
Eitthvað sem gjarnan vill gleymast innan
um allt stálið og plastið, krómið og kramið
sem fullorðnir eiga stundum svo auðvelt
með að heillast af.
Hér er þó hvorki ætlunin að fara djúpt
ofan í húmanísk né uppeldisleg fræði,
heldur aðeins að skoða svolítið nánar einn
þeirra þátta sem eykur á öryggi mannsins
í umferðinni; bílbeltin.
Nú er til umræðu að skylda menn að
viðlögðum fjársektum til að nota bílbelti í
akstri. Það sama er að gerast í Austurríki
og Þýskalandi um þessar myndir. Hugsun-
in sem liggur þar að baki er að reyna að
stemma stigu við alvarlegum slysum og
dauðaslysum í umferðinni. Notkun bíl-
belta er reyndar búið að lögleiða þar fyrir
löngu, en vegna of lítils árangurs þessarar
lögleiðingar á nú að herða tökin. í júlíbyrj-
un munu Austurríkismenn taka upp fjár-
sektir við vannotkun bílbelta í akstri og
Þjóðverjar hyggja á sömu aðgerðir á
hausti komanda, með fjársektum að upp-
hæð 40 mörk. Þá verða þau V-Evrópulönd
orðin fá sem ekki hafa tekið upp þessa
aðferð til að hindra eftir megni óþarfa
sóun mannslífa í umferðinni og óþarfa
opinberan kostnað í formi slysatrygginga.
Vegna þessarar umræðu held ég að til-
valið sé að birta hér þýðingu á innleggi
próf. Dr. Ing. Hermanns Appel til þessara
mála, en hann er prófessor við bílaverk-
fræðideild Tækniháskólans í Berlín.
„Varnarræða fyrir bílbelti" nefnir hann
grein sína, sem birtist nýlega í einu víð-
lesnasta blaði Þýskalands. Hún er byggð
upp í eins konar samræðuformi, þar sem
dr. Appel tekur sex atriði til umfjöllumar
sem mikið hefur verið haldið á lofti af
andstæðingum bílbelta sem rök gegn þeim.
VARNARRÆÐA FYRIR
BÍLBELTI
Það má vera að mönnum sé hagur í því að
nota bílbelti. En yfirvöld hafá engan rétt á
því að takmarka persónufrelsi mitt gróf-
lega á þann hátt, að mér sé þvingað með
lögum til þess að nota þau.
Svar: Sem verkfræðingur er ég kannski
ekki rétti maðurinn til þess að svara þess-
ari fullyrðingu. Mér er líka ljóst, að við
ákveðnum hlutum sem hægt er að færa
sönnur á að séu hættulegir, eins og t.d.
reykingum eða skíðaíþróttum, ríkja hvorki
viðurlög né bönn. En á hinn bóginn get ég
skilið að yfirvöldin setji lög sem eiga að
hafa í för með sér að engum sé hættara í
umferðinni heldur en óhjákvæmilegt er.
Samkvæmt því sem hans Kindermann,
dómari í Stuttgart og Dr. Herzog, slysa-
skurðlæknir frá Gummersbach hafa látið
hafa eftir sér, er talsverð hætta á alvar-
legum meiðslum fólgin í notkun bílbelta
eða getur a.m.k. verið það. Fyrir einhverja
getur því skylda til að nota bílbelti verið
það sama og dauðadómur.
Svar: Báðir þessir herramenn hafa rétt
fyrir sér að því leyti að bílbelti geta valdið
meiðslum á fólki — og þau hafa gert það.
Meira að segja á Dr. Herzog eftir að sjá
stöðugt fleiri á skurðarborðinu hjá sér sem
eru alvarlega slasaðir eftir bílbelti, eftir
því sem notkun bílbelta eykst. Og þegar
svo er komið, að allir farþegar spenna
beltin, á hann aðeins eftir að hafa fólk
fyrir framan sig sem hefur slasast sam-
fara notkun bílbelta. En hvað segir það um
hættuna af notkun bílbelta? Hvað má
álykta af þeirri kenningu að fallhlífar séu
hættulegar af því að það kemur tiltölulega
oft fyrir að fallhlífarstökkvarar meiði sig
eða slasi við höggið, sem kemur þegar fall-
hlífin opnast eða slasist í lendingu; já, og
hafi jafnvel látist af þeim orsökum? Áður
en menn fara að nota þessar staðreyndir
til þess að draga af þeim fljótfærnislegar
ályktanir um það sem mælir með eða á
móti fallhlífum, yrði líkast til sami fjöldi
fallhlífarstökkvara að stökkva við sömu
aðstæður án fallhlífar! Yfirfærum við
þetta á bílbelti, þá þýðir það, að ef maður
ætlar sér að geta dæmt um áhrif þeirra
verður að setja á svið tvö nákvæmlega eins
slysatilfelli. I öðru þeirra væri ökumaður
og e.t.v. farþegar með beltin spennt, en án
bílbelta í hinu. Þegar Dr. Herzog leyfir sér
að fullyrða að í ákveðnu umferðarslysi
hafi fólk slasast þrátt fyrir — eða jafnvel
vegna notkunar bílbelta, þá þyrfti hann til
samanburðar að leita að umferðarslysi
með samskonar farartækjum, sama öku-
hraða og árekstursaðstæðum, en farþegum
án spenntra bílbelta. Og hafi verið um
virkilega alvarlega slasað fólk að ræða í
viðkomandi tilfelli, myndi Dr. Herzog að
öllum líkindum ekki fá þessa „samanburð-
arfarþega" inn á slysaskurðstofuna til sín,
því látið fólk er farið með beint til krufn-
ingar. Með réttu yrði hann að rannsaka
nokkur hundruð álíka tvíburatilfelli, áður
en hann gæti tjáð sig í samræmi við niður-
stöður.
Þannig aðstæður hafa komið upp þar sem
betra hefði verið að vera ekki spenntur í
belti.
Svar: Já, þannig aðstæður eru vel hugs-
anlegar, t.d. ef ekið er aftur undir vörubíl
(beltin hindra að maður geti beygt sig
niður), þegar bíll lendir í vatni (beltin
tefja fyrir því að komast út úr bíinum) og
þegar bíll hrapar niður bratta fjallshlíð
(án belta hefði farþegum e.t.v. tekist að
henda sér áður út úr bílnum). Samanburð-
arrannsóknir á umferðarslysum, sem mjög
ýtarlega hefur verið unnið að, sýna hins
vegar að áhrif bílbelta eru aðeins neikvæð
í um 1% slysatilfella. Það þýðir með öðr-
um orðum að í 99% allra tilfella hafa belt-
in jákvæða eða hlutlausa verkan.
Þegar eldur kemur upp í bíl hafa beltin í
för með sér að lengri tíma tekur að komast
út úr bílnum.
Svar: Með notkun bílbelta er hins vegar
minni hætta á að farþegar missi meðvit-
und við árekstur eða slasist að öðru leyti
svo illa, að þeir geti ekki komist hjálpar-
laust út úr bílnum.
Samkvæmt rannsóknum Tækniháskólans í
Berlín á 443 slysatilfellum gátu 9,4% far-
þega ekki losað beltin sjálfir. Af þessu sést
hversu mjög fólk er hætt við notkun bíl-
belta þegar um bruna eða álíka tilfelli er
að ræða.
Svar: í engu þessara tilfella kom upp
eldur í bílnum, þótt hér hafi eingöngu ver-
ið um alvarleg umferðarslys að ræða.
Þar er betra að kastast út úr bíl við árekst-
ur, en beltin hindra þann möguleika.
Svar: Líkurnar á að banaslys verði,
aukast 6 sinnum við að kastast út úr bíln-
um. Heysáta er sjaldan til staðar í þannig
tilfellum."
Enn fremur hefur Dr. Appel þetta að
segja í sambandi við bílbelti:
„Með hliðsjón af þessum atriðum þarf
varla að fara í grafgötur um það að ég er
fylgjandi notkun bílbelta, einfaldlega af
því að ég álít að bílbelti auki á öryggi mitt
í umferðinni.
Ef áðurnefnd atriði hafa ekki dugað til
þess að sannfæra lesendur um að þeir geri
rétt í því að spenna beltin, ráðlegg ég þeim
að vera viðstadda árekstratilraunir (crash
tests). Þar sést greinilega, að eftir því sem
beltin koma meir að liði, verða þau að taka
þeim mun hærri krafta á sig. Þannig
orsaka beltin líkamsmeiðsl, t.d. rifbeins-
brot. Það eru samt ólíkt léttvægari meiðsl
heldur en þau sem verða undir sömu
kringumstæðum, ef líkaminn lendir beint
á stýrinu, á mælaborðinu, á styrktarbitum
hliða, og þaks eða í framrúðunni.
Eðlisfræðileg lögmál liggja að baki því,
að farþegi sem er með spennt bílbelti get-
ur ekki aðeins nýtt sér tognun beltanna til
þess að draga úr höggi við árekstur, heldur
einnig þá hluti yfirbyggingar bílsins sem
gefa eftir við að lenda á öðrum hlut. Far-
þega sem ekki er spenntur í belti nýtist
hins vegar aðeins það takmarkaða svæði
sem gefur eftir og umformast þegar hann
sjálfur lendir á því. Stundum er þar ein-
göngu um að ræða hluta af eigin líkama.
Því má segja að bílbelti hafi ferns konar
virkun:
1. Að leiða kraftana í þá hluta líkamans
sem þola hvað mest álag, þ.e. mjaðma-
grind og brjóstkassa.
2. Að komast hjá því að líkaminn verði
fyrir mjög háum, svæðisbundnum kröft-
um af hvössum hornum og köntum, við
árekstur hans við hluti inni í bílnum.
3. Að nýta sér hindrunarlausar vegalengd-
ir sem maður hefur til umráða inni í
bílnum, til dæmis frá sæti að stýri, sem
eins konar „hemlunarvegalengd".
4. Að nýta eftirgefanlega hluta yfirbygg-
ingar bílsins sem viðbótar „hemlunar-
vegalengd".
Það liggur því einfaldlega í eðli hlut-
anna að miklu fleira mælir með notkun
bílbelta heldur en á móti þegar á heildina
er litið, eðlisfræði í reynd. Mismunandi
rannsóknaraðferðir undir mismunandi
kringumstæðum hafa að lokum ávallt leitt
til þessarar niðurstöðu. Hana skyldu menn
ekki mistúlka eða nota sem rök gegn notk-
un bílbelta þótt af henni leiði, að undir
sérstökum kringumstæðum geti bilbeltin
e.t.v. haft í för með sér meiri meiðsl heldur
en ella.“
Svo mörg voru þau orð.
NÝJUNGAR í Þróun
bílbelta
í sambandi við hin nýju ákvæði um bíl-
beltaskyldu hafa þýsk yfirvöld skipað
nefnd til að finna ráðstafanir til að gera
bílbelti þægilegri í meðferð og notkun.
Helstu tillögur nefndarinnar eru þessar:
— beltislásar verði festir við sætin. Með
því fæst hagstæðari lega mjaðmabelt-
isins og einnig verður auðveldara að
smella beltinu í lásinn,
— stillanleg hæð axlarbeltisfestingar
fyrir mism. hávaxnar manneskjur
— minnkun aðhaldskrafts sjálfvirku belt-
anna, þannig að þægilegra verði að
hafa þau á sér
— samskonar lásar í öllum tegundum bíla
til að auðvelda notkun þeirra
— beltalásar sem opnast sjálfkrafa
nokkrum sekúndum eftir að slys eða
óhapp hefur átt sér stað.
Vitanlega verða umferðaslys ekki úr
sögunni þótt allir spenni beltin — því mið-
ur — og auðvitað er ekki hægt að líta á
beltin sem tryggingu fyrir því að ekkert
geti komið fyrir. En einfaldari og um leið
áhrifameiri leið til að auka á öryggið í
umferðinni er ekki til. Til dæmis telja
þýsk yfirvöld, að ef allir ækju með beltin
spennt þar í landi, mætti koma í veg fyrir
30—40% allra umferðarslysa, fækka al-
varlegum slysum á ökumönnum um 70%,
alvarlegum slysum á farþegum um 50% og
fækka dauðaslysum um 30% frá því sem
nú er.
Hvað sem öðru líður, þá er og verður það
fjarstæða að nota ekki bílbelti á þeim for-
sendum, að maður telji sig vera öruggari
án þeirra. Tölfræðin sýnir og segir annað,
og stundum er kannski gott að taka hana
trúanlega.
Ef til vill skilst þetta betur með eftirfar-
andi dæmi: Setjum svo, að þú takir þátt í
fjárhættuspili. Þú hefðir úr tveimur núm-
erum að velja til að leggja undir á, 371 og
372. Fyrirfram hefði þér verið uppgefið að
níutíu og níu sinnum minni líkur væru
fyrir því að vinningurinn kæmi upp á
númer 371. Ef mikið væri lagt undir í
þessu spili — jafnvel lífið sjálft — hvort
númerið myndir þú þá velja?
— jb.
Áslaug
Ragnars
Gömul
saga
Hann kemur um nónbil
kastar á mig skikkju
lýtur að faldi mínum
holum augum mænir
votum augum stafandi kvöl.
Er ég ætla út á veginn sígur í faldinn þunga.
Bíddu láttu líða stund. Láttu líða.
Um náttmál glyttir í gula móðu
liðast og hefjast
í dimman þokubakka
síga í steinrunninn sorta
í ómuna sem er kvöl þín og vald.
Bíddu láttu líða. Láttu líða um stund.
Um óttu af hamri
dimmur þokubakki
magnast og hvolfist
steypir í stál
storknað blóð þess afls sem er böl þitt.
Bíddu láttu líða. Láttu líða og bíða.
Um dagmál
dimmur ótti
hvílir um stund
hátt yfir hamri
hoppar og dansar
á glampandi báru
skoppar skel
með blænum burt
í iðandi hillingar.
Faldinum lyfti létt og sveifla hátt.
Doka við. Ber mig burt. Doka við.
Áslaug Ragnars er blaúamaöur og rlthöfundur í Reykjavik.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS 3. NOVEMBER 1984 11